Dagblaðið Vísir - DV - 13.03.2015, Blaðsíða 34
Helgarblað 13.–16. mars 201534 Fólk Viðtal
Síðumúla 31 • 108 Reykjavík • S. 581 2220 • Opið kl. 12-18
Hágæða parketplankar
á góðu verði
kostar sitt að hlaða niður börnum
í Ameríku. Áður en þær vissu af
voru þær orðnar hálfgerðir um-
boðsmenn barna sinna. Líf þeirra
snerist um að skutla þeim fram og
til baka alla daga auk þess að afla
fjár í skólareksturinn. Framlag rík-
isins var mjög skorið við nögl. Ég
hafði hins vegar engan tíma fyrir
þess háttar stúss – sem lenti þá á
mömmu í staðinn.“ Kolfinna upp-
lifði töluverða öfund í sinn garð af
hálfu þessara kvenna, sem höfðu
þurft að gefa sinn starfsferil upp á
bátinn til að eignast barn. Þá naut
Kolfinna nokkurrar aðdáunar fyrir
þær sakir að vera frá Evrópu og að
tala nokkur tungumál.
25 ára í anda
Eftir að hafa lokið náminu í Banda-
ríkjunum hélt Kolfinna til Brussel
og fékk oft sömu viðbrögðin þar.
Enda mikið af hámenntuðum
konum í kringum hana, sem voru
komnar á síðasta snúning með að
eiga börn. Þegar hún var spurð út
í það hvernig hún hefði farið að
þessu var svarið einfalt: „Farðu á
netið og náðu þér í vin!“ Hún þekk-
ir til margra kvenna á sínum aldri
sem eru komnar í krísu út af barn-
leysi. „Þær eru margar að fríka út og
ég segi oft við sjálfa mig að ég hafi
óvart verið býsna klár að eiga börn
þegar ég var sjálf barn. Eftir á að
hyggja var þetta mjög happadrjúgt,
þrátt fyrir að vera ekki planað. En
það er oft bara betra að láta tilvilj-
anir ráða för.“
Og nú eru börnin komin á þann
aldur að hún gæti allt eins farið að
verða amma. „Ef sonur minn hefði
verið jafn vitlaus og ég væri ég þegar
orðin amma. Það væri ofboðslega
fyndið. Ég væri kannski ekki besta
amma í heimi, en það er aldrei að
vita. Ég hef tilhneigingu til að um-
gangast börn eins og fullorðna.“
Sjálfri finnst henni hún vera
frekar ung í anda. Kannski svona 25
ára. „Ég held að fólk hafi tilhneigingu
til að sjá sig í því ljósi, sem það vill sjá
sig í,“ segir hún örlítið hugsi. Þannig
er því allavega háttað með hana.
Nístandi söknuður
En þrátt fyrir að Kolfinna sé ung í
anda hefur sorgin sett mark sitt á
líf hennar. Hún hefur þurft að tak-
ast á við erfiðan missi og viðhorf-
ið til lífsins hefur breyst á síðustu
árum. Það var mikið reiðarslag fyrir
alla fjölskylduna þegar systir henn-
ar, Snæfríður, féll skyndilega frá fyr-
ir rúmum tveimur árum.
„Ég kom strax heim, en fór svo
utan aftur daginn eftir jarðarförina.
Ég held að það hafi gert mér gott.
Þá þurfti ég ekki að ganga um bæ-
inn og láta klappa mér. Það tók mig
langan tíma að skilja að hún væri
farin og kæmi aldrei til baka. Lífið
hélt áfram sinn vanagang en þegar
ég lít til baka sé ég að heilmikið
breyttist. Ég fór allt í einu að hug-
leiða hvað ég væri að gera í Brussel.
Bæði börnin mín voru farin heim,
og ég var allt í einu orðin alein. For-
eldrar mínir höfðu dvalist erlend-
is um tíma og voru líka á leiðinni
heim. Ég hugsaði með mér að það
væri betra fyrir okkur öll að vera
saman, í stað þess að vera hvert í
sínu landi. Það var eiginlega fárán-
legt. Þetta var mjög erfiður tími fyrir
okkur öll. Söknuðurinn var svo sár,
svo nístandi. Lífið er svo dýrmætt.
En hversu lengi varir það? Mér
fannst við verða að nota tímann,
vera saman og njóta hvers dags,”
segir Kolfinna einlæg, en hún hefur
hægt og rólega verið að takast á við
sorgina með fólkinu sínu. „Fyrsta
árið eftir að hún lést þorði ég varla
að segja nafnið hennar. Mér fannst
það óþægilegt. En nú er ég farin að
geta sagt nafnið hennar og talað
um hana. Ég þori því núna.“
En þrátt fyrir að vera kom-
in heim í bili finnst henni erfitt
að hugsa sér Ísland sem varan-
legan samastað. Hún er hálfgerð-
ur sígauni í eðli sínu og á erfitt með
að festa rætur á einum stað. „En
ég hef samt smám saman verið að
átta mig á því hvað mér finnst gott
að vera hérna innan um fólkið mitt.
Og þá er ég ekki bara að tala um
fjölskyldu mína, heldur líka fólkið
allt í kringum mig, samferðafólkið.
Að þessu leyti hef ég breyst.”
Forræðsdeila gerði þær nánari
Kolfinna og Snæfríður voru alltaf
mjög nánar þrátt fyrir að hafa dvalist
langdvölum hvor í sínu landinu. En
hatrömm forræðisdeila, sem Snæ-
fríður átti í við ítalskan barnsföður
sinn fyrir rúmum áratug, færði þær
enn nær hvor annarri. „Ég tók mik-
inn þátt í þessari forræðisdeilu,
en ég bjó á þeim tíma í Brussel
og það kom sér vel í málaferlun-
um, vegna þess hve greiðan að-
gang ég hafði þar að gögnum varð-
andi Haag-samninginn,“ útskýrir
Kolfinna, en systir hennar vann sex
dómsmál í tengslum við forræðis-
deiluna. Í niðurstöðum þeirra var
meðal annars byggt á skilningi
Haag-samningsins um brottnumin
börn. En málið sem tekið var fyrir
á Íslandi var fordæmisgefandi í ís-
lensku dómskerfi.
„Við unnum mál í þremur lönd-
um og það var bara af því að við vor-
um svo vel undirbúin. Við ætluðum
okkur alltaf að setja upp vefsíðu eða
gefa út bók um málið, gera þessu
betri skil á einhvern hátt, til þess að
upplýsingarnar gætu gagnast öðr-
um í svipaðri stöðu. Enda höfum
við, fjölskyldan, aðstoðað margar
varðandi sambærileg mál. Þegar ég
fór svo í mastersnám í alþjóðalög-
um skrifaði ég ritgerðina mína um
þennan Haag-sáttmála og brottn-
umin börn,“ segir Kolfinna sem úti-
lokar ekki að hún taki saman allar
upplýsingar um forræðisdeiluna og
gefi almenningi aðgang að þeim á
einhvern hátt.
Vön kjaftasögunum
En fjölskyldan hefur þurft að takast
á við fleiri raunir á síðustu árum.
„Við þurftum að fara í gegnum helj-
armikla þrekraun þegar faðir minn
var ákærður af fjölmiðlum sem
barnaníðingur. Við höfðum ver-
ið að glíma við þetta mál í mörg ár,
sem er sprottið upp af miklu hatri
sem er mér óskiljanlegt. Mér þótti
nauðsynlegt að skrifa grein þar
sem ég útskýrði málið með rök-
um. Þegar ég var búin að því og það
hafði birst opinberlega var ég búin
að afgreiða málið frá mínum bæjar-
dyrum séð,” segir Kolfinna. En þar
á hún við færslu sem hún ritaði á
Facebook-síðu sína eftir að um-
fjöllun um ásakanir systurdóttur
Bryndísar um kynferðislega áreitni
á hendur Jóni Baldvini, hafði birst í
tímaritinu Nýju lífi.
„Ég og mín fjölskylda erum vön
því að vera bitbein kjaftasagna alla
daga. Ég hef persónulega heyrt
allan andskotann. Ég var til dæmis
mjög lítil þegar ég frétti að ég væri
dóttir hans Ladda. Sérðu ekki svo-
lítinn Ladda í mér?“ spyr hún kím-
in, en verður fljótt alvörugefin á
nýjan leik. „Ef pabbi minn væri sek-
ur um eitthvað værum við öll í fel-
um. Við myndum ekki láta sjá okk-
ur á almannafæri. En ég veit alveg
hvað er rétt í þessu máli – og það
vita allir sem hafa kynnt sér það.“
Kolfinna segist aldrei hafa látið
kjaftasögur á sig fá, hún lítur frekar
á þær eins og hvert annað verkefni
sem þarf að takast á við í lífinu.
Kúkaði í skó elskhugans
Flökkueðli Kolfinnu hefur átt sinn
þátt í því að hún hefur ekki verið í
föstu sambandi í töluverðan tíma.
En það gerði henni einnig lengi vel
erfitt fyrir í einkalífinu að vera með
tvö börn, oft fjarri öllu stuðnings-
neti. „Það var heljarinnar púsluspil
að reyna að koma karlmönnum
óséðum inn á heimilið eða að
redda barnapíum,“ segir hún hlæj-
andi. „Ef ég bauð manni í mat þá
voru börnin fljót að finna út að eitt-
hvað meira hengi á spýtunni. Dótt-
ir mín var svo algjör hrekkjalóm-
ur og kúkaði einu sinni í skóinn
hjá einum. Þú getur ímyndað þér
hvort hann hafi komið aftur,“ segir
Kolfinna og skellir aftur upp úr.
Hún átti þó ítalskan kærasta í þrjú
ár, hann Francesco.
„Einhvern veginn tókst þetta
með Francesco og hann var mað-
urinn minn í þrjú ár. Við ferðuðu-
mst mikið saman og erum miklir
vinir í dag. Þetta var góður tími í
mínu lífi. En þegar hann bauð mér
að flytjast með sér til Kasakstan frá
Kósóvó varð ég að afþakka – vegna
barnanna sem þá höfðu sótt skóla í
fjórum löndum og vildu snúa heim.
En hvar er heima?“ spyr hún hlæj-
andi að lokum um leið og hún dúð-
ar sig upp fyrir íslenska stórhríðina.
Ísland er heima í bili og því eins
gott að venjast veðurfarinu. n
Ný heimildamynd Kolfinna frumsýndi nýja heimildamynd um Eystrasaltsríkin í Litháen í vikunni. MyNd Sigtryggur Ari
„Það tók mig
langan tíma
að skilja að hún
væri farin og kæmi
aldrei til baka