Morgunblaðið - 15.06.2018, Qupperneq 27
MINNINGAR 27
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 15. JÚNÍ 2018
✝ Anna SigríðurLúðvíksdóttir
fæddist í Reykjavík
6. ágúst 1920. Hún
lést á hjúkrunar-
heimilinu Sóltúni
28. maí 2018.
Anna var dóttir
hjónanna Ástu
Jónsdóttur hús-
móður, f. 31. maí
1892, d. 16. júlí
1987 og Lúðvíks
Norðdals Davíðssonar læknis, f.
6. júlí 1895, d. 27. janúar 1955.
Systkini hennar voru Ingibjörg
Kristín Lúðvíksdóttir, f. 28. apr-
íl 1922, d. 2. júní 2016 og Þor-
valdur Lúðvíksson, f. 23. sept-
ember 1928, d. 2. apríl 2007.
Hinn 16. október 1943 giftist
Anna Ólafi Tryggvasyni lækni,
f. 11. október 1913, d. 20. júní
1993. Börn þeirra eru:
1) Lúðvík, læknir, f. 28. júlí
1944. Maki Hildur Viðarsdóttir,
læknir, f. 4. júní 1945. Börn
þeirra eru: 1a) Viðar, f. 15. des-
ember 1972. Maki Borghildur
Erlingsdóttir, f. 31. maí 1969.
Börn þeirra eru Viðar Snær,
Hildur Theodóra og Lúðvík
Orri. Dóttir Borghildar, stjúp-
dóttir Viðars, er Arnhildur
Anna Árnadóttir, faðir hennar
er Árni Hauksson. 1b) Anna, f. 4.
apríl 1975. Maki Oscar Mauricio
Uscategui, f. 18. maí 1975. Börn
þeirra eru Andri Mateo, Styrmir
Camilo og Matthildur María. 2)
Sigríður, lögfræðingur, f. 21.
október 1945. Maki Páll
Sigurðsson, lögfræðingur, f. 16.
ágúst 1944. Börn
þeirra eru:
2a) Anna Sigríð-
ur, f. 20. október
1979. Dóttir hennar
er Ísmey Myrra.
Faðir hennar er Ar-
on Bergmann
Magnússon, f. 25.
ágúst 1980.
2b) Ólafur, f. 31.
október 1981. Maki
Tanja Berglind
Hallvarðsdóttir, f. 20. október
1985. Dætur þeirra eru Hrafn-
hildur Mía og Helena. 3)
Tryggvi, bókasafnsfræðingur, f.
6. október 1946.
Anna ólst upp á Eyrarbakka
þar sem faðir hennar starfaði.
Hún stundaði nám við Verzl-
unarskóla Íslands og lauk þaðan
verzlunarprófi. Eftir að hún
gekk í hjónaband helgaði hún
sig heimilinu og húsmóðurstörf-
um. Þau hjónin bjuggu í Svíþjóð
í tvö ár meðan Ólafur stundaði
þar framhaldsnám í læknis-
fræði. Heim komin bjuggu þau
síðan alla tíð í Reykjavík. Anna
las mikið, saumaði út og var
áhugasamur bridsspilari og
keppti m.a. í þeirri íþrótt. Hún
var félagi í Oddfellowreglunni
og vann ýmis sjálfboðaliðastörf
á vegum Rauða krossins eftir að
börn hennar komust á legg.
Síðustu tæp þrjú ár dvaldi
Anna á hjúkrunarheimilinu Sól-
túni.
Útför hennar fer fram frá
Neskirkju í dag, 15. júní 2018,
klukkan 15.
Minning um móður
Er leit hún dag hin litla snót
leizt mönnum hún skýr og fljót.
Við umhverfinu anginn hló
opinmynnt, en tannlaus þó.
Á tíu árum tókst þó gná
tvöfalt sett í góminn fá,
margfaldaði þyngd og þrótt
og þannig liðu árin skjótt.
Námfús var og vel flest gekk,
vinamörg og laus við hrekk.
Tvítug er hún eins og blóm
með augun skær og bljúgan róm.
Stúlkunni skaut Amor að
ör, sem gekk í hjartastað.
Sá, er fann í vífi von,
var‘hann Ólafur Tryggvason.
Þau gengu’ í heilagt hjónaband
og hétu því að spila grand
og lifa í eining alla tíð
og eflast jafnt við sól sem hríð.
Kolann iðin voru við
að vinna þjóðarbúi lið
en eftir að börnin urðu þrjú
í angist stundi’ hún: Hættu nú!
Með bóndann sinn og börnin sæl
bar hún þrjátíu ár með stæl.
Við handavinnu og húsverk öll
halda mætti hún flytti fjöll.
Á fertugu næst frúin stóð
með funa í hjarta og augnaglóð,
farin þó að fitna smá
og fela hár, sem uxu grá.
En áfram tifar tíminn hratt
tugi fimm nú hefur kvatt,
feril góðan, farsæl ár
og fram undan er bjartur skjár.
Sextugt glæst við sjáum víf.
Svona var hún allt sitt líf.
Börnum sínum bezta skjól
og bóndans var hún skærust sól.
Tíu árum eftir það
enn er þessi kona að,
spilar bridds svo spræk og hress
og spinnur sér þar traustan sess.
En leiðin hafði líka grjót
og lá um tíma nið’rí mót
er elskaðan missti eiginmann,
sú und var stór í hennar rann’.
Hún bar þó áfram barr sitt vel
– það birtir ávallt eftir él –
sorgin dofnar, sárið grær,
söknuður verður minning kær.
Áttræð næst með stolti stóð,
það stafaði frá henni glóð.
Eins og rós við ungan meið
enn fór hún sitt blómaskeið.
Og áratugur annar leið,
nú ellin ekki lengur beið,
en lagðist grimm á þrek og þol
svo þreytan heltók aldinn bol.
Hreyfing öll varð hæg og sár,
þótt hugur væri áfram klár.
Og áfram bættust árin við,
unz að lokum hlaut hún frið.
Hún sigldi inn í sólarlag,
sátt við hvern sinn ævidag.
Megi nú hvíla móðir kær,
minning um hana er björt og skær.
Sigríður Ólafsdóttir
Haustið 1966 kom ég fyrst á
heimili Önnu og Ólafs sem áttu
eftir að verða tengdaforeldrar
mínir. Ég sá strax að Anna var
frábær húsmóðir. Allt var svo
hreint og fínt í kringum hana,
garðurinn vel hirtur, þvotturinn
skjannahvítur og maturinn full-
kominn. Hún var sjálf svo flott að
ég hélt alltaf að hún væri á leið í
boð! Ólafur kom heim í hádegis-
mat, smellti kossi á kinn sinnar
góðu og fallegu konu og kvaddi á
sama hátt. Þetta var fegurra
hjónaband en ég hafði ímyndað
mér að væri til. Ólafur dýrkaði
konu sína, varla er til sú ljósmynd
af þeim hjónum þar sem þau eru
ein eða með fleirum að hann horfi
ekki með aðdáun á sína. Hann var
hagmæltur, samdi fjölda ljóða um
lífið og tilveruna og mörg til konu
sinnar.
Ef ég mætti aftur lifa
ævi mína, vildi ég
með þér ungri ungur hefja
aðra för um sama veg.
Eigingjörn hún er að vísu
óskin mín á hendur þér
en glaður væri ef þú ættir
aðra slíka handa mér.
Þetta fallega ljóð orti hann á af-
mælisdegi Önnu árið 1983. Ólafur
lést tæpum 10 árum síðar og var
öllum harmdauði.
Vinahópur Önnu og Ólafs var
stór. Hún átti vinkonur frá Eyr-
arbakka, Verslunarskólanum,
Húsmæðraskólanum og Stokk-
hólmsárunum. Hún kynntist koll-
egum Ólafs og eiginkonum þeirra,
einnig góðum nágrönnum hvar
sem þau bjuggu. Allt urðu þetta
vinir þeirra. Þau voru gestrisin og
höfðingjar heim að sækja. Ófá
voru matarboðin fyrir fjölskyldu
og vini og jafnvel stórveislur fyrir
erlenda hópa á húðlæknaþingum.
Systkini Önnu og þeirra börn
voru henni kær og síðan voru það
auðvitað hennar eigin börn og
barnabörnin sem hún dýrkaði.
Seinna bættust langömmubörnin
tíu í hópinn sem hún var svo stolt
af. Hún var skemmtileg amma
sem spann sögur af mikilli list,
sögur sem gaman væri að eiga á
prenti. Sjálf las hún mikið, hafði
yndi af tónlist og dáði Stefán Ís-
landi.
Á miðjum aldri féll Anna fyrir
brids, náði hún á því svo góðum
tökum að hún komst á blað eins og
hún nefndi árangurinn. Síðast
spilaði hún við dóttur sína og
frænkur fyrir ári, því að hún hélt
vel sínu góða minni.
Meðal margra kosta tengda-
mömmu voru hugulsemi og
tryggð. Hún fór gjarnan í heim-
sóknir á sjúkrahús og hjúkrunar-
heimili. Hún bauð föður mínum oft
í mat, var í góðu sambandi við
móður mína, sendi bróður mínum
jólagjafir og tók vel á móti systra-
börnum mínum sem skottuðust
með mér í heimsóknir á Einimel-
inn í gamla daga. Hún var góð
tengdamóðir sem ég lærði margt
af. Hún fann aldrei að hjá mér,
hrósaði frekar.
Eftir fráfall Ólafs bjó Anna í
sinni fallegu íbúð á Grandavegin-
um þar til í ársbyrjun 2015, síð-
ustu árin með dyggri aðstoð barna
sinna. Hún fluttist á hjúkrunar-
heimilið Sóltún í ágúst sama ár.
Þar naut hún einstakrar um-
hyggju starfsfólksins og alúðar
sem og fjölskylda hennar öll.
Hvíl í friði elsku tengda-
mamma.
Hildur Viðarsdóttir.
Nú þegar amma Sissí er farin
eru það fyrst og fremst hlýjar
minningar um góða og fallega
ömmu sem fylla hugann. Þegar
við Viðar bróðir fengum að gista
hjá ömmu og afa á Einimelnum
var amma fljót að senda afa í
gestaherbergið svo að við krakk-
arnir fengjum nú örugglega besta
næturplássið og gætum kúrt und-
ir hlýrri sænginni hennar. Þar
sofnuðum við út frá spennandi
sögum hennar um börn sem
björguðu vængbrotnum fuglum
og lentu í alls kyns ævintýrum. Á
morgnana ilmaði húsið af ristuðu
franskbrauði með smjöri og ný-
löguðu tei. Amma hafði mikla
ánægju af því að fá okkur í heim-
sókn og naut þess seinna meir að
segja okkur frá prakkarastrikum
og systkinaerjum sem hún tókst á
við á þann hátt að ekki var annað
hægt en að fara sáttur frá borði.
Á morgnana klæddi amma sig í
nælonsokkabuxur og leikfimibol,
lagði handklæði á teppalagt stofu-
gólfið, bað okkur krakkana að fara
fram og loka dyrunum. Úr stof-
unni ómaði morgunleikfimin í út-
varpinu og amma gerði æfingarn-
ar sínar samviskusamlega. Við
systkinin vissum að þarna þurft-
um við að stilla okkur til þess að
trufla ekki ömmu, því þetta var
hennar stund. Restin af deginum
var tileinkuð okkur.
Mörgum árum síðar, löngu eftir
að afi dó og amma bjó þá ein á
Grandaveginum í íbúð fyrir eldri
borgara, heimsótti ég hana gjarn-
an á milli kennslustunda í háskól-
anum.
Ef amma vissi að ég ætlaði að
koma, lagði hún dúk á borð og dró
fram sparistellið, enda þótti ömmu
svo gaman að punta eins og hún
sagði stundum sjálf. Amma ristaði
þá franskbrauð, bar það fram með
smjöri og hellti upp á te. Eftir te-
sopann lagðist ég oft í sófann hjá
henni og varð aftur litla stelpan
sem hún sagði sögur. Oftar en
ekki sofnaði ég út frá róandi rödd
ömmu þar sem hún sagði frá löngu
liðnum tímum um stúlku og svo
unga konu sem átti sína drauma
og þrár. Það var ljóst að sumir
draumar rættust, en aðrir breytt-
ust í eftirsjá og söknuð.
Amma gerði sér grein fyrir því
að lífið er gjöf og þakkaði fyrir að
fá að eldast og sjá börnin, barna-
börn og barnabarnabörnin vaxa
úr grasi. „Ef Guð lofar“ var setn-
ing sem amma sagði gjarnan þeg-
ar rætt var um framtíðaráform og
stundum held ég að hún hafi kom-
ið sjálfri sér mest á óvart hvað hún
fékk að lifa lengi og við góða and-
lega heilsu.
Amma var alltaf svo glöð að sjá
fólkið sitt og þótt hún væri farin að
heyra illa undir það síðasta þá
virtist hún njóta þess að sjá af-
komendur og skyldmenni sitja hjá
henni og tala hvert við annað.
Amma hafði sérstakt lag á að
margkyssa mann á vangann bæði
þegar hún heilsaði og kvaddi. Í
dag kyssi ég mín eigin börn á
þennan hátt þegar ég vil að þau
finni sérstaklega vel hvað mér
þykir undurvænt um þau.
Það er margs að sakna nú þeg-
ar amma er farin, en ég veit að
hún var södd lífdaga og tilbúin að
kveðja þetta líf. Afi tekur á móti
henni með opinn faðminn, glaður
að sjá ástina sína aftur eftir lang-
an aðskilnað. Hvíl í friði elsku
amma.
Anna Lúðvíksdóttir.
Því fylgdi alltaf mikil tilhlökkun
þegar við systkinin fórum í pössun
til ömmu og Ólafs afa á Einimeln-
um. Klassískur heimilismatur var
á borðum á meðan hlustað var á
kvöldfréttir í útvarpinu, heima-
bakaðar smákökur í kvöldhress-
ingu og te og ristað brauð í morg-
unmat. Gamla stofuklukkan var
stöðvuð og amma bað Ólaf afa um
að sofa í gestaherberginu til að við
systkinin gætum sofið vært í
hjónarúminu þeirra, fjarri öllum
hrotum. Amma var sagnameistari
og það var munaður að sofna und-
ir frásögnum af músa- og fugla-
fjölskyldum þar sem afkvæmin
komust í hann krappann, en allt
fór vel að lokum.
Það var værð yfir heimilishald-
inu hjá ömmu og afa. Amma
klæddi sig í svartan leikfimi-sund-
bol og gerði æfingar á handklæði
við morgunleikfimina í útvarpinu.
Afi kom heim úr vinnu í hádeginu,
fékk heitan mat, hlustaði á út-
varpsfréttir og hallaði sér í hús-
bóndastól. Þau kenndu okkur að
kveðast á, afi las úr Íslendinga-
sögunum og borðaði smjör með
matskeið beint úr öskjunni. Þessi
augnablik, sem okkur þóttu sjálf-
sögð, eru nú einungis minningar
um ættlið sem er horfinn á braut.
Amma hafði stöðugar áhyggjur
af velferð sinna nánustu og
hringdi reglulega til að spyrja
frétta af heilsu fjölskyldumeðlima.
Hún fann sig líka knúna til að
hringja þegar varað var við snjó-
komu eða hálku í veðurfréttum og
ávann sér með því heitið „Amma
Reuter“. Þá voru sígild símtölin í
kjölfar þess að hún hafði heyrt í
sírenum og vildi kanna hvort eitt-
hvert okkar væri í sjúkrabílnum.
Amma gaf lítið fyrir athugasemdir
okkar um að það væri frekar ólík-
legt að sjúkrabíll sækti okkur í
Laugarneshverfið, en tæki krók
fram hjá Einimel á leiðinni á
bráðamóttökuna í Fossvogi.
Krúttleg símtöl, litlir hlutir, en
ómetanlegir í minningunni.
Amma ók ekki bíl frá því að ég
man eftir mér. Mér hefði raunar
þótt undarlegt ef svona fín frú
hefði ekki haft afa sem einkabíl-
stjóra. Mér er sagt að það megi
rekja til þess að á yngri árum hafi
amma komið akandi að umferðar-
skilti, sem gaf ökumönnum kost á
að fara til hægri eða vinstri, en
amma hafi ekki getað ákveðið sig
og því ekið á skiltið. Það hefði svo
sem ekki komið að sök nema
vegna þess að strætisvagn fullur
af fólki átti leið hjá strax eftir
óhappið. Það þótti ömmu ekki gott
og hún lét afa um aksturinn frá
þeim degi.
Amma var samt fljót að hugsa,
stundum þannig að maður hafði á
tilfinningunni að heilinn í henni
starfaði á tvöföldum hraða miðað
við okkur hin. Ólafur afi var afar
vel gefinn maður, en hann tók sér
hins vegar oft lengri tíma en
amma í að melta hlutina. Það var
algengt þegar einhver sagði
ömmu og afa sögu að afi velti að-
eins vöngum yfir því hvernig hitt
eða þetta hefði getað átt sér stað
og spurði spurninga. Þá sagði
amma gjarnan: „Æi, góði Ólafur
minn, ég skýri þetta út fyrir þér
þegar gestirnir eru farnir.“
Ég minnist ömmu sem yndis-
legrar og umhyggjusamrar konu
sem vildi allt fyrir barnabörnin sín
gera. Blessuð sé minning hennar.
Viðar Lúðvíksson.
Í dag kveðjum við yndislega
föðursystur okkar, Önnu Sigríði
Lúðvíksdóttur, eða Sissí eins og
hún var jafnan kölluð. Hún var
elsta barn hjónanna Ástu Jóns-
dóttur og Lúðvíks Norðdals Dav-
íðssonar læknis á Eyrarbakka,
síðar Selfossi. Systkini hennar
voru Ingibjörg Kristín, sem lést á
árinu 2016, og Þorvaldur faðir
okkar, sem var yngstur og lést á
árinu 2007. Systkinin voru mjög
náin og mikill samgangur á milli
fjölskyldna þeirra.
Sissí var okkur systkinunum af-
ar kær. Hún var falleg, söngelsk,
húmoristi, minnug, ættfróð, at-
hugul á umhverfi sitt og sagði
skemmtilega frá þannig að maður
sá ljóslifandi fyrir sér söguefnið.
Minningar um föðursystur okkar
eru eingöngu fallegar og ljúfar.
Einlægur áhugi hennar á velferð
okkar systkinanna skipti okkur
miklu og var okkur styrkur og
ætíð hafði hún okkur með í bæn-
um sínum. Þessa væntumþykju
hennar til fjölskyldu sinnar sýndi
hún á margan hátt, allt frá augna-
bliks viðmóti yfir í stórar veislur.
Hélt hún upp á öll stórafmæli sín
og þá bæði áttræðis- og níræðisaf-
mæli sitt. Fjölskyldan var henni
allt.
Sissí ólst upp á Eyrarbakka en
bjó sína búskapartíð í Reykjavík
með eiginmanni sínum Ólafi
Tryggvasyni húðsjúkdómalækni.
Sissí varð háöldruð. Hennar starf
var heimilið og fjölskyldan. Þá
sinnti hún um langt árabil ýmsum
störfum fyrir Rauða krossinn.
Sissí var fróð um margt, las mikið
og fylgdist vel með því sem var að
gerast í heiminum enda ferðuðust
þau Ólafur líklega meira en tíðk-
aðist hjá mörgum á þeim tíma.
Sissí var félagslynd og vina-
mörg enda skemmtileg og traust.
Hún var húsmæðraskólagengin
og tók upp á mörgu nýju bæði í
mat og drykk. Heimili þeirra
hjóna var fallegt og smekklegt og
þau hjón höfðingjar heim að
sækja.
Hjónaband Ólafs og Sissí var
traust og fallegt. Mörg innileg
ástarljóð orti Ólafur til hennar á
hjúskapartíma þeirra eins og
þessi tvö erindi í lengra ljóði sýna.
Þú varðst lífs míns leiðarstjarna,
lýsigull á myrkum degi.
Það var gæfa mín að mega
með þér heilsa nýjum degi.
Þú varst allt, sem þráð ég hafði.
Þú varst fylling vona minna.
Fegurð lífsins, lán og gleði
lá í bliki augna þinna.
(Ólafur Tryggvason)
Minning hennar lifir!
Hervör Lilja, Hrafnhildur Ásta,
Lúðvík, Ólafur Börkur og Þór-
hallur Haukur Þorvaldsbörn.
Sissí móðursystir var elst
þriggja systkina og hún fór síðast.
Öll áttu þau lokakafla sinn á Sól-
túni, góðum stað og notalegum,
sem starfsfólk bjó og virti sem
raunverulegt heimili þeirra sem
þar áttu skjól. Það var notalegt að
sækja Sissí heim í Sóltún, rétt eins
og á Grandaveg, þar sem móðir
mín og stjúpi höfðu einnig haldið
seinast heimili saman, á Einmel,
Tómasarhaga og þar áður í Máva-
hlíð 2. Man ég minnst eftir mér
þaðan en á þó myndir til vitnis um
að ég hafi kunnað jafnvel við mig
þar og á öðrum heimilum þeirra
Ólafs Tryggvasonar læknis. Þau
voru komin með börn sín þrjú á
Tómasarhaga 47 þegar við
mamma fluttum í bæinn. Ég fór
fimm ára einn í strætó snemma á
morgnana, hraðferð Vesturbær-
Austurbær, í pössun til Sissíar,
svo að mamma gæti stundað sína
vinnu. Og svo á kvöldin yfir
Grímsstaðaholtið, sem var dálítið
villt vestur á þeirri tíð, til að ná
vagni heim. Ólafur var ógleyman-
legur maður, traustur og áreiðan-
legur, nákvæmur, minnugur, fróð-
ur og skáldmæltur. En umfram
allt svo ástfanginn af konunni
sinni að það sást úr órafjarlægð og
dró síst úr með árunum. Sissí fór
alla tíð fyrir heimili þeirra af
myndarskap og reisn, svo ekki
varð betur gert. Börn þeirra hjóna
voru öðrum þræði eins og uppeld-
issystkini okkar Bjössa bróður.
Fjölskyldan hefur haldið vel og
þétt saman þótt fjölgað hafi í
hópnum enda lögðu þau Eyrar-
bakkasystkin þá línu. Ekki veit ég
hvort eitthvað sérstakt einkennir
okkur sem hóp. Helst væri það þá
sífelldur handþvottur okkar elsta
hluta fjölskyldunnar, sem Ásta
amma okkar, gamla læknisfrúin á
Eyrarbakka og Selfossi, brenndi
inn. Við höfðum það fyrir satt að
læsi Ásta Jónsdóttir um það í
Morgunblaðinu að pest væri kom-
in upp í Kína, þá legði hún þegar
frá sér blaðið og þvægi sér um
hendur.
Sissí var hreinleg og snyrtileg
svo nálgaðist fullkomnun og sló
upp veislu á sínu stórmyndarlega
heimili af minnsta tilefni og spar-
aði hvergi kræsingar. Hún setti
stundum upp spilakvöld fyrir okk-
ur frændur Lúðvík, Börk og
Steingrím Davíðsson og veislu-
borð voru þá dekkuð eins og í
meiriháttar fermingarveislu. Hún
lét okkur spila en fylgdist með,
þótt vafalaust væri að hún var
besti briddsspilarinn á staðnum.
Það var gaman að heimsækja
Sissí eina og tala um liðna tíma.
Það kom varla fyrir að sama efnið
væri til umræðu tvisvar og hvað
þá oftar. Atburðir úr samfélaginu
síðustu áratugina voru ræddir
eins og þeir væri efnið sem bæri
hæst núna. Fjöldi manna kom við
sögu og best leið henni frænku
minni ef hægt var að bregða
rómantísku ljósi yfir sumar sögu-
hetjurnar. En þó var jafnan gætt
mikillar varúðar og yrði söguþráð-
urinn viðkvæmur að hennar mati
þurfti mjög að geta í eyður, en þó
gæta alls hófs, því að fólk af henn-
ar kynslóð, og ekki síst það sem
var agað og kurteist eins og hún,
gat ekki verið þekkt fyrir að hafa
persónuleg mál annarra í flimting-
um.
Allt fram undir hið síðasta fóru
slík samtöl fram, eftirminnileg og
einstök. Í næstsíðasta skiptið sem
ég heimsótti hana var hún sofandi
þegar ég kom og ég vildi ekki
vekja og sat hjá henni stundar-
korn og rifjaði upp fyrir mig svo
margt sem ég var frænku minni
þakklátur fyrir. Þegar ég fór bað
ég vinsamlega stúlku fyrir kveðju
til hennar og sagðist ekki hafa vilj-
að vekja. „Það hefðirðu átt að
gera,“ sagði stúlkan. Síðasta
skiptið sem við hittumst staðfesti
Sissí þetta mat hennar. „Þú átt að
vekja mig. En hins vegar þarftu
ekki að standa lengi við eins og
komið er. Mér finnst ég ekki gefa
mikið af mér lengur. Mér er nóg
að sjá þá sem heimsækja mig og
spjalla stundarkorn.“ Fyrir svo
sem misseri sagði Sissí við mig að
nú væri hún ekki lengur viss um
að það væri til líf eftir dauðann.
Ég benti henni á að Lúðvík afi,
faðir hennar, læknirinn og vitmað-
urinn, hefði aldrei efast um þetta.
Hún brosti en sagði ekkert. Ég
þykist viss um að þessum vitnis-
burði myndi hún síðast hafna.
Og nú er hún farin, rétt að
verða 98 ára, og skilur eftir fagrar
og góðar minningar. Fari hún vel.
Við Ástríður þökkum henni ást,
vináttu og óteljandi gleðistundir.
Davíð Oddsson.
Anna Sigríður
Lúðvíksdóttir