Ljósmæðrablaðið - 01.12.2010, Side 21
21Ljósmæðrablaðið - desember 2010
Reykjavík og hins vegar í Hafnarfirði. Tvo
yngri drengina sína fæddi hún svo annars
vegar á heimili sínu og hins vegar á Selfossi.
Jóna talar mikið um að ljósmæðurnar sem
hún kynntist úti á landi hafi verið yndis-
legar konur og það að þekkja þær fyrir
fæðinguna hafi verið stór þáttur í að líða vel
í fæðingunni. Hún sagði að ljósmæðurnar í
Reykjavík og Hafnarfirði hafi verið góðar
konur en hún muni lítið eftir þeim. Jóna
talaði um að helsti kostur þess að fæða
í Reykjavík hafi verið sá að þá hafi hún
fengið góða hvíld fyrir og eftir fæðinguna
þegar hún dvaldi hjá móðursystur sinni.
Næst yngsta barnið sitt átti hún heima og
þótti henni það gott. Þá tók ljósmóðirin í
sveitinni á móti og var fjöldi fjölskyldumeð-
lima viðstaddur. Yngsta barnið sitt fæddi
hún síðan á sjúkrahúsinu á Selfossi, henni
þótti það svo heimilislegt og gott að hún
líkti því við heimafæðingu. Hún hét sjálfri
sér því að ef hún myndi eignast fleiri börn
myndi hún fæða þau á Selfossi en til þess
kom þó ekki. Jóna segist oft hafa hugsað
með sér hversu mikið þessar ljósmæður úti á
landi hafi þurft að þola og hversu færar þær
hafi verið.
Fæðingarsaga Rósu
Rósa er 48 ára gömul kona. Hún er gift og
á þrjú uppkomin börn. Fyrsta barnið hennar
fæddist árið 1982, annað árið 1985 og það
síðasta fæddist árið 1994. Þegar ég bað
hana að segja sögu sinna fæðinga vildi hún
tala um fæðingu yngstu dóttur sinnar. En
sú fæðing er frábrugðin hinum á þann hátt
að æskuvinkona hennar, Sigurlinn Sváfnis-
dóttir, sem er starfandi ljósmóðir á Selfossi
kom úr sínum frítíma og tók á móti barninu.
Sigurlinn fylgdi Rósu í gegnum alla
meðgönguna í mæðravernd á Hellu. Rósa
hafði verið í mjög miklum samskiptum við
Sigurlinn og aðrar ljósmæður á Selfossi á
meðgöngunni vegna mikilla uppkasta alla
meðgönguna. Hún ældi bókstaflega frá degi
eitt og fram á síðasta dag. Vegna þessa þurfti
hún að fara nokkrum sinnum á spítala til að
fá næringu í æð sökum þess hversu orku-
lítil hún var orðin. Engar sérstakar ástæður
fundust fyrir þessum uppköstum, einhverjir
læknar vildu tengja þetta andlegri líðan en
því er Rósa ekki sammála. Meðal annars
vegna þess að hún var farin að æla þó nokkru
áður en hún vissi að hún væri þunguð.
Hún var gengin tæpar 38 vikur af
meðgöngunni þegar hún fór af stað. Jólin
voru á næsta leiti, það var 20. desember.
Hún fór af stað rétt eftir hádegi. Fyrri
fæðingar höfðu gengið hratt og vel fyrir
sig og hafði Rósa á tilfinningunni að þessi
fæðing myndi einnig ganga vel. Eiginmaður
Rósu og Sigurlinn voru þau einu sem tóku
þátt í fæðingunni. Hún segist hafa verið
ánægð með það þar sem hún hafi alltaf
viljað vera svo að segja ein með sjálfri sér
í fæðingunni, henni finnst hún sjálf hafa
bestu stjórnina og hún ein geti gert þetta.
Þegar hún kom á sjúkrahúsið var hún komin
með 6 í útvíkkun. Hún fékk enga deyfingu í
fæðingunni. Henni fannst í þessari fæðingu
sem og hinum fyrri hún alltaf fá þessa
tilfinningu um að hún vilji hætta við eða
fresta þessum ósköpum. Sársaukinn var svo
mikill og hún vildi bara að þeim myndi ljúka
sem fyrst. Eftir eðlilegan framgang fæðingar
fæddist síðan fín 15 marka stelpa rétt fyrir
kvöldmat.
Rósu fannst gott að geta haft eiginmann
sinn sem mest hjá sér í sængurlegunni.
Eiginmaður hennar valdi að fara heim á
nóttinni til að sinna eldri börnum en Rósa
og nýfædda stúlkan dvöldu á spítalanum
í þrjár nætur. Þau héldu síðan öll heim á
Þorláksmessu. Rósu fannst gott hversu fáar
konur voru á sængurkvennadeildinni og
hvað andrúmsloftið þar var heimilislegt og
notalegt.
Rósa talar um að það hafi verið ,,dýrðlegt
að þekkja ljósmóðurina”. Hún segir að það
sé erfitt að lýsa þessu eitthvað nánar en öll
samskipti hafi gengið svo vel og henni liðið
vel í fæðingunni. Sigurlinn vissi alltaf hvað
átti að gera og vissi alveg hvernig hún átti að
umgangast þau hjónin. Það að þekkja ljós-
móðurina svona vel er bara ómetanlegur
þáttur í öllu ferlinu að mati Rósu.
Rósa átti tvö eldri börnin sín í Reykjavík
því þá bjó hún þar. Hún segir að það hafi
aldrei hvarflað að sér að eiga hin börnin
á öðrum stað, því þá þekkti hún ekkert
annað. Hún telur þó að fæðingarreynslan
frá Selfossi hafi verið best og það að hafa
kannast við flestar ljósmæðurnar á staðnum
hafi vegið þungt. Hún talar einnig um að
ljósmæðurnar í Reykjavík hafi reynst sér
vel. Þrátt fyrir það man hún minna eftir
þeim enda gafst minni tími til samskipta og
frekari kynna.
Samantekt
Framangreindar sögur bera það með sér
að konur sem fæða börn sín í smærri
byggðarlögum geti notið ákveðinna
forréttinda. Þau forréttindi felast í því
að vera í nánari tengslum við sína ljós-
móður og geta jafnvel fengið sömu ljós-
móður með sér á meðgöngu, í fæðingu og
í sængurlegu. Ég tel að ef ljósmóðir hefur
haft árangursrík samskipti við verðandi
foreldra á meðgöngunni geti það haft góð
áhrif í fæðingunni.
Það kom skýrt fram í fæðingarsögunum
að þessar konur mátu samband sitt við
ljósmóður fyrir og í fæðingu mikils og
átti það stóran þátt í upplifun þeirra af
fæðingunni. Konurnar tvær þekktu þó ljós-
mæðurnar sínar á mjög ólíkan hátt. Jóna
úr fyrri sögunni þekkti sína ljósmóður úr
þorpinu, kannaðist við hana og hafði heyrt
af hennar góðu verkum. Hún hafði t.d. tekið
á móti litlu systur hennar nokkrum árum
áður. Rósa úr seinni sögunni hafði æsku-
vinkonu sína sem ljósmóður og er það
örugglega óskastaða fyrir margar konur að
hafa einhvern hjá sér sem maður treystir
fullkomlega og kann vel að meta. Það kom
líka skýrt fram í frásögn Rósu þegar hún
sagði að það hafi verið ,,dýrðlegt” að hafa
Sigurlinn sem ljósmóðir. Mér fannst þetta
lýsingarorð segja allt sem segja þurfti.
Það er ekki lífsspursmál að ná að mynda
svona sterk tengsl við ljósmóður og auðvitað
ekki allir sem eiga kost á því. Það er þó
ljóst að þann tíma sem ljósmóðirin fær með
konunni, á meðgöngunni og í fæðingunni
er nauðsynlegt að nýta vel til að kynnast og
byggja upp traust og eðlileg samskipti.
Það sést vel á þessum sögum að mikil-
vægi nærveru og yfirsetu ljósmóður hefur
haldist óbreytt í áranna rás og mun alltaf
skipa stóran sess í starfi ljósmæðra. Ég tel
að umræðan um starf ljósmæðra og eðli þess
verði að fá meiri umfjöllun í samfélaginu
þar sem margir eru farnir að sjúkdóm-
svæða fæðinguna, hið náttúrulega ferli hefur
aðeins gleymst. En það er auðvitað einn af
hornsteinum ljósmóðurfræðinnar að líta á
fæðinguna sem lífeðlislegt ferli, bregðast
við þeim aðstæðum sem geta komið upp og
leita samráðs eða vísa á aðra sérfræðinga
verði hinni barnshafandi konu ekki sinnt
af ljósmóðurinni einni, samanber það
sem fram kemur í hugmyndafræðilegum
áherslum náms í ljósmóðurfræði. Umræðan í
samfélaginu í dag hvetur konur að vissu leiti
til að fæða börnin sín frekar í Reykjavík, til
að skjótari möguleiki gefist til inngripa.
Af fenginni reynslu af fæðingu úti á landi
tel ég sorglega þróun ef flestallar fæðingar
flytjast til Reykjavíkur og konur hætta
að líta á fæðinguna sem eðlilegt ferli. Þá
tapast valmöguleikinn sem konur hafa um
fæðingarstað. Litlar fæðingarstofur úti á
landi geta vegna smæðar sinnar og fjölda
fæðinga veitt góða og persónulega þjónustu.
Eins og Jóna sagði í fæðingarsögu sinni þá
fannst henni upplifunin af fæðingu sinni á
Selfossi komast nærri því að eiga heima.
Þegar ég velti fyrir mér hvaða áhrif fyrr-
greindar fæðingarsögur hafa á mig sem
verðandi ljósmóður er af nokkru að taka. Mér
sýnist ljóst að nýta þurfi þann tíma sem gefst
í aðdraganda fæðingarinnar til að tengjast
konunni og eftir atvikum maka hennar
einhverjum böndum. Ég sem ljósmóðir þarf
að vera vel upplýst og örugg í starfi, veita
markvissa fræðslu og svara spurningum
foreldranna á vandaðan og greinargóðan
hátt. Allir þessir þættir stuðla að því, hvort
sem tíminn með hinum verðandi foreldrum
er mikill eða lítill, að þegar að fæðingunni
kemur þá muni foreldrarnir en frekar geta
treyst á fumlaus vinnubrögð ljósmóður-
innar. Ofangreint er í samræmi við nokkrar
af þeim hugmyndafræðilegu áherslum
sem lagðar eru til grundvallar í ljósmóður-
fræðinámi, svo sem að ávinna sér virðingu
og traust konunnar og að styrkja hana í
sínum ákvörðunum.