Skólavarðan - 01.02.2007, Blaðsíða 19

Skólavarðan - 01.02.2007, Blaðsíða 19
SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 7. ÁRG. 2007 19 heldur hefur vanist þeim þannig að henni líkar þessi hljóð. En hljóðið í regninu, það getur hún ekki sætt sig við. Fjárans rigning, umlar hún og starir út um gluggann. Annað orð mótast í rúðunni, skilvirkni. Reyndir kennarar gera meira og betur á styttri tíma en nýliðar eða kennarar sem ekki hafa náð „sérfræðingshugtökum” á starfinu, e.t.v. þrátt fyrir langa reynslu.3 Hún spyr sjálfa sig um skilvirkni. Hvað er skilvirkni? Hún kemst að þeirri niðurstöðu að skilvirkni sé það að ná markmiðum sínum með skipulegum hætti. Er ég skilvirk í starfi og hefur það breyst frá því ég hóf kennslu? Hún kemst líka að þeirri niðurstöðu að hún sé skilvirk í starfi og mun frekar nú en á fyrstu árum sínum í kennslu. Þar vegi reynslan þungt. Það rignir enn, hún er hætt að sjá dropana á rúðunni. Í huga hennar mótast hvert orðið af öðru eins og partur af mósaíkmynd. Myndin er ókláruð og nýtt orð hefur skotið sér fram og tyllt sér á neðanverða myndina, innsæi. Innsæi einkennist m.a. af vitrænum ferlum þar sem upplýsingar og aðgerðir, sem ekki liggur í augum uppi að eigi saman, tengjast á skapandi hátt.4 Hvað er innsæi? Hún telur að innsæi sé það að lesa í aðstæður og svipbrigði, að skynja líðan annarra og geta sett sig í spor þeirra á jákvæðan hátt. Hef ég innsæi og hvernig lýsir það sér hjá mér? Hún telur svo vera og að það sé í raun forsenda þess að hún hafi verið þetta lengi í kennslu og upplifað að hún sé að gera eitthvað sem skiptir máli, bæði fyrir hana sjálfa og nemendur sína. Hún sest við skrifborðið en heldur áfram að horfa út um gluggann, það rignir. Nú er birtan farin að hörfa fyrir haustmyrkrinu. Henni hefur alltaf fundist spennandi að koma til starfa eftir sumar og byrja kennslu. Að vera kennari er ekki tilbreytingalaust starf, nýir nemendur koma og líka þeir gömlu og það er gaman að sjá hvort og hvernig þeir koma undan sumri. Hana langar í kaffi en það er orð á rúðunni. Agastjórnun. Agastjórnun er hluti af stjórnunarhlutverki kennarans, þ.e. stjórnun sem miðar að því að kenna börnum nauðsynlegar samskiptareglur til að unnt sé að skapa góðan vinnufrið í skólanum. Agastjórnun og bekkjastjórnun eru náskyld hugtök og þýða oft það sama í umræðu um skólamál.5 Hvernig hefur mér gengið að halda uppi aga í kennslustofunni? Að halda uppi aga hjá nemendum með aðlögunarvanda, hegðunar- og tilfinningavandamál er mjög krefjandi verkefni og þar reynir umfram allt á innsæi og viðhorf kennarans til nemandans. Að horfa fram hjá hegðuninni og sjá hvað er á bak við hana og orsakar hana er nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að byggja ramma utan um nemandann sem setur honum viðunandi skorður til að hann geti tekist á við nám sitt og samskipti við aðra. Þá er hægt að gera kröfur og setja viðurlög sem virka og ná upp aga sem ekki byggist á valdi heldur gagnkvæmri virðingu og trausti. Þetta er sú aðferð sem hefur reynst henni best í starfi. Hefur agastjórnun eitthvað með persónu og starfsumhverfi að gera? Hún telur að agastjórnun byggist fyrst og fremst á persónunni, viðhorfum og innsæi hvers kennara. Að geta umbunað fyrir það jákvæða í stað þess að refsa fyrir það neikvæða gerir kröfur til ákveðinnar sýnar á manneskjuna, væntumþykju og sveigjanleika. Starfsumhverfi hefur auðvitað sitt að segja á þann hátt að ef henni líður vel á vinnustaðnum þá sé þolið meira og jákvæðnin líka. Nú er það kaffibolli, hugsar hún og stendur upp úr bláa skrifborðsstólnum, rennir honum undir skrifborðið og gengur fram í eldhús skólans. Hún leitar að litla ljósa bollanum sínum með gylltu skreytinguna að ofanverðu, tekur undirskálina með sér að kaffikönnunni og hellir kaffi í bollann. Hann er agnarsmár bollinn. Ef ég nota lítinn bolla drekk ég kannski minna kaffi, hugsar hún og kímir. Hún gengur með rjúkandi kaffið inn á skrifstofuna sína og sest. Augun leita í gluggann og í rúðunni er orðið fagmennska párað í dropa. Sem skel byggist fagmennska á kunnáttu á faggreinum, rannsóknum á skólastarfi, kennslu, hugsun barna, félagslegum aðstæðum, menningu o.fl. Einnig persónulegum eiginleikum og reynslu, reynslu af skólastarfi.6 Hvað greinir kennara frá öðrum stéttum þjóðfélagsins og er hægt að greina fagmennsku frá sérhæfingu? Fyrst og fremst sú kennslu- og uppeldisfræðilega kunnátta sem þeir búa yfir úr sínu námi. Þeir eru sérfræðingar í kennslu- og uppeldisfræðum og fagmennska þeirra er fólgin í því að nýta þá þekkingu til þess að mennta nemendur í víðasta skilningi þess orðs á jákvæðan og árangursríkan hátt. Nú verð ég að koma mér heim, hugsar hún og teygir úr sér. Hún fær ekki betur séð en að rigningin hafi minnkað, en þó koma enn dropar eins og litlar stjörnur hrapi á rúðuna. Hún er sátt við sig sem kennari, í gegnum öll þessi orð er það niðurstaða hennar og á rúðunni er orð, sérhæfing. Sérhæfing vísar til tiltekinna eiginleika sem greina starf eins hóps frá öðrum.7 Vinna kennarar sérhæfða vinnu? spyr hún. Já, svo sannarlega er kennsla sérhæfð vinna. Getur hver sem er orðið kennari? Nei, það er alveg öruggt mál að það getur ekki hver sem er orðið kennari þó svo að hann hafi menntun til þess. Að vera fagmaður sem sinnir kennslu á árangursríkan hátt er ekki auðvelt og þar spila persónulegir eiginleikar og lífssýn stóran þátt auk menntunar. Jæja, segir hún upphátt og það er ekki laust við að öll hljóð hússins þagni þegar hún rífur þögnina með þessu móti. Jæja, ég er sátt, þótt eflaust sé hægt að bæta sig þá er ég sátt. Síminn hringir og henni bregður svo að hún rekur sig í litla bollann sem fellur í gólfið með dynk. Hún tekur hann upp og undrar sig á því að hann skuli ekki hafa brotnað. Hún tekur upp símtólið og svarar með rólegri rödd. Halló. Hún hlustar á röddina á hinum enda línunnar og jánkar brosandi. Vertu blessaður, segir hún og leggur frá sér símtólið. Hún stendur upp og gerir sig klára til heimferðar, setur gögn í dökkbrúnu leðurtöskuna og klæðir sig í kápu með sama lit og taskan. Útidyr skólans lokast og kennarinn gengur að rauðum Subaru. Haustmyrkrið hefur falið alla liti náttúrunnar og kennaranum sýnist allt grátt. En það er hætt að rigna. Höfundurinn Erlingur Jón Valgarðsson (elli) er myndlistarmaður og kennari. Ásamt kennslu og myndlist skrifar hann smásögur. Á heimasíðu hans, elliarts.is má finna hinar ýmsu sögur og ljóð ásamt myndlist ella. 1 Námskrárfræði (NFR 1155),janúar 2002. Glæra IÁJ. 2 NFR 1155 Hefti B,ljósrit af greinum um námsmat og fagmennsku. 3 NFR 1155 Hefti B,ljósrit af greinum um námsmat og fagmennsku. 4 NFR 1155 Hefti B,ljósrit af greinum um námsmat og fagmennsku. 5 NFR 1155 Hefti B,ljósrit af greinum um námsmat og fagmennsku. Anna Kristín Sigurðardóttir. 6 Námskrárfræði (NFR 1155),janúar 2002. Glæra IÁJ. 7 Námskrárfræði (NFR 1155),janúar 2002. Glæra IÁJ. VILTU SEGJA SÖGU? Félagsmenn! Sendið til kristin@ki.is ef þið lumið á sögu, frásögn, ljóði eða myndverki sem þið viljið koma á framfæri í Skólavörðunni. SMÁSAGA

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.