Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.07.2016, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.07.2016, Blaðsíða 31
að stöðin gaf út sérstaka yfirlýsingu, sem er nær óþekkt. Það varð til þess að Trump mætti ekki í næstu kappræðu stöðvarinnar. Og eins og fyrr virtist hann græða fylgi á því! Trump setti milljónir (ólöglegra) innflytjenda í eina kippu sem glæpamenn, nauðgara og morðingja. Það er ekki hægt að álasa fréttamiðlum fyrir að hafa gert mikið úr því. Það var sannarlega ástæða til. En hið ótrúlega gerðist. Fréttaflutningurinn hafði öfug áhrif. Fylgi við Trump jókst dag frá degi. Ólíkir menn með fjöldafylgi Trump var tilbúinn í fréttaviðtöl hvenær sem var og sendi út smáskilaboð að auki, þar sem hann bætti fremur við hneykslunarefnum en hitt. Hann virtist sópa að sér stuðningsmönnum af jaðri beggja flokka og fólki sem hafði gefið stjórnmál upp á bátinn. Sí- fellt voru menn að spá því að þessi blaðra væri við það að springa með hvelli. Aðeins tveir frambjóðendur náðu fjöldafundum hvar sem þeir komu. Þeir tveir, sem í upphafi höfðu þótt ólíklegastir til þess, Trump og Sanders. Það var byltingarmóðurinn í gamla sósíalistanum sem dró fjöldann að honum. En hvað dró fjöldann að Trump? Bullandi óánægja og þreyta á kerfiskörlum stjórnmálanna og elítu beggja flokka, sem enginn munur væri á, þegar til stykkisins kæmi í Wash- ington. Og svo var það ólíkindatólið sem mætti í stór- þotunni sinni og hringsólaði yfir fundarstaðnum. Trump bætti við fréttaskotum, hæpnum fullyrð- ingum og uppnefnum um andstæðinga á hverjum fundinum af öðrum. Færi hann yfir strikið, sem hann oftast gerði, þá dró hann stundum óvænt í land og fékk viðbótar fréttir út á það, um leið og hann spilaði út nýjum ósvífnum fréttapunkti. Umgengni hans við mótframbjóðendur í Repúblikanaflokknum var engu lík. Hin hvellsprungna tuskudúkka Jeb Bush, hinn ljúgandi Cruz með ljóta eiginkonu og föður sem virt- ist hafa tekið þátt í samsærinu með Lee Harvey Os- wald um að myrða Kennedy(!) svo dæmi séu nefnd. Og aldrei var hún langt undan „hin gjörspillta Hillary, sem hann hafði keypt eins og hvern annan skemmtikraft í brúðkaupið sitt.“ Svo voru það tölvu- póstarnir hennar: „Óhugsandi væri að hún lenti ekki á bak við rimlana.“ Ólík sýn Evrópskir skríbentar taka vart á heilum sér vegna Trumps og lýsa honum sem fasista, eins og ýmsum öðrum sem þeir kunna ekki að meta. En vandamál repúblikana gagnvart Trump, þeirra sömu sem hafa nú valið hann formlega sem forseta- frambjóðanda sinn, hafa fremur verið þau, að hann sé, að þeirra mati, fjarri því að vera sannur íhalds- maður. Trump hefur í mörgum kosningum staðið mjög nærri demókrötum. Repúblikanar finna mjög að fjölmörgum ummælum hans, þar sem hann styður frelsi kvenna til fóstureyðinga (stórdeilumál í banda- rískum stjórnmálum). Þeir vekja athygli á að hann hafi margoft varið heilbrigðislöggjöf Obama (Oba- macare). Hann monti sig af því að hafa verið á móti innrásinni í Írak, sem Hillary studdi og hann hafi sannanlega stutt við bakið á fjölda frambjóðenda demókrata með háum fjárframlögum á undanförnum árum. Þeir óttast að illa megi treysta honum til að velja dómendur í Hæstarétti Bandaríkjanna. Hann hafi ofurálit á systur sinni, sem sé einn vinstrisinn- aðasti dómarinn í bandarísku áfrýjunardómstól- unum. Ekki þarf að taka fram að Trump hefur breytt um áherslur í þessum málum eins og mörgum öðrum á síðustu vikum og mánuðum. Ummæli hans varðandi utanríkismál eru einnig mörg umdeild. Hann er sakaður um að nudda sér ut- an í Pútín forseta Rússlands. Fyrir fáeinum vikum skildu menn Trump svo, að hann vildi að Suður- Kórea og Japan kæmu sér upp kjarnorkuvopnum vegna þess, hve ótryggt ástandið er í þeirra heims- hluta. Hann hefur nú sagt að þau orð hafi verið of- túlkuð. Eins töldu fréttaskýrendur hann hafa lýst vilja til að hlaupa frá skuldbindingum Bandaríkjanna vegna Nató sáttmálans. Hann virðist síðustu dagana hafa sveigt afstöðu sína í þá átt að keppikeflið sé að bandalagsríkin axli aukinn hlut í kostnaði vegna sameiginlegra varna. Hvernig fer? Vísbendingar úr könnunum benda til þess að Hillary hafi á þessari stundu meira fylgi en Trump, en þó sé munurinn ekki afgerandi. Á ýmsu gekk á landsþingi repúblikana en þó virðist staða Trumps fremur hafa styrkst eftir það en hitt. Landsþing demókrata hefst eftir helgina. Trump leggur áherslu á að hann komi frá sínu flokksþingi sem maður öryggis Bandaríkj- anna og vörður laga og reglna. Ráðgjafar hans telja að þessi vígvöllur henti honum vel í baráttunni við Hillary. Hún mun á sínu þingi leitast við að tryggja að Trump fái ekki að velja átaksefnin og áherslurnar og alls ekki að marka vígvöllinn. Hillary Clinton mun leggja höfðuáherslu á, að Donald Trump skorti alla mikilvægustu eiginleikana sem húsbóndinn í Hvíta húsinu, maðurinn með putt- ann á gereyðingarhnappnum, verði að búa yfir, eigi ekki að fara illa fyrir Bandaríkjamönnum og heims- byggðinni. Hinn langdregni kosningaslagur í Bandaríkjunum er kannski loks að verða áhugaverður, jafnvel spennuþrunginn. Morgunblaðið/RAX ’Aðeins tveir frambjóðendur náðu fjölda-fundum hvar sem þeir komu. Þeir tveir,sem í upphafi höfðu þótt ólíklegastir til þess,Trump og Sanders. Það var byltingarmóðurinn í gamla sósíalist- anum sem dró fjöldann að honum. En hvað dró fjöldann að Trump? Múlajökull. 24.7. 2016 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 31

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.