Skólavarðan - 01.02.2007, Blaðsíða 3
3
FORMANNSPISTILL
SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 7. ÁRG. 2007
Undanfarið hefur verið nokkuð hávær umræða um lið 16.1 í
kjarasamningi grunnskólans og Launanefndar sveitarfélaga. Nú
er rúmt ár liðið síðan forsvarsmenn FG og SÍ fóru fyrst fram á
viðræður við LN vegna þessa enda hefur efnahags- og kjaraþróun
verið ör síðustu misseri. Í samningnum segir (16.1): Aðilar skulu
taka upp viðræður fyrir 1. september 2006 og meta hvort
breytingar á skólakerfinu eða almenn efnahags- og kjaraþróun
gefi tilefni til viðbragða og ákveða þær ráðstafanir sem þeir
verða sammála um.
Fundir þessara aðila hófust svo í ágúst sl. og þegar haldnir
höfðu verið ellefu fundir án árangurs, samþykktu báðir aðilar
að óska eftir aðstoð ríkissáttasemjara til lausnar málsins. Það
verður að segjast eins og er að mikið ber á milli hvað varðar
túlkun þessara aðila á því sem sagt er “almenn efnahags- og
kjaraþróun”.
Við hjá SÍ/FG teljum að verðbólgan (efnahagsþróunin) á
tímabilinu, frá undirskrift og til dagsins í dag, hafi farið langt
fram úr svörtustu spám sem voru á þessum tíma enda hafa
vinnuveitendur sem semja við mörg stéttarfélög viðurkennt
það og samþykkt hækkun launa til mótvægis við það. Þá hefur
kjararáð úrskurðað að laun þeirra, sem ákvörðunarvald kjararáðs
nær til, skuli hækka. Við verðum sannarlega að vona að sættir
náist því það þýðir lítið að tala fjálglega um gott samstarf
sveitarstjórnarmanna og kennara ef slík mál eru undanskilin.
En þá að öðru. Stjórn SÍ hefur unnið ötullega að því að gera
samninga félagsins sjálfstæða og fengið miklu áorkað í þeim
efnum í síðustu tveimur samningum. Nú er það eitt eftir – þótt
vissulega sé stórmál – að fá sérstaka kosningu um okkar hluta
samningsins milli grunnskólans og sveitarfélaga. Launanefnd
sveitarfélaga hefur ekki ljáð máls á því að slíkt sé gert enda enginn
lagalegur rammi sem segir fyrir um það að tveir samningar séu
við grunnskólann þar sem bæði kennarar og skólastjórnendur
lúta sömu lögmálum í Lögverndunarlögunum. Við endurskoðun
þeirra á sl. ári var tekist á um þetta mál en sveitarfélögin, og
fulltrúar ráðuneytis fylgdu þeim, voru á móti því að breyta
lögunum þannig að um tvo viðsemjendur yrði að ræða. Það hefði
verið hægt með því að skilgreina í lögunum að menntun þessara
aðila væri ekki söm, þ.e. að stjórnendur þyrftu að hafa menntun í
stjórnun auk kennsluréttinda. Það er sorglegt að nokkuð háværar
raddir sumra sveitarstjórnarmanna, sem virðast vera á okkar máli,
skuli ekki ná til fulltrúa sem í þeirra nefndum starfa. En við látum
ekki staðar numið og munum leita allra leiða til að rétta þennan
hlut.
Á fundi stjórnar KÍ þann 8. desember sl. var svohljóðandi
samþykkt gerð: „Stjórn Kennarasambands Íslands samþykkir
á fundi sínum 8. desember 2006 að leita til Lagastofnunar HÍ
um að stofnunin geri úttekt á því hvort mögulegt sé að félög
innan KÍ sem nú hafa sameiginlegan samningsrétt fái sjálfstæðan
samningsrétt. Einnig verði leitað álits stofnunarinnar á þeim
ýmsu álitamálum sem snúa að stofnun sjálfstæðra félaga innan
eða utan KÍ.
Geti Lagastofnun ekki orðið við þessu erindi er heimilt að leita
til annarra aðila vegna þessa verkefnis.“
Þegar hefur verið haft samband við Lagastofnun og við
væntum þess að þessari úttekt verði lokið fyrir aðalfund okkar á
næsta hausti svo að þá megi ljóst vera hvernig framhald verður
á málinu.
Með von um hagsæld og frið á nýju ári,
Hanna Hjartardóttir
Ágætu lesendur! Gleðilegt nýtt ár.
Hanna Hjartardóttir