Gripla - 20.12.2017, Page 148
GRIPLA148
„fe“. Þetta er staðhæfing um hvernig rétt sé að bera fram en ekki um það
hvernig almennt sé borið fram. rétt á eftir segir hann að „je“ hafi breiðst
út til landsmanna vítt og breitt („longe lateque“). Í síðari athugasemdinni
segir hann síðan að nú sé alls staðar („passim“) borið fram „mier“ og „sier“
í stað „mer“ og „ser“. Þessi atriði í ummælum Brynjólfs virðast benda til
þess að orð eins og fé, mér og sér hafi haft je um allt land. Björn Magnússon
ólsen var einnig þeirrar skoðunar að þessi framburður hafi verið „bleven
almindelig“ á dögum biskups. En hann bætir við:
Dog ligger der i udtrykkene „longe lateque“ og „passim“ en an-
tydning af, at man endnu i enkelte egne holdt fast ved den ældre
udtale, som biskoppen selv også synes at have brugt – ellers vilde
han næppe have sagt „ᚠ non fie, sed fe semper … pro nunciandum
est“.30
í dönsku þýðingunni er passim þýtt með overalt, ‘úti um allt’, en það getur
einnig merkt ‘víða, víðast hvar, á víð og dreif’. Longe lateque er þýtt með
vidt og bredt, en samsvarandi orðasamband í íslensku, vítt og breitt, virðist
ýmist geta merkt ‘víða’ eða ‘úti um allt’.31 Björn virðist gera ráð fyrir því að
Brynjólfur eigi við að je-framburðurinn tíðkist víðast hvar á landinu fremur
en alls staðar. Ekki er að sjá að túlkun Björns sé eðlilegri eða sennilegri
en að gera ráð fyrir því að biskup eigi við að je-framburðurinn tíðkist um
allt land. Sú túlkun hefur einnig stuðning af vitnisburði stafsetningar sem
bendir til þess að tvíhljóðun é hafi verið gengin yfir á þessum tíma.
Meginástæða þess að Björn áleit eldri framburð é varðveittan á tímum
biskups virðist þó ekki hafa verið tilfinning hans fyrir merkingu áður-
nefndra orða heldur hitt að Brynjólfur skyldi staðhæfa að bera ætti fram
„fe“ en ekki „fie“. Björn virðist ganga út frá því að biskup hefði ekki fullyrt
neitt í þessa veru ef það hefði gengið í berhögg við hans eigin framburð.
í fljótu bragði kunna þetta að þykja sannfærandi rök, jafnvel óhjákvæmileg.
30 Björn Magnússon Ólsen, „overgangen,“ 191.
31 Jóhannes L. L. Jóhannsson, „Svar,“ 278, þýðir reyndar longe lateque í athugasemd Brynjólfs
sem „lengivel og víðahvar“ en ekki virðist fótur fyrir því. Samkvæmt latneskum orðabókum
hefur þetta orðasamband hreina rýmismerkingu en vísar ekki til tíma, sjá t.d. Oxford Latin
Dictionary, ritstj. P. G. W. Glare (oxford: Clarendon Press, 1982), 1041, þar sem gefin er
merkingin ‘in all directions, far and wide’.