Litli Bergþór - 01.12.2014, Blaðsíða 36
36 Litli-Bergþór
Fjölgun ferðamanna til Íslands undanfarin ár hefur
ekki farið framhjá nokkrum manni og síst þeim sem
vinna í þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og öðrum
ferðamannastöðum landsins. Þessi fjölgun hefur
vakið upp nauðsynlegar umræður um gjaldtöku á
helstu ferðamannastöðum sem hafa aldrei verið undir
meira álagi.
Í umræðunni kemur alltaf fyrir orðið ferða-
mannastaður. En hvað er ferðamannastaður? Er það
vegöxl þar sem tveir erlendir ferðamenn hoppa úr bíl
sínum til að taka mynd af íslenskum hesti með fjall í
baksýn? Eða er það svæði sem hefur formlega umgjörð
og er í skilgreindri eigu, einkaeigu eða opinberri eigu.
Ferðamannastaðir á Íslandi eru flestir í eigu ríkis eða
sveitarfélaga og margir friðlýstir á einhvern hátt.
Umræða undanfarna mánuði hefur snúist að mestu
leyti um það hvaða aðferð skal beitt til að rukka
fyrir aðgang að náttúruperlum landsins og hvaða
náttúruperlur verða fyrir valinu.
Minna hefur farið fyrir umræðu um rekstur og
stjórnun þjóðgarða og friðlýstra svæða og hvaða
uppbygging verði að eiga sér stað til þess að hægt sé
að taka á móti ferðamönnum.
Mjög lítið hefur verið rætt um hvaða
rekstrarskilyrðum ferðaþjónustu skuli búin í
þjóðgörðum og friðlýstum svæðum eða hvort að
ferðaþjónustan sem atvinnugrein beri einfaldlega
einhverja ábyrgð á því ástandi sem skapast þegar
hundruðir ef ekki þúsundir ferðamanna heimsækja
helstu náttúruperlur landsins á sama tíma.
Í þeim löndum sem við viljum bera okkar okkur
saman við þá gilda mjög skýrar reglur um stjórnun og
rekstur ferðaþjónustu innan þjóðgarða og friðlýstra
svæða. Þar má nefna þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna
og Kanada, Umhverfisstofnun Nýja-Sjálands og
Ástralíu svo dæmi séu tekin. Ferðaþjónustufyrirtæki
eru einfaldlega starfsleyfisskyld og lúta þeim kröfum
og reglum sem settar eru af þeim stofnunum sem
við eiga. Samhliða því eru innheimt gjöld fyrir
afnot ferðaþjónustu af svæðum í opinberri eigu. Ef
viðskiptatækifærin snúast um takmarkaða auðlind eru
þau boðin út.
Á Nýja-Sjálandi eru þjóðgarðar og friðlýst svæði
helstu ferðamannastaðir landsins og því er góð stjórnun
og skýr stefna lykilatriði. Stjórnun ferðaþjónustu
innan þjóðgarða er mjög fyrirferðarmikil í starfi
Umhverfisstofnunar Nýja-Sjálands (DOC) en þar
er mjög einfalt kerfi sem gerir ráð fyrir því að gjald
sé tekið af þeim sem vilja nýta þjóðgarða og friðlýst
svæði í viðskiptalegum tilgangi.
Grunnreglan er að þeir sem hafa fjárhagslegan
ávinning af því að vera inni á svæðum undir stjórn
Umhverfisstofnunar Nýja-Sjálands, þjóðgörðum,
þjóðskógum og öðrum verndarsvæðum verða að gera
um það samninga og borga fyrir afnot. Þetta kerfi á við
alla notkun í viðskiptalegum tilgangi m.a. beitarafnot,
námavinnslu, skógarhögg, kvikmyndatökur yfir í
ferðaþjónustu svo fátt eitt sé nefnt.
Þar sem ferðaþjónustan er stærsti notandi þjóðgarða
borga þeir fyrir öll afnot af slíkum svæðum. Verðskráin
er byggð upp fyrir mismunandi notkun og tímalengd
og samningar geta verið fyrir einn atburð eða til fleiri
ára. Ferðaskrifstofurnar fella síðan gjöldin inn í verð
til ferðamanna. Hins vegar greiða skattborgarar
Nýja-Sjálands og ferðamenn á eigin vegum ekki
aðgangseyri að þeim svæðum sem Umhverfisstofnun
Nýja-Sjálands stýrir.
Grunnhugmyndin með leyfisveitingum og
gjaldheimtu er að Umhverfisstofnun Nýja-Sjálands
ráðstafar landinu fyrir skattborgarana og innheimtir
leigu fyrir það. Annað sem er mjög mikilvægt með
þessu kerfi er að það fæst einstök yfirsýn yfir starfsemi
og landnotkun innan svæðanna sem er nauðsynleg
fyrir alla áætlanagerð til framtíðar.
Hugleiðing um gjaldtöku í þjóðgörðum
og friðlýstum svæðum
Þessi mynd er tekin á norður eyjunni við skiltið af
einum frægasta þjóðgarði Ný sjálendinga Tongariro
þjóðgarðinum sem er á heimsminjaskrá fyrir bæði
náttúru og menningu.
Myndir frá ferð höfundar til Nýja-Sjálands. Hér má sjá
fjallasýn í Tongariro.