Morgunblaðið - 27.08.2015, Qupperneq 76
76
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. ÁGÚST 2015
HAUSTferðir 2015
Guðrún Guðlaugsdóttir
gudrunsg@gmail.com
Þeir eru orðnir æði margir sem
hafa ferðast víða um heim með
Bændaferðum. „Það er löngu liðin
tíð að það séu einungis bændur
sem ferðast með Bændaferðum,“
segir Hugrún Hannesdóttir, sölu-
stjóri Bændaferða.
„Fyrsta ferðin var skipulögð
1953, hún var til Norðurlanda,“
segir Hugrún Hannesdóttir, sölu-
stjóri Bændaferða. „Í kjölfarið
voru farnar nokkrar ferðir sem
einungis bændur fengu að fara í.
Aðsóknin var svo mikil að þótt
einhver bóndi færi í ferð var ekki
sjálfgefið að hann kæmist að í
næstu ferð. Fyrstu árin voru ferð-
irnar á vegum Búnaðarfélags Ís-
lands. Agnar Guðnason stofnaði
síðan Bændaferðir í kjölfar þess-
ara fyrstu ferða. Þá var fátt um
ferðaskrifstofur á Íslandi. Ég veit
ekki betur en Bændaferðir séu
elsta ferðaskrifstofa Íslands sem
starfað hefur samfellt. En þó að
bændur hafi í upphafi farið í ferð-
irnar þá eru Bændaferðir löngu
orðnar ferðaskrifstofa fyrir alla.“
En hvað er á döfinni hjá ykkur
um þessar mundir?
„Við höfum þurft að bæta tölu-
verðu við af haustferðum því að
haustið er svo vel bókað hjá okk-
ur. Mest er bókað að Gardavatni á
Ítalíu og til Portoroz í Slóveníu
svo dæmi séu tekin. Vegna þessa
verður í byrjun október boðið upp
á ferðir þar sem hægt er að upp-
lifa eyjaperlur Króatíu og hinn
margrómaða Svartaskóg í Þýska-
landi, í síðarnefndu ferðinni verður
vínslóðin í Frakklandi ekin.“
Hafið þið ekki farið á þessar
slóðir fyrr?
„Við höfum boðið upp á ferðir á
þessar slóðir áður, en eyjaperl-
urnar í Króatíu eru í nýjum og
spennandi búningi.“
Jólamarkaðir og Hawaii
En hvað með vetrarferðir?
„Við hjá Bændaferðum vorum
fyrst á íslenskum markaði til að
bjóða upp á jóla- og aðventuferðir
til Þýskalands. Þetta hafa verið af-
skaplega vinsælar ferðir og við
höfum bætt við fleiri slíkum vegna
mikillar aðsóknar og einnig verða
farnar jólaferðir á nýjar slóðir. Til
dæmis verður ferð til Birmingham
á Englandi á jólamarkað, svo og
til Regensburg í Þýskalandi. Þjóð-
verjar eru í sérflokki með jóla-
markaði og hafa verið það lengi.“
En er eitthvað nýtt og skemmti-
legt á döfinni hjá ykkur eftir ára-
mót?
„Já, þá verðum við með stóra og
mikla ferð til Hawaii með einum
vinsælasta fararstjóranum okkar,
Ingu Ragnarsdóttur. Við ætlum að
fara til Honolulu og Maui og heim-
sækjum frægustu áfangastaði
eyjanna ásamt því að kynnast
menningu og sögu heimamanna.“
Hvernig gengur að fá farar-
stjóra þegar bæta þarf við ferð-
um?
„Við erum nú svo heppin að
vinna með mörgum færum far-
arstjórum. Aðsókn í fararstjóra-
starf er mikil og því er helsta
áskorunin hjá okkur að finna rétta
einstaklinga til að vinna með.“
Gerist ekki sitthvað í svona
ferðum?
„Jú, ég get nefnt tvö dæmi. Hið
fyrra var þegar við vorum með
ferð til Englands í vor. Þar var
einn viðkomustaðurinn Fleetwood,
en þangað sigldu íslenskir togarar
með fisk í seinni heimstyrjöldinni.
Í ferðinni var kona sem átti sér-
stakt erindi til Fleetwood. Faðir
hennar var þar á togara sem lenti
í árekstri í ytri höfninni og fórst
hann þar ásamt fleiri íslenskum
sjómönnum. Hún var sex ára þeg-
ar slysið varð. Hún kvaddi pabba
sinn í hvert sinn sem hann fór á
sjóinn; kannski með orðunum:
„Bless pabbi minn.“ En hann kom
ekki aftur úr ferðinni til Fleetwo-
od. Alla ævi dreymdi hana um að
fá tækifæri til að komast að hinni
votu gröf til að kveðja pabba sinn.
Í þessari ferð um sjötíu árum síð-
ar gafst henni loks tækifæri til að
kveðja pabba sinn. Fararstjórinn í
ferðinni fann stað í höfninni og
þaðan gekk konan niður að sjó
með blóm sem hún hafði meðferðis
sem hún fleygði í sjóinn til að
kveðja. Allur hópurinn fylgdist
með þessari athöfn og margir
komust við.
Fyndið atvik
Seinna atvikið átti sér stað fyrir
nokkru í ferð til Ítalíu. Eldri kona
íslensk sat á kaffihúsi og varð
starsýnt á mann sem hún kann-
aðist við og sat við annað borð.
Maðurinn horfði einnig á hana.
Það endaði með því að konan stóð
upp og gekk til mannsins og sagði
við hann á ensku: „Þekkir þú
mig?“ Maðurinn varð nokkuð hissa
og sagði ekki svo vera. Í framhaldi
af þessu fór fólkið að spjalla sam-
an og var í hrókasamræðum þegar
fararstjórinn kom til að sækja
konuna. Fararstjórinn rak upp
stór augu, því að maðurinn sem
konan var að spjalla við allan
þennan tíma var enginn annar en
stórleikarinn Bruce Willis.“
Víðtæk starfsemi
Hver er markhópurinn ykkar
hjá Bændaferðum?
„Ætli megi ekki segja að mark-
hópurinn okkar sé fyrst og fremst
fólk frá fertugu og upp úr. En
auðvitað fer margt af yngra fólki
með okkur, svo sem í hjóla- og
gönguferðir. Satt að segja leynum
við Bændaferðum talsvert á okkur.
Starfsemi okkar er mjög víðtæk
og mælist vel fyrir. Ég get ekki
stillt mig um að nefna hrós sem
við fengum og mér þykir vænt um.
Maður sem þekkir vel til ferða-
mála á Norðurlöndum skrifaði mér
póst og sagði þar að fjölbreytni og
úrval hjá Bændaferðum væri á við
það sem best gerðist hjá stóru
ferðaskrifstofunum á Norð-
urlöndum.“
Ævintýri
Bændaferða
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Jólin „Við hjá Bændaferðum vorum fyrst á íslenskum markaði til að bjóða upp á jóla- og aðventuferðir til Þýska-
lands. Þetta hafa verið afskaplega vinsælar ferðir og við höfum bætt við fleiri slíkum vegna mikillar aðsóknar.“
Gaman Hópmynd af ferðafólki á vegum Bændaferða við Gardavatn á Ítalíu.
Draumaveröld Hawaii er yndislegur staður að heimsækja.
Í þessari ferð um sjötíu árum síðar gafst henni loks tækifæri
til að kveðja pabba sinn Fararstjórinn í ferðinni fann stað í
höfninni og þaðan gekk konan niður að sjó með blóm sem hún
hafði meðferðis sem hún fleygði í sjóinn til að kveðja Allur
hópurinn fylgdist með þessari athöfn og margir komust við.