Skólavarðan - 01.02.2007, Blaðsíða 4
4
LEIÐARIEFNISYFIRLIT
SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 7. ÁRG. 2007
Ritstjóri: Kristín Elfa Guðnadóttir kristin@ki.is
Ábyrgðarmaður: Helgi E. Helgason helgi@ki.is
Umsjónarmaður félagatals: Sigríður Sveinsdóttir
sigridur@ki.is / sími 595 1115
Hönnun: Zetor ehf.
Ljósmyndir: Jón Svavarsson, nema annars sé getið
Forsíðumynd: Nemendur í Stóru-Vogaskóla á
hreystivellinum við skólann sem settur var upp vegna Skólahreysti.
Auglýsingar: Stella Kristinsdóttir
stella@ki.is / sími 595 1142 eða 867-8959
Prentun: Svansprent
Skólavarðan, s. 595 1118 (Kristín) og 595 1119 (Helgi).
Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Kennarar hvattir til að kynna sér tíu punkta
samkomulagið 8
Breytt kennaramenntun og fljótandi skil skólastiga eru til umfjöllunar í þessari grein
þar sem kennarar og skólastjórar í leikskólum eru hvattir til að kynna sér umræðuna
og mynda sér skoðun. Þessi mál varða alla félagsmenn í KÍ og greinin á því ekkert síður
erindi til kennara á öðrum skólastigum.
Þemadagur í skólum um vinnuumhverfismál 10
Vikan 12. – 16. febrúar er eyrnamerkt vinnuumhverfismálum í skólum landsins.
Fyrirhugað er að hver skóli velji sér einn dag vikunnar til að sinna þessum málum
sérstaklega.
Strákakreppa samtímans – karlakreppa framtíðar 11
Víða um Evrópu hafa menn vaxandi áhyggjur af brottfalli úr framhaldsskólum og
vísbendingar eru um að strákar hætti frekar í námi en stelpur. Skólavarðan tók viðtal
við Neil McMahon vegna þessa en hann stýrði evrópsku verkefni, sem lauk nýverið, um
brottfall úr framhaldsskólum.
Skólahreysti 2007 14
Skólahreysti er skemmtileg viðbót við söngva og spurningakeppnir skólanna, þar eru
hraustir unglingar unglingar í leik og keppnin reynir á líkamlegt og andlegt atgervi. Í ár
er hún haldin á landsvísu í fyrsta sinn.
Stofnanasamningar framhaldsskólanna 16
Oddur S. Jakobsson fulltrúi Félags framhaldsskólakennara hefur safnað gögnum frá
öllum framhaldsskólum landsins um undirbúning og framkvæmd stofnanasamninga
skólanna og unnið ítarlega samantekt úr gögnunum.
Fagmennska 18
Smásaga eftir Erling Jón Valgarðsson grunnskólakennara. Þetta er fyrsta sagan í
flokknum „Viltu segja sögu“ sem Skólavarðan hrindir úr vör með sögu Erlings og
gefur félagsmönnum færi á að fá birtar eftir sig sögur, ljóð, myndverk og frásagnir í
Skólavörðunni.
Íslensku menntaverðlaunin 22
Guðbrandur Stígur Ágústsson verkefnisstjóri segir frá verðlaununum og hvetur
unnendur farsæls skólastarfs til að tilnefna þá skóla, kennara og námsefnishöfunda sem
þeim finnst skara framúr í grunnskólastarfi.
Þorpið í borginni 23
Leikskólar stúdenta eru hluti af litlu og notalegu samfélagi sem einhvern veginn er
ekki í sama tempói og borgin í heild. Skólavarðan tók viðtal við Sigríði Stephensen
skólastjóra Mánagarðs sem segir umhverfið skemmtilegt, fjölbreytt og þægilegt í senn.
Rannsóknir og rask á skólastarfi 26
Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri hefur áhyggjur af því að
fyrirhyggjuleysi rannsakenda skapi óþarflega mikið álag í skólum sem oft sé hægt
að koma í veg fyrir og viðhalda þannig jákvæðni kennara varðandi þáttttöku í
rannsóknum.
Formannspistill 3
Hanna Hjartardóttir formaður SÍ fjallar um lið 16.1 í kjarasamningi grunnskólans og
jafnframt um vinnu Skólastjórafélags Íslands við að fá því framgengt að félagið geti gert
sjálfstæða samninga.
Gestaskrif 5
Pistill Hallfríðar Þórarinsdóttir heitir „Að rífa sig upp úr einsleitni hugarfarsins“ og
þar spyr Hallfríður meðal annars hvort Íslendingar séu tilbúnir til að takast á við þær
miklu samfélagsbreytingar sem óhjákvæmilega fylgja því að búa við mikinn og vaxandi
margbreytileika.
Skóladagar 7
Smiðshöggið 29
„Hvað er menntun?“ nefnist pistill Herdísar Egilsdóttur en þar segir þessi ástsæli og
þjóðkunni kennari meðal annars frá Landnámsaðferðinni sem hún skóp til að innlima
alla þá þekkingarflokka og tengjast öllum þeim hæfileikarásum barna sem hún vildi
eiga þátt í að virkja.
FASTIR LIÐIR
Það er maður í sjónvarpinu sem vonar að honum endist ævin
til að upplifa það að hringja til Japan, tala íslensku í símann
og japanskur viðmælandi hans heyri japönsku. Yfirleitt koma
tækninýjungar mun fyrr til sögunnar en spáð er. Því gæti svo farið
að undireins þýðingar í símtölum kæmu eftir fimm ár en ekki
fimmtíu. Þegar það er komið er eflaust á næsta leyti búnaður
sem gerir þér kleift að tala augliti til auglitis við útlendinga og
skilja það sem þeir segja, kannski lítil heyrnartól sem virka með
i-podinum þínum. Þú þarft þá ekkert lengur að hafa fyrir því að
læra útlensku. Kona í útvarpinu segir að Íslendingar eigi að fara
að framleiða demanta sem sífellt verða eftirsóttari varningur,
meðal annars vegna þess að í samfélagi hraðans ræður plasminn
í gsm símum ekki við öllu meiri hraða og verksmiðjuframleiddir
demantar eru lausnin.
Tækniþróun og útbreiðsla nýrrar tækni er angi af því sem
við köllum hnattvæðingu. Hnattvæðing er mjög flókið fyrirbæri
og tekur til allra þátta mannlífsins en í umræðunni birtist hún
okkur yfirleitt sem neysla, viðskipti og upplýsingatækni þar sem
Vesturlandabúar breiða út fagnaðarefnið til allra hinna. Aðrir
líta svo á að þetta sé ekkert fagnaðarefni heldur eigi glóbal
kapítalismi eftir að tortíma heimsbyggðinni.
Hnattvæðing er þó engin einstefnugata og hún er ekki svo
einföld að snúast bara um að yfirfæra vestrænan kapítalisma á
aðra. Þú skilur það sem sagt er við þig á þinn hátt. Þegar Móses
burðaðist niður fjallið með boðorðin á bakinu fóru menn strax
með þau að eigin hentugleika og hafa gert allar götur síðan.
Þannig er það líka með hnattvæðinguna. Víetnamskur matur er
öðruvísi í Reykjavík en Saigon. Íslam er öðruvísi í Pakistan en á
Jövu. Hugmynd Bandaríkjamanna um að þeir séu ósigrandi er
öðruvísi í Hvíta húsinu en í Írak.
Hnattvæðing er hvorki vond né góð. Hún er of flókin til að
hægt sé að setja á hana slíka merkimiða. Hinu er þó ekki að neita
að neikvæð áhrif hnattvæðingar eru áhyggjuefni. Til að mynda
hnattvæðing hraðans, hóflausrar neysluhyggju og þeirrar firru
að langanir skuli maður uppfylla tafarlaust. Dorrit hitti naglann á
höfuðið í sunnudagsspjalli við Evu Maríu nýverið þegar hún sagði
að eitt það mikilvægasta sem hægt er að læra í lífinu sé að standast
freistingar og fresta því að fá sér eitthvað sem mann langar í.
Mikilvægt er að við gefum hvert öðru það fordæmi að hægt
sé að standast freistingar og/eða fresta þeim. Freistingar eru
ekki allar jafngóðar. Sumar eru búnar til með því að hneppa
fólk í þrældóm eða valda mengun, þær eru skattpíningartól,
innihaldslausar, sálardrepandi, sjóða í okkur heilann, valda því að
við hættum að hreyfa okkur eða eiga samskipti við annað fólk.
Jafnvel þeim freistingum sem níðast ekki á líkama og sál er full
ástæða til að fresta um stund og hafa fyrir því að öðlast þær.
Þetta hefur með verðmætamat og nautn að gera. Við njótum
ávaxta eigin erfiðis betur en þess sem er fært upp í hendurnar á
okkur. Það verður okkur meira virði ef við bíðum aðeins. Í skólum
á að gera mikilvæga hluti sem færa okkur sanna gleði. Með því
að taka gagnrýnislaust á móti slæmum og innantómum hlutum
og leyfa þeim að fylla líf okkar þá er ekki jafngaman að lifa.
Skólinn mótar gildismat barna, ekkert síður en heimilin. Ætla
má að nemendur dvelji eitthvað um níu vökustundir af fjórtán
í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og á frístunda-
heimilum. Helgarnar jafna hlutfallið svolítið út en það breytir því
ekki að kennarar og aðrir starfsmenn skóla og frístundaheimila
eru örlagavaldar í lífum ungs fólks. Fylgjumst með hvers eðlis
freistingarnar eru sem dynja á nemendum og bendum þeim á
gildi þess að þurfa að hafa fyrir hlutunum.
Kristín Elfa Guðnadóttir
Dorrit og
freistingarnar