Morgunblaðið - 12.04.2018, Qupperneq 47
UMRÆÐAN 47
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 12. APRÍL 2018
Síðustu mánuði hef-
ur #metoo byltingin
svo sannarlega umbylt
heiminum. Hver geir-
inn, hver hópurinn og
hvert landið á fætur
öðru hefur stigið fram
í krafti kvenna og
opinberað hversu al-
geng kynferðisleg
áreitni og valdbeiting
er. Þess vegna sitjum
við núna hjá FKA og
víðar, í verkefnahópum þar sem
frekari aðgerðir eru ræddar. Allt
snýst þetta um að kveða hegðun
fárra en frekra karla í kútinn. Við
ætlum að breyta þessu, þótt margt
sé ógert enn og mörg mál enn
óleyst og falin. Ég nefni sem dæmi
margar konur í viðskiptalífinu sem
eru enn fastar í fangelsi þagnar-
innar.
Það skýrist einfaldlega af því
karllæga umhverfi sem við störfum
í þar sem 92% forstjóra 400
stærstu fyrirtækjanna eru karl-
menn. Þeir eru þá yfirmenn eða
mikilvægir viðskiptavinir og birgj-
ar. Hagsmunir eru í húfi, svo sem
ótti við starfsmissi eða frekari
tækifæri til starfsframa. Svo ekki
sé talað um mikilvæg viðskipta-
sambönd eða samninga. Til að
skýra út þessa þögn, styðjumst við
því við þessar tölur sem liggja fyrir
og sýna hversu karllægt umhverfi
viðskiptalífsins er. En ekki allir eru
svo heppnir, að geta gripið í slík
hjálpargögn. Þannig eru margir
karlmenn fastir í þögn líka og það
vegna byltingarinnar #karl-
mennskan. Þar eru karlmenn að
stíga fram og vilja
uppræta fáránlega
staðalímynd karl-
mennskunnar.
Þetta er staðal-
ímynd sem er í senn
óeðlileg og óæskileg.
Samt er hún svo sterk
að nú hafa heilar kyn-
slóðir karlmanna trú-
að því að það sé veik-
leikamerki fyrir
karlmenn að gráta.
Hver man til dæmis
ekki eftir eftirfarandi
texta úr laginu ,,Geta
pabbar ekki grátið?“ með Helga
Björnssyni og SSSól:
Allir að dást að því hvað þú sért stór
og sterkur
kinka kolli og klappað hraustlega
á bak
ef þú svo dettur og meiðir þig máttu
ekki gráta
það er sko merki um dugleysi og
aumingjaskap.
Þarna er einmitt sungið um stað-
alímyndina sem #karlmennskan er
að benda á. Hún felur meðal annars
í sér að karlmönnum eigi almennt
ekki að líða illa. Þetta nær þá til
eðlilegra tilfinninga sem allir fara í
gegnum einhvern tímann: Að líða
illa, að gráta, að vera kvíðin, að
finna til óöryggis o.s.frv.
Einhverra hluta vegna, byrjar
samfélagið snemma að segja
drengjum að þeir eigi að vera sterk-
ari en svo að svona líðan komi upp
eða sé sýnileg. Fyrir vikið segja
þeir síður frá og fyrir vikið sjáum
við á tölum að sjálfsvíg karlmanna
eru margfalt fleiri en hjá konum.
Árið 2016, voru sjálfsvíg á Íslandi
40 talsins. Af þessum 40 sjálfs-
vígum, tóku 36 karlmenn sitt eigið
líf. Við erum því að tala um lífsins al-
vöru þegar við ræðum um #karl-
mennskan. Það skrýtna er að þegar
að við ræðum saman erum við flest
sammála um að staðalímyndin um
karlmennskuna er fáránleg.
Ég nefni nokkur dæmi: Það er
veikleikamerki fyrir karlmann að
gráta eða líða illa, samt á hann að
vera hæfur til að ræða tilfinningar
þegar kemur að ástvinum og fjöl-
skyldu (þetta er mótsögn). Karlmað-
urinn á að standa sig vel í vinnu og
starfsframa, helst að teljast betri
fyrirvinna en konan (þetta er úrelt).
Karlmennskan býður ekki upp á það
val að karlmaður geti ákveðið að
vera heimavinnandi, nema í mesta
lagi í fæðingarorlofi (þetta er órétt-
látt). Karlmaður á að þiggja við-
skiptatengd boð í laxveiði með karl-
mönnum (þetta er hallærislegt).
Karlmaður á að hafa meiri áhuga á
fótbolta en jóga (hvað kemur fótbolti
eða jóga kyni við?). Það væri auðvelt
að halda upptalningu áfram, bara til
að sýna hversu fáránleiki staðal-
ímyndunar um karlmennskuna er.
Ég vil þó frekar nýta tímann og
hvetja konur til að styðja við #karl-
mennskan. Hrósum þeim karl-
mönnum, sem þora að stíga fram og
hvetjum fleiri karlmenn til að ræða
hvað þeim finnst eða hvernig þeim
líður. Auðveldum þeim að segja: „Ég
vil ekki lengur þessa staðalímynd.
Mig langar að vera bara ég sjálfur.“
Mesta hindrunin þarna er nefnilega
ekki atvinnulífið eða viðskiptalífið,
eins og ég var að benda á í upphafi
greinar um konur sem enn búa í
þögn þrátt fyrir #metoo byltinguna.
Í tilfelli karlmanna, er stærsta
hindrunin í nærumhverfinu. Þetta
eru vinir og vandamenn, sem leyfa
karlmönnum ekki að hverfa frá stað-
alímyndinni. Ég bið því alla sem
þetta lesa, að líta í sinn eigin barm
og velta því fyrir sér hvort við séum
sjálf að viðhalda staðalímyndinni
með kvöðum á unga drengi eða karl-
menn í okkar umhverfi. Þar skiptir
miklu máli hvernig við orðum hlut-
ina. Segjum ekki lengur „hættu
þessu væli“ við unga drengi, heldur
veltum fyrir okkur hvaða afleiðingar
þessi skilaboð geta haft. Við erum öll
ábyrg því staðalímyndin varð til af
mannanna völdum. Ég hvet karl-
menn til frekari dáða með #karl-
mennskan og vel sem lokaorð texta
lagsins Vertu þú sjálfur með Helga
Björnssyni og SSSól:
Vertu þú sjálfur,
gerðu það sem þú vilt.
Vertu þú sjálfur,
eins og þú ert.
Láttu það flakka,
dansaðu í vindinum.
Faðmaðu heiminn,
elskaðu.
Farðu alla leið
Va-bam-a-lú-ma-ba-ba-bei
Farðu alla leið.
Allt til enda, alla leið.
#karlmennskan. Allt til enda, alla
leið.
#karlmennskan: Vertu þú sjálfur
Eftir Rakel
Sveinsdóttur » Þegar að við ræðum
saman erum við flest
sammála um að staðal-
ímyndin um karl-
mennskuna er fáránleg.
Rakel Sveinsdóttir
Höfundur er formaður Félags
kvenna í atvinnulífinu (FKA).
rakel@spyr.is
Móttaka að-
sendra greina
Morgunblaðið er vettvangur lifandi
umræðu í landinu og birtir aðsend-
ar greinar alla útgáfudaga.
Þeir sem vilja senda Morgun-
blaðinu greinar eru vinsamlega
beðnir að nota innsendikerfi blaðs-
ins. Kerfið er auðvelt í notkun og
tryggir öryggi í samskiptum milli
starfsfólks Morgunblaðsins og höf-
unda. Morgunblaðið birtir ekki
greinar sem einnig eru sendar á
aðra miðla.
Kerfið er aðgengilegt undir
Morgunblaðslógóinu efst í hægra
horni forsíðu mbl.is. Þegar smellt
er á lógóið birtist felligluggi þar
sem liðurinn „Senda inn grein“ er
valinn.
Í fyrsta skipti sem innsendi-
kerfið er notað þarf notandinn að
nýskrá sig inn í kerfið. Ítarlegar
leiðbeiningar fylgja hverju þrepi í
skráningarferlinu. Eftir að viðkom-
andi hefur skráð sig sem notanda í
kerfið er nóg að slá inn kennitölu
notanda og lykilorð til að opna
svæðið. Hægt er að senda greinar
allan sólarhringinn.
Nánari upplýsingar veitir starfs-
fólk Morgunblaðsins alla virka
daga í síma 569-1100 frá kl. 8-18.
Allt um
sjávarútveg
Hlauparar: Arnar Pétursson og
Hulda Guðný Kjartansdóttir.