Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.01.2018, Blaðsíða 4
Lestarslys í hægri endursýningu
Um fátt var meira rætt í fjölmiðlum síð-sumars í fyrra en tvö sjálfsvíg á geð-deild Landspítalans með stuttu milli-
bili. Meðal þeirra sem fylgdust grannt með
umræðunni var Ferdinand Jónsson geðlæknir
enda benda rannsóknir til þess að mikil um-
fjöllun um sjálfsvíg geti haft afdrifaríkar af-
leiðingar, einkum ef hún er óvarleg, og jafnvel
ýtt fólki sem komið er á ystu nöf í sínu lífi fram
af bjargbrúninni.
„Ég verð að viðurkenna að þessi umræða olli
mér áhyggjum. Svona mikil umræða getur
komið róti á fólk með sjálfsvígshugsanir og
þess vegna verður að stíga varlega til jarðar.
Ég skil vel að tvö sjálfsvíg á geðdeild þyki
fréttnæm en ekki er sama hvernig um málið er
fjallað,“ segir Ferdinand.
Orðið „þöggun“ ber með sér neikvæða
merkingu en eigi að síður segir Ferdinand
stundum betra að þegja en tala. Alltént stilla
máli sínu í hóf. Hann nefnir í því sambandi her-
ferð sem staðið var fyrir í Vínarborg á níunda
áratugnum, þar sem fjölmiðlar sammæltust
um að fjalla ekki um sjálfsvíg í undirheimum
borgarinnar. Leiddi það, að sögn Ferdinands,
til 80% fækkunar sjálfsvíga. Hann tilgreinir
einnig frægan sjónvarpsþátt um sjálfsvíg í
Þýskalandi sem varð til þess að tíðni sjálfsvíga
rauk upp. Til að reyna á orsakasamhengið var
þátturinn endursýndur einhverjum misserum
síðar með sömu afleiðingum. Ferdinand tekur
fram að þessar rannsóknir séu ekki skotheldar
en margt bendi þó til orsakatengsla. „Það eru
um fimmtíu rannsóknir á heimsvísu sem sýna
þessi tengsl og margir í þjóðfélaginu vita af
þessu, eins og til dæmis prestar og rannsókn-
arlögreglumenn. Af þeim sökum fara margar
þjóðir mjög varlega í þessa umræðu.“
Ferdinand mun fjalla um þetta og fleira í er-
indi sínu, Fjölmiðlar og geðheilsan, á Lækna-
dögum í Hörpu á miðvikudaginn. Hann hefur
búið og starfað í Bretlandi undanfarna tvo ára-
tugi og mun tala út frá breskum veruleika en
einnig íslenskum en hann hefur alla tíð fylgst
vel með hér heima líka. Hann starfar sem yfir-
læknir samfélagsgeðlækningateymis ytra og
vinnur mikið með heimilislausum.
Ferdinand segir breska fjölmiðla og fjöl-
miðla á Norðurlöndum annars staðar en á Ís-
landi vera með skýra verklagsferla þegar kem-
ur að umfjöllun um sjálfsvíg, sem byggist á
samtali við geðheilbrigðiskerfið. Svona gerum
við og svona gerum við ekki! Hann veit ekki til
þess að íslenskir fjölmiðlar búi að slíkum ferl-
um en hvetur þá eindregið til að koma sér þeim
upp. Þessa verklagsferla megi einnig taka upp
frá öðrum þjóðum.
Var mjög áhyggjufullur
„Síðasta sumar hvatti ég kollega mína heima
til að tala við fjölmiðla og biðja þá að draga úr
umfjöllun sinni; það væri svo mikið í húfi.
Svona mikil umræða getur verið stórhættuleg
og þetta var eins og að horfa á lestarslys í
hægri endursýningu. Tortryggni milli fjöl-
miðla og geðheilbrigðiskerfisins virtist mér
koma sterkt fram. Við mennirnir erum félags-
verur og alltaf einhverjir hópar í þjóðfélaginu
sem líður illa og eru nálægt bjargbrúninni.
Þetta getur orðið til þess að einhverjir hnikast
nær brúninni og mörgum getur skrikað fótur.
Sjálfsvíg snertir svo marga. Þeir sem fremja
sjálfsvíg telja á stundum að þeir séu að gera
sínum nánustu greiða en það er alrangt – sárs-
aukinn dreifist bara á fjölskyldu, vini og kunn-
ingja. Og situr þar oft fastur.“
Ferdinand er ekki í vafa um að íslenskir fjöl-
miðlar komi til með að sýna málflutningi hans
skilning. „Almennt séð þá er ég mjög hrifinn af
íslenskum fjölmiðlum; þeir hafa tekið mjög vel
á þeim hremmingum sem gengið hafa yfir ís-
lenskt samfélag undanfarin misseri og verið
harðari í umfjöllun sinni en þekktist áður. Það
örlar enn á reiði og vantrausti í samfélaginu og
fjölmiðlar hafa átt stóran þátt í þeirri nafla-
skoðun sem farið hefur fram í samfélaginu.“
Ferdinand tekur skýrt fram að málið snúist
alls ekki um yfirhylmingu eða að vernda lækna
og heilbrigðiskerfið almennt. Eins og alltaf
þegar fólk deyr innan veggja spítala þurfi að
fara fram ítarleg rannsókn og spyrja áleitinna
spurninga þegar sjúklingur fellur fyrir eigin
hendi. Rökin fyrir því að sú umræða fari ekki
fram í fjölmiðlum hafi þó verið tínd til hér að
framan – til að koma ekki róti á fólk á ystu nöf.
„Málið snýst ekki um yfirhylmingu eða
vernd heldur að stöðva óábyrga umræðu. Auð-
vitað má ræða þessa hluti og kalla fólk til
ábyrgðar. Mín skilaboð eru hins vegar þau að
stíga beri varlega til jarðar. Þegar allt kemur
til alls erum við Íslendingar ein stór fjölskylda,
óháð trúarbrögðum og stjórnmálaskoðunum;
það finnum við vel þegar eitthvað bjátar á. Við
eigum auðvelt með að skynja sársauka hvert
annars og það þurfum við muna þegar við fjöll-
um um viðkvæm mál eins og sjálfsvíg.“
Morgunblaðið/Golli
Ferdinand Jónsson geðlæknir segir umfjöllun um sjálfsvíg í fjölmiðlum afar vandmeðfarna og brýnt sé að fjölmiðlar komi sér
upp verklagsferlum í því sambandi enda bendi rannsóknir til þess að óvarleg umfjöllun geti ýtt veiku fólki fram af brúninni.
4 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14.1. 2018
Það er gömul
saga og ný að
við tökum bet-
ur eftir nei-
kvæðum frétt-
um en
jákvæðum. Því
er líklega erf-
itt að breyta
en Ferdinand
bendir á, að hægt sé að finna rétta
nálgun. Nefnir hann hryðjuverkin á
London Bridge, í hverfinu hans, í
fyrra en þá snerist umfjöllun fjöl-
miðla meira um hetjurnar sem
stöðvuðu ódæðismennina og komu
særðum til hjálpar en illvirkjana
sjálfa. Fyrir vikið varð umræðan
uppbyggileg í stað þess að snúast
um grimmd og ógn, eins og ódæð-
ismennirnir hefðu viljað.
Bretar hafa orðið fyrir
hryðjuverkum.
Ljósið í
myrkrinuRannsóknir hafa verið gerðar á umfjöllun
fjölmiðla um geðsjúkdóma erlendis og
segir Ferdinand fordóma iðulega helsta
þröskuldinn sem sjúklingar verða fyrir; al-
menningur oft og tíðum hafi mjög und-
arlegar hugmyndir um geðsjúkdóma. Sem
betur fer virðist það þó vera að breytast.
„Farið hefur verið yfir fjölmiðla og nið-
urstaðan er sú að í yfir 50% tilfella sé um-
ræða um geðsjúkdóma ennþá neikvæð.
Má þar nefna að geðsjúkir séu álitnir
hættulegir umhverfi sínu og þar fram eftir
götunum,“ segir Ferdinand.
Hann bætir þó við að þetta sé mismun-
andi eftir hópum; þannig hafi umfjöllun
um þunglyndi, geðhvarfasýki og átröskun
til dæmis mildast á umliðnum árum. Fjöl-
miðlar séu til dæmis í auknum mæli farnir
að ræða milliliðalaust við sjúklingana sem
sé til mikilla bóta enda eigi þeir að vera
miðlægir í umræðunni, þar sem enginn
þekki sjúkdómana betur en einmitt þeir.
Einnig hafi aðstandendur þeirra komið
sterkt fram. Á móti kemur að umfjöllun
um geðklofa og persónuleikaraskanir hafi
lítið sem ekkert breyst; þar ráði fordóm-
arnir ennþá ríkjum. „Brýnt er að beina
ljósinu að þessum hópum.“
Geðlæknar eru bundnir þagnarskyldu
gagnvart skjólstæðingum sínum og fyrir
vikið er stundum erfitt fyrir þá að tjá sig
við fjölmiðla. Ferdinand segir geðlækna
einnig vita að gagnvart þeim ríki tor-
tryggni og neikvæðni. „Sérstaklega eru
fordómarnir sterkir gegn lyfjunum, bless-
uðum. Heima búum við hins vegar svo vel
að eiga mjög vel máli farna geðlækna.“
Ferdinand segir umræðuna um geð-
sjúkdóma almennt fara batnandi á Íslandi.
Við eigum fjöldann allan af hetjum sem
stigið hafi fram fyrir skjöldu, sagt sína sögu
og rætt þessi mál af einlægni og innsæi.
„Smæðar okkar vegna getum við breyst
hraðar en stærri samfélög. Það höfum við
til dæmis séð í umræðunni um samkyn-
hneigð sem snúist hefur í 180°. Þetta er-
um við byrjuð að sjá í umræðunni um geð-
heilbrigði líka sem er mjög jákvætt.“
Fordómar helsti þröskuldurinn
’
Málið snýst ekki um yfirhylmingu eða vernd heldur að
stöðva óábyrga umræðu. Auðvitað má ræða þessa hluti og
kalla fólk til ábyrgðar. Mín skilaboð eru hins vegar þau að stíga
beri varlega til jarðar.
Ferdinand Jónsson geðlæknir.
INNLENT
ORRI PÁLL ORMARSSON
orri@mbl.is