Mosfellingur - 11.01.2018, Blaðsíða 16
- Nýársávarp bæjarstjóra Mosfellsbæjar16
Kæru Mosfellingar!
Við áramót er okkur tamt að taka stöðuna, leggja mat
á það sem gerðist á liðnu ári um leið og við horfum fram
á veginn. Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir
veg og hvernig blasir framtíðin við okkur?
Árið 2017 var gott ár fyrir marga. Mikil hagsæld hefur
ríkt í okkar góða landi undanfarin ár sem skilað hefur sér
til þjóðarinnar með meiri velmegun og auknum kaup-
mætti. Það mátti lesa í fjölmiðli um daginn að yfir stæði
fordæmalaust góðæri og laun hefðu aldrei verið hærri.
Þótt líklegt megi teljast að við séum nú á toppi hagsveifl-
unnar, er útlitið til næstu ára samt sem áður bjart. Áfram
er spáð vexti í hagkerfinu, fjölgun ferðamanna, góðri
stöðu fiskistofna og tryggri afkomu þjóðarbúsins.
Töluvert umrót var í landsmálapólitíkinni á sl. ári.
Ríkisstjórnin sprakk eftir stutta setu og kosningar fóru
fram. Niðurstaðan leiddi til myndunar nýrrar ríkis-
stjórnar með mjög breiða pólitíska skírskotun þar sem
Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn mynduðu ríkisstjórn
með þátttöku Framsóknarflokksins. Í Mosfellsbæ hafa
Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn myndað meirihluta
í bæjarstjórn frá árinu 2006 þrátt fyrir að annar þessara
flokka hafi lengst af haft nægan styrk í bæjarstjórn til að
vera einn í meirihluta. Þetta samstarf hægri og vinstri
flokks hefur gefist afar vel í Mosfellsbæ enda hefur ríkt
traust og trúnaður milli aðila. Nú má segja að „Mosfells-
bæjarmódelið“ hafi verið tekið upp í landsmálunum og
ég hef þá trú að þessi nýja ríkisstjórn eigi eftir að reynast
þjóðinni vel og geti haldið áfram þeim góðu verkum sem
hafa verið í gangi.
Fyrir Mosfellsbæ var árið gott og ánægja ríkti meðal
íbúanna með bæinn sinn samkvæmt könnunum. Mig
langar sérstaklega að nefna eitt verkefni sem efnt var til
á árinu en það er lýðræðisverkefnið „Okkar Mosó“. Það
verkefni tókst einstaklega vel og var þátttaka íbúa mikil
sem leiddi til margra góðra verka sem íbúar óskuðu eftir
að hrint yrði í framkvæmd. Ljóst er að framhald verður á
verkefnum sem þessum.
Mikil íbúafjölgun í Mosfellsbæ
Mjög mikil íbúafjölgun varð í Mosfellsbæ eða um
8% á árinu 2017. Segja má að hér sé um fordæmalausa
fjölgun að ræða. Mestu munar um nýju hverfin okkar
Leirvogstungu og Helgafellshverfi og er fjölbýlishluti
þess hverfis nú að verða fullbyggður. Töluvert er þó eftir
af sérbýlishluta Helgafellshverfis en fullbyggt munu um
3.000 íbúar búa þar. Þessu til viðbótar eru að fara af stað
verkefni í miðbænum sem felur í sér um 250 nýjar íbúðir
við Bjarkarholt, Háholt og Þverholt ásamt verslunarhús-
næði. Það mun setja nýjan svip á miðbæinn okkar og
gera hann mun samkeppnishæfari um verslun, þjónustu
og menningu ýmis konar.
Svona mikil uppbygging kallar á fjárfestingar í inn-
viðum. Helgafellsskóli er nú í byggingu og er gert ráð
fyrir að fyrsti áfangi hans verði tekinn í notkun í upphafi
árs 2019. Önnur stór framkvæmd sem ráðist verður í á
árinu 2018 er bygging knatthúss að Varmá. Húsið verður
byggt þar sem eldri gervigrasvöllur er nú og verður um
3.800 fm að stærð. Auk knattspyrnuvallar verður í hús-
inu hlaupabraut ásamt göngubraut, áhorfendaaðstöðu
og snyrtiaðstöðu. Húsið verður án alls efa bylting fyrir
íþróttafólk, sérstaklega knattspyrnu, í Mosfellsbæ. Með
húsinu verður til góð æfingaaðstaða allan ársins hring.
Áfram verður haldið með atvinnuuppbyggingu í bæn-
um. Lóðum verður fjölgað í Desjamýri og uppbygging
þar komin vel á veg. Gerður hefur verið samningur um
uppbyggingu á lóðum við Sunnukrika sem er hluti af
miðsvæði bæjarins. Þar hefur þremur af fjórum lóðum
á svæðinu verið úthlutað þar sem reisa á skrifstofu- og
þjónustuhúsnæði, aðstöðu fyrir ferðaþjónustuaðila og í
skoðun er að þar verði einnig 4-5 stjörnu hótel með veit-
ingastað. Uppbygging á Leirvogstungumelum er hafin
en þar hefur landeigandi selt lóðir undir atvinnustarfs-
semi. Þetta eru allt saman góðar fréttir fyrir Mosfellsbæ
sem mun auka atvinnutækifæri í bænum sem og tekjur
bæjarsjóðs sem hægt er að nota til að bæta enn frekar
þjónustu við bæjarbúa.
Álögur lækka og þjónusta efld
Samkvæmt fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið
2018 munu skattar og gjöld lækka jafnframt því að
þjónusta við íbúana verður efld. Þrátt fyrir þetta er gert
ráð fyrir rúmlega 300 mkr. afgangi af rekstri bæjarsjóðs
á árinu. Aukin hagsæld, fjölgun íbúa ásamt traustum
rekstri gerir það að verkum að svona er hægt að standa
að málum hjá Mosfellsbæ.
Meðal þess sem fjárhagsáætlunin inniheldur má
nefna:
Þjónusta við börn og unglinga aukin. Áfram verður
unnið að því að auka þjónustu við 12-18 mánaða börn
og plássum fjölgað um 20 á þeim ungbarnadeildum
sem stofnaðar hafa verið. Frístundaávísun mun hækka
um 54% og fara í 50 þúsund kr. og gjaldskrár leikskóla
miðast við 13 mánaða aldur í stað 18 mánaða. Jafnframt
var ákveðið að almennt gjald í leikskóla lækki um 5% frá
áramótum. Þá verður unnið að verkefnum til að skapa
enn betri aðstöðu í leik- og grunnskólum m.a. með því
að efla tölvukost og aðrar umbætur með verulegum
fjármunum á árinu 2018.
Álögur á einstaklinga og fyrirtæki lækka. Álagningar-
hlutföll fasteignaskatts, fráveitu- og vatnsgjalds lækka
um 11% og lækkar kostnaður íbúa og af fasteignum
sem því nemur auk þess sem lækkun fráveitu- og vatns-
gjalds hefur áhrif til lækkunar fyrir fyrirtæki í bænum.
Þá verða ekki almennar hækkanir á gjaldskrám fyrir þá
þjónustu sem bærinn veitir og lækka gjaldskrár því að
raungildi milli ára þriðja árið í röð. Framlög til afsláttar á
fasteignagjöldum til tekjulægri eldri borgara hækka um
50% milli ára. Loks mun verð á heitu vatni lækka um 5%
þann 1. janúar 2018.
Með þessu er tryggt að allir muni með einhverjum
hætti njóta góðs af bættu rekstrarumhverfi sveitarfé-
lagsins.
Í vor verður kosið til sveitarstjórna og þá munu
landsmenn ganga að kjörborðinu og kjósa fulltrúa í
bæjarstjórnir. Ég vænti þess að við Mosfellingar munum
sýna lýðræðisvitund okkar í verki og flykkjast á kjörstað
síðasta laugardag í maí.
Mosfellsbær fagnaði 30 ára kaupstaðarafmæli þann
9. ágúst sl. Haldið var veglega upp á afmælið og komu
m.a. forsetahjónin í vel heppnaða opinbera heimsókn í
bæinn okkar. Hátíðarhöldin enduðu síðan með glæsi-
legri bæjarhátíð „Í túninu heima“
síðustu helgina í ágúst.
Framtíðin er björt í Mos-
fellsbæ og með gildin okkar
góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI
- FRAMSÆKNI og UMHYGGJU
að leiðarljósi eru okkur allir
vegir færir. Ég vil nota tækifærið
og þakka ykkur öllum fyrir gott
samstarf, samskipti, vináttu og
stuðning á árinu 2017 og
megi árið 2018 verða
okkur gæfuríkt og
gleðilegt.
HaraldurSverrisson,
bæjarstjóri
Með ósk um gæfuríkt ár
Um áramót
Nýarskveðja
bæjarstjóra
Takk fyrir
sTuðninginn
30 X 50 CM