Fréttir - Eyjafréttir - 09.04.2014, Side 12
°
°
12 Eyjafréttir / Miðvikudagur 9. apríl 2014
Fab Lab í Vestmannaeyjum :: Undraveröld tækni og hugmynda :: Vegvísir inn í 21. öldina:
Skapandi hugsun
lykill að betri framtíð
:: Samkeppnishæfni í sjávarútvegi, ferðamennsku og iðnaði og vísindum kallar á sköpun,
samvinnu og nýtingu tækni :: Bæta tækniþekkingu til að tengja saman hin ýmsu
þverfaglegu svið :: Þjálfa upp fólk til að vera skapandi :: Fara út fyrir þann ramma :: Hafa
skapað nýjar lausnir og lært að takast á við óvænt verkefni
Fyrsta Fab Lab smiðjan á Íslandi
var stofnuð í Vestmannaeyjum
árið 2008 og hefur henni vaxið
fiskur um hrygg síðan. Það er
Nýsköpunarmiðstöð Íslands
sem á og rekur smiðjuna sem
nú er til húsa í rúmgóðu húsi við
Faxastíg. Var fyrst við Bárustíg
en önnur starfsemi hófst þar og
núverandi húsnæði hentar vel.
Þar ræður ríkjum Frosti Gíslason
sem verið hefur verkefnastjóri
frá upphafi. Þegar blaðamaður
kíkti við hjá honum fyrir
skömmu var mikið um að vera í
smiðjunni, fólk á öllum aldri
önnum kafið og áhuginn mikill.
Það eru tölvur á hverju borði en
líka tæki og tól sem virka
framandi á þá sem ekki eru
innvígðir í nýjustu tækni. Vakti
að engu síður athygli og áhuga
sem margfaldast þegar Frosti
kemst á flug í lýsingum á því
sem fyrir augu ber.
Já, það vantar ekki áhugann þegar
Frosti byrjar að segja frá og fara
yfir það sem er að finna í FabLab
smiðjunni í Vestmannaeyjum. Fyrst
var staldrað við þrívíddarskanna þar
sem hægt er að skanna hluti og búa
til módel sem má lagfæra og breyta
eins og þurfa þykir í þrívíddar-
teikniforritum. „Þá eru breyting-
arnar settar inn í stafrænt form,
hvort sem um er að ræða karakter í
tölvuleik, teiknimynd eða einfaldan
hlut sem á að framkalla á einhverju
af tækjunum eða hvað sem er,“
segir Frosti. „Við erum líka með
þrívíddaprentara og er þá notast við
plastefni sem kallast ABS, sams
konar plast og notað er í Lego-
kubbum, og hleður upp hluti sem
við viljum framkalla hvort sem við
höfum hannað hlutinn sjálf eða
skannað inn í þrívíddarskannanum,“
segir Frosti og tók upp epli sem
nemendur í framhaldsskólanum
höfðu prentað út eftir að hafa
skannað í þrívíddarskannanum.
„Þetta tæki hentar vel ef maður þarf
aðeins örfáar frumgerðir en
þrívíddarprentun getur tekið
nokkurn tíma.“
Rafrásarbretti og vínilskeri
Í Fab Lab er kennd forritun og
einnig hvernig búa má til rafrásar-
bretti á rafeindaverkstæði sem er
einn hluti smiðjunnar. Á brettin eru
lóðaðir örgjörvar og skynjarar og
t.d. mótorar tengdir við. „Í þetta
notum við koparhúðaðan pappír og
lóðum við örgjörva og skynjara sem
er síðan hægt að forrita og láta gera
það sem okkur langar til.“
Þarna er líka hægt að fræsa út
þrívíð módel og svo er það vínil-
skerinn. „Með honum getur þú gert
allt það sama og þú getur gert með
dúkahníf en bara miklu nákvæmar,“
segir Frosti og enn urðu hlutirnir
dularfyllri. „Það er líka hægt að
skera út sveigjanlegar rafrásir sem
er hægt að nota í rafrænan fatnað en
algengast er þó að almenningur noti
hann til þess að skera út límmiða,
t.d. sem veggskraut eða til að setja á
hjól eða hvað sem er.“
Allt upp í húsgögn
Í laserskera er bæði hægt að skera
út og brennimerkja hluti og í
stærsta tækinu, Shopbot fræsivél-
inni, er hægt að skera út húsgögn,
skilti og og þrívíð módel. Á miðju
gólfi er stór ljósritunarvél sem má
muna sinn fífil fegurri en hún
þjónar ákveðnu hlutverki þó
nokkuð ljóst sé að ekki verður
meira ljósritað í henni. „Við erum
að rífa hana í sundur eins og þú
sérð,“ segir Frosti. „Þannig læra
krakkarnir hvernig hún virkar og
finna hluti í henni sem hægt er að
nota. Þarna eru mótorar, viftur og
fleira sem getur komið að góðum
notum. Það má því segja að þessi
ljósritunarvél sé eins konar
þroskaleikfang fyrir verðandi
tæknigúrúa.“
Leið inn í 21. öldina
Kennsla er vaxandi þáttur í starfi
Fab Lab smiðjunnar og eru áfangar
á hennar vegum í Grunnskólanum
og Framhaldsskólanum. „Í maí
verðum við svo með námskeið og
ætlum m.a. að aðstoða við að koma
upp forritunarkennslu í skólunum,
þjálfa upp kennara og æfa upp færni
hjá þeim til að takast á við kröfur
um nám og kennslu á 21. öldinni.
Til þess að við getum verið sam-
keppnishæfari í sjávarútvegi,
ferðamennsku og iðnaði og
vísindum þurfum við að leggja
aukna áherslu á að efla ýmiss konar
færni sem tengist sköpun, sam-
vinnu og nýtingu tækni Í fyrsta
lagi þurfum við að bæta tækniþekk-
ingu til að tengja saman hin ýmsu
þverfaglegu svið. Þjálfa upp fólk til
að vera skapandi því það er ekki
nóg að kunna að ná í það sem þig
vantar inn á netið, þú þarft að fara
út fyrir þann ramma, geta skapað
nýjar lausnir og lært að takast á við
óvænt verkefni. Áskoranir og kröfur
sem fólkið, sem kemur út í at-
vinnulífið, þarf að kljást við verða
aðrar eftir 20 ár en þær eru í dag.
Það er í okkar verkahring að tryggja
að þetta fólk hafi þá færni sem til er
ætlast af þeim til þess að landið
okkar geti verið í fremstu röð í
heiminum. Við verðum að geta
fylgst með örum breytingum á
tækninni og taka þátt í að skapa
nýjar lausnir og hér erum við að
taka skrefið fram á við.“
Net sem nær um allan heim
Frosti segir að hugmyndafræðin á
bak við Fab Lab sé að finna sam-
eiginlegan farveg fyrir allt það besta
sem er að gerast í heiminum í tækni
og vísindum. „Það sem mér finnst
merkilegast við Fab Lab er hið
öfluga net af fólki um allan heim
sem kemur saman og deilir þekk-
ingu á milli staða um allan heim í
gegnum Fab Lab samstarfið. Það
eru margir sem öfunda okkur af
smiðjunni hérna í Eyjum en svo eru
reyndar einhverjir sem enn átta sig
ekki á þessum miklu tækifærum
sem Fab Lab samstarfið felur í sér.
Eflaust þurfum við að vera duglegri
að kynna þá fjölbreyttu möguleika
sem felast hér.
Fab Lab er miklu stærra og meira
en fólk gerir sér grein fyrir. Það sem
við erum að reyna að gera er að
opna huga fólks og skapa því
tækifæri. Þeir sem ná góðum
tökum á því sem við erum að gera
verða eftirsóttir starfskraftar á
vinnumarkaði. Við erum að deila
þekkingu á milli kynslóða og
fagsviða.“
Ómar GarðarSSon
omar@eyjafrettir.is
Það sem mér finnst merkilegast við Fab
Lab er hið öfluga net af fólki um allan
heim sem kemur saman og deilir þekk-
ingu á milli staða um allan heim í
gegnum Fab Lab samstarfið. Það eru
margir sem öfunda okkur af smiðjunni
hérna í Eyjum en svo eru reyndar ein-
hverjir sem enn átta sig ekki á þessum
miklu tækifærum sem Fab Lab sam-
starfið felur í sér.
”