Morgunblaðið - 29.12.2017, Page 74
74 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 29.12. 2017
Óhætt er að segja að sprenging hafi orðið í fram-
boði á íslenskum verkum á árinu sem senn er að
líða. Af þeim 36 leiksýningum, eftir 109 höfunda,
sem undirrituð sá frá desemberlokum í fyrra
fram í miðjan desember í ár í Borgarleikhúsinu,
Elliðaárdalnum, Iðnó, Mengi, Tjarnarbíói og
Þjóðleikhúsinu voru 25 íslensk verk eða tæplega
70% allra sýninga, samanborið við 58% í fyrra
(þegar sýnd voru 22 íslensk verk, þar af 17 ný)
og 64% árið 2015 (þegar sýnd voru 20 íslensk
verk, þar af 15 ný). Af fyrrnefndum 25 verkum
ársins var 21 nýtt íslenskt leikrit, þrjár leik-
gerðir og eitt áður ósýnt verk frá seinni hluta
síðustu aldar. Íslensku verkin voru í reynd eilítið
fleiri, en hér er aðeins miðað við þau sem grein-
arhöfundur sá á sviði. Á síðustu fimm árum hef-
ur rýnir reynt að sjá allar uppfærslur
atvinnuleikhúsa og -hópa á höfuðborgarsvæðinu
og á þeim tíma hafa íslensku verkin aldrei verið
fleiri en í ár. Sé litið á erlendu verkin var í ár boð-
ið upp á átta ný eða nýleg leikrit, tvö klassísk
verk og eitt tónleikhúsverk.
Birtingarmynd valda og valdaleysis
Þegar kemur að því að meta leikhúsárið 2017 er
ekki hægt annað en að taka með í reikninginn þá
miklu samfélagsbyltingu sem fram fór undir
merkjum #metoo. Konur á ólíkum sviðum sam-
félagsins öðluðust loks hugrekki og styrk í krafti
fjöldans til að greina frá reynslu sinni af kynferð-
islegri áreitni og ofbeldi. Konur í sviðslistum og
kvikmyndagerð hérlendis voru þar engin und-
antekning og deildu reynslu sinni innan brans-
ans fyrst í lokuðum Facebook-hópi og síðan á
vefnum tjaldidfellur.com.
Kynferðisleg áreitni og ofbeldi er ein alvarleg-
asta birtingarmynd valda og valdaleysis, þar
sem gerandi í krafti stöðu sinnar og valda telur
sig geta misboðið valdalausum þolanda. Í ljósi
þess hversu karllægur valdastrúktur leikhús-
heimsins er (sem og samfélagsins alls) skiptir
höfuðmáli að bæta stöðu kvenna eigi að vera
hægt að vinna bug á þessari meinsemd. Innan
leikhússins er það helst gert með því að fjölga
konum í stjórnendastöðum til jafns við karla,
fjölga kvenleikstjórum þannig að konur leikstýri
til jafns við karla, fjölga kvenleikskáldum þannig
að verk kvenna séu sviðsett til jafns við karla,
segja sögur kvenna og bjóða leikkonum þrívíð og
krefjandi burðarhlutverk.
Kynin leikstýra nánast til jafns
Á þessum vettvangi fyrir ári fagnaði undirrituð
því að konum hafði fjölgað bæði í hópi leikstjóra
og leikskálda milli ára. Árið 2015 var 34% leik-
sýninga leikstýrt af konum, hlutfallið hækkaði í
42% í fyrra og aftur í 47% í ár, sem er ánægju-
efni og í samræmi við yfirlýsingar leikhússtjóra
á umliðnum misserum.
Staðan er því miður ekki jafn gleðileg þegar
kemur að kynjahlutföllum leikskálda. Árið 2015
byggðust aðeins 19% leiksýninga á leiktextum
einvörðungu eftir konur. Í fyrra fór hlutfallið
upp í 40% en hrapaði á þessu ári niður í 28% á
sama tíma og 47% leiksýninga í ár byggðust ein-
vörðungu á leiktextum eftir karla. Þess ber að
geta að 25% leiksýninganna í ár (alls níu upp-
færslur) byggðust á leiktextum eftir bæði kyn og
var kynjaskiptingin nánast jöfn í hópi 61 höf-
undar. Alls voru 20 sýningar í ár með fleiri en
einn höfund, allt frá tveimur upp í 24.
Sé hlutfall kynja í hópi leikstjóra og leikskálda
skoðað eftir sýningarstað má sjá að hjá bæði
Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu voru karlar
um 60% leikstjóra og konur um 40%. Hlutfallið
snerist hins vegar við í uppfærslum sjálfstæðra
leikhópa og skýrist það sennilega af því að kven-
leikstjórar eiga almennt auðveldara með að
skapa sér sín eigin tækifæri innan sjálfstæða
geirans. Hjá Borgarleikhúsinu byggðust rúm
45% leiksýninga á textum karla, rúm 27% á text-
um kvenna og líka rúm 27% á textum eftir bæði
kyn. Hjá Þjóðleikhúsinu byggðust rúmlega 58%
leiksýninga á textum karla, tæp 17% á textum
kvenna og 25% á textum eftir bæði kyn. Hjá
sjálfstæðum leikhópum var hlutfall leiktexta eft-
ir eingöngu karla eða konur hnífjafnt eða 38,5% í
báðum hópum en 23% leiksýninga byggðust á
textum eftir bæði kyn.
En hvaða sögur var svo verið að segja á árinu
og hvað stóð upp úr? Hápunkturinn var án efa
uppfærsla Vesturports í samstarfi við Borgar-
leikhúsið á Elly eftir Ólaf Egil Egilsson og Gísla
Örn Garðarsson í leikstjórn þess síðarnefnda.
Hér var sögð saga sterkrar og áhrifamikillar
listakonu sem bugaðist ekki þrátt fyrir það of-
beldi sem hún var beitt og tókst að fóta sig í karl-
lægum heimi á tímum þar sem dægurlaga-
söngkonur voru stimplaðar sem gleðikonur.
Katrín Halldóra Sigurðardóttir geislaði í hlut-
verki Ellyjar og bauð áhorfendum í ævintýra-
legan tilfinningarússíbana þar sem grátið var
með öðru auganu og hlegið með hinu. Snjallt
handrit verksins þar sem tónlistin og textarnir
sem Elly var fræg fyrir voru notaðir til að miðla
ævi hennar hefði sannarlega átt skilið Grímu-
tilnefningu og óskiljanlegt er einnig að leikstjór-
inn hafi ekki verið tilnefndur fyrir leikhúsgaldur
sinn.
Önnur töfrandi en mjög ólík þroskasaga birt-
ist í barna- og brúðusýningunni Á eigin fótum
eftir Leikhópinn Miðnætti og Lost Watch
Theatre Company í leikstjórn Agnesar Wild sem
sýnd var í Tjarnarbíói. Þar gladdi auga jafnt sem
hjarta reynsla hinnar forvitnu og lífsglöðu Ninnu
af því að vera send í sveit fjarri fjölskyldunni að-
eins sex ára gömul.
Anna Bergljót Thorarensen sýndi enn og
sannaði hversu hugmyndarík hún er sem bæði
leikskáld og leikstjóri í uppsetningu Leikhópsins
Lottu á Ljóta andarunganum sem sýnd var und-
ir berum himni víðs vegar um landið. Boðskap-
urinn um þrautseigju, þolinmæði, hugrekki,
hjartagæsku og fyrirgefningu átti svo sann-
arlega erindi við alla óháð aldri og kyni.
Meðvirkni og leyndarhyggja
Margar af áhrifaríkustu uppfærslum ársins voru
ýmist pólitískar eða krufðu mannleg samskipti
til mergjar – nema hvort tveggja væri. Ein
þeirra var uppfærsla leikhópsins Elefant í sam-
starfi við Þjóðleikhúsið á Pulitzer-verð-
launaleikritinu Smán eftir Ayad Akhtar í leik-
stjórn Þorsteins Bachmann. Hér var fjallað af
innsæi og góðu næmi um fjölmenningarsam-
félagið þar sem nánast er óumflýjanlegt að fólk
sé dæmt á forsendum útlits, menningarlegs bak-
grunns og uppruna.
Leikfélagið Fljúgandi fiskar bauð upp á
spennandi uppfærslu á Andaðu eftir Duncan
Macmillan í Iðnó sem fangaði ekki aðeins tíðar-
andann í umræðu um kolefnisspor okkar og
hvort siðferðislega rétt sé að fjölga mannkyni
heldur dró upp áhugaverða mynd af flóknu sam-
bandi karls og konu þar sem til skoðunar var
traust, kynlíf og áhrif klámvæðingarinnar á sam-
skipti kynjanna. Samleikurinn var einstaklega
góður undir stjórn Þóreyjar Sigþórsdóttur, sem
að ósekju hefði mátt hljóta tilnefningu til Grím-
unnar fyrir fágaða og úthugsaða leikstjórn.
Tyrfingur Tyrfingsson beindi sem fyrr sjón-
um að flókinni dýnamík ofbeldissambanda í
kraftmikilli og ögrandi uppfærslu Borgarleik-
hússins á Kartöfluætunum í hugvitssamlegri
leikstjórn Ólafs Egils Ólafssonar. Meðvirkni,
stjórnsemi og leyndarhyggja voru áberandi
leiðarstef í þéttofnum efnivið Tyrfings, sem hann
matreiddi með sótsvörtum húmor laus við alla
pólitíska rétthugsun.
Þorleifur Örn Arnarsson hélt áfram að kryfja
samfélagið og samtímann í tveimur býsna ólík-
um sýningum á árinu, Álfahöllinni í Þjóðleikhús-
inu sem hann samdi í samvinnu við á þriðja tug
listamanna og Guð blessi Ísland í Borgar-
leikhúsinu sem hann samdi með Mikael Torfa-
syni. Líkt og í fyrri sýningum Þorleifs einkennd-
ist fagurfræðin af ofgnótt og á köflum óreiðu.
Báðar sýningar bjuggu yfir ákveðnum léttleika
og talsverðum húmor þó undirtónninn væri
þungur og markvisst verið að lyfta upp spegli
fyrir áhorfendur að skoða sig í. Brynhildur Guð-
jónsdóttir fór á kostum sem Davíð Oddsson í
Guð blessi Ísland og hafði kæki jafnt sem mál-
snið fyrirmyndar fullkomlega á valdi sínu án
þess nokkurn tímann að skopstæla.
Annar leikari sem sýndi stjörnuleik á árinu
var Eggert Þorleifsson sem André í uppfærslu
Þjóðleikhússins á verðlaunaverkinu Föðurnum
eftir Florian Zeller í leikstjórn Kristínar
Jóhannesdóttur. Eggert miðlaði af miklu næmi
hroka jafnt sem berskjöldun gamla mannsins
meðan tilvera hans leystist smám saman upp.
Leikhópurinn Sómi þjóðar velti upp þörfum
spurningum um einmanaleikann, hvar og hvern-
ig nánd geti skapast og muninn á sýnd og reynd í
SOL eftir Hilmi Jensson og Tryggva Gunnars-
son í leikstjórn þess síðarnefnda í Tjarnarbíói. Á
sama stað var einnig sýnt tónleikhúsverkið A
Thousand Tongues eftir Nini Juliu Bang í leik-
stjórn Samönthu Shay sem reyndist óvæntur
fengur. Bang framdi magnaðan seið á sviðinu
með samspili raddar, ljóss og vatns. Túlkun
hennar á „Sofðu, unga ástin mín“ þar sem sker-
andi sársaukavein fleyguðu sönginn verður lengi
í minnum höfð.
Ljósmynd/Grímur Bjarnason
Katrín Halldóra Sigurðar-
dóttir var mögnuð Elly.
Ljósmynd/Grímur Bjarnason
Eggert Þorleifsson fór á kost-
um sem André í Föðurnum.
Ljósmynd/Hörður Sveinsson
Hvaða raddir heyrast?
Ekki er hægt að skrifa um leikhúsárið 2017 án þess að horfa til samfélagsbyltingarinnar undir merkjum #metoo. Hlutfall
kynja í hópi leikstjóra nálgast það að vera jafnt á árinu en mun færri sýningar byggðar á leiktextum kvenna rata á svið.
SILJA BJÖRK HULDUDÓTTIR
hefur starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá
árinu 2003. Hún er BA í heimspeki og MA í
bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Silja hefur
víðtæka reynslu á sviði leiklistar og er annar tveggja
leiklistargagnrýnenda Morgunblaðsins.
Staðan er því miður ekki jafn gleðileg þegar
kemur að kynjahlutföllum leikskálda. Árið
2015 byggðust aðeins 19% leiksýninga á
leiktextum einvörðungu eftir konur. Í fyrra fór hlut-
fallið upp í 40% en hrapaði á þessu ári niður í 28%.
SPRENGING Í FRAMBOÐI Á ÍSLENSKUM VERKUM Á ÁRINU
’’
TU
RN
ING POINTS | TÍM
A
M
Ó
T
|
2018
|TURNINGPOIN
TS
|T
ÍM
A
M
Ó
T
|
20
18
|
Sigrún Edda Björnsdóttir sem hin
margræða Lísa í Kartöfluætunum.