Gripla - 20.12.2017, Síða 78
GRIPLA78
að sögunni um Jómsvíkinga og án hans væri erfitt að skilja hvers vegna
Jómsvíkingar héldu til Noregs að berjast við Hákon jarl.15
Engin eining myndaðist nokkurn tíma um niðurstöðuna og sama má
segja um tilgátur um þróun textans en ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til
þess að skýra þann mun sem er á gerðunum. Rækilegastar eru skýringar
Heinrich Hempel og John Megaard en sá síðarnefndi byggir raunar á
rannsóknum þess fyrrnefnda. Báðir reyna þeir með textasamanburði að
setja fram stemma varðveittra sögugerða ásamt nokkrum öðrum textum.16
Þannig setur Megaard Heimskringlu, Fagurskinnu, Dana sögu Saxa og
Jómsvíkingadrápu einnig inn í sitt stemma en Hempel hafði með í sínu
semma Ólafs sögu Odds í AM 310 4to og Ólafs sögu Tryggvasonar hina
mestu. Báðir gera þeir ráð fyrir að allir þessir textar séu komnir frá einum
frumtexta.
Þessar aðferðir verða að teljast vafasamar þegar kemur að því að lýsa
venslum varðveittra handrita Jómsvíkinga sögu og skyldra texta. Fyrst ber
að geta þess að Dana saga Saxa á hvorki heima í þessum samanburði né
í stemma Jómsvíkinga sögu líkt og hjá Megaard. Haraldur Gormsson á
vissulega sinn kafla í tíundu bók Dana sögu og þar koma hér og hvar fram
persónur sem eru í Jómsvíkinga sögu eins og Knútur bróðir hans og Hákon
jarl. Þá er sagt frá miklu liði sjóræningja í borginni Iulin og nefndir á
nafn þeir Bo, Ulff, Karlshefni og Siualdus.17 Haraldur fær aðstoð þess-
ara sjóræningja í bardaga við Hákon í Noregi og þeir lúta í lægra haldi
þegar Hákon hefur fórnað tveimur sonum sínum og fengið þannig aðstoð
guðanna. Þessi frásögn minnir vissulega á bardagann í Hjörungavogi og
byggir áreiðanlega á sömu arfsögn en hér er ekki að finna Þorgerði og Irpu
sem birtast í Jómsvíkinga sögu og þá er aðdragandi bardagans allt annar.
í Jómsvíkinga sögu eru Hákon og Haraldur í bandalagi framan af og það
er ekki fyrr en Danmörk hefur verið kristnuð að þeir verða andstæðingar.
í Dana sögu eru þeir andstæðingar alla tíð. Þegar Hákon hefur haft sigur úr
15 Storm, „Om redaktionerne af Jomsvikingasaga,“ 236–237; Gustav Indrebø, Fagrskinna.
av handlinger fra universitetets historiske seminar 4 (Kristjanía, 1917), 56–57; Bjarni
Aðalbjarnarson, Om De Norske Kongers Sagaer, 202; Eugen Mogk, Geschichte der
Norwegisch-Isländischen Literatur (Strassburg: trübner, 1904), 264–265.
16 Heinrich Hempel, „Die formen der Iómsvíkinga saga,“ Arkiv för nordisk filologi 39 (1923):
1–58; Megaard, „Studier i Jómsvíkinga sagas stemma,“ 125–182.
17 Saxo Grammaticus, Gesta Danorum. Danmarkshistorien 1. útg. Karsten friis-Jensen, þýð.
Peter Zeeberg (Kaupmannahöfn: Gads forlag, 2005), 623–631.