Litli Bergþór - 01.12.2014, Side 3

Litli Bergþór - 01.12.2014, Side 3
Litli-Bergþór 3 Ritstjórnargrein Umræða um heilbrigðismál er all nokkur um þessar mundir. Læknar hafa farið í verkfallsaðgerðir til að knýja á um bætt kjör en einnig þykir þeim aðbúnaði á Landspítala Háskólasjúkrahúsi ábótavant, bæði hvað varðar húsnæði og tækjabúnað. Þetta leiðir hugann að stöðu mála á okkar slóðum. Húsnæði fyrir heilsugæslu er nýlegt og gott og annar aðbúnaður þar með ágætum. Ekki hefur verið skortur á starfsfólki og því má segja að heilsugæslan sé í góðum málum hvað þetta varðar. Álag á lækna hefur minnkað við að bráðaþjónustu utan dagvinnutíma er að mestu sinnt á bráðadeildinni á Selfossi. Líkur eru því á, að þessi þjónusta verði áfram í svipuðu horfi og verið hefur. Það var einnig gott mál að félagsþjónustan fékk inni hjá heilsugæslunni en það skapar tækifæri til að vinna saman að ýmsum málum sem snerta þesssi svið bæði hvað varðar umönnun aldraðra í heimahúsum og barnavernd. Það mál sem nú virðist brýnast er hjúkrunarvist aldraðra. Á Blesastöðum eru fjögur hjúkrunarrými og átta vistrými fyrir rólfæra. Engin önnur vistunarúrræði eru fyrir þennan hóp á þessu svæði. Eins og flestum er kunnugt hafa þeir sem þurfa á þessari þjónustu að halda orðið að fara annnað svo sem á Hellu eða Kumbaravog. Öll rök mæla með því að sveitarfélögin hér á svæðinu ættu að vera fær um að reisa og reka hjúkrunarheimili sem gæti annað þörf fyrir þessa þjónustu. Þetta mál hefur lengi verið í umræðu og hafa margir svo sem Lionsklúbbar og kvenfélög ályktað að nauðsynlegt sé að sinna þessu sem fyrst. Ekki má láta gamlan hrepparíg spilla málinu né heldur aðrar úrtöluraddir um smáatriði sem litlu skipta þegar á reynir. Þeir sem hafa þurft að sjá sína nánustu flutta í önnur héruð hafa vitnað um þessa reynslu og aðrir sem um það hugsa hljóta að sjá, að við svo búið má ekki standa. Til eru rannsóknir sem sýna að umönnun aldraðra er önnur ef þeir sem veita þjónustuna þekkja viðkomandi frá því áður og minnast hans sem fullfrísks einstaklings. Ekki er verra fyrir samfélagið að hjúkrunarheimili er nokkuð stór vinnustaður og eykur á fjölbreytni atvinnulífs á svæðinu. Það er því ekki annað að gera en vinda sér í málið og vinna að þessu hratt og örugglega. PS Ég er nú alveg laus við allan hrepparíg.

x

Litli Bergþór

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.