Morgunblaðið - 29.12.2017, Síða 11
MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 29. 12. 2017 11
Það hefur löngum verið sagt að við lifum á spennandi tímum og það
á svo sannarlega við núna þegar tækniþróunin er á þvílíkri keyrslu
og nýsköpunin alls staðar. Síðustu ár höfum við séð umbyltingu í
svo mörgu, hvernig við hlustum á tónlist, horfum á sjónvarp og
pöntum okkur gistingu, svo eitthvað sé nefnt, en ég held við séum
bara á toppnum á ísjakanum. Við eigum eftir að sjá enn meiri um-
byltingu og þáttur gervigreindar, sýndarveruleika, blockchain-
tækninnar, notkun gagna og internet hlutanna (IoT) mun spila stóra
rullu í þeim viðskiptahugmyndum og þjónustu sem verða til á næstu
árum. Þessi tækni er tilbúin til notkunar og nú eru stór og lítil fyrir-
tæki að vinna í því að búa til þjónustu ofan á þessa tækni. Á næstu
10 árum munum við sjá veldisvöxt í tækniþróun – nýsköpunarmögu-
leikarnir eru gríðarlegir. Ég vil sjá okkur hér á landi taka þátt í þess-
ari tækniþróun og nýta m.a. okkar styrkleika í sjávarútvegstækni,
heilbrigðistækni, tölvuleikjaframleiðslu, beislun jarðvarmaorku
o.s.frv. til að skapa hér fleiri stöndug og góð fyrirtæki sem skapa
verðmæti úr hugviti og nýsköpun. Á næstu árum mun það skipta
máli hver er fljótastur af stað með lausnirnar en ekki hver er stærst-
ur, nýsköpun og markaðsmál þurfa að haldast í hendur og hið hefð-
bundna skipulag fyrirtækja (hierarchy) er á undanhaldi. Það hefur
aldrei verið eins mikilvægt og nú að við kennum börnunum okkar að
leysa flókin verkefni, að vinna saman og að vera skapandi og um-
bylting á menntakerfinu verður óumflúin ef við ætlum að taka þátt í
þessu nýsköpunar- og tækniævintýri sem framundan er og gera Ís-
land að nýsköpunarlandi.
Ragnheiður H. Magnúsdóttir
er stjórnandi hjá Marel, formaður Hugverkaráðs SI, formaður tækninefndar
Vísinda- og tækniráðs og varaformaður Tækniþróunarsjóðs.
Í stóra samhenginu liggur beinast við að nefna þá tæknibyltingu sem nú
er hafin og felst fyrst og fremst í aukinni nýtingu gervigreindar. Þó tæknin
sé undirliggjandi kraftur þessara breytinga munu umskiptin sem fylgja
jafnframt krefjast þess að við endurhugsum margt í okkar umhverfi frá
öllum mögulegum sjónarhornum sem tengjast hversdagslífi, menntun,
viðskiptum og stjórnmálum svo eitthvað sé nefnt. Byltingin býður upp á
gríðarleg tækifæri, en verður á sama tíma krefjandi, þar sem hún mun
hafa áhrif á nánast alla þætti lífs okkar og samfélagsgerð. Stærsta áskor-
unin er þó umhverfismálin og enn óljóst hvernig breyingarnar munu
orka á þennan grunnþátt jarðarbúa. Með öðrum orðum, til þess að vel
takist til þarf að huga að fleiru en tækninni einni saman, s.s. siðferði-
legum, lögfræðilegum, félagslegum og hagrænum þáttum mannlífsins.
Ég tel að þessar breytingar séu líklegar til að hafa áhrif á viðhorf okkar til
skiptingar á efnislegum gæðum og að hversu miklu marki slík skipting
skuli byggja á framleiðslu hvers einstaklings. Samspil siðferðis og
tækniþróunar verður í þessu sambandi mál málanna. Sem dæmi má
nefna að viðhorf til dýravelferðar eru að breytast mikið og byltingar-
kenndar leiðir til framleiðslu á dýraafurðum gætu haft mikið að segja á
næstu árum. Í raun er vandfundinn sá geiri samfélagsins sem ekki verð-
ur snortinn af þessu samspili tækni og hugarfars sem blasir við. Ef til vill
verður stærsta hindrunin tregðan við breytingar og glíma við gömul við-
horf.
Tinna Laufey Ásgeirsdóttir
er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Það er áhugavert að kynna sér hve hratt heimurinn breytist. Á hverjum
degi bætast um 260.000 einstaklingar við mannkynið og nú erum við
rúmlega 7,5 milljarðar að tölu. Á árinu sem er að líða bættust rúmlega 80
milljónir manna við. Fram til 2030 fjölgar jarðarbúum um milljarð.
Á meðan þetta er að gerast stöndum við í miðjum straumhvörfum.
Breytingin er hljóðlát og við veitum henni litla athygli í okkar daglega lífi
þar sem tíminn líður bara eins og venjulega.
Breytingin felst í því að samhliða fjölgun mannkyns tekst hundruðum
milljóna manna á hverju ári að brjótast frá fátækt til bjargálna. Á næsta
áratug mun þessi þróun halda áfram og verða kraftmeiri en nokkru sinni
í sögunni.
Talið er að millistétt heimsins, sú sem ber uppi neysluna, hafi verið um
1,5 milljarðar um aldamótin. Fimmtán árum síðar hafði hún tvöfaldast og
hún mun tvöfaldast aftur fram til ársins 2030. Þá munu rúmir 6 milljarðar
manna, eða fjórum sinnum fleiri en um aldamótin, teljast til millistéttar
heimsins. Því er nú spáð að 9 af hverjum 10 sem bætast við næsta millj-
arð millistéttarinnar verði íbúar Asíu.
Áhrifin af þessum breytingum eru þegar gríðarleg en munu enn
aukast. Efnahagsleg miðja heimsins færist til austurs og verður komin
djúpt í Asíu áður en langt um líður. Öll okkar viðfangsefni litast af þess-
um umbrotum, allt frá umhverfismálum og viðskiptum til menntamála og
alþjóðasamskipta. Valdahlutföllin í heiminum taka stakkaskiptum.
Evrópa og Bandaríkin verða veigaminni en Asía eflist.
Það eru spennandi tímar breytinga fram undan. Hrein straumhvörf.
Tækifærin fyrir Ísland eru ómæld.
Erum við tilbúin?
Bjarni Benediktsson
er fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Hvað mun valda straumhvörfum í lífi okkar?
Hvenær verða straumhvörf í tilverunni? Þau geta orðið í lífi þjóða þeg-
ar náttúruhamfarir verða, efnahagshrun eða heilbrigðisvá. En straum-
hvörfin geta líka komið hægt og hljótt og án þess að við áttum okkur á
því. Þegar lögin um fæðingarorlof voru samþykkt þar sem gert var ráð
fyrir jafnri þátttöku mæðra og feðra við uppeldi barna sinna á fyrstu mán-
uðum urðu ákveðin straumhvörf í jafnréttisbaráttunni. Sama má segja
þegar stórátak var gert í leikskólamálum Reykjavíkurborgar í tíð Reykja-
víkurlistans sem hafði stórkostleg áhrif á aukningu atvinnuþátttöku
kvenna.
Svona straumhvörf geta látið lítið yfir sér í fyrstu en hafa þó oft varan-
legri áhrif en hin stóru utanaðkomandi áföll. En hvaða hljóðlátu byltingar
gætu átt sér stað á næstu misserum og árum sem gætu valdið straum-
hvörfum í lífi okkar? Nærtækast er kannski að nefna tæknibyltinguna
sem nú gengur yfir og hefur þegar breytt því hvernig við eigum sam-
skipti. Sjálf fékk ég fyrsta netfangið mitt haustið 1996 eða fyrir 21 ári. Þá
taldi ég litla þörf á þessum samskiptamáta, til viðbótar við fastlínu-
símann og sendibréfin. Fyrir þennan tíma hringdu piltar í heimasímann
eftir skólaböll og lentu þá iðulega á föður mínum heitnum, sem gelti í
símann að þeir yrðu að tala hærra og skýrar. (Oft hringdu þeir ekki aftur
eftir þessa lífsreynslu.) Þeir ungu menn sem lifðu af þrekraun heimasím-
ans sendu kannski ástarbréf þegar þeir fóru í sumarfrí til útlanda, hand-
skrifaðar blaðsíður af fögrum ástarjátningum og fréttum frá Benidorm.
En nú er allt breytt. Ungt fólk venst því að eiga samskipti á klukkutíma
fresti við sinn heittelskaða. Jafnvel brenna ástarsamböndin hraðar upp
en áður sökum allra þeirra ólíku leiða sem ný tækni býður upp á til að
unnt sé að eiga samskipti. Tæknin hefur því þegar valdið straumhvörfum
á svo ótal mörgum sviðum og þau eiga eflaust eftir að verða meiri.
Katrín Jakobsdóttir
er forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.
Í Völuspá er sagt frá því hvernig heimurinn líður undir lok. Jötnarnir þyrp-
ast yfir Bifröst og eyða heimi guðanna. Á einu augnabliki er allt glatað.
Viljið þið vita meira? Nú stendur heimurinn einnig frammi fyrir ógn en
jötnarnir erum við sjálf. Við fórum ránshendi um heimsbyggðina í þrá
okkar eftir að koma ár okkar sem best fyrir borð. Náttúran verður aldrei
söm. Mannkynið hefur vitað furðulengi hvað veldur til dæmis loftslags-
vandanum og hvernig draga má úr honum. Ekki hafa leiðtogar heimsins
þó fyrr sest að fundarborðinu til að ræða hvernig við getum öll lagst
saman á árar til að stemma stigu við vandanum en einhver þeirra
ákveður að stökkva frá borði.
Loftslagsmálin hafa svo sannarlega nú þegar valdið straumhvörfum í
lífi okkar. „Fullt að gerast, ég bara nenni ekki að tala um það,“ kvað
skáldið Hr. Hnetusmjör og mikið sem þessar fréttir geta íþyngt okkur.
Best að segja sem minnst um þær.
Það sem helst gæti breytt tilveru okkar væri samkenndin. Að við hætt-
um að hugsa aðeins um eigin hag, bæjarfélags okkar eða þjóðar, og
veltum þess í stað fyrir okkur hvað sé best fyrir heiminn allan og þau
sem á eftir okkur koma. „Ísland fékk lofið lengi / ljótt hér þó margt til
gengi,“ kvað annað skáld, Bjarni Jónsson, í Aldasöng. Við Íslendingar
getum ekki lengi falið okkur á bak við hvað við erum vanmegnug þjóð.
Okkur ber að sýna ábyrgð.
Í lok Völuspár er gefin von um að eftir ósköpin blómstri jörðin á nýjan
leik og ósánir akrar vaxa. Guðirnir snúa aftur en þó eru aðeins þeir Höð-
ur og Baldur nefndir á nafn. Að tveir karlar manni jörðina á nýjan leik?
Kvenmannslausir í kulda og trekki? Pínu spes.
Gerður Kristný
er skáld.
Það er auðvitað svo ótal margt sem getur umturnað öllu. Málglöð og
missnjöll heimilistæki, sem fúlsa við íslensku og öðrum ördvergatung-
um, ofurgáfaðar vélar sem hneppa okkur í enn eina ánauðina, litlir menn
í stórum löndum með mikil völd og skamma sýn, plastfyllt hlýnandi höf,
allsherjar bananaskortur, uppblásnar rafmyntir, snjallvæðing eldri borg-
ara, bráðsmitandi áhugaleysi ferðamanna á Íslandi, blóðugt lokauppgjör
sykurfíkla og lífsstílssnappara, langþráður sigur haturs á húmor eða
bara hress loftsteinn sem á óvænt stefnumót við jörðina okkar.
Það sem mætti þó valda straumhvörfum — og ætti raunar fyrir löngu
að hafa gert það — er að allra þjóða, stétta og gerða karlpungar hætti að
haga sér eins og fífl. Það væri nú aldeilis eitthvað. Yfirburðir, forréttindi,
aflsmunur. Allt eru þetta tól í rembubúrinu sem mættu missa sín. Samúð,
skilningur og vænt dass af auðmýkt mættu koma þar í staðinn.
En þetta kollvarpar sér ekki sjálft. Til þess þarf að hlusta, hugsa, skilja,
taka til sín og breyta. Halda sig á réttri braut og koma ekki svo mikið sem
nálægt gömlu hjólförunum aftur. Og þetta er ekkert bévítans langhlaup.
Það þarf enginn að bíða og sjá til. Þetta á að gerast strax.
Þá og aðeins þá getum við tekist á við allt hitt. Í sameiningu. Virðing
og traust eru ekki innpökkuð hugtök sem við getum gengið að vísum
uppi í skáp eins og flögusalti og hörfræjum. Við þurfum að hafa fyrir
þeim. Við þurfum að eiga þau skilið.
Og það væri voða gott að klára þetta frá áður en vélarnar taka yfir.
Bragi Valdimar Skúlason
er íslensku-, auglýsinga-, tónlistar- og karlmaður.