Læknablaðið - 01.04.2017, Síða 36
196 LÆKNAblaðið 2017/103
U M F J Ö L L U N O G G R E I N A R
Snemma í mars hlutu tveir barnalæknar
viðurkenningu fyrir árangur í rannsókn-
um úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar
læknis. Rannsóknir Orra Þórs Ormarsson-
ar sérfræðings í barnaskurðlækningum
beinast að hægðatregðu í börnum en
Valtýr Stefánsson Thors sérfræðingur
í barnalækningum og smitsjúkdómum
barna rannsakaði veiru- og bakteríusýk-
ingar í nefkoki barna. Báðir starfa þeir á
Barnaspítala Hringsins.
Í frétt frá Háskóla Íslands segir svo um
rannsóknir þeirra:
„Orri Þór Ormarsson hefur kannað
öryggi og hægðalosandi áhrif stíla, sem
innihalda fríar fitusýrur ( free fatty acids)
fengnar úr fiskiolíu, í meðferð við hægða-
tregðu hjá börnum og til tæmingar fyrir
stutta ristilspeglun. Hægðatregða er ein
algengasta orsök kviðverkja hjá börnum
og er algengasta meðferðin að gefa lyf til
inntöku en stundum eru lyf um endaþarm
gefin samhliða. Skortur er á klínískum
rannsóknum á þeim endaþarmslyfjum
sem börn fá og sama má segja um rann-
sóknir á úthreinsun fyrir bugðuristils- og
endaþarmsspeglun, en ekki er vitað hvaða
meðferð til úthreinsunar er best.
Verkefnið fól í sér þrjár klínískar rann-
sóknir á börnum og fullorðnum og eina
faraldsfræðilega rannsókn á börnum með
hægðatregðu. Hundrað og sextíu manns
tóku þátt í rannsóknunum sem sýndu að
stílarnir, sem til skoðunar voru, þolast
vel og virka til meðferðar á börnum með
hægðatregðu og til úthreinsunar fyrir
speglanir í bugðuristli og endaþarmi.
Faraldsfræðileg rannsókn leiddi í ljós að
40% barna með hægðatregðu fengu aftur
hægðatregðu, 27% þeirra þurftu aftur
að leita læknisaðstoðar og 33% fengu lyf
gefið um endaþarm á ný. Niðurstaða rann-
sóknanna sýnir jafnframt að lífsstílsþættir
tengjast hægðatregðu í börnum.
Í doktorsritgerð sinni, „The effects
of viral infections on upper respiratory
tract bacterial colonisation in children
– observational and interventional stu-
dies“ fjallar Valtýr Stefánsson Thors um
veirusýkingar í efri loftvegum hjá ungum
börnum og hvernig þær hafa áhrif á bakt-
eríur sem jafnan eru til staðar í nefkokinu.
Við rannsóknirnar var notast við svo-
kallaða magnmælanlega kjarnsýrumögn-
un (polymerase chain reaction - PCR) til að
greina veirur og 6 bakteríutegundir og
þéttni þeirra.
Í rannsóknunum var samtals rúmlega
1300 sýnum safnað frá 312 börnum. Helstu
niðurstöður voru þær að tíðni bakteríanna
í nefkoki var að mestu leyti óbreytt við
veirusýkingar en að þéttni baktería var
nánast alltaf meiri í sýnum þar sem líka
fannst veirusýking. Þessi aukna þéttni
stuðlar líklega að auknu smiti milli barna,
sérstaklega þar sem samneyti þeirra er
náið. Þessar niðurstöður gætu varpað ljósi
á samspil ónæmiskerfisins, veirusýkinga
og baktería.“
Tveir barnalæknar
verðlaunaðir fyrir rannsóknir
■ ■ ■ Þröstur Haraldsson
Myndin er tekin við afhendingu viðurkenninganna. Frá vinstri: Engilbert Sigurðsson, forseti læknadeildar, Valtýr Stefánsson Thors, sérfræðingur í barnalækningum, Margaret
Scheving Thorsteinsson, ásamt dóttur sinni Guðrúnu Scheving Thorsteinsson, Sif Ormarsdóttir, systir Orra Þórs Ormarssonar verðlaunahafa, Jón Atli Benediktsson, rektor Há-
skóla Íslands og Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.