Feykir


Feykir - 20.12.2012, Blaðsíða 24

Feykir - 20.12.2012, Blaðsíða 24
24 Feykir 48/2012 Fótakuldi Smásögur Guðmundar L. Friðfinnssonar Snæblóm er heiti nýrrar bókar sem hefur að geyma smásögur eftir Guðmund L. Friðfinnsson frá Egilsá í Skagafirði en hann hafði nær fullgert þær til útgáfu þegar hann lést, síðla árs 2004. Það er bókaútgáfan Hólar sem sér um útgáfuna og fékk Feykir vinsamlegt leyfi til að birta eina smásögu úr bókinni góðu. - - - - - Þetta var um vor, búið að vinna á túnum og grasið þaut upp í hlýviðrinu. Dreng- urinn sat sunnan undir torfstafni bað- stofunnar og dundaði við að reyta strá og blöðkur, sem hann brá jafnóðum í munn sér og tuggði. Stórar og vambmiklar fiskiflugur dönsuðu polka við eigin músík á suðurglugga baðstofunnar og héldu hátíð. Sólskin sunnudagsins smaug fyrir- hafnarlaust gegnum röndótta skyrtu drengsins og gerði hann værukæran og latan. Hæglátur niður árinnar hafði einnig sín áhrif. Honum leið í sannleika vel, hann var nánast ekkert að hugsa en ók sér í mjúksvölu grasinu, sem ekki virtist eiga annað áhugamál en að keppast við að vaxa. Meðfram fljótinu hlykkjast þjóðgatan, lyftist á hæðum og melkollum, stingur sér annað veifið á kaf í lægðir og giljadrög en hverfur loks í óendanleikann - óræðan himin og hátyppt fjöll. Eftir þessari götu kemur ferðafólkið alskapað, fetar þessa hlykkjóttu slóð með fjölbreytilegum tilburðum, sumt hávært og fer mikinn, aðrir kyrrlátari, jafnvel eins og beðið sé afsökunar á því ónæði, sem þessi, ýmist grýtti eða leirrunni vegslóði, verður fyrir. En allt hverfur í mistri í öndverðri átt, jafnvel pósturinn, sem segir: „Hott, hott, allir mínir hestar,“ bæði fullur og ófullur. Eftir þessari þjóðgötu hvarfla augu drengsins í forvitni og spurn. Undarlegt, enginn hefur farið hér um í dag, hugsar hann, og heldur áfram að slíta upp strá í hugsunar og tilgangsleysi. En þarna sést þó einhver hreyfing, ógreinileg í fyrstu en skýrist brátt. Kemur þá í ljós, að þar er ríðandi maður á ferð. Þetta er einn af þeim sem fer ekki mikinn. Sökum fjarlægðar þekkti drengurinn ekki manninn við fyrstu athugun, en þegar hann beygði og tók götuna heim að bænum sá hann, að þetta var hann Bjössi í Broti - eða Bjössi á brókinni, eins og hann var kallaður af sumum, þó ekki vissi drengurinn af hverju sú nafngift stafaði. Björn Vilbergsson hafði hokrað einn í Brotinu allar götur síðan drengurinn fór að muna til sín. Hann var mikill náttúru- unnandi, gat unað sér tímunum saman við að skoða jurtir og sérkennilega steina. Hann bar út fyrir fugla og þekkti marga loftbúa af kvakinu einu saman. Bústofn- inn var ein kýr, fáeinar kindur og hryssan Skjóna. Þessar skepnur dekraði hann við og gat nær undantekningarlaust kallað þær til sín, ef þær á annað borð heyrðu til hans. Ekki var hann heimskur talinn en ákaflega barnalegur og skrýtinn í tilsvörum og háttum. Hann var sagður viðkvæmur í lund, fáskiptinn, hversdags- gæfur og tók í nefið úr pung. Ekki var hann mikill fyrir mann að sjá, rakaði sig aldrei, nema þegar hann fór til kirkju. En það gerði hann nær undantekningarlaust, þegar messað var. Þá fór hann í sparifötin sín, lét á sig gúmmíflibba og svarta slaufu við, lagði á Skjónu sína og setti upp hattinn, sem hann hafði keypt á uppboði eftir hreppstjórann sáluga um árið. Þegar gesturinn nálgaðist sást, að nú var hann einmitt í sínum hefðbundna kirkjuskrúða og yfir honum einhver óvenjuleg reisn, þótt alla jafna sæti hann álútur á Skjónu og þá ekki fyrirferðar- mikill. Hann staldraði lítið eitt við eftir að hafa lokað túnhliðinu, fékk sér í nefið og burstaði nefið vandlega á eftir með rauðdröfnóttum vasaklút. Svo sté hann á bak og lét Skjónu grípa töltspor heim í hlaðið. Það var nokkuð jafnsnemma að gesturinn reið í hlað og Gunna kom út úr bæjardyrunum ásamt kettinum, sem raunar var rekkjunautur hennar og tíðum í fylgd með henni á daginn. Þá hafði drengurinn skriðið upp í bæjarsundið og sá og heyrði allt sem fram fór. Gunna var með strigasvuntu eins og jafnan, þegar hún gekk í óhreinleg verk, hélt á kálfsdallinum í annarri hendi, en með hinni studdi hún öskutrog, sem hún bar framan á sér, lét röð þess hvíla á bumbunni til léttis og hægðarauka, sjáanlega að koma úr hlóðaeldhúsinu á leið í fjós. Guðrún hafði verið lengi hjá foreldrum drengsins. Aldrei voru henni sett verk en hún vann það sem henni sýndist, búinu og sjálfri sér jöfnum höndum. Stundum réðst hún til starfa á öðum bæjum um lengri eða skemmri tíma, ýmist sem kaupakona á sumrin eða til tóskapar að vetri. Ei að síður tilheyrði hún heimilinu, þó aldrei væri um það talað og enginn vissi hvernig þeirri heimilisfestu var háttað. Þetta var bara svona og þótti öllum sjálfsagt. Guðrún var dul kona, dálítið hrjúf á ytra borði en ákaflega hjartagóð og mátti helst ekkert aumt sjá. Hún var ákveðin í athöfn og skoðunum, dugleg og týhraust, skipti sjaldan skapi en reiddist illa, ef svo bar við, gat þá jafnvel hent, að hún léti hendur skipta. Engin var hún málskrafs- kona, hló sjaldan, en kæmi það fyrir munaði ævinlega um það. Sló hún þá á lær sér og hló svo hátt og hjartanlega að glumdi við. Þetta var smitandi hlátur og hlógu því oftast allir nærstaddir. Þá var móðir drengsins vön að segja: „En hvað það er nú hressandi að hlæja með þér, Gunna mín.“ Ekki virtist Guðrún gefa gestinum mikinn gaum utan að taka undir kveðjuna og heldur stuttaralega. Hún leit hvorki við gúmmíflibba né blánkuskóm, en tók strikið og stefndi til fjóss. Þessu var á allt annan veg farið um bóndann í Broti. Hann virtist engu veita athygli nema Gunnu. Mót venju var hann nú snar í snúningum, vatt sér af baki, sleppti Skjónu í túnið og hljóp fremur en gekk og var á svipstundu kominn á hlið við konuna. Þannig hélt þessi þrenning áleiðis til fjóss. Það var eitthvert vandræðalegt fát á Bjössa. Hann ræskti sig oftar en einu sinni og gaut augunum ýmist á konuna eða köttinn. Loks dró hann upp tóbaks- punginn og spurði: „Má ekki bjóða þér í nefið, Guðrún mín?“ Hann bætti því við að baun væri í tóbakinu. En Guðrún sletti bara í góm og sagði, að hann sæi nú líklega, hvað hún væri með í höndunum. Nú var hersingin komin að fjósdyrunum og Guðrún ætlaði að smeygja sér inn án fleiri orða. En þá greip Bjössi fálmkenndu taki í svuntu- streng hennar og stamaði: „Ég ætlaði nú rétt aðeins að fá að segja við þig orð.“ „Það var og,“ ansaði konan og heldur þurrlega en staldraði þó við. Bjössi tók ofan hreppstjórahattinn, þurrkaði sér um ennið og tvísté. „Ég get svo sem alveg eins komið með þér í fjósið. Maður hefur nú svo sem komið í fjós fyrr.“ Hann gerði sér upp kumrandi hlátur. Guðrún setti frá sér öskutrogið. Nú fyrst leit hún á manninn, virti hann fyrir sér frá blánkuskóm til gúmmíflibba, sagði síðan ofurlítið sposk, og nú bjóst drengurinn við að komið væri að einni af hennar skemmtilegu hlátursrokum: „Mér sýnist þú ekki þesslegur að fara í fjós, allur uppstrokinn eins og nýsleiktur kettlingur. Ertu að koma frá kirkju?“ Drengnum sýndist maðurinn verða svolítið valtur, líkt og bátur í ólgusjó, en þá þreif hann upp tóbakspunginn öðru sinni og rétti Guðrúnu. Þau fengu sér bæði í nefið. Það létti heldur yfir Gunnu, og Bjössi hysjaði upp um sig buxurnar, sem oft vildu verða heldur síðar í rassinn. „Gott er nú blessað veðrið,“ sagði Bjössi og Guðrún samsinnti að veðrið væri gott. Svo varð þögn. En þetta féll ekki að skaplyndi Guðrúnar. Hún var ekki vön að tvínóna við hlutina og spurði formálalaust, hvað honum væri á höndum. Nú varð maðurinn enn vandræðalegri en fyrr. „Ja, það var nú eiginlega,“ stamaði hann og tvísté. Og enn varð smávegis þögn. Drengnum sýndist hann móður. „Eiginlega hvað?“ spurði Guðrún óþolinmóð. „Ég þarf að koma öskunni í básana áður en kýrnar koma og má ekki vera að neinu hangsi. Reyndu að koma þessu út úr þér, maður.“ Bjössi þreif öðru sinni ofan hattinn og klóraði sér í höfðinu. „Mér datt svona í hug ... Ég var eigin- lega að hugsa um ... hvort þú vildir ekki fara til mín.“ „Fara til þín, hva...“ hálfæpti Guðrún og röddin varð skræk af undrun, lauk þó ekki við setninguna, því Bjössi greip fram í: „É, ég me...inti aðallega í sumar, kannski í smátíma.“ Þessu slöngvaði hann fram í fáti. Allt þetta kom Guðrúnu svo gersam- lega á óvart, að henni varð orðfall. „Þú hefur nú ekki tekið kaupakonur hingað til,“ sagði hún loks og horfði á manninn, eins og hún hefði ekki séð hann fyrr. „Oneinei,“ sagði Bjössi. „Það er svo sem alveg dagsatt.“ Hann setti upp hattinn. „Skepnurnar eru náttúrlega ekki margar enn.“ „Enn,“ át Guðrún eftir. „Ertu kannski að hugsa um að fjölga?“ „Fjölga og fjölga ekki,“ sagði Bjössi og kenndi drýginda í röddinni. „Ég kynni að þurfa að bæta við mig hrossi.“ „Nú, já.“ Ætla mætti að þessi stutta og hálfpartinn kuldalega athugasemd setti manninn út af laginu. En svo var ekki. Hann var algerlega fanginn af sínum eigin hugsunum og hélt áfram: „Það er nú svona. Það er einhvern veginn svona, að það er þreytandi og ekki beint skemmtilegt heldur að vera alltaf einn.“ „Ef þú ert að hugsa um að taka kaupakonu þér til skemmtunar, þá held ég sé betra fyrir þig að reyna við einhverja aðra,“ sagði Guðrún ekki óþýðlega en gerði sig þó líklega að smeygja sér inn í fjósið. Nú brá Bjössi hart við, greip öðru sinni í svuntustreng konunnar aftan frá og varð fljótmæltur: „Nei, farðu ekki. É...Ég vil enga nema þig.“ „Ertu að biðja mín eða hvað?“ Það kom óskaplegt fát á Bjössa. Hann fumaði upp í hornin á flibbanum sínum, pataði jafnvel út í loftið og á viðlíka hátt stamaði hann út úr sér: „Mé...mér er stundum svo kalt á fótunum.“ Nú sprakk blaðran, Guðrún missti kálfsdallinn og blátt áfram engdist af hlátri. „Kalt á fótunum,“ emjaði hún upp úr hlátrinum. „Ég held ég verði nú bara ekki eldri!“ Og hún hélt áfram að hlæja. Loks leit hún á manninn, sem nú stóð þarna hokinn og vesældarlegur eins og barn, sem einhver hefur verið vondur við. Drengnum datt helst í hug, að hann ætlaði að fara að gráta. Nú urðu snögg veðraskil, líkt og þegar austanátt bregður til þíðu. Guðrún steinhætti að hlæja og spurði einkar þýðlega: „Vantar þig ullarsokka, Bjössi minn? Ég gæti svo sem prjónað handa þér eina eða tvenna, ef þú vildir.“

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.