Morgunblaðið - 12.08.2016, Qupperneq 30

Morgunblaðið - 12.08.2016, Qupperneq 30
30 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 12. ÁGÚST 2016 MOSFELLSBAKARÍ Háholti 13-15 Mosfellsbæ | Háaleitisbraut 58-60 Reykjavík s. 566 6145 | mosfellsbakari.is Brauð dagsins alla föstudaga Renndu við í Mosfellsbakarí og fáðu þér hollara brauð. Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is „Við munum spila ákveðna blöndu sem við þekkjum vel. Við verðum með suður-ameríska tóna og eitt- hvað af frumsömdu efni í bland við Ornette Coleman, svo eitthvað sé nefnt,“ segir sænski djasspíanó- leikarinn Bobo Stenson en hann kemur fram ásamt tríói sínu annað kvöld klukkan 20 í Norðurljósum en tónleikarnir eru hluti af Jazzhátíð Reykjavíkur. Stenson hefur ýmsa fjöruna sopið á ferli sín- um og meðal annars leikið með djass- stjörnum á borð við Dexter Gord- on, Toots Thielemans og Stan Getz. Þá hljóðritaði Stenson einn af fyrstu diskunum sem ECM- útgáfan gaf út og er enn hjá þeim en ECM er einn virtasti útgefandi í djassheiminum í dag samkvæmt upplýsingum frá skipuleggjendum tónleikanna. Sænski djassheimurinn hefur breyst Hinir tveir meðlimir tríósins eru þeir Anders Jormin á bassa og trymbillinn Jon Fält sem er nokkru yngri en samleikarar hans. „Við Jormin höfum þekkst lengi og ég held að samband okkar hafi haldist mjög stöðugt í gegnum ár- in. Við höfum alltaf verið á sömu bylgjulengdinni í djassinum og við treystum hvor öðrum svo vel þegar við spilum saman að við þurfum varla að tala saman fyrir eða eftir tónleika. Það liggur við að við les- um hugsanir hvor annars. Jon hef- ur spilað með okkur í nokkur ár núna og hann hefur komið mjög vel inn. Þó svo hann sé hluti af nýrri djasskynslóð í Svíþjóð þá er hann búinn að koma sér vel fyrir í sen- unni í Stokkhólmi. Það er meira að segja yngri djasskynslóð komin á stjá þar núna,“ segir Stenson og bætir við að djasssenan þar í landi hafi breyst nokkuð mikið frá því hann steig sjálfur sín fyrstu skref. „Það eru fleiri djasshljómsveitir til í dag. Það eru komnir skólar sem kenna djass út um allt og það er mjög ólíkt því sem var þegar ég var að vaxa úr grasi. Við vorum bara með plötuspilara sem við lærðum af en í dag geta allir fundið tónlist og nótur á netinu. Þetta er allt annar heimur. Tónleikastöð- unum hefur samt ekki fjölgað sam- hliða hljómsveitunum og því er samkeppnin líka orðin ennþá meiri,“ segir hann og bætir við að í dag sé meira um atvinnudjassara, áður fyrr hafi menn þurft að vera í öðrum störfum samhliða tónlist- inni. Djassinn skal spila í hópi „Þetta verður í annað skiptið sem ég spila á Íslandi. Ég kom þar fram í byrjun áttunda áratugarins og þá lékum við meira af klassískri tónlist. Okkur var boðið að koma fram í Reykjavík sem tríó en einn meðlimurinn festist í Júgóslavíu, eins og landið var kallað þá, vegna veðurs svo við neyddumst til að koma fram sem dúó. Við skiptum bara hlutverki þess þriðja á milli okkar og skemmtum okkur kon- unglega. Þessu tríói sem ég er hluti af í dag var síðan boðið að koma fram á Jazzhátíð Reykjavíkur í fyrra en það hittist þannig á að við komumst ekki. Við vorum spurðir aftur í ár og við slógum til. Þetta er áhugaverð hátíð og ég er mjög spenntur að koma aftur til lands- ins. Við hjónin ætlum að vera þar í aukadag eftir tónleikana og reyna að sjá aðeins meira en bara inn- réttingar tónleikastaðarins,“ segir Stenson kíminn. Hann kveðst ekki þekkja mikið til íslensku djasssen- unnar og það litla sem hann viti tengist sænsk-íslenska trommu- leikaranum Pétri „Island“ Östlund. Stenson segir að eitt það mikilvæg- asta við djassinn sé að spila nógu mikið saman með öðrum, til þess sé leikurinn gerður. „Ég segi alltaf við mína nem- endur að maður þurfi vissulega að hlusta mikið á tónlist og æfa sig á hljóðfærið til að verða betri. Það sé þó ekki síður mikilvægt, ef ekki mikilvægara, að spila í hópi. Það þýðir ekkert að læra bara af bók- unum. Djassinum er ætlað að vera spilaður í hópi og það er mjög mik- ilvægt að fólk átti sig á því. Maður verður ennfremur að nálgast djass- inn með opnum hug og vera viðbú- inn því sem meðleikurunum dettur í hug. Þetta snýst allt um réttu blönduna af reglum og frjálsræði. Þetta eru opnar samræður eftir ákveðnum reglum,“ segir hann. Charles Lloyd stendur upp úr Eins og áður segir hefur Stenson leikið með ýmsum stórstjörnum í heimi djassins og segir hann það hafa gefið sér gífurlega mikla og fjölbreytta reynslu. „Það samstarf sem gaf mér ef- laust hvað mest var þegar ég vann með Charles Lloyd. Við spiluðum saman í ellefu ár og það voru mjög góðir tímar. Það var líka yndislegt að vinna með Don Cherry. Hann var auk þess mikill innblástur fyrir sænsku djasssenuna í heild sinni. Ameríski djassinn hefur haft mikil áhrif á mig í gegnum tíðina, það var í raun tungumálið sem ég lærði þegar ég nam djassinn til að byrja með. Síðan fór maður að drekka í sig djass frá öðrum heimshornum og úr hefur orðið mjög skemmti- legur suðupottur sem er eilítið öðruvísi en þessi hefðbundni amer- íski djass,“ segir hann og bætir við að tríóið sé um þessar mundir að vinna að nýrri hljómplötu. „Við erum á leið í hljóðver í des- ember og ég vona platan komi út á næsta ári. Hún verður keimlík því sem við höfum áður verið að gera, okkar eigin tónverk í bland við spunatónlist og fleira. Við komum til með að spila allavega tvö verk af þeirri plötu á tónleikunum annað kvöld,“ segir Stenson að lokum. Opnar samræður innan ramma  Tríó Bobo Sten- son í Norðurljós- um annað kvöld Bobo Stenson Djass Tríóið skipa píanóleik- arinn Bobo Stenson, Anders Jormin á bassa og trymbill- inn Jon Fält. Stenson hefur unnið með stjörnum á borð við Dexter Gordon, Toots Thielemans og Stan Getz. Listahátíðin PLAN-B art festival verður haldin í fyrsta sinn í Borg- arnesi um helgina. Hátíðin hefst í dag og henni lýkur á sunnudag. „Um tuttugu listamenn frá allt að sex mis- munandi þjóðernum munu taka þátt í að sýna á Plan-B listahátíðinni, listamenn eru fjölbreyttir og verða verk úr öllum miðlum nútíma mynd- listar. Mörg helstu kennileiti bæj- arins verða nýtt sem sýningarrými á meðan á hátíðinni stendur og verður hægt að sjá m.a. vídeóverk og gjörn- inga inni í rýmum sem flest hafa þjónað verslunarmönnum á síðustu öld og íbúar eiga að þekkja í annarri notkun,“ segir í tilkynningu, en þar kemur fram að aðgangur er ókeypis. Meðal sýningarstaða eru Gamla mjólkursamlagið, Pakkhúsið í Eng- lendingavík og Pakkhúsið sem hýsir Landnámssetur Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá skipuleggjendum fá allir listamenn sem þátt taka greitt fyrir vinnu sína. „Listamenn sem voru valdir höfðu einnig möguleika á að nýta sér mán- aðaraðgang að listasetri í Valfelli.“ Allar nánari upplýsingar um hátíð- ina má sjá á planbartfestival.is. Málning Verk eftir Katorinu Pling sem þátt tekur í hátíðinni. Ný listahátíð haldin í Borgarnesi um helgina  Listahátíðin PLAN-B art festival Jazzhátíð Reykjavíkur 2016

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.