Dagblaðið Vísir - DV - 13.03.2015, Blaðsíða 47
Lífsstíll 47Helgarblað 13.–16. mars 2015
Safnar
mottu í
minningu
bróður síns
n Bjarki missti bróður sinn,
Jónas, úr ristilkrabbameini
n „Þetta var gríðarlegt áfall“
n Meinið var mjög dulið
B
jarki Hvannberg missti
bróður sinn, Jónas Hvann-
berg, úr ristilkrabbameini
snemma árs 2013. Jónas var
aðeins 35 ára þegar hann
lést en mjög sjaldgæft er að svo ungir
karlmenn fái þessa gerð krabba-
meins. Bjarki tekur nú þátt í Mottu-
mars-átaki Krabbameinsfélagsins í
minningu bróður síns og vonast til
þess að saga hans veki fólk til vit-
undar um að hlusta á líkama sinn og
fara strax í skoðun ef eitthvað er ekki
eins og það á að vera. Jónas, sem var
sérfræðingur í bæklunarlækning-
um, var í viðtali í DV aðeins mánuði
áður en hann lést, þar sem hann
lýsti því meðal annars hve dulið
krabbameinið var í hans tilfelli.
Hann hafði verið orku- og lystarlaus
í tvo til þrjá mánuði þegar hann bað
samstarfsfélaga sinn á Mölndals-
sjúkrahúsinu í Gautaborg að taka
tölvusneiðmynd af kviðarholi sínu. Í
ljós kom að krabbamein var í ristlin-
um sem hafði náð að dreifa sér í lifr-
ina. „Þetta var komið á alvarlegt stig
og ekki var mögulegt að framkvæma
skurðaðgerð,“ sagði Jónas í viðtalinu.
Lést á innan við ári
„Það sem er verst við þessa tegund
af krabbameini er hve hljóðlátt það
getur verið. Það var innan við ár
frá því hann greindist og þangað til
hann kvaddi þennan heim,“ seg-
ir Bjarki um veikindi bróður síns.
„Auðvitað fann hann fyrir einhverj-
um einkennum en þau voru þess
eðlis að líklegra var að þau væru af
öðrum orsökum. Þegar maður er
ungur karlmaður er ólíklegt að mað-
ur tengi það við þennan sjúkdóm.“
Meðalaldur við greiningu ristil-
krabbameins er um 67 ár. „Svo er
það oft vandamál okkar karlmanna
að fara eitthvað á hnúunum. Að vera
of seinir að grípa inn í þegar eitt-
hvað óeðlilegt er í gangi,“ segir hann
hreinskilinn um kynbræður sína.
Veikindi Jónasar komu allri fjöl-
skyldunni í opna skjöldu. „Þetta var
gríðarlegt áfall. Áfall sem ég er ekki
búinn að vinna úr og kannski tekst
mér það aldrei. Eins og fyrir mig og
mína fjölskyldu þá voru ég og kon-
an mín að eignast barn á sama tíma
og hann greindist. Þetta var mjög
skrýtinn tími.“ Bjarki segir Jónas
hafa verið duglegan við að passa
upp á hann sem yngri bróðurinn og
því hafi hann frekar dregið úr alvar-
leika veikindanna, heldur en að vera
hreinskilinn með stöðuna. „Ég átt-
aði mig ekki strax á alvarleikanum
þótt hann hafi væntanlega gert það.
En þegar svona áföll dynja yfir þá
heldur maður alltaf í vonina þangað
til undir það síðasta.“
Hlífði litla bróður
Bjarki segir fjölskyldu sína mjög
nána og samheldna og þeir bræð-
urnir eiga ekki fleiri systkini. „Það
var stórt skarð höggvið í fjölskylduna
og þetta hefur verið mjög erfitt. Ekki
bara fyrir okkur fjölskylduna, heldur
alla í kringum hann. Jónas var góður
maður. Hann var ótrúlega góður við
börnin mín og börn almennt og svo
var hann frábær læknir,“ segir Bjarki
af mikilli hlýju um bróður sinn. Eft-
ir að Jónas féll frá hefur fjölskyldan
til að mynda oft fengið að heyra það
frá fólki, sem hann meðhöndlaði
sem læknir, hve mikið gull af manni
hann var.
Jónas tók þann pól í hæðina að
reyna að halda áfram sínu striki og
njóta lífsins þrátt fyrir veikindin.
Hann fór hins vegar að forgangsraða
hlutunum öðruvísi. „Mér fannst ég
verða að passa upp á hvern dag og
njóta þess sem hann hefur upp á að
bjóða. Það er mikilvægt að gleðjast
yfir því sem ég geri sjálfur og yfir því
sem aðrir gera vel. Það er svo mik-
ilvægt að vera glaður yfir því litla
sem fer svo gjarnan framhjá manni
í hversdagslífinu. Oft er maður að
flýta sér á næsta stað eða bíða eftir
einhverju en ég hætti því,“ sagði
Jónas, en hann öðlaðist til að mynda
sérfræðingsréttindi sín í bæklunar-
lækningum og bauð fjölskyldu og
vinum í veglega afmælisveislu, tæp-
um mánuði áður en hann dó. Hann
lifði til fulls til síðasta dags. „Hann
var mjög duglegur að gera hluti,
hélt áfram að ferðast og hitta félag-
ana. Og það er líklega ein af ástæð-
unum fyrir því að ég áttaði mig svona
seint á alvarleika veikindanna. Hann
reyndi að fá sem mest út úr þessum
síðustu mánuðum.“
Eignaðist son eftir andlátið
Jónas hafði aðeins verið í sambandi
með eftirlifandi eiginkonu sinni í
fjóra mánuði þegar hann veiktist, en
þau tóku þá ákvörðun að fara að búa
saman og giftu sig í skugga krabba-
meinsins. Þá gerðu þau ráðstafanir
til þess að geta eignast barn saman,
eftir andlát Jónasar. „Og þau eiga
saman yndislegan dreng í dag,“ segir
Bjarki. Veikindi Jónasar vöktu fólkið
í kringum hann til umhugsunar um
heilsu sína. „Það fóru að sjálfsögðu
allir og létu skoða sig, bæði í nærum-
hverfinu og út fyrir það. Eftir því sem
ég best veit kom ekkert óeðlilegt út
úr því,“ segir Bjarki, en ristilkrabba-
mein getur bæði verið arfgengt og
ekki. „Þetta getur komið fyrir hvern
sem er. Ég reyni að muna að hugsa
vel um sjálfan mig og gera það sem
ég get til að halda heilsu, en jafn-
framt að muna að þessu getur lokið
snögglega og þess vegna reyni ég að
lifa í núinu.“
Markmiðið að vekja athygli
Bjarki er nú í öðru sæti í einstak-
lingskeppni fjáröflunarátaksins á
mottumars.is og þegar þetta er rit-
að er hann búinn að safna um 360
þúsund krónum. Markmið hans er
þó ekkert endilega að sigra einhverja
keppni. „Ég setti mér 600 hundruð
þúsund króna markmið, en mark-
miðið hjá mér er frekar að vekja
athygli á þessu átaki. Ég er að gera
þetta til minningar um Jónas og til að
taka þátt í umræðunni. Ef þetta hvet-
ur einhverja í kringum mig til að fara
í skoðun er takmarkinu náð. En auð-
vitað vona ég líka að það safnist sem
mest og að hægt verði að sinna bæði
rannsóknum og forvörnum eins vel
og hægt er og er ég því mjög þakk-
látur öllum þeim sem lagt hafa lið,“
segir Bjarki, en við leyfum Jónasi að
eiga lokaorðin sem endurspegla þá
jákvæðu sýn sem hann hafði á líf-
ið: „Maður getur notið lífsins meira
á einni viku en einu ári ef maður
athugar að njóta hlutanna og vera
ekki neikvæður. Maður á að passa
sig á því líka þótt maður eigi ekki
við veikindi að stríða. Maður getur
veikst á morgun eða eitthvað komið
fyrir. Það er afar mikilvægt að reyna
að vera jákvæður í lífinu öllu og að
geta farið sáttur að sofa á hverju
kvöldi. Að hafa notið dagsins og gert
eitthvað úr honum.“ n
„Þetta var gríðar-
legt áfall. Áfall
sem ég er ekki búinn að
vinna úr og kannski tekst
mér það aldrei.
Sólrún Lilja Ragnarsdóttir
solrun@dv.is
Bræður Bjarki og Jónas voru mjög nánir og stórt skarð var höggvið í fjölskylduna við fráfall hans.
Í minningu bróður Bjarki vonast til að þátt-
taka hans í Mottumars verði öðrum hvatning
til að fara í skoðun. Mynd SigtRygguR ARi