Gripla - 20.12.2017, Síða 141
141
ummæli biskups í fyrri athugasemdinni benda til þess að je-framburður
hafi tíðkast um allt land á hans tíma og jafnframt að hugmyndin um að rétt
væri að rita og bera fram „e“ í orðinu fé hafi byggst á stafsetningu fornra
handrita. Þetta tvennt kemur enn skýrar fram í síðari athugasemdinni. Þar
segir Brynjólfur að þá hafi alls staðar („passim“)8 verið borið fram je í mér
og sér, en að í fornum handritum séu „slík orð“ („tales voces“) ávallt rituð án
„þessa laungetna norðlenska i“ („spurio hoc i Boreali“). orðalag Brynjólfs
hér sýnir jafnframt að í hans huga fólst nýi ósiðurinn norðlenski í því að
skjóta inn j, sem ritað var „i“ (eða „j“), framan við e í orðum eins og fé, mér
og sér. Af þessu má ráða að Brynjólfur hefur talið að bera ætti þessi orð
fram fe, mer og ser, þ.e. með e (í stað je) eins og í orðunum ber og sel.
Athugasemdir Brynjólfs eru athyglisverðar enda eru samtímaleg um-
mæli um íslensku frá svo gamalli tíð ekki á hverju strái; þær geta reynst
mikilsverð heimild um sögu málsins. Að vísu virðast þær, ef fallist er á
túlkunina hér á undan, einungis staðfesta það, sem ráða má af vitnisburði
stafsetningar, að tvíhljóðun é hafi verið gengin yfir á 17. öld (sjá nánar í
2. kafla). Athugasemdirnar eru eigi að síður heimild um viðhorf á fyrri
tímum til íslensku, sér í lagi varðandi sambandið á milli réttritunar og
framburðar og á milli fornmáls og síðari alda máls. Einna áhugaverðust eru
þó ummælin um að norðlendingar kalli bókstafinn „e“ je. Þau kunna að
koma undarlega fyrir sjónir og gefa tilefni til þess að líta á sögu íslenskra
bókstafanafna, en síðar í greininni verða skoðaðar heimildir um uppruna
og þróun þeirra. Einkum verður horft til stafa fyrir sérhljóð sem stundum
eru kallaðir hljóðstafir í íslenskum ritum.
Skýringin á athugasemdum Brynjólfs sem sett var fram hér á undan
víkur talsvert frá skýringu Björns Magnússonar ólsen, en hann er sá eini
sem áður hefur sett fram heildstæða túlkun athugasemdanna.9 Björn taldi
þær vitnisburð um breytilegan framburð orða er að fornu höfðu langa ein-
hljóðið é. Í mállýsku biskups hefði eldri framburður („den ældre udtale“)
enn tíðkast þótt víðast hvar á landinu hefði é breyst í je.10 Á je var þó sú grein
gerð, að mati Björns, að fyrri hluti þess var ýmist hálfsérhljóð eða önghljóð.
8 Reyndar getur passim einnig merkt ‘víða, víðast hvar, á víð og dreif’, sjá nánar nmgr. 10 og
3. kafla.
9 Björn Magnússon Ólsen, „overgangen,“ 189–192.
10 Notkun orðsins passim í síðari athugasemd Brynjólfs, sem getur merkt bæði ‘víða, víðast
hvar, á víð og dreif’ og ‘alls staðar’, hefur ýtt undir þann skilning að je-framburðurinn hafi
ekki tíðkast alls staðar á landinu á tíma Brynjólfs. Sjá nánar í 3. kafla.
uM norÐ LEnSKan Ó SIÐ oG BÓ KStafSnafnIÐ J E