Skólavarðan - 01.08.2004, Blaðsíða 6

Skólavarðan - 01.08.2004, Blaðsíða 6
6 GESTASKRIF SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 4. ÁRG. 2004 Ég er ekki viss um að fólk átti sig al- mennt á því hversu óvenjulegt kennara- starfið er. Að miðla þekkingu, jú, flest- ir gera sér grein fyrir því, að hluta til uppalendur, jú, sumir gera sér líka grein fyrir því, en að kennarar geti verið talsverð- ir áhrifavaldar, það eru alls ekki allir sem átta sig á því, eða hugsa ekki út í það. Og ef ekki áhrifavaldar, þá hluti af minningu okkar allra. Þegar gamlir skólafélagar hitt- ast fara þeir fljótlega að rifja upp atvik í tímum, manstu eftir honum, manstu eftir henni; ég man eftir mörgum kennurum, sérstæðum tónlistarkennara í Álftamýrar- skóla sem dró mig út úr stofu á eyrunum, dökkhærðri kennslukonu við sama skóla sem leiddi mig í gegnum þrjá bekki, ég man hana eins og þýðan tón, kennara við barnaskólann í Keflavík, mjór og hold- skarpur náungi sem gekk í þungum kloss- um, sparkaði í borðin þegar hann reidd- ist, og þannig gæti ég haldið áfram og rifjað upp vinsæla sem óvinsæla kennara, fjandinn hafi það, maður hreinlega hataði suma þeirra, þetta eru skítseyði, hugsaði maður þá en sér núna, öllum þessum árum síðar, að þar fóru líklega einstaklingar sem höfðu misst tökin á starfi sínu, breytt því í þrautagöngu, eyðimörk, stríð, og það er vont, verra en flest annað. En svo fór ég í Fjölbrautaskóla Suður- nesja. Menntaskólaárin geta verið lygi- lega frjósöm, maður er kvika, opið sár, fullur af eldmóði, þrákelkni, syfju og áhugaleysi, jafnvel allt í senn því þetta er aldur öfganna, möguleikanna; góður kennari getur gert kraftaverk. Og fyrir tuttugu árum var ég sumsé nemandi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Eitt haustið hóf ungur bókmenntakennari störf við skólann, dökkhærður, frekar lágvaxinn og grannur maður, hann var með þessa innri glóð sem einkennir betri kennara; ástríðu- maður á skáldskap og trúði því að hann gæti kveikt sömu ástríðu hjá nemendum sínum. Slíkir kennarar eru fjársjóður, þeir eru ómetanlegir, ef það væri sama bilun- in í skólasamfélaginu og í fótboltaheimin- um væru þeir eins og Beckham, Figo, Eið- ur Smári; skólarnir myndu bjóða fúlgur í þá. Dökkhærði bókmenntakennarinn var rósemdar maður, kannski ekki leiftrandi, hægur, það sópaði ekki að honum, en hann gæddi námsefnið lífi, nemendur áttuðu sig margir á því, sennilega í fyrsta sinn, að það rennur blóð í skáldskapnum, orðin eru lifandi, þau anda, það er afl í þeim. Og einhverju sinni vorum við stödd í skáldskap 19. aldarinnar, líklega í róman- tíkinni, þegar kennarinn fékk skyndilega blóðnasir, alveg uppúr þurru, blóðið rann, hann þurfti að fara fram, gekk út með höf- uðið reigt aftur, en sneri við í dyrunum, ranghvolfdi augunum til að geta séð yfir bekkinn, hélt fyrir blóðugt nefið, fingurn- ir orðnir rauðir, og sagði: Þarna sjáið þið áhrifamátt skáldskaparins, manni getur blætt undan honum. þrjú Ég finn að ég gæti haldið áfram í hálfan dag eða meira, minningar tengdar kennur- um streyma fram eins og öflugt fljót, góð- ar minningar, slæmar, hlutlausar, skemmti- legar, leiðinlegar, fyndnar, óttalegar, þetta er lífið sjálft. Og líklega gæti ég skrifað í tvo daga um kennarann sem lýsti nemendum við Háskóla Íslands í mörg ár með sínu dimma, heillandi ljósi; Matthías Viðar Sæmundsson. Þar fór einstaklingur sem gat breytt örlögum nemenda sinna, slíkt var magnið í honum, frjósemin, kraft- urinn, og hann trúði því sem hver kennari verður að trúa, allt veltur á því: að náms- efnið skipti máli í tilverunni. Hann hafði glóðina en var jafnframt á varðbergi gagn- vart hættulegasta óvini hvers kennara, sá gengur undir ýmsum nöfnum, sumir kalla hann hversdagsleikann, grá hersing dægr- anna, en kannski er betra að nota orðið endurtekning, því hversdagleikinn er ljúf- ur, við skulum ekki tala illa um hann, þá værum við að formæla stórum hluta lífs okkar og það er ekki hollt viðhorf. Endur- tekningin, það er hún sem getur farið með okkur og hún er sérlega skæð kennurum. Endurtekningin getur minnt á notalegan svefn, eitthvað ljúft, mjúkt, áreynslulít- ið, bara matreiða námsefnið ofan í nem- endur án þess að slíta sér út. Ég kenndi í eitt og hálft ár, það er ekki langur tími, örskotsstund, kenndi bókmenntir og hef sjaldan lent í jafnmikilli en líka skemmti- legri vinnu. Þetta verður þægilegra eftir þrjú ár, var stundum sagt við mig, þá ertu búinn að vinna grunnvinnuna, koma þér upp glósunum, rútínunni, þá ertu kominn á beinu brautina og getur slakað á. Svona viðhorf er varasamt. Hættulegt. Þetta er blíð og lokkandi rödd óvinarins, endurtekningarinnar. Hún svæfir kennar- ann, kæfir glóðina, starfið verður eins og hver önnur færibandavinna, námsefn- ið pakki sem kennarinn þarf að afhenda nemendum, ekki samvinna, ekki lífræn heild, ekki líf, engin glóð. Og þá dofnar yfir starfinu, bestu stundirnar spjallið á kennarastofunni og allt er komið í hring; einu sinni var nemandi í barnaskóla sem sagði að frímínúturnar væru það skemmti- legasta við skólann. Þannig eigum við ekki að lifa, það á að vera glóð, frjómagn, því þá, en einungis þá, getum við breytt heim- inum; gert hann að betri stað. Jón Kalman Stefánsson Höfundur er rithöfundur. Slíkir kennarar eru fjársjóður, þeir eru ómetanlegir, ef það væri sama bilunin í skólasamfélaginu og í fótboltaheiminum væru þeir eins og Beckham, Figo, Eiður Smári; skólarnir myndu bjóða fúlgur í þá.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.