Gripla - 20.12.2017, Síða 150
GRIPLA150
Auk Björns Magnússonar ólsen hefur Haraldur Bernharðsson einnig
lýst þeirri skoðun að athugasemdir Brynjólfs séu til vitnis um að eldri
framburður é hafi verið varðveittur á 17. öld:
Hinu má svo aftur á móti velta fyrir sér hvort ekki verði að teljast
ósennilegt að biskup hefði kveðið svo fast að orði ef hann hefði ein-
ungis dregið þá ályktun af stafsetningu fornra handrita að /é/ hafi í
öndverðu verið einhljóð en ekki tvíhljóð — líklegra er að hann hafi
þekkt dæmi um hvort tveggja í máli samtíðarmanna sinna.34
Efasemdir Haralds virðast snúa að því hvort Brynjólfur hafi haft forsendur
til þess að álykta um breytingu á framburði eingöngu á grundvelli stafsetn-
ingar fornra handrita. Að mínu mati mælir ekkert gegn því. í orðum eins
og fé, mér og sér var ekki ritað „i“ í fornum handritum en á tímum biskups
var það orðin venja. Brynjólfur gat hæglega dregið þá ályktun að í fornmáli
hefði samsvarandi hljóð, j, ekki heldur verið til staðar.35 Ekki verður um það
deilt að hefði biskup þekkt einhljóðsframburð é hefði blasað við að hann
hefði hlotið að standa nær framburði fornmanna. En ef fallist er á að hann
hafi getað dregið áðurnefnda ályktun eingöngu á grundvelli stafsetningar
fornra handrita er engin ástæða til þess að gera ráð fyrir því að é hafi ennþá
verið einhljóð í sumum mállýskum á 17. öld.
Ekki er þó loku fyrir það skotið að auk stafsetningar fornra handrita
hafi framburður samtímamanna Brynjólfs getað haft áhrif á hugmynd
hans um réttan framburð orða eins fé, mér og sér. Að öllum líkindum var
til hópur orða sem ýmist voru borin fram með e eða je (sjá dæmi hér rétt á
eftir), en ástæða þess var þó ekki varðveisla upprunalegs framburðar é.
Líkt og áður hefur komið fram fjalla athugasemdir biskups ekki (nema
óbeint) um orð sem að fornu höfðu é, heldur um orð sem á hans tíma höfðu
hljóðasambandið je. Dæmi um slík orð eru fé, mér og sér. Eins og rætt var
í 2. kafla hefur síðari alda íslenska ekki aðeins je í orðum sem í öndverðu
höfðu é, einnig er je í ýmsum orðum með upphaflega stuttu e, t.d. Héðinn,
héðan, ég, éta, fékk, hélt, snéri (físl. Heðinn, heðan, eg, eta, fekk, helt, sneri).
34 Haraldur Bernharðsson, Málblöndun, 138.
35 Auðvitað hefði Brynjólfur getað komist að annarri niðurstöðu. Líkt og fram kemur í 4. kafla
var sú hugmynd einnig á kreiki um svipað leyti að orð með je í síðari alda máli hefðu einnig
haft je í fornmáli.