SÍBS blaðið - feb. 2016, Blaðsíða 24

SÍBS blaðið - feb. 2016, Blaðsíða 24
24 SÍBS-blaðiðGrein Kvíði er eðlileg tilfinning bæði hjá börnum og fullorðnum. Hann tengist yfirleitt nýrri reynslu og því sem er óþekkt eins og að byrja í skóla, nýrri vinnu eða að eignast barn. Einnig getum við fundið fyrir kvíða þegar við þurfum að gera eitthvað sem veldur okkur óöryggi. Mikilvægt er að hafa í huga að ef kvíðinn er í hófi og undir góðri stjórn er hann jákvæður og getur hjálpað okkur að nýta betur hæfileika okkar og getu. Einnig getur kvíðinn hjálpað okkur að bregðst hratt við ef þörf er á og forðast raunverulegar hættur eins og í umferðinni. Aftur á móti er litið á kvíða sem vanda þegar hann er meira eða minna stöðugur eða ekki í samhengi við aðstæður. Þegar kvíðinn er farinn að hafa hamlandi áhrif á daglegt líf og lífs- gæði er talað um að viðkomandi sé með kvíðaröskun. Kvíðaraskanir Kvíðaraskanir eru algengt vandamál og er tíðni þeirra hér á landi talin svipuð og í nágrannalöndum okkar. Áætla má að tæplega fjórðungur Íslendinga fái kvíðaröskun einhvern tíma á ævinni. Kvíðaröskunum er skipt niður eftir eðli og einkennum í fælni, kvíðaköst (með eða án víðáttufælni), almennan kvíða, áfallastreitu og áráttu og þráhyggju. Með fælni er átt við óraunhæfan ótta sem veldur því að viðkomandi forðast ákveðnar aðstæður, hluti eða atferli. Fælni getur komið fram í erfiðleikum með að vera innan um annað fólk (félagsfælni), sem hræðsla við að vera einn á berangri eða innilokun (við- áttufælni) eða beinst að ákveðnum hlutum eða aðstæðum eins og flugvélum, lyftum og kóngulóm (sértæk fælni). Kvíði getur einnig fylgt fjölmörgum sjúkdómum bæði andlegum og líkamlegum. Hvað veldur kvíða? Það er mjög einstaklingsbundið hvað við þolum mikla streitu en algengt er að kvíði komi fram í tengslum við langvarandi streitu og álag. Talið er að það sé einkum tvennt sem orsaki kvíða. Annars vegar eru það ytri þættir eins og atburðir, aðstæður eða kröfur sem þarf að mæta hvort sem þær koma frá okkur sjálfum eða umhverfinu og hins vegar viðbrögð okkar við þessu áreiti, það er að segja hvernig við upplifum og túlkum það sem er að gerast. Einkenni kvíða Miklum kvíða fylgja yfirleitt sterk líkamleg einkenni og til- finningar en kvíðinn hefur einnig áhrif á athygli, einbeitingu, félagslega þátttöku og fleira. Ekki er óalgengt að fólk óttist að það sé með einhvern líkamlegan sjúkdóm eða það sé að missa tökin. Einnig er algengt að þeir sem eru kvíðnir óttist að líta illa út í augum annarra og verða sér til skammar. Hvað viðheldur kvíða? Flestum er það mikilvægt að ráða við aðstæður en þeir sem eru kvíðnir eiga margir sameiginlegt að gera miklar kröfur til sín, hafa lítið sjálfstraust og eru fullvissir um vanmátt sinn til að takst á við hlutina. Þeim hættir til að meta fjölmargar aðstæður sem ógnvekjandi, hættulegar eða erfiðar, það er að segja ofmeta hættuna en vanmeta bjargráð sín og getu. Venjulegir hlutir eins og að vera innan um margt fólk eða fara út í búð virðast meira ógnvekjandi en þeir eru í raun og veru og þetta ofmat setur í gang kvíðaferli eða vítahring sem getur verið erfitt að stöðva. Talið er að það séu kvíðatengdar hugsanir sem viðhalda kvíðanum en það eru einkum hugsanir um: • Aðstæður sem enda illa • Hugsanir um kvíða og líkamleg einkenni • Hugsanir tengdar litlu sjálfstrausti Rósa María Guðmundsdóttir geðhjúkrunarfræðingur Reykjalundi Inga Hrefna Jónsdóttir sálfræðingur Reykjalundi Ekki er óalgengt að fólk óttist að það sé með einhvern líkamlegan sjúkdóm eða það sé að missa tökin Kvíði

x

SÍBS blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SÍBS blaðið
https://timarit.is/publication/1222

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.