Morgunblaðið - 11.04.2019, Side 66
66 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 11. APRÍL 2019
VIÐTAL
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Leikritið Kæra Jelena, sem rúss-
neska leikskáldið Ljúdmíla Razu-
movskaja skrifaði árið 1980, verður
frumsýnt á Litla sviði Borgarleik-
hússins á morgun. Leikritið var sýnt
í fyrsta sinn hér á
landi í Þjóðleik-
húsinu árið 1991
og sló ÞÁ eftir-
minnilega í gegn.
Nokkrir óþekktir
og ungir leikarar
vöktu í því athygli
þjóðarinnar,
þeirra á meðal
Baltasar Kor-
mákur og Ingvar
E. Sigurðsson en
í verkinu segir af fjórum mennta-
skólanemum sem koma óvænt í
heimsókn til umsjónarkennara síns
og færa henni gjafir og vín undir því
yfirskini að óska henni til hamingju
með afmælið. Þau eru öll að ljúka
námi og fljótlega kemur í ljós að til-
gangur þeirra er allt annar en að
gleðja kennarann.
Unnur Ösp Stefánsdóttir leik-
stýrir verkinu í Borgarleikhúsinu og
með hlutverk kennarans fer Hall-
dóra Geirharðsdóttir en nemendurna
leika Aron Már Ólafsson, Haraldur
Ari Stefánsson, Sigurður Þór Ósk-
arsson og Þuríður Blær Jóhanns-
dóttir. Í Þjóðleikhúsinu var verkið
sýnt í þýðingu Ingibjargar Haralds-
dóttur en Kristín Eiríksdóttir, dóttir
hennar, hefur yfirfarið þá þýðingu og
fært nær í stað og tíma.
Dáleiðandi verk
Unnur segist hafa reynt að fá allra
yngstu kynslóð leikara í sýninguna
enda séu þeir í hlutverkum mennta-
skólanema. „Það var náttúrlega ótrú-
lega stór hluti af því að koma þessu
saman að finna réttu leikarana og
ekki síst út af þessari nostalgíu,“ seg-
ir hún og vísar til uppfærslu Þjóð-
leikhússins fyrir 28 árum, „að reyna
ekki að feta alveg sömu leið þegar ég
valdi í hlutverkin heldur fara í aðeins
annars konar leikhóp sem er samt
með leikurum sem hafa sterkt ele-
ment persónanna í sér.“
Unnur segir sýninguna í Þjóðleik-
húsinu hafa breytt lífi sínu. „Ég var
unglingur og man ennþá hvernig
leikararnir sögðu setningarnar, það
er eitthvað við þetta verk sem er
algjörlega dáleiðandi og hristir veru-
lega upp í manni,“ segir hún og að
nokkrar tilraunir hafi verið gerðar til
að koma verkinu aftur á svið. „Ég var
nú persónulega með réttinn á því fyr-
ir um tíu árum en fann aldrei rétta
leikhópinn. Þetta stendur og fellur
með leikurunum.“
Alvörudrama fyrir unga fólkið
– Ýttir þú á eftir því að verkið yrði
sett upp núna í Borgarleikhúsinu?
„Nei, það er ótrúleg tilviljun að ég
hafði ekkert með það að gera því ég
var alveg komin með konsept og hóp
í kringum verkið fyrir tíu árum, okk-
ur langaði að setja það upp í íbúð úti í
bæ þannig að áhorfendur kæmu og
sætu hreinlega á húsgögnum inni í
íbúð Jelenu. Mig langaði að vinna
með gríðarlega nánd og tilfinningu
fyrir að áhorfendur yrðu vitni að at-
burðarásinni og næstum meðsek. En
svo hringir Kristín [Eysteinsdóttir
borgarleikhússstjóri] bara í mig fyrir
rúmu ári og býður mér að leikstýra
Kæru Jelenu. Þannig að þetta átti á
endanum að gerast,“ segir Unnur og
brosir að því að draumurinn hafi
loksins ræst. Filippía I. Elísdóttir og
Björn Bergsteinn Guðmundsson hafi
svo komið inn í listræna teymið og
tekið þátt í að útfæra konseptið.
Unnur segist í fyrstu hafa verið
dálítið hrædd um að verkið væri orð-
ið barn síns tíma þar sem það var
skrifað árið 1980 á tímum Sovétríkj-
anna sálugu. „En mér fannst bara
svo ótrúlega margt í því sem æpti á
að ný kynslóð fengi að berja það aug-
um og það er svolítið markmið mitt
með sýningunni að fá nýtt fólk í leik-
húsið, unga fólkið, að það fái að sjá
alvöru leikhús, alvöru drama,“ segir
Unnur. Verkið fjalli um unglinga og
þeirra heimsmynd, veruleika og bar-
áttu.
Átök ólíkra kynslóða
„Ég myndi segja að aðalinntakið í
verkinu séu átök á milli kynslóða,“
heldur Unnur áfram. Atburðarásin í
verkinu sé hrikaleg og afhjúpi innra
eðli ungmennanna. „Það verða til
rosaleg átök um hugmyndafræði,
heimsmynd og gildismat þannig að
þetta verk er afar marglaga. Þetta er
spennuleikrit sem hægt væri að gera
góða bíómynd upp úr en mér fannst
áhugavert að kafa eins djúpt og
mögulegt væri og þess vegna fékk ég
Kristínu Eiríksdóttur til að búa til
nýja þýðingu út frá þýðingu móður
hennar. Þetta er þeirra sameiginlega
þýðing eða verk, í raun og veru, og
við færum það algjörlega til nú-
tímans, frá Rússlandi yfir í okkar
vestræna heim en alls ekki beint til
Íslands.“
– Var mikið í verkinu sem festi það
við ákveðinn stað og tíma?
„Það var miklu minna en við héld-
um og í raun höldum við öllu inntaki
verksins en snúum pólítíkinni svolítið
við í því. Þessir krakkar spretta út
frá okkar freka og kapítalíska
neyslusamfélagi, ólíkt gamla verkinu
þar sem þau spretta út frá algjörum
skorti og kúgun og kreppu þannig að
í raun og veru erum við búin að snúa
því svolítið á hvolf en þurftum að
breyta ótrúlega litlu. Kristín útfærir
tungumál krakkanna og svo tökum
við út allt þetta rússneska tal og gef-
um okkur smáskáldaleyfi en samt
myndi ég ekki kalla þetta leikgerð.
Þetta er bara uppfærð þýðing.“
Kúguð og brotin
– Verkið var bannað í Rússlandi á
sínum tíma, sérðu hvað það var sem
fór fyrir brjóstið á stjórnvöldum þar?
„Já, á sínum tíma var það mikið að
hrista upp í samfélagsmynd sem var
ansi kúguð og brotin og það þótti
bara svo rosalega ögrandi, eins og
góð leikrit eru. Góð leikrit geta gert
allt vitlaust pólitískt séð og það er
svo klikkað þegar leikrit eru svo
brennandi heit að maður brennir sig
næstum á því að snerta þau. Þetta er
þannig leikrit og mér fannst líka
mjög eldfimt að láta þetta gerast í
dag og allt öðruvísi af því við erum öll
mjög hugsi um okkar heimsmynd í
dag, okkar umhverfismál, orðræðu
og almennt áreiti. Það má næstum
segja að það ríki eins konar heims-
endatilfinning og ég vann út frá því
konsepti í sýningunni. Heimssýn
þessara krakka í verkinu er mjög
svört og þess vegna eru þau til í að
ganga svona langt til að ná sínu fram.
Þeim finnst þau ekki hafa neinu að
tapa, hafa gefist upp,“ svarar Unnur.
Verkið fjalli líka um álagið sem sé
á ungu fólki. „Við verðum að skilja af
hverju krakkarnir gera þetta og við
skildum það í rússneska umhverfinu
en hvað fær krakka í okkar vestræna
samfélagi til að gera svona í dag?
Þetta er afhjúpandi og viðkvæmur
aldur þar sem þú vilt falla í hópinn og
skipta máli, það eru þessir krakkar
að reyna, að mæta pressunni sem
fylgir því að standa á þessum tíma-
mótum. Þetta eru einhver erfiðustu
tímamót í lífi okkar, þegar skólakerf-
ið sleppir okkur og við eigum bara að
meika það. Þau vilja öll skara fram
úr, á ólíkum forsendum, og því fannst
mér eiginlega skrítið að gera þetta í
dag án þess að eiga þetta samtal og
samtal við samfélagsmiðla. Með
stöðugum samanburði samfélags-
miðlanna skapast enn meiri pressa
sem ég held að gangi mjög nærri
unga fólkinu okkar í dag,“ segir Unn-
ur. Samfélagsmiðlar komi því við
sögu í verkinu, leitin að samþykki, at-
hygli og aðdáun annarra.
Unnur segir leikhópinn hafa rætt
mikið saman um þennan samfélags-
miðlaveruleika sem við búum við í
dag. „Þetta var erfitt samtal og ég
upplifði mig í fyrsta skipti á ævinni af
annarri kynslóð og það var svolítið
sjokk,“ segir hún og hlær.
Ekkert vopnahlé í boði
Verkið fjallar ekki síst um vald,
valdleysi og valdbeitingu og segir
Unnur það m.a. kallast á við #metoo
hreyfinguna og að valdefla ungt fólk
og konur. „Það talar beint inn í þetta
verk því það gengur allt út á vald-
níðslu og hvernig við smám saman
þenjum mörk okkar og hvernig við,
sem verðum vitni að því að einhver
fer yfir siðferðismörk, bregðumst
ekki við því. Þannig að þetta er líka
sálfræði- og atferlisrannsókn.“
Unnur segir afar mikilvægt að
fjallað sé um þessi mál í leikhúsi, of-
beldið í sýningunni sé vissulega mjög
erfitt að fást við en ekki megi þó rit-
skoða það eða taka einhverjum vett-
lingatökum. „Þá erum við komin í
vopnahlé í leikhúsinu og það er
stærsta hættan. Þvert á móti verðum
við að gera þetta á mjög afhjúpandi
og áhrifaríkan hátt til að það risti
djúpt fyrir áhorfendur. Ritskoðun í
leikhúsi og listum er stórhættuleg,
að mínu mati.“
– Er þetta mjög erfitt leikrit fyrir
leikara að takast á við?
„Já, ég myndi segja það og aðal-
lega andlega. Það er svo oft talað um
að það sé svo erfitt fyrir leikara að
muna texta eða koma nakinn fram en
það sem er erfiðast fyrir hann er að
afhjúpa tilfinningar sínar. Og verkin
gerast ekki öllu meira afhjúpandi en
þetta, það ristir djúpt og gengur
mjög nærri leikurunum. Þannig að
við þurftum að skapa þetta í mjög
miklu trausti og kærleika. Ég er
hrikalega stolt af þessum frábæru
leikurum sem fóru alla leið í samtali
okkar, greiningu og vinnu. Svo er
það áhorfendanna að meta hverju
það skilar inn í heildar upplifunina.
Það er mín von að þeir spyrji sig
stórra spurninga að lokinni sýningu.“
Unnur hefur ekki áður leikstýrt
dramaverki á borð við þetta en hefur
hins vegar tekist á við fjölmenna og
flókna söngleiki á Stóra sviði Borgar-
leikhússins. Hún hlær að saman-
burðinum á því að leikstýra söng-
leikjum á stóru sviði og dramaverki á
litlu. „Allt er þetta krefjandi en það
má segja að þetta sé sitt hvor endi
línunnar í listum, það eru bara for-
réttindi að fá að takast á við það.“.
Ljósmynd/Grímur Bjarnason
Unnur Ösp
Stefánsdóttir
Brennandi heitt og ristir djúpt
Borgarleikhúsið frumsýnir Kæru Jelenu Valdleysi, valdníðsla og átök ólíkra kynslóða
Ótrúlega margt í verkinu æpir á að ný kynslóð fái að berja það augum, segir leikstjórinn
Heimsókn Sigurður,
Aron og Haraldur
í Kæru Jelenu.
Fallegar vörur fyrir falleg heimili
Opið virka daga kl. 10-18, laugardaga kl. 11-15
Faxafeni 14, 108 Reykjavík | Sími 551 6646 | Laura Ashley á Íslandi