Morgunblaðið - 11.04.2019, Qupperneq 32
32 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 11. APRÍL 2019
Smiðjuvegur 10, 200 Kópavogur - Sími 588 60 70
hitataekni.is
– sjö viftur í einni
Ein sú hljóðlátasta á markaðinum (17-25 dB)
Valin besta nýja
vara ársins,
Nordbygg 2016
Sjálfvirk, raka-og hitastýring, fer sjálfkrafa í gang þegar
ljós eru kveikt eða við hreyfingu í rými.
Klimat K7 er fjölnota vifta, þróuð og
framleidd í Svíþjóð.
Eltak sérhæfir sig í sölu
og þjónustu á vogum
Bjóðum MESTA úrval
á Íslandi af smáum
og stórum vogum
Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Öld er liðin frá því mikið snjóflóð féll
úr Staðarhólshnjúk við Siglufjörð og
sópaði með sér öllum mannvirkjum
síldarverksmiðju, sem þar stóð, og
sex öðrum húsum. „Þar stóð ekki
steinn yfir steini og eyðileggingin af-
skapleg,“ sagði í blaðinu Fram. Níu
manns létust í snjóflóðinu, sem féll
12. apríl árið 1919 en sjö komust lífs
af. Sama dag og daginn eftir féllu
snjóflóð í Engidal og í Héðinsfirði og
þar létu samtals níu lífið.
Síldarverksmiðjan, sem stóð á
sjávarbökkunum sunnan og neðan
Staðarhóls, var í daglegu tali nefnd
Evangers-verksmiðjan eftir tveimur
norskum bræðrum, Gustav og Olav
Evanger. Þarna var áður búið að
setja upp síldarútgerð og síldar-
söltun en Evangerbræður reistu
verksmiðjuna í félagi við fyrirtækið
Thomas Morgan & Sohn í Hamborg.
Á söguskilti í Síldarminjasafninu á
Siglufirði segir, að verksmiðjuhúsið
hafi verið þrílyft, byggt úr timbri á
steyptum grunni. Á jarðhæð var 140
hestafla vél knúin gufuafli. Gufan var
leidd í járnrörum frá kolakyntum
gufukatli. Reim frá gufuvélinni lá upp
á næstu hæð og sneri þar löngum
öxli. Á öxlinum voru margar og mis-
stórar reimskífur og þaðan lágu
reimar upp og niður og sneru press-
um, kvörnum, færiböndum og margs
konar öðrum vélbúnaði. Allt var upp-
lýst með rafmagni frá gufutúrbínu.
Fyrir framan var steinsteypt síldar-
þró og úr henni var síldin flutt með
færibandi í sex suðukör á efstu hæð.
Verksmiðjan tók til starfa árið
1911 og var fyrsta stóra síldarverk-
smiðjan á Íslandi. Þar voru byggð
geymslu- og starfsmannahús, ramm-
byggð bjálkahús í norskum stíl.
Myndaðist lítið þorp austan fjarðar-
ins sem blasti við kauptúninu á Eyr-
inni. Alls unnu 80-100 manns við
verksmiðjuna á vertíðum og fyrstu
átta árin sem hún starfaði tók hún við
mjög miklu af síld til bræðslu og
skapaði mikil verðmæti.
Í bókinni Siglfirskir söguþættir,
eftir Þ. Ragnar Jónasson, sem kom
út árið 1997, segir að fáir hafi aug-
ljóslega gert sér grein fyrir því að yf-
ir þessum glæsilegu mannvirkjum
við Staðarhól vofði stórhætta. Að-
eins voru þó liðin 80 ár frá því að
snjóflóð hafði fallið á sömu slóðum,
árið 1839 og einhverjir í Siglufirði
hlytu að hafa haft spurnir af þeim
hamförum. Raunar sagði í Morgun-
blaðinu, þegar fjallað var þar um
náttúruhamfarirnar, að eftir sein-
asta flóðið hafi verið gerður grjót-
garður uppi í hlíðinni til varnar gegn
snjóflóðum framvegis, „en nú kom
hann að engu haldi, því að snjórinn
var svo mikill, að hann var í kafi.“
Ógurlegt snjóflóð
Veturinn 1919 var einn mesti snjó-
flóðavetur á síðustu öld. Laugardag-
inn 12. apríl féll mikið snjóflóð úr
Staðarhólshnjúk og Skollaskál. Flóð-
ið sópaði með sér öllum verksmiðju-
húsunum, geymsluhúsum og íbúðar-
húsum, ásamt birgðum af tómum
síldartunnum og áfylltum lýsis-
fötum. Ekki var starfsemi í verk-
smiðjunni þegar þetta gerðist en
norskur verkstjóri var í íbúðarhús-
inu ásamt konu sinni.
Í frásögn Þ. Ragnars kemur fram,
að blaðið Fram hafi komið út þennan
örlagaríka laugardag eins og aðra
laugardaga.
„Svo virðist sem búið hafi verið að
prenta forsíðu blaðsins þegar fréttir
bárust af flóðinu en frásögn komst
inn á aðra síðu. Aðalfyrirsögnin er
„Ógurlegt snjóflóð og síðan stendur
með heldur minna letri „féll hér
austan fjarðar í nótt. Tók yfir um
1.000 faðma svæði. Sópaði sjö húsum
út í sjó, og gekk yfir bæinn í Neðri-
Skútu. 16 manns lentu í flóðinu. 7
náðust lifandi eftir 10 tíma. 9 manns
ófundið ennþá og talið af. Flóðbylgj-
an æddi hér yfir á eyri og gerði stór-
skaða. Tjónið um 1 1/2 milljón kr.“
Á eftir fylgdi ítarleg frétt þar sem
meðal annars sagði: „Eftir því sem
vér best vitum enn þá verða menn
fyrst varir þessa voða viðburðar
þannig að um kl. 4 í nótt verður
vökumaður á m.b. Æskan, sem lá við
Lýsisbryggju svokallaða, sjónar-
vottur þess að flóðbylgja ógurleg
kemur æðandi austan yfir fjörðinn.
Sá hann um leið að fjörðurinn var
snjóhvítur og hyggur í svipinn að
hafís sé þar kominn. Flóðbylgjan
æðir á land upp með afskaplegum
aðgangi og tók t.d. skip þetta sjó inn
að lúkugötum um leið og bylgjan
reið yfir. Afleiðingar flóðbylgjunnar
urðu hroðalegar. Utan frá Bakkevig
og alla leið suður til Roalds eyðilögð-
ust allar bryggjur meira og minna og
svo var afl bylgjunnar mikið að tvö
fiskiskip Sam. verslananna, sem á
landi stóðu, fluttust úr stað en mót-
orbátar og smærri bátar lágu sem
hráviði hér og þar um eyraroddann,
m.b. Georg spónmölvaðist og mótor-
bátur sem lá upp við Roaldsbryggju
hentist á hvolf.“
Heimilisfólkið fannst örent
Síðar kom í ljós, að snjóflóð hafði
einnig fallið á bæinn Engidal og þar
fórst sjö manna fjölskylda. Í blaðinu
Fram, sem kom út viku síðar, segir
svo frá, að afarmikið snjóflóð hafi
fallið um þveran dalinn og síðan ofan
eftir honum, hlaupið á bæjarhúsin og
grafið þau en eigi náð peningahúsum
er stóðu nær sjónum.
„Sást þar ekkert líf heima við, þar
er bærinn hafði staðið, nema hundur
einn sem var þar á vakki. Sáu menn
hvar héppi hafði grafið sig upp úr
flóðinu og að hann var blóðugur og
rifinn á löppunum. Haus á dauðu
hrossi sást upp úr fönninni og kofa-
rústum rétt fyrir neðan bæinn. Var
þegar farið að moka upp bæjarrúst-
irnar og er þar skemmst af að segja
að heimilisfólkið allt, 7 manns, fannst
þar örent í bæjarbrotunum undir 4
til 5 álna þykku flóði. Var fólkið allt í
rúmunum svo snjóflóðið hefur fallið
að náttarþeli, og miklar líkur til að
verið hafi sömu nóttina og voðaflóðið
féll hér í Siglufirði, því líkin voru
mikið farin að rotna.“
Að auki létust tveir karlmenn
þessa sömu helgi þegar snjóflóð féllu
úr fjöllum í Héðinsfirði. Alls létu því
18 manns lífið af völdum snjóflóða.
Evangersbræðurnir voru í Noregi
þegar þessir atburðir gerðust.
Síldarbræðsla þeirra var ekki endur-
byggð, en árið 1922 komu þeir bræð-
ur aftur til Siglufjarðar og reistu
síldarstöðina að nýju og komu upp
lifrarbræðslu og íveruhúsum. Olaf sá
þar um mikla síldarsöltun í mörg ár
og félag þeirra reisti síldarverk-
smiðjur víðar á landinu.
Verksmiðja sópaðist á haf út
18 létu lífið í snjóflóðum í Engidal, Siglufirði og Héðinsfirði fyrir réttri öld Eitt flóð hreif stærstu
síldarverksmiðju landsins með sér Flóðbylgja æddi á land handan fjarðarins og eyðilagði bryggjur
Lítið þorp Evangers-verksmiðjan framan við Staðarhól í Siglufirði var stærsta síldarbræðsluverksmiðja á Íslandi þegar hún var reist árið 1911.
Teikning/Örlygur Kristfinnsson
Norsk hús Vatnslitamynd í Síldarminjasafninu af Evangers-verksmiðjunni.
Síldarminjasafnið á Siglu-
firði og Siglufjarðarkirkja
minnast á morgun og laug-
ardag atburðanna, sem
urðu á Staðarhólsbökkum,
í Engidal og Héðinsfirði fyr-
ir réttri öld, með sérstakri
dagskrá.
Á morgun verður gengið
að rústum Evangersverk-
smiðjunnar undir leiðsögn
starfsmanna Síldarminja-
safnsins. Gangan hefst
klukkan 17. Klukkan 18:30
verður ekið á einkabílum í
Héðinsfjörð og Engidal þar
sem snjóflóð féllu. Sr. Sig-
urður Ægisson mun minnast þeirra sem fórust í snjóflóðunum.
Á laugardag klukkan 11 verður kyrrðarstund í Siglufjarðarkirkju til
minningar um þau átján sem fórust. Níu létu lífið á Staðarhólsbökkum,
sjö í Engidal og tveir í Héðinsfirði.
Atburðanna minnst
MINNINGARDAGSKRÁ UM HELGINA
Minnisvarði Fjölskyldunni í Engidal, sem fórst
í snjóflóði, var reistur minnisvarði árið 1969.