Morgunblaðið - 07.09.2018, Page 12
12 DAGLEGT LÍF
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 7. SEPTEMBER 2018
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Ég kom til Dubai í ágúst2016 og bjó þar í nokkramánuði. Þá var 47 stigahiti þar. Ég gat ekki ver-
ið úti nema í nokkrar mínútur í einu
en farandverkamennirnir voru úti
að vinna erfiðisvinnu í þessum
hræðilegu aðstæðum frá morgni til
kvölds. Mér fannst þetta svakalegt
og ég fékk áhuga á að kynna mér
hverjir þessir menn væru. Ég fór í
hverfin þar sem þeir bjuggu og fékk
að skoða aðstæður þeirra, sem voru
heldur lakar. Þrjátíu til fjörutíu
menn bjuggu saman í einu húsi og
sváfu sextán saman í 15 fermetra
herbergi. Mér fannst þetta líkast
þrælahaldi en það sem kom mér á
óvart var hvað þeir voru hamingju-
samir, glaðlegir og yndislegar
manneskjur,“ segir Óskar Hall-
grímsson, ljósmyndari og grafískur
hönnuður, en hann fann aftur ástríð-
una fyrir ljósmyndun þegar hann
myndaði þessa farandverkamenn
sem voru frá Pakistan og Indlandi.
„Ég elska að segja sögur með
myndum. Og ég vil segja sögur þar
sem lífið kemur manni skemmtilega
á óvart. Aðstæður þessara farand-
verkamanna heima fyrir voru svo
margfalt lakari en þær sem þeir
bjuggu við í Dubai. Þess vegna voru
þeir svona glaðir. Þeir voru frá fá-
tækrahverfum þar sem ekki var
rennandi vatn, ekki rafmagn, engin
sorphirða og svo framvegis, en í
Dubai voru þeir með rennandi vatn,
rafmagn og farsíma. Og ruslið
þeirra var alltaf hirt. Þetta var lúxus
fyrir þá,“ segir Óskar, sem hélt sýn-
ingu með myndum sínum af farand-
verkamönnunum.
Að búa í Bombay er eins og
að vera á annarri plánetu
Óskar segir að ferð hans til
Dubai hafi verið sú fyrsta af mörg-
um til framandi landa.
„Röð furðulegra atburða leiddi
mig þangað í framhaldi af því að ég
útskrifaðist sem grafískur hönnuður
úr Listaháskóla Íslands fyrir þrem-
ur árum. Fram að því hafði ég unnið
við hin ólíkustu ljósmyndaverkefni í
lausamennsku. Í Dubai vann ég á
auglýsingastofu sem grafískur
hönnuður en ég var alltaf að mynda
um helgar og þegar ég hafði tíma.
Þegar vegabréfsáritun mín rann út
fór ég aftur til Íslands og fann að ég
var kominn með mikla ævintýraþrá,
mig langaði til að fara aftur út í
heim. Vinur minn bjó á þessum tíma
í Bombay (Mumbai) á Indlandi og
ég skellti mér þangað eftir að hafa
unnið á sjó heima á Íslandi til að
safna fyrir farareyri. Ég fór í einn
frystitogaratúr og nokkra aðra túra.
Ég lét bara vaða til Bombay án þess
að vita hvað ég væri að fara að gera.
Ég á ekki konu eða börn, svo það er
ekkert sem bindur mig hér heima
og engin ástæða til að freista ekki
gæfunnar,“ segir Óskar, sem fékk
vinnu í Bombay á stað sem á ensku
kallast „community working space“.
„Þarna var saman komið fólk
alls staðar að úr heiminum og úr
hinum ólíkustu geirum. Þetta skrif-
stofurými var í byggingu sem var
áður breskt nýlendubókasafn, gríð-
arlega flott og gaman að starfa í
þessu umhverfi. Ég vann þarna sem
listrænn stjórnandi og sem graf-
ískur hönnuður og samstarfsfólkið
kom úr öllum áttum, bæði erlent og
innlent. Einn var til dæmis vísinda-
maður frá NASA, einn af þeim sem
voru á bak við New Horizons-geim-
skipið sem fór til Plútó. Þetta var
ótrúlega gaman og ég kynntist ynd-
islegu fólki og byggði þarna upp
gott tengslanet,“ segir Óskar, sem
meðfram starfi sínu í Bombay sem
grafískur hönnuður var líka alltaf að
mynda það sem fyrir augu bar í
hversdagslífinu, íbúa hinnar óreiðu-
kenndu borgar og úr því varð ljós-
myndabók hans, sem heitir einfald-
lega BOMBAY.
„Að búa í þessari borg er eins
og að vera á annarri plánetu. Mann-
fjöldinn er yfirþyrmandi, þarna
ferðast til dæmis 20 milljónir manna
með lestarkerfinu á degi hverjum.“
Börn eru vinnuafl fyrir for-
eldra svo þau mæta ekki í skóla
Óskar bjó í Bombay í fimm
mánuði og þegar vegabréfsáritun
hans rann út var hann búinn með
peningana, svo hann fór heim og
skellti sér beint á sjóinn til að afla
meira fjár.
„Þetta er orðið að mynstri hjá
mér og ég kann því vel. Ég kem
heim á sjóinn, fer svo til útlanda í
nokkra mánuði á vit ævintýra með
peningana. Kem þá aftur heim og
svo framvegis. Ég fór til Taílands og
Víetnam og er núna að fara aftur til
Indlands, því þar er ég kominn með
þrjú verkefni sem ljósmyndari. Ég
mun vinna að kynningarefni fyrir
hjálparsamtök, en mörg slík samtök
voru með starfsstöð þar sem ég
vann í Bombay. Fyrsta ljósmynda-
verkefnið mitt verður fyrir samtök
sem vinna með krökkum sem búa í
fátækrahverfunum í Bombay, þau
hafa stofnað fótboltadeildir, byggja
fótboltavelli og gefa krökkunum
búninga. Allt er þetta leið til að gefa
börnunum von, því þó að þessir
krakkar hafi aðgang að menntun
mæta þau ekki í skólana því þau
þurfa að sinna störfum fyrir foreldr-
ana sem nota þau sem vinnuafl. Fót-
boltinn gefur þeim möguleika á að
fá hvíld frá vinnu og fá að vera börn
að leika sér. Auk þess fá þau aðgang
að menntun í gegnum þetta verk-
efni.“
Skapa konum vinnu svo þær
öðlist fjárhagslegt sjálfstæði
Óskar er mjög spenntur fyrir
öðru ljósmyndaverkefni sem bíður
hans á Mið-Indlandi, en það snýst
um konur í þorpum sem ákveðin
hjálparsamtök hafa unnið með.
„Samtökin veita þessum konum
vinnu við að sauma sarí, sem er bún-
ingur indverskra kvenna, en með
slíkri vinnu öðlast þessar konur fjár-
hagslegt sjálfstæði, sem í framhald-
inu veitir þeim aðgang að heil-
brigðisþjónustu. Þær fá full laun
fyrir vinnu sína en eru ekki að þræla
fyrir vestræn fyrirtæki sem vilja
græða á ódýru vinnuafli,“ segir Ósk-
ar, sem stefnir að því að vera í tvo
mánuði á Indlandi í þetta sinn.
„Að loknum þessum verkefnum
ætla ég til Varanasi á Indlandi að
heimsækja íslenskan félaga minn og
taka myndir. Indland er svo merki-
legt, það þreytir mann með áreitinu
en um leið elskar maður það og vill
alltaf fara aftur,“ segir Óskar og
hlær og bætir við að hann stefni á að
fara líka til Víetnam og Kambódíu.
„Þegar maður ferðast víða um
veröldina eignast maður marga vini
sem gott er að eiga að á flakkinu.
Mér finnst ég vera rétt að byrja.“
Rúnum ristur Gamalt fólk í fátækrahverfum Indlands hefur
reynt margt um ævina, eins og annað fólk sem býr við skort og
hefur takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu.
Vændishverfi Kamatiphura er stærsta rauða hverfi í Asíu.
Langamma passar oft börnin á meðan amma, mamma og dótt-
ir vinna í vændi í kofanum sem þau búa í.
Hveitimalari í Daravi Í stærsta fátækrahverfi í Indlandi býr
rúmlega milljón manns á svæði sem er á stærð við Fellahverf-
ið. Malarar mala hveiti í litlum básum hér og þar um Bombay.
Vinnur á sjón-
um fyrir flakki
um heiminn
Í hvert sinn sem hann fer frá Indlandi vill hann aldr-
ei fara þangað aftur, hann fær nóg af áreitinu. En eft-
ir ákveðinn tíma þráir hann að fara þangað enn á
ný. Óskar Hallgrímsson er ævintýramaður og kann
vel við að ferðast og leika sér þar til hann er orðinn
auralaus, þá kemur hann heim og fer á sjóinn og
vinnur sér inn fyrir næstu ferð. Fer svo aftur á flakk. Ljósmyndir/Óskar Hallgrímsson
Aðalkarlinn Fíkniefnasalinn í hverfinu þar sem Óskar bjó í Bombay. Hér með stórfjölskyldunni.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ljósmyndari Óskar fann aftur ástríðuna fyrir ljósmyndun úti í Dubai.
Farandverkamenn í Dubai Óskar kynntist þeim vel þegar hann vann að
ljósmyndaverkefni um þá. Hér eru tveir þeirra í 15 fermetra herbergi sem
þeir deildu með 14 öðrum. Af því má sjá hvílík þrengsli þeir búa við.
Bók Ljósmyndabók Óskars geymir
myndir hans frá dvölinni í Bombay.
Ég á ekki konu eða
börn, svo það er ekkert
sem bindur mig hér
heima og engin ástæða
til að freista ekki gæf-
unnar.
www.oskarhallgrimsson.com
instagram.com/skari