Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2010, Blaðsíða 34

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2010, Blaðsíða 34
34 Ljósmæðrablaðið - desember 2010 Heimaþjónusta ljósmæðra í sængurlegu er á síðari árum orðin sjálfsagður hluti barn- eignarþjónustunnar. Hlutfall fjölskyldna sem njóta heimaþjónustu eftir fæðingu barns er nú um 80% og fer sífellt hækkandi. Foreldrar eru almennt mjög ánægðir með þjónustuna og hefur þetta góða orðspor orðið til þess að konur vilja ógjarnan fara á mis við heimaþjónustu. Eftir því sem meiri og betri reynsla er af þjónustunni stækkar sá hópur sem fagfólk á fæðingarstöðum mælir með að útskrifist í umsjá ljósmæðra sem sinna heimaþjónustu. Nýlega gaf Landlæknisembættið út, í samstarfi við LMFÍ, faglegar leiðbeiningar um heimaþjónustu. Þar eru meðal annars sett fram heilsufarsviðmið varðandi þá hópa sængurkvenna og nýbura sem mælt er með að njóti heimaþjónustu. Í takt við þessi viðmið fór samráðsnefnd Fagdeildar heima- þjónustu þess á leit við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) að samningur um heimaþjónustu yrði rýmkaður þegar eldri rammasamningur rann út fyrr á árinu. Gagnkvæmur áhugi var á því máli, ekki síst í ljósi hagsmuna fæðingarstaða. Með nýjum samningi átti að skapa svigrúm til að útskrifa veikari konur og börn sem gætu notið heimaþjónustu í takt við þarfir sínar. Annað verkefni sem beið samráðsnefndar og SÍ var að skoða skipulagsmál heimaþjón- ustunnar. Ekki hefur verið til staðar kerfis- bundin trygging fyrir þjónustu á öllum tímum í núverandi fyrirkomulagi. Þetta hefur í gegnum tíðina verið álitinn einn helsti veik- leiki kerfisins. Aðilar voru sammála um að einhvers konar miðlæg umsýsla væri æskileg til að tryggja öruggt aðgengi að þjónustunni, en ekki náðist sátt um það hvaðan greiðslur fyrir hana ættu að koma. Lögum um sjúkratryggingar frá árinu 2008 var ætlað að fela SÍ öll kaup á heilbrigðis- þjónustu fyrir ríkissjóð. Með því móti hefði hagræðing átt að verða einfaldari, þar sem einn aðili sæi um að færa krónur og aura úr einum vasa í annan. Þessi þáttur laganna er hins vegar ekki kominn til framkvæmda að fullu. Til að ráðstafa fjármunum sem sparast hefðu á fæðingarstofnunum með tilkomu nýs samnings, meðal annars til að greiða fyrir umsýslu heimaþjónustunnar, var aðkoma Heilbrigðisráðuneytisins nauðsynleg. Innan ráðuneytisins var farið að horfa á málefni heimaþjónustunnar frá öðru sjón- arhorni. Pólitískur vilji er fyrir því þessa dagana að einfalda heilbrigðiskerfið og koma allri grunnþjónustu undir hatt opinberra stofnana. Því var af hálfu ráðuneytisins ráðist í að skoða hvort heimaþjónustan gæti átt heima innan þeirra stofnana sem þegar koma að barneignarþjónustunni. Þessar stofnanir eru annars vegar heilsugæslan, sem sér um meðgönguvernd, fræðslu og ungbarnavernd, og hins vegar opinberir fæðingarstaðir á sjúkrahúsum landsins. Úr varð að ráðuneytið hófst handa við að kanna þann möguleika að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tæki að sér að sinna heimaþjónustu ljósmæðra í sængurlegu. Útfærslu á landsbyggðinni átti að kanna á hverjum stað fyrir sig. Út frá hugmynda- fræði ljósmæðra um eðlilegt barneignarferli og nærþjónustu í samfélaginu má segja að heilsugæslan sé nærtækari kostur en sjúkra- hústengd heimaþjónusta. Sá möguleiki að þróa samfellt þjónustuform ljósmæðra innan heilsugæslunnar var meðal annars kannaður í útskriftarverkefni Hermínu Stefánsdóttur ljósmóður árið 2005. Að því sögðu verður að líta til þess að tilfærsla heimaþjónustu ljósmæðra til heilsu- gæslu myndi fela í sér gífurlegan fórnar- kostnað, sérstaklega í því árferði sem nú ríkir. Þjónustan skilar í dag mjög góðum árangri sem hvílir meðal annars á þeirri einstaklings- samfellu sem núverandi fyrirkomulag býður upp á. Til þess er m.a. tekið í ungbarnavernd hversu góðum tökum mæður hafa almennt náð á brjóstagjöf eftir að hafa notið ljós- mæðraþjónustu sem er bæði samfelldari og varir lengur en kostur er á innan sængurleg- udeilda sjúkrahúsanna. Síðustu misseri hafa skipulagsvandamál tengd þjónustunni farið minnkandi. Fyrirtækið Björkin hefur einnig unnið áætlun um það hvernig standa má að umsýslu svo vel sé. Til stendur að vinna áfram með Landlæknisembættinu að þróun gæðavísa fyrir þjónustuna en þegar hafa verið settar um hana faglegar lágmarkskröfur. Akkillesarhæll þjónustunnar, hið fljót- andi skipulag, verður hennar helsti styrkur í umhverfi þar sem niðurskurður er að ná áður óþekktum hæðum. Engin fyrirfram skipu- lögð bakvakt og engar álagsgreiðslur utan dagvinnutíma gera þetta að einni ódýrustu þjónustu sem hinu opinbera stendur til boða að kaupa. Laun ljósmæðra fyrir heimaþjón- ustur duga ekki einu sinni fyrir veikinda- greiðslum eða sumarfríi. Ríkið hefur því verið að kaupa hágæða þjónustu fyrir klink. Ef áherslan í augnablikinu væri á kjaramál ljósmæðra í heimaþjónustu ættum við í raun- inni að segja: ,,Í guðanna bænum, stofnana- væðið okkur!” Í öðru efnahagsástandi, og ef samningsrétturinn hefði ekki verið tekinn af kjarafélagi okkar með lögum, hefðu viðræður um heimaþjónustu ljósmæðra án efa fylgt hinu góða fordæmi sem sett var í kjarabaráttu stéttarinnar haustið 2008. Í þeim veruleika sem við búum við stendur okkur þó næst að huga að faglegum þætti heimaþjónustunnar. Og þar mun skóinn kreppa ef tilfærsla til heilsugæslu verður að veruleika. Ef þjónustan verður rekin með launþegasambandi við ljósmæður á hið opin- bera ekki kost á öðru en að borga lögmæt, samningsbundin laun fyrir vinnu okkar. Óhjákvæmilega leiða slíkar breytingar annað hvort til aukins kostnaðar eða skertrar þjón- ustu. Það þarf engan snilling til að sjá hvor leiðin verður farin. Ljósmæðrafélagið hefur gert sitt ýtrasta til að gera viðmælendum sínum ljóst hvert umfang og eðli heimaþjónustunnar er, þar sem umræðurnar hafa að okkar mati ítrekað leitt í ljós algjört skilningsleysi í þeim efnum. Félagið gekkst meðal annars fyrir viðamikilli könnun á umfangi þjónustunnar nú í sumar. Niðurstöður könnunarinnar hafa nú stað- fest að þjónustan er bæði umfangsmikil og faglega að henni staðið. Vonir okkar standa til þess að niðurstöðurnar geri mönnum ljóst hvaða bita þeir eru að reyna að gleypa. Á þessari stundu er ekki ljóst hver afdrif heimaþjónustu ljósmæðra verða. Beðið er eftir hugmyndum Heilsugæslu höfuð- borgarsvæðisins varðandi útfærslu fyrir þeirra þjónustusvæði. Öll kraftaverk eru að sjálfsögðu vel þegin, en að óbreyttu verður að teljast líklegt að ráðamenn muni forgangsraða einfaldleika og kerfisvæðingu ofar en hagkvæmni og gæðum. Ábyrgð á þeirri ákvörðun verður að vísa þangað sem hún á heima. Og það er ekki hjá okkur ljós- mæðrum. Barnið og baðvatnið - Heimaþjónusta ljósmæðra í sængurlegu: Hvert er hún að fara? Berglind Hálfdánsdóttir, f.h. Fagdeildar heimaþjónustu LMFÍ

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.