Velferð - 01.10.2013, Page 3
Guðmundur Bjarnason
„Þeir vanda síg
víð þann fyrsta"
Um mitt ár 1982 kom upp hugmynd hjá hópi fólks sem
glímdi við hjartasjúkdóma að mynda félagsskap sem
hefði það hlutverk að gæta hagsmuna hjartasjúklinga
og beita sér fyrir forvarnarstarfi og fræðslu um hjartasjúkdóma.
Voru það ekki síst einstaklingar sem farið höfðu utan, einkum til
Englands, í hjartaskurðaðgerðir sem leiddu þennan hóp og höfðu
mikinn áhuga á að beita sér fyrir því að hægt yrði að framkvæma
slíkar aðgerðir hér á landi. Hugmyndin hélt áfram að þróast
og í mai 1983 var haldinn fjölmennur fundur þar sem kosin
var undirbúningsnefnd til að vinna að stofnun slíkra samtaka.
Það var svo þann 8. október 1983 að haldinn var stofnfundur
Landssamtaka hjartasjúklinga (LHS) og mættu á þann fund 230
stofnfélagar. Landssamtök hjartasjúklinga eða Hjartaheill, eins
og samtökin heita í dag, eru því 30 ára um þessar mundir og
félagsmenn nú 3.300.
Margt hefur gerst á þessum 30 árum sem liðið hafa frá
stofnfundinum og má fullyrða að samtökin hafi sannað gildi sitt
og hlutverk og átt þátt í margvíslegum verkefnum til hagsbóta fyrir
hjartasjúklinga og til eflingar heilbrigðisþjónustunni 1 landinu.
Eitt af hlutverkum samtakanna er að stuðla að betri heilsu og
bættum lífsgæðum i íslensku samfélagi með áherslu á framfarir í
forvörnum, fræðslu og meðferð hjartasjúkdóma. Og með þetta
að leiðarljósi lögðu samtökin mikla áherslu á það í upphafi að
þjálfa lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk og útvega og bæta
tækjabúnað við Landspítalann svo hægt væri að framkvæma
opnar hjartaskurðaðgerðir hér heima í stað þess að þurfa að
senda alla þá sem á slíkum aðgerðum þyrftu að halda til útlanda
með ærnum tilkostnaði, fyrirhöfn og áhyggjum fyrir sjúklinga,
aðstandendur og þjóðfélagið allt. Þessi nýstofnuðu samtök beittu
sér því fyrir fjársöfnun til tækjakaupa og áttu stóran þátt í því
að fyrsta opna hjartaaðgerðin var gerð hér á landi þann 14. júní
1986 eða aðeins tæpum þremur árum eftir stofnun þeirra. Sá sem
fór í þessa fyrstu aðgerð hét Valgeir Vilhjálmsson og gekk síðan
undir gælunafninu „Valgeir fyrsti" hjá vinum og kunningjum og
félögum í samtökunum. Sagt er að Valgeir hafi verið spurður
að því fyrir aðgerðina hvort hann væri ekki kvíðinn, verandi sá
fyrsti sem undirgengist slíka aðgerð hér. Valgeir svaraði þá að
bragði: „Nei, alls ekki. Ég veit að þeir vanda sig sérstaklega við
þann fyrsta!“ Og það fór líka svo, - þessa fyrstu aðgerð gerði
Þórarinn Arnórsson, hjartaskurðlæknir, og tókst hún vel í alla
staði. Valgeir lifði góðu lífi í meira en aldarfjórðung eftir þetta og
lést 98 ára þann 20. september 2012. Hann var alla tíð traustur
félagsmaður og góður liðsmaður LHS/Hjartaheilla, - blessuð sé
minning hans.
í stuttu ávarpi er ekki hægt að rekja eða nefna öll þau fjölmörgu
verkefni sem samtökin hafa beitt sér fyrir eða tekið þátt í til að
bæta og styrkja heilbrigðisþjónustuna í landinu og þau fjölmörgu
fræðslu- og forvarnarverkefni sem þau hafa beitt sér fyrir, enda
er efni blaðs þessa fyrst og fremst tileinkað þeirri sögu. Alla tíð,
í þrjátiu ára sögu samtakanna, hafa þau átt stóran þátt í að bæta
tækjabúnað á heilbrigðisstofnunum víða um land en ekki síst á
Landspítalanum. Strax á fyrsta starfsári, 1984, gáfu samtökin
LSH hjartasónartæki sem kostaði kr. 2 milljónir. Var það stórfé
á þeim tíma. Síðar það ár áttu samtökin þátt í að keypt var nýtt
hjartaþræðingartæki. Margoft síðan hafa þau lagt lið við kaup
á nýjum hjartaþræðingartækjum fyrir LSH, bæði árið 2000 og
aftur árið 2008, á 25 ára afmæli samtakanna, er þau beittu sér
fyrir landssöfnun til að styrkja slík tækjakaup. Og enn á þessu
þrítugasta afmælisári ætla Hjartaheill að standa fyrir víðtæku
söfnunarátaki til kaupa á nýju hjartaþræðingartæki. Slíkur
hátæknibúnaður úreldist fljótt og nú þegar er nýjasta tækið orðið
5 ára gamalt og þau eldri eru komin langt fram yfir áætlaðan
endingartíma þannig að það er sannarlega orðin brýn þörf fyrir
nýtt tæki.
Á þrjátíu árum hafa samtökin lagt samtals um 200
milljónir króna, á verðlagi hvers tima, til tækjakaupa fyrir
heilbrigðisþjónustuna í landinu. Framreiknuð til verðlags í
dag mun sú tala nú nema helmingi hærri upphæð eða um 400
milljónum króna og það munar sannarlega um minna.
Á þessu afmælisári eru félagsmenn Hjartaheilla orðnir 3.300
talsins eins og áður segir. Eru þeim öllum þökkuð vel unnin störf
í þágu samtakanna, þess málstaðar og þeirra verkefna sem þau
hafa beitt sér fyrir á undangengnum 30 árum. Megi samtökin
eflast og dafna og halda áfram sínum mikilvægu verkefnum í
þágu lands og þjóðar um langa framtíð.
Ég sendi félagsmönnum svo og landsmönnum öllum mínar
hjartanlegustu hamingjuóskir í tilefni þessa 30 ára afmælis
Hjartaheilla.
Guðmundur Bjarnason, formaður stjórnar Hjartaheilla.
V ujise
- snjallar lausnir
BYKO
BUÐU BETUR. BORGAÐU MINNA.
VELFERÐ 3