Litli Bergþór - 01.12.2014, Side 12

Litli Bergþór - 01.12.2014, Side 12
12 Litli-Bergþór Texti: Kristján Valur Ingólfsson Heilt yfir er óhætt að segja að það sé veðursæld í Skálhoti. Heimamenn þekkja þó að það getur orðið óþægilega hvasst á kirkjutröppunum framan við dómkirkjuna. Segja má að starfsemin í Skálholti líkist veðrinu. Dagarnir líða með sínu fasta svipmóti, fastri dagskrá inni sem úti, en annað slagið gerir mikinn vind. Hann skaðar yfirleitt ekki nokkurn mann, en það fer mikið fyrir honum meðan hann gengur yfir. Það hefur sannarlega ýmislegt gengið á í Skálholti að undanförnu og tekið sinn toll, en þó að fortíðin sé til þess að læra af og lifa við, er hún ekki til að lifa í. Við tökumst á við framtíðina og reynum að undirbúa hana eftir bestu getu til heilla og hagsbóta fyrir staðinn sjálfan og fyrir þau sem vilja sækja hann heim og þiggja þá þjónustu sem hann getur boðið og þarf að bjóða. Það má hafa til leiðsagnar það sem segir í hinni helgu bók um það að við skulum vera góð við alla, en einkum þau sem standa okkur næst. Nú er nýlokið hinu árlega kirkjuþingi Þjóðkirkjunnar. Óhætt er að segja að á þessu þingi hafi orðið ákveðin vatnaskil í málefnum Skálholts. Fjárhagsnefnd þingsins gaf sér óvenju langan tíma til að fjalla um þau og yfirgnæfandi meirihluti nefndarinnar taldi nauðsynlegt að taka á málum Skálholts með jákvæðum hætti. Eitt af því sem þar skiptir miklu er að skilið verði á milli starfseininga. En það vinnulag að reka staðinn allan á sömu kennitölu hefur til dæmis leitt til þeirrar mistúlkunar að Skálholtsskóla beri að skila svo miklum hagnaði af rekstri að ekki þurfi að koma til þeirra lögbundnu föstu framlaga frá ríki og kirkju sem dómkirkjan og staðurinn eiga að njóta. Engum dylst að Skálholt fór ekki varhluta af þeim fjárhagserfiðleikum sem hrunið olli, en frá og með árinu 2012 varð viðsnúningur til hins betra hvað varðar fjárhagsstöðuna, en það kostaði líka fækkum starfsfólks niður fyrir sársaukamörk. Starfsemin öll hefur liðið fyrir þetta, og er í raun kraftaverk að það skuli hafa verið hægt að halda áfram við þær aðstæður. Það var aðeins hægt fyrir mikla fórnfýsi örfárra einstaklinga, og sérstaklega Hólmfríðar Ingólfsdóttur sem hefur verið lífið og sálin í starfseminni á þessum erfiðu tímum. Með stofnun hins nýja Skálholtsfélags á Skálholtshátíð 2013 varð til nýr drifkraftur í áframhaldandi uppbyggingu í Skálholti. Stærstu verkefni félagsins eru að safna styrkjum til viðgerða á gluggum kirkjunnar, bjarga bókasafninu úr turninum og fá nýja kirkjuklukku í stað þeirrar sem nú hefur legið brotin í áratug. Málþing sem félagið hefur staðið fyrir hafa verið vel sótt og sýnt góðan áhuga heimamanna og nærsveitunga sem er algjör forsenda uppbyggingar. Fyrir kirkjuþingi nú síðast lá í annað sinn tillaga þingsins um að skipa sjálfstæða stjórn Skálholts, einskonar heimastjórn. Ekki er ástæða til annars en að búast við að nýtt kirkjuráð sem kemur til fyrsta fundar í nóvembermánuði bregðist jákvætt við því. Sömuleiðis þarf að endurskoða áform fyrra kirkjuráðs um útleigu starfseminnar í Skálholtsskóla, því vandséð er að útleiga geti orðið staðnum og byggðinni til góðs. Nokkrar breytingar hafa orðið meðal fastra starfsmanna í Skálholti. Við kvöddum Guttorm og Signýju snemma sumars eftir farsælt samstarf í tvo áratugi. Nýir ábúendur, Jóna Þormóðsdóttir og Ásgeir Ásgeirsson lofa góðu. Við kvöddum líka Bjarna Birgisson bryta og heilsuðum Roman Kudziewicz. Enn sem fyrr eru mörg verkefni sem bíða úrlausnar. Það þarf ekki bara nýja stjórn Skálholts. Það þarf að ráða nýjan meðhjálpara, bæta hljóðkerfið í kirkjunni, setja upp búnað til að senda bæði mynd og hljóð milli kirkju og skóla við stórar athafnir, skipa málum Skálhotsskóla með ráðningu rektors í samvinnu við fræðslustarfsemi Þjóðkirkjunnar, gera við skemmdir á skólabyggingunni og sinna öðrum aðkallandi viðhaldsverkefnum á fasteignum staðarins. Uppbyggingin er hafin að nýju. Skálholt á haustdögum 2014

x

Litli Bergþór

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.