Gripla - 20.12.2017, Side 18
GRIPLA18
Í nóvember árið 1860 spyr Sigurður í bréfi sínu til Jóns Árnasonar
hvort hann vilji að hann útvegi honum ævintýri: „Eg veit ekki hvort þú
vildir fá nokkuð af þessum algengu sögum um kóng og drottningu í ríki
sínu og karl í garðshorni, – um karls dætur, Ásu, Signýju og Helgu og
þvílíkar. Þær gat eg skrifað eftir dætrum mínum, sem kunna mikið af því
rusli.“41 Hér kemur fram að Sigurður telji ævintýri algengt fyrirbæri í sinni
sveit og jafnvel á heimili sínu og að dætur hans kunni margar slíkar sögur.
Í framhaldinu stingur hann upp á því að senda dætur sínar til sögufróðs
fólks sem hann vissi af, jafnvel til að láta þær safna þjóðsögum. í sama bréfi
gerir hann ráð fyrir að senda elstu dóttur sína, Margréti, til gamallar konu
í sókninni:
Kerling er í sókn minni, nærri níræð, sem trúir svo á álfa, að hún
sér þá oft og segir um hætti þeirra, – hún sér fylgjur allar og vofur,
en vill ekki segja mér neitt. nú skal eg setja út dóttur mína elztu að
hafa upp úr henni, en hún man nærri allt, sem hún heyrir, og segir
svo vel frá, að eg kann ekki jafn vel sjálfur.42
Sigurður virðist gera sér fyllilega grein fyrir því að konur hafi heldur viljað
deila reynslu sinni og sögum með kynsystrum sínum en menntamönnum.43
Áform hans um að senda Margréti til fróðleiksfólks til að safna þjóðsögum
minnir óneitanlega á aðferðir þeirra Grimmsbræðra, sem fengu vini sína
eða fjölskyldumeðlimi til að nálgast sagnaefni, og þó einkum Lotte Grimm,
systur sína.
í bréfi frá 18. mars 1861 skrifar Sigurður að hann hafi sent Jóni nokkur
ævintýri sem hann skráði eftir dóttur sinni, Elísabetu, sem er næstelst
dætra hans.
Þá sendi eg þér enn nokkrar arkir af kerlingasögum, sem eg rispaði
nýlega svo fljótt og illa sem eg gat (þær sögur sagði mér Elísabet
dóttir mín, og kunna þær stúlkur mínar nóg í stóra bók af slíkum),
41 Bréf (20) frá SG til JÁ þann 16. nóvember 1860 í nKS 3010 4to. Úr fórum Jóns Árnasonar:
Sendibréf I, 263–4.
42 Bréf (20) frá SG til JÁ þann 16. nóvember 1860 í nKS 3010 4to. Úr fórum Jóns Árnasonar:
Sendibréf I, 262.
43 Sbr. Júlíana Þóra Magnúsdóttir, „Þjóðsagnasöfnun og kyngervi: um þjóðsagnasöfnun
torfhildar Þorsteinsdóttur Hólm og mótun íslenskrar þjóðsagna(söfnunar)hefðar,“ Rann-
sóknir í félagsvísindum XI, Félags- og mannvísindadeild, ritstj. Gunnar Þór Jóhannesson og
Helga Björnsdóttir (reykjavík: félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 2010), 167.