Gripla - 20.12.2017, Page 29
29
hafi miðlað þjóðsögum stærstan hluta ævi sinnar. Hún hefur hugsanlega
sagt börnum Magnúsar, bróður síns, sagnir og ævintýri og e.t.v. víðar á
Borgarfirði eystra, í Víkum og Loðmundarfirði eins og fram kemur í smá-
sögunni. Gera má ráð fyrir að Brandþrúður hafi verið sögufróð manneskja
og vel menntuð í þjóðlegum fræðum.67
Sæbjörg Guðmundsdóttir
Síðasta konan úr tengslaneti Sigurðar Gunnarssonar er Sæbjörg Guð-
munds dóttir (1801–64) sem fæddist í Bjarnanesi og var lengi vel vinnukona
á bænum Stapa í Hornafirði í austur-Skaftafellssýslu. Á seinni árum
var hún niðursetningur á Arnheiðarstöðum í Fljótsdal í Suður-Múlasýslu
hjá bóndanum Vigfúsi Guttormssyni (1828–67). Vigfús var sonur Gutt-
orms Vigfússonar (1804–56), stúdents og alþingismanns og félaga Sig-
urð ar Gunnarssonar sem skýrir að nokkru leyti af hverju Sigurður hafði
samband við Vigfús varðandi söfnun þjóðsagna.68 Vigfús sendi sögurnar
eftir Sæbjörgu til Sigurðar á árunum 1859–64. Á þessu tímabili var Sæbjörg
komin á sjötugsaldur og lést hún árið 1864. ólíkt þeim þremur sagnakonum
sem kynntar voru til sögu hér að framan hefur Sæbjörg verið gömul kona
þegar hún lagði sögur sínar til safnsins og er hún að vissu leyti dæmigerð
sagnakona meðal almúgans samkvæmt skilgreiningu Grimmsbræðra og
Lindu Dégh. Sæbjargar er getið meðal heimildarmanna Jóns, enda skráði
hún sögur sínar ekki sjálf; e.t.v. hefur hún ekki kunnað það en þó má vera
að hún hafi verið orðin sjóndöpur þegar þarna var komið.
Sögur Sæbjargar, að mestu leyti álfa- og draugasagnir, eru undan-
tekningarlaust skráðar með rithönd Vigfúsar Guttormssonar og skrifaði
hann sögu Sæbjargar „um Bjarna-Dýsu“, þar sem Sigurður bætti svo við:
67 í BA-ritgerð Katrínar Þorvaldsdóttur sem fjallar um alþýðusagnakonuna Brandþrúði og
þjóðsögur hennar er fullyrt að hún hafi verið menntuð á borð við stórbónda á þessum
tíma. Sjá Katrín Þorvaldsdóttir, „Brandþrúður Benónísdóttir: austfirsk 19. aldar
alþýðusagnakona“ (Ba-ritgerð, Háskóli Íslands, 2014), 28 og 43.
68 Guttormur Vigfússon var alþingismaður Norðmýlinga ásamt Sigurði Gunnarssyni, en
auk þess voru þeir báðir þjóðfundarmenn árið 1851. Eftir andlát Guttorms tók Vigfús við
búi föður síns á Arnheiðarstöðum sem taldist góð jörð. Svo virðist sem Sigurður hafi haft
samband við Vigfús varðandi þjóðsagnasafnið, því hann þekkti vel til föður hans. Þó að
Vigfús hafi skráð nokkrar þjóðsögur eftir Sæbjörgu eru hins vegar engar sögur í safni Jóns
Árnasonar eignaðar honum sjálfum.
GLItVoÐ Ir GEnGInna aLDa