Skólavarðan - 01.02.2007, Blaðsíða 6

Skólavarðan - 01.02.2007, Blaðsíða 6
6 SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 7. ÁRG. 2007 meðbyr tók þessi reynsla á. Það er langur ferill að fóta sig á nýjum stað, þurfa að læra, ekki bara nýtt tungumál heldur líka nýjar leikreglur. Menningarlegar leikreglur eru okkur svo samofnar að við tökum ekki eftir sérstæðni þeirra fyrr en við komumst í návígi við fólk sem hefur önnur viðhorf og siði. Að takast á við nýja menningu, nýtt tungumál, fóta sig á nýjum stað er ekkert ólíkt þeirri tilfinningu að finnast maður hanga í lausu lofti, vanta undirstöðurnar. Hluti af minni eigin reynslu af því að búa í Stokkhólmi, París og New York var líka að takast á við eigin fordóma gagnvart öðru fólki, hvort heldur það voru heimamenn eða innflytjendur á þessum stöðum. Það er líka meinholl æfing. Ég ólst upp í íslensku samfélagi sem var menningarlega einsleitt, hér voru engir minnihlutahópar sem höfðu aðra trú, tungumál eða siði eða voru m.ö.o. menningarlega frábrugðnir “venjulegum Íslendingum”. Engu að síður var hér slangur af útlendingum, t.a.m. Færey- ingar, Þjóðverjar og Danir, en þeir voru fáir og lítið áberandi. Þótt ég ælist upp á Suðurnesjum í návígi við þann menningarlega margbreytileika sem fylgdi hernum voru Ameríkanarnir ekki þátttakendur í íslensku samfélagi nema takmarkað. Auk þess voru ríkjandi viðhorf til þeirra, hvort sem menn voru með eða á móti her, á þann veg að samskipti við þá ættu að vera í algeru lágmarki. Það lá í loftinu að það væri eitthvað ljótt og óhreint við það að hafa of mikið saman við þá að sælda. Menningarleg einsleitni var ef til vill ekki eins alger og menn héldu en í þjóðaruppeldinu, í skólum, fjölmiðlum og annars staðar var mikið kapp lagt á að ýta undir þau viðhorf að einsleitni þjóðarinnar á sem flestum sviðum væri ekki bara eftirsóknarverð heldur nánast nauðsynleg, ætti þjóðin að þrífast og dafna. Menningin er mannanna smíð, mannleg afurð, og einmitt þess vegna er hún í eðli sínu síkvik og lifandi. Hún er breytingum undirorpin og sumt breytist hægt og annað hraðar. Við lærum og aflærum, þekking úreldist, gildi og viðhorf breytast, sagan er túlkuð og endurtúlkuð í ljósi nýrrar þekkingar og reynslu. Íslensk menning og samfélag er engin undanteking. „Amma mín fæddist í moldarkofa og dó í Landcruser,“ sagði Hallgrímur Helgason rithöfundur nýverið og var þá að vísa til þess hversu hratt lífsskilyrði Íslendinga hafa breyst úr örbirgð í allsnægtir. Hér hafa líka orðið grundvallar viðhorfsbreytingar á fjölmörgum sviðum. Á síðustu tuttugu til þrjátíu árum hefur orðið umbylting í viðhorfum, frá ofuráherslu á einsleitni á sem flestum sviðum og yfir í að fagna margbreytileikanum í mannlífinu. Hér er fróðlegt að velta fyrir sér þeirri umbyltingu sem orðið hefur á viðhorfum til ýmissa þjóðfélagshópa. Hópa sem áttu sér veika eða enga rödd í samfélaginu, fengu litlu eða engu ráðið um eigin hag, voru með öðrum orðum valda- og áhrifslausir. Hér er ég auðvitað að tala um konur, samkynhneigða, fatlaða, geðsjúka og aðra þá þjóðfélagshópa sem minna máttu sín. Staða þessara hópa hefur tekið stakkaskiptum til hins betra þótt enn megi gera miklu betur. Þau viðhorf sem ríktu fyrir þessar breytingar einkenndust af áherslum á einsleitni þar sem til að mynda var talið eðlilegt að karlar réðu öllu og að menntun væri aðeins fyrir fáa og þá helst karla. Þeir einstaklingar sem ekki féllu inn í hugmyndir um eðlilega hegðun eða útlit eða hvað það nú var við þá, sem ekki passaði, áttu helst ekki að sjást, þeir höfðu truflandi áhrif á þá glansmynd sem dregin var upp af þjóðinni. Þessi mynd sem hér er máluð er að sjálfsögðu einföldun. Engu að síður er hægt að fullyrða að samfélagsleg orðræða, hvort heldur á opinberum vettvangi eða annars staðar, hafi meira og minna hnigið öll í þá átt að upphefja einsleitnina og „normalísera” hana. Frávik frá henni voru litin hornauga og talin óæskileg. Mikið kapp var lagt á að staðla sem flest samkvæmt viðmiðum um ágæti einsleitninnar, jafnvel málfar fólks var undir ströngu eftirliti sérfræðinga sem höfðu nánast óumdeilt umboð til að hlutast til um það með hvaða orðum og hvernig fólk átti að tjá sig. Það sem meira var, þá þótti þessi áhersla á einsleitnina sjálfsögð og eðlileg. Um leið styrkti hún og festi í sessi, já og nánast náttúrugerði, ríkjandi valdaskipulag. Þessi viðhorf eru á hröðu undanhaldi. Áhersla á einsleitni hefur vikið fyrir áherslu á rými fyrir margbreytileika, þá hugmynd að hann sé í sjálfu sér eðlilegur, að við þurfum ekki öll að vera nákvæmlega eins til að geta lifað saman og deilt ákvörðunum sem varða okkur öll. Allar breytingar reyna á aðlögunar- hæfni og sveigjanleika Að flytjast í nýtt land, nýja menningu gerir það svo sannarlega. Að taka á móti þúsundum innflytjenda, líkt og Íslendingar eru að gera þessi misserin, gerir líka kröfur til heimamanna um aðlögunarhæfni og sveigjanleika. Innflytjendum hefur fjölgað gífurlega hratt en erfitt er að henda nákvæmar reiður á fjölda þeirra. Erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi eru skv. tölum frá Hagstofu Íslands (1. des. 2006) um 6% af heildaríbúatölu eða rétt undir tuttugu þúsundum. Ef tekið er tillit til allra þeirra sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt hækkar þessi tala töluvert, fyrir utan þá sem af einhverjum ástæðum eru ekki komnir á skrá. Heyrst hafa tölur frá tuttugu og fimm til þrjátíu þúsund. Ef þetta er rétt þá er hlutfall innflytjenda hér hátt í tíu prósent, mun hærra en í nágrannalöndunum. Þessi hópur er ákaflega margsleitur, kemur úr öllum heimshornum, þótt langflestir komi frá austur og norður Evrópu. Einhverjir snúa heim til sín aftur en fjöldinn er kominn til að vera. M.ö.o. innflytjendur og sá menningarlegi margbreytileiki sem þeim fylgir er ekki tímabundið ástand sem svo líður hjá, heldur veruleiki sem er og verður hluti af íslensku samfélagi og menningu. Þessar breytingar kalla á vandlega ígrundaðar aðgerðir og viðbrögðin við þeim munu hafa afgerandi áhrif á velferð alls þjóðfélagsins. Rödd innflytjenda er enn sem komið er fremur veik í íslensku samfélagi en hún getur einungis orðið sterkari. Upplýst og öfgalaus umræða um innflytjendamál er nauðsynleg sem og rannsóknir á stöðu þeirra innan íslensks samfélags. Rannsóknir eyða staðlausum stöfum, goðsögnum og fullyrðingum sem Margir skólastjórnendur og kennarar hafa unnið stórkostlegt og óeigingjarnt starf og verið óþreytandi í því að greiða götu þessara nemenda. Líkt og aðrir nemendur eru innflytjendabörn líka margsleitur hópur með misjafnar þarfir. Það kostar peninga að sinna þeim líkt og öðrum og augljóst að yfirvöld verða að bretta upp ermarnar ef hægt á að vera að mæta þessum þörfum. Það er hreinlega of dýrt að gera það ekki. GESTASKRIF

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.