Gripla - 20.12.2017, Page 90
GRIPLA90
og talar við hann nokkura hríð hljótt. Konungurinn brá lit við og gerir
rauðan á að sjá og þrútinn“ (125). Perg 7 segir frá á svipaðan hátt: „fjǫlnir
hneigðisk at konungi ok talaði við hann hljótt um hríð. Konungr brá lit við
ok gørði rauðan sem blóð“ (15). Í 510 eru viðtakendur ekki látnir velkjast
í vafa um hvað Fjölni og konungi fer á milli þó að sú skýring komi raunar
nokkru fyrir erfið:
Fjölnir kom á fund Sveins kóngs og bauð honum sig til þjónustu
sem föður hans; kóngur játar því. Fjölnir eldist ekki að illráðum,
þótt hann væri mjög að aldri farinn. fjölnir mælti til kóngs: „Vita
skulu þér þá hluti, er yður er skylt að vita, þótt með leynd hafi
farið um líflát Haralds kóngs; og hefur Pálnatóki mikla vél að yður
dregið, og það gekk honum til eflingar við yður að vera í svikum
við föður þinn, og er Pálnatóki sannur hans banamaður, og mun
ég það með vitni segja, og máttu eigi kóngur vera, ef þú hefnir eigi
föður þíns; og lít hér á örina: þessi veitti honum svívirðilegan bana,
og munu vera menn til vitnis, að ég segi það satt.“ Sveinn kóngur
reiddist þá mjög við þetta; og síðan gjörðu þeir ráð sín, að kóngur
skal bjóða Pálnatóka til veislu. Ætlar hann þá ekki lengur á fresta,
því að þá átti að drepa Pálnatóka í þeirri veislunni, er hann drakk
eftir föður sinn (22–23).
Höfundur 510 túlkar þannig nákvæmar persónu fjölnis en höfundar hinna
gerðanna og mynd hans verður nokkuð einhliða. Hið sama má segja um
Harald Gormsson eins og kemur fram hér að framan þar sem sagt er berum
orðum að vit hans risti ekki djúpt. Engar slíkar einkunnir koma fyrir um
konunginn í 291 eða Perg 7 og það er túlkun viðtakenda sem ræður.
Sviðsetning atburða er einkennandi fyrir textann í 510. Samtöl eða
bein ræða kemur fyrir þar sem í 291 og Perg 7 er óbein ræða. Viðræður
Sveins og Fjölnis hér að framan eru gott dæmi um þennan mun. Má
einnig nefna hvernig þetta einkenni birtist þegar Pálnatóki og Sveinn
fara um Danmörku vegna konungaskipta. Í 291 segir: „Síðan fara þeir
Pálnatóki og Sveinn báðir samt of alla Danmörk. Og hvar sem þeir komu,
þá lætur Pálnatóki kveðja húsþings, og er Sveinn til konungs tekinn um alla
Danmörk áður en þeir létti“ (121–122) og í Perg 7: „Síðan fóru þeir báðir
ok kveðja þings: var þá Sveinn til konungs tekinn yfir alla Danmǫrk“ (14).