Morgunblaðið - 21.08.2018, Qupperneq 31
MENNING 31
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 21. ÁGÚST 2018
//////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////
///////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////
Nína Guðrún Geirsdóttir
ninag@mbl.is
Saxófónleikarinn Sölvi Kolbeinsson
og djasskvartett hans munu leika á
þremur tónleikum í Reykjavík í vik-
unni. Sölva ættu margir að kannast
við en hann er eitt helsta efni lands-
ins í saxófónleik og er nú búsettur í
Berlín þar sem hann stundar nám við
Jazz-Institut í Berlín. Djasskvartett-
inn er nýtt alþjóðlegt verkefni Sölva
sem sameinar tengsl hans við tónlist-
arsenuna á Íslandi og í Berlín. Með
Sölva koma fram píanóleikarinn
Mark Pringle frá Englandi og bassa-
leikarinn Felix Henkelhausen frá
Þýskalandi. Auk þeirra spilar Magn-
ús Trygvason Elíassen á trommur.
Sölvi kynnist þeim Mark og Felix í
Berlín fyrir þremur árum en þeir
stunda nám við sama skóla. „Við
byrjuðum eiginlega strax að spila
saman í mismunandi verkefnum.
Felix kom til landsins í fyrra og þá
spiluðum við saman á Djasshátíð
Reykjavíkur. Þessi kvartett sem er
að fara að spila saman núna hittist
svo í Berlín fyrir nokkrum mán-
uðum, sem var ótrúlega gaman,“
segir Sölvi og bætir við að erfitt hafi
reynst að finna tíma þar sem allir
voru lausir enda uppteknir tónlist-
armenn upp til hópa. „Þetta er
draumaband og ég er mjög glaður
með að okkur tókst að hóa okkur
saman.“
Gamall söngleikjadjass
Að sögn Sölva mun kvartettinn
leika sína uppáhalds djassstandarda
á tónleikunum og gera þá að sínum.
Mörg af lögunum koma úr banda-
rískum söngleikjum en þar má einn-
ig finna lög eftir þekkta djasstónlist-
armenn á við Duke Ellington og
Miles Davis. Sölvi segir söng-
leikjalög henti djassleik vel. Mel-
ódíurnar séu oft einfaldar og því auð-
velt að spinna út frá þeim.
„Söngleikirnir sem djassleikarar
sækja í eru í eldri kantinum, frá
tímabilinu 1930-1940, svo eru eitt og
eitt lag úr hverjum söngleik sem
verða að „standard“. Þetta eru lög
sem við þekkjum allir og þarf ekki að
æfa sérstaklega, það er bara talið í
og þá gerist eitthvað,“ segir Sölvi.
„Djassarar fara oft frjálslega með
þessi lög og því finnst mér mjög
gaman að hlusta á upprunalegu út-
gáfurnar sem eru oft gerólíkar þeim
sem ég hef vanist,“ útskýrir Sölvi en
meðal laga á dagskránni verður lagið
I Remember You, úr söngleiknum
„The Fleet‘s In“ frá 1942.
Gróska í djassinum í Berlín
Sölvi á eitt ár eftir af náminu í
Berlín og gæti vel hugsað sér að
dvelja þar áfram. „Berlín er mikil
djassborg og auðvitað mikil lista-
borg. Þar er ótrúlega skemmtileg og
fjölbreytt djasssena. Mér finnst auð-
vitað æðislegt að vera hér á Íslandi
en hér er mjög lítil djasssena og því
er búið að vera frábært að vera úti í
kringum fólk sem spilar allt öðruvísi
og nálgast djass með ólíkum hæt-
ti.En að sama skapi er samkeppnin
mikil,“ segir Sölvi og segist þó vona
að hann geti verið með annan fótinn
á Íslandi í framtíðinni.
Sölvi var átta ára þegar hann hóf
að æfa á saxófón hjá Hafsteini Guð-
mundssyni, sem var kennari hans í 8
ár. Hann er 22 ára í dag og hefur því
spilað samfellt á saxófóninn í 14 ár.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sölvi
víðfeðma reynslu af spilamennsku
hér á landi. Árið 2015 hlaut hann t.a
m. íslensku tónlistarverðlaunin sem
bjartasta vonin í djass- og blústónlist
árið 2015, þá nítján ára gamall.
Á döfinni er að klára skólann og
áframhaldandi spilamennska í Berl-
ín. „Ég er smám saman að fá verk-
efni úti og líður vel þar svo ég get
hugsað mér að vera þar áfram. En
það er alltaf gaman að koma hingað
heim og spila með góðum vinum.“
Tónleikar kvartettsins verða í
Norræna húsinu á morgun, miðviku-
dag, kl. 20. Í kvöld kemur kvart-
ettinn fram á djasskvöldi Kex Hostel
sem hefst kl. 20.30. Síðustu tónleikar
kvartettsins verða á sunnudaginn
næsta í Mengi kl. 16. „Þá ætlum við
að vera með nokkra gesti og öðruvísi
prógramm, meira í ætt við frjálsan
spuna.“
Saxófónleikari með
framtíðina fyrir sér
Djasskvartett Sölva Kolbeinssonar með þrenna tónleika
Morgunblaðið/Hari
Hæfileikar Sölvi segir Berlín mikla djassborg og samkeppnin sé því mikil.
Ragnhildur Þrastardóttir
ragnhildur@mbl.is
Tónlistarmaðurinn Paul Lydon gaf
nýverið út nýja plötu, Sjórinn bak
við gler. Platan samanstendur af sjö
lögum sem leikin eru á píanó.
„Þetta er í
fyrsta skipti
sem ég gef út
disk sem er
bara píanó-
leikur. Mig
langaði að gera
eitthvað öðru-
vísi í þetta
skiptið og eitthvað einfaldara,“ segir
Paul en hann hefur áður unnið með
fleiri hljóðfæri, söng og texta.
Lögin eru nokkuð upplífgandi og í
þeim er einhver óútskýranleg bjart-
sýni. Paul segir þau öll vera spuna.
„Á þessari plötu er ég að vinna
með ákveðin stef, þegar ég sest nið-
ur til að semja hef ég oft einhverja
hugmynd um hvað ég ætla að gera
en svo læt ég bara vaða,“ segir
hann.
Paul hefur notað þessa aðferð um
langa hríð. „Ég hef spilað á þennan
hátt síðan ég var táningur, ég reyni
að leika mér að þessu og skapa í
hvert skipti eitthvað sem mig langar
sjálfan að heyra.“
Bjartir tónar laganna ríma við
bjarta liti plötuumslagsins. „Ég
vona það allavega. Dóttir mín, Kin-
nat, hannaði umslagið. Hún er hönn-
uður og listamaður,“ segir Paul.
Að frátöldu plötuumslaginu og
masteringu plötunnar gerði Paul allt
í sambandi við hana sjálfur. „Hann
Curver masteraði þetta fyrir mig en
annars er þetta bara mín vinna.
Þetta eru upptökur sem ég tók allar
heima hjá mér og ég gef plötuna út
sjálfur, mér fannst einfaldara að
gera þetta á þann hátt.“
Tilfinningar kalla á titla
Titill plötunnar, Sjórinn bak við
gler, kemur úr draumi Pauls. „Mig
dreymdi þetta bara og fannst titill-
inn passa nokkurn veginn við það
sem ég var að skapa.“
Titlar laganna sjö á plötunni eru
einnig nokkuð forvitnilegir og fjöl-
breyttir. Lögin heita „máluð ljós“,
„nöfn í hverjum spegli“, „valhne-
tutré“, „tvíburar að skauta“, „perlur
í mjólk“, „á annarri hæð“ og „sjór-
inn bak við gler“. „Ég vildi hafa titla
sem lýstu lögunum og stemningu
þeirra vel. Ég velti því bara fyrir
mér hvað gæti passað og hvaða til-
finningar fylgdu hverju lagi fyrir
sig,“ segir Paul um lagatitlana.
Paul hefur verið búsettur á Ís-
landi síðan 1988 og sent frá sér all-
nokkuð af tónlist. Hann kom upp-
haflega hingað til að læra íslensku
og ætlaði einungis að dvelja hér í tvö
til þrjú ár. Hann segir Ísland orðið
sitt heimaland. „Já, engin spurning,
mér finnst mjög gott að búa hér.“
Aðspurður hvort þess megi vænta
að sjá hann á tónleikum bráðlega
segir Paul að von sé á því í haust.
Spilar það sem hann vill sjálfur heyra
Paul Lydon gefur út plötuna Sjórinn
bak við gler Björt lög leikin á píanó
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Draumur „Mig dreymdi þetta bara og fannst titillinn passa nokkurn veginn við það sem ég var að skapa,“ segir Paul
Lydon um titil nýútkominnar plötu sinnar, Sjórinn bak við gler, sem hefur að geyma sjö lög leikin á píanó.