Litli Bergþór - 01.12.2014, Blaðsíða 29
Litli-Bergþór 29
Lagning Kóngsvegarins reyndi á þolgæði og
útsjónarsemi vegagerðar-manna sem unnu verk sitt
með handverkfærum og hestvögnum við frumstæð
skilyrði og eins þurfti að seilast djúpt í landssjóðinn.
Er Kóngsvegurinn sennilega dýrasti vegur, sem
lagður hefur verið á Íslandi, ef miðað er við hlutfall
af útgjöldum landssjóðs, en hann kostaði um 14% af
útgjöldum ríkisins það ár.
Brúin frá 1901 var trébrú í þeim stíl, sem tíðkaðist
á þeim tíma, þ.e. einhvers konar sperrubrú, eins og
Baldur Þór segir í bréfi sínu til Gísla Sigurðssonar. „Í
þeim voru lóðréttir teinar upp í sperruna og boltar til
samtengingar trjáa. Einnig hef ég séð járnlaska þar
sem stórir átaka- og samtengingarhlutar voru. Annað
stál í timburbrúm er mér ekki kunnugt um. Mér þykir
ósennilegt að súlur hafi verið undir brúnni í upphafi,
heldur hafi það verið redding til að hægt væri að nota
hana á bílaöldinni“ segir Baldur.
Björn Sigurðsson í Úthlíð staðfestir það. Hann segir
að á stríðsárunum hafi breski herinn notað brúna. Þeir
fóru yfir hana á 10 hjóla trukkum þegar síminn var
lagður í kringum 1943 og settu þá staura undir brúna til
að styrkja hana og tóku handriðið af. Símastrengurinn
lá ofaná jörðinni, nema í gegnum heimreiðar var hann
grafinn niður. Höfðu kýrnar sérstakt yndi af því að
naga strenginn og þurfti mikið að gera við!
Gísli bróðir hans segir einnig frá því (í Mbl. 25/3 2007)
þegar hann var „sendur með skóflu og járnkarl til þess
að gera Ólafi Ketilssyni, bílstjóra á Laugarvatni, fært
að komast Kóngsveginn síðla maímánaðar 1944 alla
leið út að Úhlíð til þess að flytja fólk til kirkju að
Torfastöðum, því drengurinn átti að fermast. Þetta
samgönguleysi við Hlíðabæina breyttist ekki fyrr
en um 1960“, þegar þjóðvegurinn var lagður frá
Laugarvatni að Geysi og Brúará og Fullsæll brúuð, sú
fyrrnefnda 1961 og hin 1962.
Brúin yfir Brúará „gegndi hlutverki sínu nokkurn
veginn fram til 1950, en þá höfðu bæði gólf brúarinnar
og burðarvirki fúnað þótt árlega væri reynt að berja
í brestina með nýjum stoðum og stífum“, vitnar
Baldur í bréf Gísla Sigurðssonar frá Úthlíð. Eins og
þessar tilvitnanir sýna voru timburbrýrnar erfiðar í
viðhaldi og allsendis ófullnægjandi á bílaöld, enda
ekki hannaðar fyrir bílaumferð. Brúin var þó áfram
notuð fyrir hestaferðir og gangandi fólk. En árið 1960
varð hörmulegt slys, þegar skoski hestamaðurinn og
dýralæknirinn Stuart McIntosh drukknaði í ánni ásamt
hesti sínum, er hann var þar á ferð með hóp skáta.
Leist honum ekki á að fara með hestana yfir brúna og
ákvað því að ríða ofan við fossinn, en lenti þá í gjánni.
Eftir það var brúin rifin, árið 1961, sama ár og ný brú
var byggð á ána við Efri-Reyki, enda orðin hættuleg
yfirferðar. Var brúarlaust á Steinbogagljúfri frá 1961
til 1966 að ný stálbitabrú var byggð yfir Brúará við
Brúarfoss.
Brúin 1966
Núverandi brú er reið- og göngubrú gerð úr
stálbitum, 14 m á lengd. Þá brú byggði Haukur
Karlsson brúasmiður árið 1966 (samkvæmt gögnum
Vegagerðarinnar) og yfir þá brú hefur enginn kóngur
riðið það vitað sé þótt merkt sé sem Kóngsbrú við
göngustíg frá Brekkuskógi!
Til er bréf frá Þorkeli Bjarnasyni á Laugarvatni til
landbúnaðarráðherra árið 1962, þar sem hann fer fram
á það, að ný brú verði byggð á Brúará á hinni gömlu
leið milli Laugarvatns og Geysis, sem yrði aðeins fyrir
ríðandi menn. En þá var nýja Brúarárbrúin við Efri-
Reyki nýbyggð.
Í bréfinu segir Þorkell m.a.: „Gamla brúin á Brúará
hefur verið felld. Nú eru það eindregin tilmæli, ég
mæli fyrir munn fjölmargra ferða- og hestamanna, að
þér látið hrinda því verki í framkvæmd, að ný brú verði
byggð á hinni gömlu leið, sem yrði aðeins fyrir ríðandi
menn. Sú brú gæti þá orðið mun ódýrari. Stöplarnir
gömlu eru steinsteyptir og ættu að duga. Athuga þarf,
hvort ekki má nota járnbita og fleira úr gömlu brúnni
á Skillandsá. Einnig mundi það spara stórlega að
grípa tækifærið og gera þetta um leið og Fullsæll er
brúaður. Það er svo stutt milli staða.“ Síðan lýsir hann
því hve sárt það sé „að ríða eftir hörðum vegum, þar
sem bílastraumur með ryki og skarkala spillir mjög
dásemdum okkar fagra lands.“
Stálbitabrúin frá 1966 ný endurgerð. Núverandi stein-
bogi í ánni vel sýnilegur.
Upplýsingar um það hvort farið var að ráðum Þorkels
og stálbitar úr gömlu Skillandsárbrúnni notaðir í brúna
við Brúarfoss 1966, fundust ekki hjá Vegagerðinni, en
væri fróðlegt að frétta af ef einhver veit um það.
Endurbætur á brúnni 2009
Þann 9. júlí árið 2009 var vígt nýtt tréverk á brúnni
með samkomu og ræðuhöldum við Brúarfoss í björtu
og fallegu veðri. Var brúin gerð upp í tilefni 100
ára sögu brúar á Brúará (2001) og 100 ára afmælis
konungsheimsóknarinnar 1907, enda var tréverkið á
brúnni frá 1966 þá orðið mjög fúið. Handrið dottið