Morgunblaðið - 07.07.2018, Side 22

Morgunblaðið - 07.07.2018, Side 22
22 UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 7. JÚLÍ 2018 Weleda er leiðandi vörumerki í sölu á lífrænum barnahúðvörum síðan 1921 ! Útsölustaðir: Apótek og heilsuverslanir. Netverslun: heimkaup.is, lyfja.is, heilsuhusid.is, baenduribaenum.is Since 1921 Ég ræddi við verkfræðing um daginn sem taldi sig vera betur læs-an á tölur en bókmenntir. Hann leiddi þó talið að Káinn (eðaK.N., Kristjáni N. Júlíusi, 1860-1936), Eyfirðingnum snjalla semyfirgaf ættlandið 18 ára og hélt vestur um haf. Verkfræðingur- inn greindi mér frá aðferð sem hann hafði beitt við börn sín: Þegar þau komu til hans í öngum sínum og áttu að skila ritgerð um „uppáhaldsskáldið“ sitt rétti hann þeim bók með kviðlingum Káins. Þau fóru að lesa, skrifuðu ritgerðina og ánetjuðust við það kveðskap og bókmenntum. Þau höfðu fundið hjá Káinn eitthvað við sitt hæfi enda úr mörgu að velja því að hann sló á marga og ólíka strengi með kímni og orðaleikjum, oft í bland við nap- urt háð, enda var honum ekkert heilagt. Eitt af því sem Káinn lét landa sína „gráta af kæti“ yfir var að sýna hvernig enskan í Vesturheimi var farin að smeygja sér inn í mál íslensku landnemanna. Í kvæðinu Bréf til Jónasar Hall kemur fram að ís- lenskur menningarviti sé kominn í heimsókn til Vesturheims og að hann hafi amast við ensku- slettum vesturfara: Heyri eg sagt hann hati enska heimsku prjálið og hengi þá sem „mixa“ málið. Skáldið fer í vörn enda er honum málið skylt og endar ljóðabréfið á orðunum „ég held það ætti’að hengj’ann líka“. Eftirfarandi kviðlingur heitir Nesjungurinn: Það fæddist maður í „Foolish“-nesi og fluttist þaðan að „Selfish“-nesi, nú er hann hér í „Holy“-nesi, en hefir verið á Langanesi. [Sbr. ensku orðin foolishness, holiness o.s.frv.] Þessi tegund af „mixi“ er ólíkt skemmtilegri en „mixið“ sem við heyrum hér heima þessi misserin. Vísan Fónið tengist misheyrn í síma í heimabyggðinni Garðar („fónið“ er augljóslega vestur-íslenska orðið yfir síma): Kom til Garðar kynleg frétt: að Káinn væri dáinn, þó var ekki þetta rétt, – það var bara páfinn. Það var semsagt „bara páf- inn“ [frb. páinn] sem var dáinn, ekki íslenski snillingurinn sem mokaði í ára- tugi flórinn í fjósi húsbænda sinna í Norður-Dakóta. Ein af fjósavísum Káins tengist einmitt heilagleik og kristni: Trúboðinn Jakob mormónapost- uli kom í fjósið til hans og flutti honum innblásinn boðskap sinn. Káinn sýndi honum víst lítinn áhuga því hann hélt áfram að moka flórinn. Þá krafði trúboðinn hann um að gera grein fyrir trú sinni fyrst hann dauf- heyrðist þannig við kenningu hans. Káinn svaraði: Kýrrassa tók eg trú, traust hefir reynst mér sú. Í flórnum því fæ eg að standa fyrir náð heilags anda. Endum á hinni alþekktu Nýju vögguvísu sem byrjar nógu innilega og endar á 5. boðorðinu: Farðu að sofa, blessað barnið smáa, brúkaðu ekki minnsta fjandans þráa. Haltu kjafti! Hlýddu og vertu góður! Heiðra skaltu föður þinn og móður. Niðurstaðan í dag: Fylgjum dæmi Brynjólfs Sigurðssonar verkfræðings og réttum börnunum Kviðlinga Káins. Þeir sem „mixa“ málið Tungutak Baldur Hafstað bhafstad@hi.is Fyrr á þessu ári kom út rúmlega 700 blað-síðna bók hjá bókaútgáfunni Sæmundi, semnefnist Stalín, ævi og aldurtili. Höfundurbókarinnar heitir Edvard Radzinskij og er þekktur leikritahöfundur og höfundur bóka um sagn- fræðileg málefni í Rússlandi. Þessi útgáfa er til- einkuð aldarafmæli rússnesku byltingarinnar og hef- ur Haukur Jóhannsson þýtt hana úr rússnesku. Þýðingin er augljóslega mjög vönduð. Fyrr á tíð voru hávær rifrildi um glæpaverk Stal- íns reglulegur þáttur í stjórnmáladeilum á Íslandi. Sameiningarflokkur alþýðu – Sósíalistaflokkurinn, var mun öflugri hér á Íslandi en áþekkir flokkar í öðrum löndum og Þjóðviljinn var sterkt málgagn þess flokks. Deilur um Stalín fóru fram á mörgum vígstöðvum, á Alþingi, í blöðunum, á stjórnmála- fundum og á leikvellinum við Laugarnesskólann, þar sem greinarhöfundur þekkti til. Við, andstæðingar kommúnista, útlistuðum glæpa- verk hans, málsvarar hans á Íslandi hófu hann til skýjanna. Nú þarf ekki að deila lengur um staðreyndir varð- andi Stalín. „Við“ reyndumst hafa haft rétt fyrir okk- ur að mestu leyti með einni undantekningu þó. And- stæðingar Sovétríkjanna á Vesturlöndum gerðu sér enga grein fyrir því á þeim tímum hvers konar óargadýr var á ferð og gekk undir nafninu Stalín. Nú hafa sagnfræðingar, ekki sízt meðal Rússa sjálfra, farið svo rækilega ofan í allar heimildir sem til eru, að ekki verður lengur deilt um það, sem gerðist í draumaríki sósíalismans. Og bók Radzinskijs er ein staðfesting þess. Hún byggist augljóslega á gífurlegri heimildarvinnu, bæði með lestri skjala, en ekki síður með samtölum við fólk og heimsóknum á sögustaði. Bókin lýsir slíkri andstyggð í mannlegum sam- skiptum og slíkum skepnuskap að með ólíkindum er. Það er ekki að ástæðulausu, að spurt er aftur og aft- ur í bókum um Sovétríkin og kvikmyndum, sem gerð- ar hafa verið um þetta tímabil, hvort þessi maður hafi gengið heill til skógar. Við lestur þessarar bókar birtist sú mynd að fyrst hafi Stalín fundið hjá sér þörf til, ýmist að drepa eða koma fyrir í þrælabúðum í Síberíu ýmsum nánustu ættingjum þeirra tveggja eiginkvenna, sem hann átti um ævina og spurningar hafa vaknað um lát þeirra beggja. Að einhverju leyti virðist ástæðan hafa verið sú, að útrýma yrði öllum, sem hugsanlega höfðu ein- hverja hugmynd um hvern mann hann hafði að geyma. En jafnhliða og fram að heimsstyrjöldinni síðari hófst hann handa um sams konar útrýmingu þeirra, sem hann hafði starfað mest með þannig að enginn var óhultur. Hann virðist skv. lýsingum í bók Radz- inskjis hafa notið þessa dauðastríðs fyrrverandi fé- laga sinna og oft notaði hann suma þeirra til að drepa aðra áður en hann lét drepa þá sjálfa. Svo kom að því skv. bókinni, að nánustu samstarfs- menn hans drápu hann sjálfan. Þar hafi komið við sögu Bería, Krúsjoff og Malenkov. Sumar heimildir telja að það sem hafi hvatt þá til dáða hafi verið óþægileg tilfinning, sem þeir hafi allir fengið um að Stalín væri að undirbúa nýjar hreinsanir innan Kommúnistaflokks Sovétríkjanna og þeim yrði sjálf- um komið fyrir kattarnef. Þegar saga þessa tímabils er lesin, hvort sem er um framvindu mála í Sovétríkjunum eða í Þriðja rík- inu verður ljóst og hefur lengi verið að það er ekki hægt að gera neinn mun á glæpaverkum Stalíns og Hitlers. Þeir eru af sama sauðahúsi, þótt Stalín hafi ekki sízt drepið þá sem næst honum stóðu í fjöl- skyldu eða flokki en Hitler gyðinga. Almennir borg- arar voru að sjálfsögðu fórnarlömb beggja. Lestur þessarar bókar vekur jafnframt upp ýmsar spurningar, sem snúa að okkar samfélagi. Það voru ekki bara fámennir hópar kommúnista, sem settu Stalín á stall í umræðum hér á Íslandi. Þar kom líka við sögu menningarelíta þeirra tíma á Íslandi, ekki sízt nokkrir af helztu rithöfundum þjóðar- innar. Um þennan þátt í menningar- sögu okkar samfélags á 20. öld hefur ekki verið fjallað að nokkru marki. Það þarf að gera. Þessa sögu þarf að skrifa. Hvers vegna létu þessir menn blekkjast? Eða vissu þeir meira en þeir vildu vera láta? Nú skal tekið skýrt fram að með þessu er ekki ver- ið að hvetja til pólitísks uppgjörs við liðna tíð. Matt- hías Johannessen kenndi okkur Birni Bjarnasyni það fyrir þremur áratugum að það væri ekki til farsældar fyrir einn eða neinn. En það þýðir ekki að það eigi að breiða yfir þenn- an þátt í okkar samtímasögu, eins og Spánverjar hafa gert varðandi borgarastríðið á Spáni og hefur leitt til þess að enn leitar fólk líkamsleifa ættingja sinna í fjöldagröfum hér og þar. Augljóst er að í Rússlandi sjálfu er mikill fjöldi fjölskyldna, sem á um sárt að binda eftir ógnarstjórn Stalíns og kommúnista. Enn er á lífi gamalt fólk, sem upplifði þessa atburði sem börn á eigin heimilum og er enn að segja frá og rifja þær sögur upp. Það mun þurfa margar nýjar kynslóðir til þess að þær sögur gleymist, ef þær þá gleymast yfirleitt. Það er athyglisvert að þessi útgáfa er styrkt af MÍR, Menningartengslum Íslands og Rússlands, sem sennilega eru sömu samtök og áður hétu Menningar- tengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna. Sú var tíðin að þau samtök hefðu ekki staðið að dreifingu slíkra upplýsinga um Stalín og er að finna í þessari bók. Kannski felst í stuðningi þeirra viðurkenning á mistökum fyrri tíma og þá fer vel á því. Óargadýr Bókin lýsir slíkri andstyggð í mannlegum samskiptum að með ólíkindum er. Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is Þegar ég fylgdist með heims-meistaramótinu í knattspyrnu 2018, rifjaðist upp fyrir mér sam- anburður, sem Ólafur Björnsson, hagfræðiprófessor og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði á hægri- og vinstristefnu á ráðstefnu Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, 18. mars 1961. Hægrimenn teldu, að ríkið ætti að gegna svipuðu hlut- verki og dómari og línuverðir í knattspyrnuleik. Það skyldi sjá um, að fylgt væri settum reglum, en leyfa einstaklingunum að öðru leyti að keppa að markmiðum sínum á sama velli. Vinstrimenn hugsuðu sér hins vegar ríkið eins og fóstru á dagheimili, sem ætti að annast um börnin, en um leið ráða yfir þeim. Alkunn hugmynd sænskra jafn- aðarmanna um „folkhemmet“ er af þeirri rót runnin. Auðvitað er hvorug líkingin full- komin. Lífið er um það frábrugðið knattspyrnuleik, að ekki geta allir verið íþróttakappar. Börn, gamal- menni, öryrkjar og sjúklingar þarfnast umönnunar, þótt búa megi svo um hnúta með sjúkratrygg- ingum og lífeyrissjóðum, að sumt geti þetta fólk greitt sjálft fyrir umönnun annarra. Hin líkingin er þó sýnu ófullkomnari. Með skipting- unni í fóstrur og börn er gert ráð fyrir, að einn hópur hafi yfir- burðaþekkingu, sem aðra vanti, svo að hann skuli stjórna og aðrir hlýða. Sú er hins vegar ekki reyndin í mannlegu samlífi, þar sem þekk- ingin dreifist á alla mennina. Vinstrimenn hafa því margir horfið frá hugmyndinni um ríkið sem barnfóstru. Þeir viðurkenna, að lífið sé miklu líkara knattspyrnuleik en barnaheimili. En þeir vilja ekki láta sér nægja eins og hægrimenn að jafna rétt allra til að keppa á vell- inum, heldur krefjast þess líka, að niðurstöður verði jafnaðar. Ef eitt lið skorar átta mörk og annað tvö, þá vilja vinstrimenn flytja þrjú mörk á milli, svo að fimm mörk séu skráð hjá báðum. Hægrimenn benda á það á móti, að þá dragi mjög úr hvatningunni til að leggja sig fram, jafnframt því sem upplýs- ingar glatast um, hverjir séu hæf- astir. Það er einmitt tilgangur sér- hverrar keppni að komast að því, hver skari fram úr hvar, svo að ólík- ir og misjafnir hæfileikar þeirra geti nýst sem best. Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar Hannes H. Gissurarson hannesgi@hi.is Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð Knattspyrnuleikur eða dagheimili?

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.