Dagblaðið Vísir - DV - 08.05.2015, Side 54

Dagblaðið Vísir - DV - 08.05.2015, Side 54
54 Menning Helgarblað 8.–11. maí 2015 Á óræðum stað, að því er virðast kann í skipi, haf­ ast fjórar manneskjur við. Sennilega eru þetta síð­ ustu fjórar manneskj­ ur sem eftir lifa á jörðinni. Að minnsta kosti talast þær við líkt og borin von sé til að nokkuð líf fyr­ irfinnist utan þeirra litlu verald­ ar. Ein hverjar hræringar kunna að leynast „hinum megin við vegginn,“ en úr því fæst ekki skorið hvort átt sé við veruleikann hand­ an veggsins í bókstaflegum skiln­ ingi eða einhvern handanheim. Vissulega gægjast persónur samt út um kýrauga, ýmist á haf út eða að landi, eins og til að eygja ein­ hverja breytingu á þessu afleita ástandi, en vonin virðist ekki ætla að sýna sig þeim. Lesendur tengja þessa lýsingu sennilega strax við Beckett sem, líkt og frægt er orðið, sagðist æv­ inlega fjalla um getuleysi (í öllum skilningi þess orðs) í verkum sín­ um. Endatafl, líkt og titillinn gef­ ur til kynna, fjallar um síðustu athafnir og síðasta fólkið á tafl­ borðinu. Rétt eins og því meir teygist á öllu sem leikmennirn­ ir eru færri og erfiðara er að ljúka taflinu, ekki síst ef aðeins eitt peð eltist við kónginn, þá lýkur leikn­ um aldrei fyrr en einhver segir stopp. Á þann veg lifa fjórmenn­ ingarnir saman, fara fram og aft­ ur, reyna en áorka engu. Kyrrstaða eða pattstaða, það er sama staða þegar öllu er á botninn hvolft og þar sitja enda persónur Endatafls: á botni allrar mannlegrar tilveru. Fullkomið getuleysi Togstreitan í Endatafli er einkum á milli Hamm, sem ekki get­ ur staðið, og Clov, sem ekki get­ ur sest. Haltur leiðir ekki blindan hér heldur verða hömlur þeirra til þess eins að etja þeim saman. Hamm er yfirgangssamur þykju­ stuleiðtogi hins fámenna hóps og Clov, sem engan áhuga hefur á líf­ inu ef hann þarf að verja því með Hamm, er hafður í hans nánustu þjónustu þar sem enginn annar er yfirleitt fær um gang. Hin tvö, Nell og Nagg, eru farlama gamalmenni sem geymd eru í tunnum. Clov hótar því stöðugt að fara, jafnvel þótt það þýði dauða hinna þriggja, og Hamm gerir ekkert nema ýta undir þá löngun í honum, enda vill hann sjálfur binda endi á þetta. En uppburðarleysið er viljanum yfir­ sterkara og „skákin“ heldur áfram. Endatafl sýnir okkur heim sem er þjakaður af fullkomnu og algjöru getuleysi, vonleysi og kulnuðum tilfinningum. Leikmynd Kristín­ ar Jóhannesdóttur, sem jafnframt leikstýrði verkinu, endurspeglar þetta afar vel: olíutunnur einkenna sviðið, kýraugu hátt uppi á hvor­ um enda sviðsins sem undirstrika þannig með dýptinni einangrun­ ina sem fjórmenningarnir búa við (það þarf að príla upp háan stiga til að líta út um þau), og dularfull­ ur veggur alsettur torlæsum texta sem Hamm telur að önnur veröld, eða annað fólk, gæti leynst á bak við. Allt er þetta baðað í koparlitri lýsingu Halldórs Arnar Óskarsson­ ar sem ýtir undir þá tilfinningu að allt sé gamalt, fúið og ryðgað, og ljóst er að lítil von er til að nokkuð gott geti gerst í þessum heimi sem hefur verið sigraður af myrkrinu og rykinu. Og þegar nánar er að gætt er það ekki dauðinn sem Hamm og félagar óttast, heldur mennskan. Í tunnu í einn og hálfan tíma Þorsteinn Bachmann er fullkom­ lega óþolandi í hlutverki Hamm. Enda á Hamm að vera fullkom­ lega óþolandi persóna. Það verð­ ur ekki annað sagt en að Þorsteini takist prýðilega að gæða hann öll­ um þeim verstu eiginleikum sem maður getur í réttu tómi hugsað sér að rúmist í einni manneskju. Mennskan lúrir svo langt undir yf­ irborði hans að aðeins sést rétt svo örla fyrir henni í fáein augnablik í öllu verkinu, en þegar það ger­ ist er það töfrum líkast. Það hefði verið áhugavert að sjá núanseraðri Hamm, ögn mennskara kvikindi, en Þorsteinn skilar sinni túlkun með ágætum og ekkert undan því að kvarta. Clov í túlkun Þórs Tulinius vek­ ur meiri samúð áhorfandans en Hamm, en þó ekki mikið meiri. Ef Hamm er valdið er Clov undir­ sátinn. En hann er jafnframt augu og (takmörkuð) framkvæmda­ geta allra hinna og án hans geta þau ekki lifað. Þeirri togstreitu skilar Þór ágætlega sem og sívax­ andi óánægju hans með hlutskipti sitt. Í honum skín mennskan bet­ ur í gegn, hið barnslega frumsjálf sem vill, en þó hlýðir hann eins og hundskammaður krakki þegar til kastanna kemur. Nell er ekki stórt hlutverk, að­ eins ein sena og svo kúrði Harpa Arnardóttir hljóðlát ofan í tunnu í þann eina og hálfa tíma sem hún var ekki á sviði. Ekki er annað hægt en að dást að svoleiðis elju en þess utan skilaði hún kraftmikilli Nell og eftirminnilegri. Ég fékk á til­ finninguna að með þessu hefðum við verið svipt mögulega áhuga­ verðustu persónunni, og ef til vill skilar sú dýpt sem aldrei er á róið sér beint til áhorfandans, sem vill vita meira en fær það ekki. Ég fékk einnig á tilfinninguna að hjónaband hennar og Nagg hefði kannski einhvern tíma í fyrndinni jafnvel verið svolítið fallegt þótt það hafi endað í fjarbúð þeirra hvort í sinni olíutunnu, þótt fjöl­ skyldudýnamík verksins sé raun­ ar öll hin ógeðfelldasta. Í verkinu liggur allt í fortíðinni; allt er liðið og núið er kyrrstaðan ein. Við sjá­ um því til að mynda ekki ofbeldið í sýningunni þótt við skynjum af­ leiðingar þess framan í persónun­ um og í hegðun þeirra. Þau hafa svo marga djöfla í eftirdragi að þau fá sig hvergi hrært. Stefán Jónsson fór með hlutverk Nagg og var sannfærandi að mér fannst sem maður sem búið hefur í tunnu um nokkurt skeið, ekki síð­ ur en Harpa í sínu hlutverki. Mér fannst honum takast best upp við að skila okkur margræðum karakt­ er; hann skiptir nánast um ham í hvert sinn sem hann birtist og bæt­ ir við sig nýju merkingarlagi. Við vitum nákvæmlega hver Hamm er alveg frá upphafi en Nagg leyf­ ir okkur aldrei að skilja sig til fulln­ ustu. Það þótti mér vel gert. Kannar mörk mennskunnar Ég er ekki kunnugur þýðingu Árna Ibsen á Endatafli en mér þótti textinn góður og flæða vel, sem von var úr þeirri áttinni, en endurskoðun þýðingarinnar var í höndum Sigurðar Pálssonar sem einnig er dramatúrg sýningarinn­ ar. Ég var fjarska ánægður með dystópíska búningahönnun Þór­ unnar Maríu Jónsdóttur. Hún minnti mig sumpart á Mad Max og jafnvel á Waterworld og alveg ljóst er frá upphafi hver er kóngurinn í þessu endatafli. Loks vil ég geta förðunar, sem ég er ekki vanur að taka sérstaklega eftir, en hér þótti mér hafa vel til tekist hjá Kristínu Thors og einkum hvernig hungrið og eymdin var dregin fram í andlit­ um Nell og Nagg. Ekki veit ég hvort það var missýn mín en mér sýndist augu Clov jafnan blóðhlaupin og velti fyrir mér hvort Þór hafi sett upp rauðar linsur fyrir hlutverk­ ið, eða laumað laukbita undir neðri augnlokin. Hvort sem það var missýn rýnis, meðvitað stíl­ bragð Kristínar Thors eða magn­ aðar augnkúnstir Þórs Tulinius, þá kom það í öllu falli vel út þaðan sem ég sat. Hvernig sýning er þá Enda­ tafl? Ég myndi segja að hún sé afar merkileg sýning og ekki vegna þess að hún er fyrir löngu orðin klass­ ískt leikhúsverk (það er jú lítið mál að eyðileggja helstu meist­ arastykki leikhússögunnar eins og dæmin sanna). Hún er merki­ leg vegna þess að Endatafl kann­ ar mörk mennskunnar. Þegar búið er að berja úr okkur allan lífsvilja, baráttuvilja, alla von og alla með­ aumkun með náunganum, hvað er þá eftir, hvað heldur í okkur lífinu? Berstrípuð af flestum sérmannleg­ um eiginleikum er ekki einu sinni frumeðli eftir, og persónur verks­ ins eru einfaldlega of uppgefnar og aðframkomnar til að leggjast niður og deyja, nema ef vera skyldi að þrjóska þeirra og beiskja hvers í annars garð sé það sem knýi þær til að tóra þetta linnulausa enda­ tafl, þennan forgarð Helvítis sem tilvist þeirra er orðin. Endatafl talar til okkar á öðru plani en við erum allajafna vön og þar í liggur mikilvægi sýningar­ innar nú ekki síður en þegar hún var frumsýnd fyrir tæpum fimmtíu árum. Vonandi kennir hún okk­ ur líka að horfast í augu við lífið og læra að meta það á þess eigin forsendum. Ef forsendurnar eru sjálfhverfar þá hverfa þær líka með sjálfinu. Það er sá veruleiki sem okkur er sýndur í Endatafli. Og það er bara býsna erfitt að horfast í augu við hann. n Arngrímur Vídalín ritstjorn@dv.is Leikhús Endatafl Höfundur: Samuel Beckett Þýðing: Árni Ibsen Leikstjórn og sviðsmynd: Kristín Jó- hannesdóttir Lýsing: Halldór Örn Óskarsson Förðun: Kristín Thors Dramatúrg: Sigurður Pálsson Búningar: Þórunn María Jónsdóttir Leikarar: Þorsteinn Bachmann, Þór Tulinius, Harpa Arnardóttir og Stefán Jónsson. Sýnt í Tjarnarbíói Eitt er peð og einn er kóngur Þorsteinn Bachmann er gjörsamlega óþolandi en Þór Tulinius hlýtur meiri samúð áhorfandans, að mati ganrýnanda DV. Á botni mann- legrar tilveru n um endatafl eftir Samuel beckett n tekist á við mennskuna í klassísku leikhúsverki

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.