Morgunblaðið - 04.10.2018, Qupperneq 62
62 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 4. OKTÓBER 2018
KLASSÍSK ÍSLENSK ÚR
FYRIR HANN OG HANA
Valgerður Þ. Jónsdóttir
vjon@mbl.is
Allt leikur í lyndi hjá Guðrúnu,
glæsilegri 55 ára blaðakonu sem á
velgengni að fagna bæði í starfi og
einkalífi. Hún er fráskilin, barnlaus,
á marga góða vini og er ýmislegt til
lista lagt, til að mynda er hún
snilldarkokkur. Guðrún hefur full-
komna stjórn á eigin lífi þegar ógæf-
an dynur yfir og ekkert verður aftur
eins og áður. Hún greinist með Alz-
heimer, sjúkdóminn sem margir ótt-
ast, eða snemm-Alzheimer eins og
hann er kallaður þegar hann leggst á
45 til 65 ára – eins og gerist í auknum
mæli í raunveruleikanum.
Leikritið Ég heiti Guðrún, til jafns
samstarfsverkefni Leiktóna, fyrir-
tækis Sigrúnar Waage, leik- og
söngkonu, og Þjóðleikhússins, verð-
ur frumsýnt 5. október í Kúlunni í
Þjóðleikhúsinu. Viðfangsefnið er
snemm-Alzheimer og ferlið sem
sjúklingar og aðstandendur þeirra
ganga í gegnum. Einnig og ekki síst
innilega vináttu fjögurra kvenna og
hvernig hún þróast þegar ein þeirra
greinist með þennan sjúkdóm, sem
leiðir hana til óminnis og einskis.
Vinkonurnar ákveða að standa sam-
an og styðja Guðrúnu til hinstu
stundar. Vágesturinn fær þær til að
rifja upp fortíðina og endurskoða líf
sitt.
Fór sigurför um Skandinavíu
„Tregablandinn gamanleikur,“
segir Sigrún, sem á frumkvæðið að
því að koma verkinu á fjalirnar.
„Mér er efnið sérstaklega hugleikið
af persónulegum ástæðum. Ég set
leikritið upp til heiðurs móður minni,
Guðrúnu Hjálmarsdóttur Waage,
sem var með Alzheimer eins og
nokkur systkini hennar. Ég fylgdi
henni gegnum ferlið sem í hennar til-
viki var mjög langt, eða tólf ár. Hún
lést 2011. Tveimur árum síðar þegar
ég var í kennaranámi í radd- og
söngþjálfun í Complete Vocal Insti-
tute í Kaupmannahöfn samhliða
starfi mínu sem flugfreyja hjá Ice-
landair var verið að frumsýna verkið
Jeg hedder Bente eftir Rikke Wölck,
sem átti eftir að fara sigurför um
Skandinavíu. Ég kynntist einni leik-
konunni og við spjölluðum mikið sam-
an um viðfangsefnið, sjálf þekkti hún
engan með sjúkdóminn og spurði mig
mikið um mömmu. Leikritið bæði
heillaði mig og snart djúp. Það sat í
mér – mallaði einhvern veginn í hug-
anum – svo ég ákvað að tryggja mér
sýningarréttinn á Íslandi.“
Þarft samfélagsverkefni
Sigrún útskrifaðist frá Complete
Vocal Institute í vor, en hafði í milli-
tíðinni keypt réttinn með aðstoð
tveggja vina sinna og sótt í tvígang
um styrk hjá mennta- og menningar-
málaráðuneytinu án þess að fá
áheyrn og sömuleiðis árangurslaust
um listamannalaun fyrir leikhópinn.
„Ég hef alltaf litið á uppsetningu
leikritsins sem þarft samfélagsverk-
efni í því skyni að upplýsa þjóðina um
sjúkdóminn og koma umræðunni á
annað stig; að tengja saman listir og
vísindi. Þrjóskan kom upp í mér og
eftir að þjóðleikhússtjóri samþykkti
vorið 2017 að taka verkið sem sam-
starfsverkefni fékk ég Magneu Matt-
híasdóttur til að þýða það, leitaði til
einkafyrirtækja um styrki og varð vel
ágengt.“
Hvorki leikstjóra- né leikkonuvalið
vafðist fyrir Sigrúnu. Vinkonurnar
blöstu við henni í brúðkaupsveislu
Vigdísar Gunnarsdóttur í Lyon í
Frakklandi í hittifyrra; brúðurin
Elva Ósk Ólafsdóttir og leikstjórinn
Pálína Jónsdóttir, sem hún hefur
mikla trú á. Lára Jóhanna Jónsdóttir
var svo ráðin seinna.
„Ég sá útskriftarverkefni Pálínu í
Columbia-háskólanum í New York og
þurfti ekki frekari vitnanna við,“ seg-
ir Sigrún, sem sjálf leikur Guðrúnu
og stígur um leið í fyrsta skipti á leik-
sviðið eftir sautján ára fjarveru. Hún
kvaddi leikhúsið árið 2001 þegar hún
missti dóttur sína, Hafdísi Hlíf, úr
bráðaheilahimnubólgu. Annað áfall
reið yfir tólf árum síðar þegar yngsta
dóttir hennar upplýsti um kynferðis-
legt ofbeldi, sem hún hafði orðið fyrir
sem barn af hendi fjölskyldumeðlims,
sem þó var ekki blóðtengdur. Ekki
þarf að orðlengja að álagið hlýtur að
hafa verið gríðarlegt og einnig að
sinna móður með Alzheimer.
Listin góð örvun fyrir heilann
Sigrún dvelur ekki lengi við einka-
líf sitt, en segir þó að íslensk vinkona
hennar í náminu í Kaupmannahöfn
hafi sagt að fyrra áfallið hafi tekið
hana út úr leikhúsinu en það seinna
muni koma henni inn í það aftur.
„Hún hafði rétt fyrir sér, enda held
ég að það hafi bjargað lífi mínu að
vera í listaskóla um leið og ég var að
vinna úr svona ömurlegu áfalli.
Ástæða þess að ég stíg nú aftur á svið
í þessu leikriti er að ég brenn fyrir
viðfangsefninu og það hefur verið að
gerjast í mér öll þessi ár.“
Og úr því að hún minnist á listina
má geta þess að Sigrún er sannfærð
um að listin sé Alzheimer-sjúklingum
mjög mikilvæg. „Listin nýtist alls
staðar og er góð örvun fyrir heilann.
Ég hef séð langt leidda sjúklinga,
sem sumir geta ekki talað, syngja
með þegar þeir heyra eitthvert lag
frá því í gamla daga.“
Sigrún segir sáralítið hafa þurft að
breyta eða staðfæra leikritið. Þótt að-
stæður kunni að vera ólíkar séu birt-
ingarmyndir sjúkdómsins alls staðar
eins og aðstandendur hafi svipaða
sögu að segja.
„Ekki sagan hennar mömmu“
„Inntakið er það sama og í danska
verkinu, en útlit og hvernig við tökum
á einstökum senum undir stjórn Pál-
ínu er oft með gjörólíkum hætti. Ég
er sú eina sem hef séð dönsku upp-
færsluna svo hinar hafa engan
samanburð. Við breyttum nöfnunum,
Bente varð Guðrún og vinkonurnar
Hanna, Vera og María. Raunar var
svolítið merkilegt að Pálína stakk
upp á Guðrúnarnafninu án þess að ég
hefði sagt henni að í mínum huga var
Bente alltaf Guðrún. Ólíkt móður
minni, sem átti mann og fjórar
dætur, sem hugsuðu um hana, á Guð-
rún í leikritinu bara vinkonur sínar að
og er auk þess miklu yngri en
mamma þegar hún greinist. Leikritið
er ekki sagan hennar mömmu, þótt á
stundum glitti í hana í nöfnu hennar,“
segir Sigrún.
Undirbúningurinn fólst m.a. í að fá
fjölda sérfræðinga sem og aðstand-
endur til ráðgjafar. Af leikhópnum er
Sigrún sú eina sem þekkir hvernig er
að vera aðstandandi. „Sannleikurinn
er sá að við horfum á manneskju sem
okkur þykir vænt um missa smám
saman öll tengsl við raunveruleikann,
dragast inn í skel og verða í rauninni
bara búkur. Eins sorglegt og þetta
ferli er, geta Alzheimer-sjúklingar
átt skemmtilegar stundir, að minnsta
kosti áður en sjúkdómurinn kemst á
lokastig. Vinkonurnar í leikritinu eru
líka skemmtilegar inn á milli, þær slá
á létta strengi og eru góður félags-
skapur. Áhorfendur þurfa ekki að
láta sér leiðast,“ lofar Sigrún.
Leikkonur á miðjum aldri
Henni finnst einn kosturinn af
mörgum við leikritið vera að það býð-
ur upp á hlutverk fyrir konur á
miðjum aldri. Og að konur séu í mikl-
um meirihluta í „áhöfninni“. „Filippía
I. Elíasdóttir á heiðurinn af búning-
unum og þær Pálína báðar af leik-
myndinni. Hvort tveggja mikið lista-
verk að mínu mati. Anna Halldórs-
dóttir semur tónlistina og Ásta
Jónína Arnardóttir sér um mynd-
bönd og er aðstoðarkona Pálínu, svo
ég nefni þær helstu. Leikstjórinn og
við leikkonurnar erum allar um og yf-
ir fimmtugt, nema Lára Jóhanna,
sem er þó nokkrum árum yngri.
Hlutverk fyrir miðaldra konur í leik-
húsinu eru fá og þeim fækkar eftir
því sem þær eldast,“ segir Sigrún og
stingur upp á að konur snúi sjálfar
þróuninni við og skrifi fleiri handrit
fyrir þroskaðar konur.
Spurð hvort henni finnist hlutverk
Guðrúnar erfitt og krefjandi svarar
hún að öll hlutverk séu krefjandi á
sinn hátt. Trúlega er hún einnig að
skírskota til mismunandi hlutverka á
leiksviði lífsins. „Eins og við öll eiga
vinkonurnar sér allar sína sögu. Við
förum fram og til baka í tíma og erum
meira og minna á sviðinu í tvo
klukkutíma með hléi.“
Áleitnar spurningar
Sigrún vill ekki gefa upp hvernig
eða hvort konurnar þrjár í leikritinu
bregðist með mismunandi hætti við
sjúkdómi vinkonu sinnar. Það verði
bara að koma í ljós á sýningunni,
segir hún.
Hún skirrist þó ekki við að svara
þeirri áleitnu spurningu hvernig hún
sjálf – í ljósi reynslunnar sem að-
standandi – myndi vilja að aðstand-
endur hennar brygðust við fengi hún
sjúkdóminn. „Þegar ég minnist erf-
iðustu tímanna með mömmu, myndi
ég ekki vilja að börnin mín, sem þeg-
ar hafa gengið í gegnum svo margt,
þyrftu að annast mig ósjálfbjarga
inni á einhverri stofnun í tíu ár. Ég vil
að þau geti lifað sínu lífi án þess að
vera endalaust með samviskubit út af
mér.“
Þótt varla sé hægt að ráða í svarið
nema á einn veg, segist Sigrún ekki
vera búin að taka afstöðu ennþá ef til
þessa kæmi. „Við fáum öll eitthvað á
endanum,“ segir hún svo á léttu nót-
unum og víkur talinu aftur að leikrit-
inu.
„Höfundurinn, Rikke Wölck, sem
sjálf leikur í dönsku uppfærslunni, og
leikstjóri sýningarinnar, Madeleine
Rön Juul, ætla að mæta á frumsýn-
inguna og verður spennandi að vita
hvað þeim finnst um íslensku útgáf-
una. Leikritið Ég heiti Guðrún verð-
ur bara sýnt í október. Búið er að
setja tuttugu sýningar í sölu og þegar
er uppselt á sextán, sem er svakalega
mikið og framar okkar björtustu
vonum. Fólk hefur augljóslega mik-
inn áhuga á málefninu.“
„Guðrún“ í minningu Guðrúnar
Leikritið Ég heiti Guðrún verður frumsýnt í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu 5. október Viðfangsefnið
er snemm-Alzheimer Tregablandinn gamanleikur sem einnig hverfist um vináttu fjögurra kvenna
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Vinkonur Að baki
Sigrúnu Waage eru
Lára Jóhanna Jóns-
dóttir, Elva Ósk
Ólafsdóttir og Vigdís
Gunnarsdóttir.