Morgunblaðið - 11.05.2019, Síða 27
27
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 11. MAÍ 2019
Á liðnum vetri naut
ég þeirrar gæfu að
kynnast starfsemi
Landspítala Háskóla-
sjúkrahúss. Í vísitasíu
minni um Reykja-
víkurprófastsdæmi
vestra varði ég góðum
tíma á hinum fjöl-
mörgu deildum sjúkra-
hússins, svo sem rétt-
argeðdeild, líknardeild
og fæðingardeild.
Einnig heimsótti ég bráðadeildina,
Landakot, Vífilsstaði og fleiri staði
og hitti alls staðar framúrskarandi
fagfólk á sínum sviðum og voru
móttökur góðar.
Páll Matthíasson forstjóri gaf
sér einnig tíma til að kynna mér
starfsemi og stefnu sjúkrahússins.
Manngildi og mannvirðing blasti
hvarvetna við, þar sem gildi, fram-
tíðarsýn og hlutverk sjúkrahússins
miða að því að sjúk-
lingurinn sé ávallt í
öndvegi.
Skemmtilegt þótti
mér að hitta starfs-
fólk á hinum ólíku
deildum sjúkrahúss-
ins sem átti persónu-
leg tengsl við kirkj-
una, var í sóknar-
nefndum, kórum,
synir eða dætur
presta og þannig
mætti áfram telja.
Á einum gangi
vökudeildarinnar var
áhugavert og upplýsandi vegg-
spjald. Þar voru myndir af stálpuð-
um börnum og frískum, nöfn og
fæðingardagar og upplýsingar um
að öll voru þau fyrirburar, þ.e.a.s.
öll höfðu þau fæðst fyrir tilsettan
tíma. Ef ég man rétt voru þar
einstaklingar sem fæðst höfðu eftir
rúmlega 22 vikna meðgöngu en
innan við 23 vikna.
Fréttir berast nú af því að Al-
þingi muni í næstu viku afgreiða
umdeilt frumvarp um svokallað
þungunarrof. Ég sendi Alþingi um-
sögn um frumvarpið fyrir áramót
og vil birta kjarnann úr því hér,
því ég tel ótækt að Alþingi sam-
þykki frumvarpið óbreytt.
Ég styð þann hluta frumvarps-
ins um að konur taki sjálfar hina
erfiðu ákvörðun, það eitt og sér er
framför frá því sem var.
Tvennt er það helst í frumvarp-
inu sem ég tel sérstaklega
umhugsunarvert.
Annars vegar sú breyting á hug-
takanotkun sem lögð er til, þar
sem hugtakið þungunarrof er nú
notað í stað þess sem áður var,
fóstureyðing. Hið nýja hugtak vís-
ar á engan hátt til þess lífs sem
sannarlega bærist undir belti og er
vísir að nýrri mannveru. Sam-
kvæmt kristinni trú okkar er lífið
heilagt, náðargjöf sem Guð gefur
og Guð tekur. Það er hlutverk
mannsins að varðveita það og
vernda eftir fremsta megni og
bera virðingu fyrir mannhelginni,
sköpuninni og skaparanum. Það er
misvísandi að nota þetta nýja hug-
tak í þessu viðkvæma samhengi
þar sem hugtakið vísar ekki til
þessa vaxandi nýja lífs.
Hins vegar sú breyting á tíma-
rammanum sem lögð er til, þ.e.a.s.
að þungunarrof verði heimilt fram
að 22. viku, sbr. 4. gr. frumvarps-
ins. Dæmin þekkjum við þar sem
börn hafa fæðst eftir það skamma
meðgöngu, braggast og lifað, eins
og starfsfólk Landspítalans birtir á
göngum sínum.
Samfélag okkar hefur á undan-
förnum áratugum fundið jafnvægi
á milli hinna ólíku sjónarmiða um
rétt hinnar verðandi móður yfir
eigin líkama og rétt fósturs til lífs,
þrátt fyrir þær mótsagnir sem því
fylgja. Þar sem 12 vikna tíma-
ramminn hefur verið studdur sjón-
armiðum heilbrigðisvísinda, mann-
réttinda og í framkvæmd sem
bestri þjónustu félagsráðgjafa og
annarra fagstétta við þær fagleg-
ustu aðstæður sem völ er á. Hinar
nýju tillögur raska því jafnvægi, að
mínu mati, og vekja jafnvel á ný
grundvallarspurningar, sem við
ættum auðvitað alltaf að spyrja
okkur að varðandi mannhelgina og
framgang lífs hér í heimi.
Ég kalla eftir umræðu um
manngildi, mannhelgi og mann-
skilning. Frumvarpið vekur fjölda
spurninga og verði það samþykkt
óbreytt tel ég að sagan muni leiða
í ljós að þar hafi samfélagið villst
af leið.
Manngildi
Eftir Agnesi M.
Sigurðardóttur »Frumvarpið vekurfjölda spurninga og
verði það samþykkt
óbreytt tel ég að sagan
muni leiða í ljós að þar hafi
samfélagið villst af leið.
Agnes M.
Sigurðardóttir
Höfundur er biskup Íslands.
Sól tér sortna,
sígr fold í mar,
hverfa af himni
heiðar stjörnur;
geisar eimi
ok aldrnari,
leikr hár hiti
við himin sjálfan.
Þannig hljóðar vísa
í Völuspárútgáfu Sig-
urðar Nordal. Fátt
lesefni höfðaði jafn mikið til mín í
æsku og þetta stórbrotna kvæði
með útskýringum Sigurðar: „Eldur
geisar við eld, jörðin er alelda“.
(Völuspá, önnur prentun, Reykjavík
1952). Það þarf ekki langt að leita í
nútíðinni til að finna samsvörun við
þessa framtíðarsýn Völuspár. – Á
liðnu ári geisuðu raunverulegir eldar
á fjölmörgum stöðum í áður óþekkt-
um mæli. Í Skandinavíu og í Mið-
Evrópu var eindæma mikið þurrkas-
umar. Sama var uppi á teningnum í
Ástralíu. Einna svæsnast léku þó
eldar stór landsvæði í Kaliforníu,
þar sem um tugur stærstu gróður-
elda á sögulegum tíma hefur geisað
frá því á árinu 2015. Rosalegust var
í fyrra aðkoman í bænum Paradise
þar sem hátt í 20 þúsund hús brunu
til kaldra kola og 85 manns fórust.
Bæði í Evrópu og Norður-Ameríku
eru upptök þessara elda rakin til
neista frá raflínum sem kveikja í
skraufaþurrum gróðri. Loftslags-
breytingarnar af mannavöldum eru
ótvírætt taldar valda
þessum gróðureldum
víða um heim og eru
þeir þó aðeins einn af
mörgum váboðum sem
mannkynið er að kalla
yfir sig, ekki síst með
sívaxandi losun gróður-
húsalofts í áður óþekkt-
um mæli.
Lifir mannkynið
af glímuna við
sjálft sig?
Þeim fjölgar þessi ár-
in sem gera sér ljóst að mannkyn
allt stendur frammi fyrir afar tví-
sýnni glímu um eigin tilveru og
henni tengist röskun á öllu lífkerfi
jarðar þar sem æ fleiri tegundir lúta
í lægra haldi og hverfa af sjónar-
sviðinu fyrir tilverknað mannsins.
Hjá öðrum blasir við rýrnun með
fækkun einstaklinga í áður óþekkt-
um mæli. Þetta birtist m.a. hjá fjöl-
mörgum skordýrategundum, m.a.
bjöllum og fiðrildum, sem eru ómiss-
andi hluti af lífkeðjunni og um leið
fyrir búskap okkar mannanna.
Ástæðurnar eru margar og sam-
verkandi, spilling og útrýming bú-
svæða og ekki síst skordýraeyðing-
arlyf sem fjölþjóðafyrirtæki eins og
Monsanto, nú Bayer, framleiða og
dreifa í trássi við áhættu og aðvar-
anir vísindamanna. Tegundin maður
er þannig með nútímalífsháttum og
skeytingarleysi gagnvart umhverfi
sínu orðinn að skrímsli sem brýtur
óðum niður undirstöður eigin til-
veru. Hlýnun andrúmsloftsins vegna
brennslu jarðefna er mest umtalaða
breytingin nú um stundir, en hún er
þó aðeins einn þáttur af mörgum
sem leggjast á eitt og ógna tilvist
mannsins. Kapítalískt efnahagskerfi
með sívaxandi misskiptingu er and-
stætt hugmyndinni um sjálfbæra
þróun og ógnvænleg fjölgun mann-
kyns bætir gráu ofan á svart. Þar er
um að ræða þreföldun mannfjölda í
tíð þess sem hér heldur á penna og
11 milljarðar eru í sjónmáli þeirra
sem nú eru á dögum.
Hvað er til ráða?
Víst binda margir vonir við Par-
ísarsamkomulagið frá árinu 2015
með þátttöku flestra þjóðríkja heims
og fyrirheit um að stöðva losun
gróðurhúsalofts og draga úr henni
stig af stigi á næstu áratugum.
Þetta samkomulag er hins vegar á
engan hátt bindandi, aðeins töluð
orð og oft endurtekin síðan í hátíð-
arræðum. Veruleikinn talar öðru
máli þar sem árin eftir heitstreng-
ingarnar hefur CO2-losunin vaxið,
einnig hérlendis. Stærsta efnahags-
veldið, Bandaríkin, hótar endurtekið
að segja sig frá samkomulaginu og
sú afstaða endurspeglast þessa dag-
ana í reipdrætti um stefnumörkun
fyrir Arktíska ráðið þar sem Ísland
er að setjast við borðsendann í stað
Bandaríkjanna. – Vonarneisti kvikn-
aði í hjarta margra við ákall æsku-
fólks á liðnum vetri um að snúa vörn
í sókn og neita að taka við þeirri
framtíð sem bíði þess að óbreyttu.
En þá er líka rétt að ungir sem aldn-
ir átti sig á að forsenda nauðsyn-
legra breytinga til að lifa af er ekki
aðeins að hverfa sem allra fyrst frá
mengandi jarðefnaeldsneyti heldur
jafnframt gjörbreyting á núverandi
lífsháttum, sem einkennast af mörg-
um sinnum of miklu álagi á umhverf-
ið, í senn með mismunun og rán-
yrkju. Hugtakið bylting hefði
einhverntíma verið notað um slíka
stöðu, en ég kýs frekar að vísa á
nýja og vistvæna sýn til tilverunnar
sem viðurkennir gjaldþrot núverandi
lifnaðarhátta. Um þá eru Vesturlönd
í fararbroddi og okkar eigin þjóð í
þeim hópi hvað mikla sólund og rán-
yrkju varðar.
Hlustum á Attenborough
Það eru fleiri en æskufólk sem
skynja þá fráleitu slóð sem mann-
kynið nú fetar og háskann sem bíður
næstu kynslóða. Náttúruskoðarinn
og fjölmiðlamaðurinn David Atten-
borough, nú á tíræðisaldri, talar
tæpitungulaust í sjónvarpsþætti sem
BBC hefur verið að sýna. Þar segir
hann jarðarbúa standa frammi fyrir
óafturkræfum skaða á náttúrunni og
líklegu hruni. Verði ekki gripið til
mjög róttækra aðgerða innan næstu
10 ára, gætum við staðið frammi
fyrir óbætanlegu tjóni á lífríkinu og
niðurbroti mannlegs samfélags.
Svipuð orð enduróma nú úr mörgum
áttum. Sjónvarpið hefur undanfarið
lagt sitt af mörkum með þáttaröð-
inni Hvað höfum við gert? Þeir sem
þar fóru fyrir eiga í senn heiður og
þakkir skildar. Það minnir á að mik-
ið er undir því komið að uppfræðsla
æskufólks á öllum skólastigum taki
hvarvetna mið af þeim háska sem
við mannkyni blasir og að stjórn-
málaflokkar og hagsmunasamtök
viðurkenni vandann og setji fram
sína sýn til lausna. Tæknibreytingar
og hugmyndir um sjálfvirkni sam-
hliða nýjum orkugjöfum geta hjálp-
að til, en aðeins sem liður í víð-
tækum og róttækum breytingum á
efnahagsstjórnun og lífsmáta allra,
án ágengni við umhverfið og með
sem jafnasta stöðu manna til að lifa
sæmilega – í sátt við móður jörð.
Höldum í vonina –
þrátt fyrir allt
Undir lokin segir í Völuspá:
Sér hon upp koma
öðru sinni
jörð ór ægi
iðjagræna;
falla forsar,
flýgr örn yfir,
sá er á fjalli
fiska veiðir.
Mættum við fá meira að heyra!
Hrunadansinn dunar, nú sem aldrei fyrr
Eftir Hjörleif
Guttormsson » Tegundin maður er
með nútímalífs-
háttum og skeytingar-
leysi gagnvart umhverfi
sínu orðinn að skrímsli
sem brýtur óðum niður
undirstöður eigin til-
veru.
Hjörleifur Guttormsson
Höfundur er náttúrufræðingur.
Á fyrsta kjörtímabili
mínu sem alþingis-
maður tók ég þátt í að
fjalla um og samþykkja
EES-samninginn og
þá löggjöf sem honum
fylgdi og var afgreidd
árið 1993. Í lögunum
segir m.a.: Samnings-
aðilar; eru sannfærðir
um að Evrópskt efna-
hagssvæði muni stuðla
að uppbyggingu Evrópu á grundvelli
friðar, lýðræðis og mannréttinda.
Strax í upphafi hafði ég sterka
sannfæringu fyrir því að þetta sam-
starf væri okkur Íslendingum mik-
ilvægt. Og í ljósi þess að við héldum
fullkomnum yfirráðum yfir auðlind-
um hafsins innan fiskveiðilögsögu
okkar var enginn vafi í mínum huga
að samstarfið við þess-
ar vinaþjóðir okkar
væri besti kostur okk-
ar. Betri kostur en að-
ild að Evrópusamband-
inu sem vissulega
hefur komið í ljós.
Þróunin innan Evr-
ópusamstarfsins hefur
valdið vorbrigðum og
væntanleg útganga
Breta kallar fram
spurningar og veldur
mikilli tortryggni
gagnvart Evrópusam-
starfinu. Ofurvald stórþjóðanna svo
sem Þjóðverja og Frakka innan EES
gagnvart fámennari þjóðunum virð-
ist ganga úr hófi.
Umræðan á Alþingi og um allt
samfélagið síðustu vikur um svokall-
aðan þriðja orkupakka hefur verið
mögnuð. Þessi þriðji orkupakki legg-
ur tilteknar skyldur á okkar herðar
og færir okkur vonandi einhver rétt-
indi í samstarfi þjóðanna. En þessi
umfjöllun hefur magnað upp
óánægju sem ekki sér fyrir endann á.
Það hefur ekki auðveldað jákvæða
afstöðu til málsins af minni hálfu að
verða þess var að forsvarsmenn
Samfylkingar og Viðreisnar leggja
ofuráherslu á að samþykkja þriðja
orkupakkann án nokkurs fyrirvara.
Þeir flokkar stefna bæði leynt og
ljóst að inngöngu í Evrópusam-
bandið gefist færi til þess. Það er því
rík ástæða til þess að fara að öllu með
gát og tryggja hagsmuni okkar svo
sem var gert svo vel árið 1993 og þá
ekki síst hvað varðar fiskveiðar og
sjávarauðlindina sem við eigum og
ráðum yfir.
Nýting orkulinda okkar hefur gef-
ist vel og er okkur mikilvæg. Orku-
pakkanum er ætlað að setja okkur
reglur hvað varðar vinnslu og dreif-
ingu raforku og þá væntanlega í
þeim tilgangi að tryggja hagsmuni
neytenda á grundvelli hins frjálsa
markaðar.
Ef okkur tekst að halda áfram að
byggja upp orkufyrirtækin og þá
einkum hjá Landsvirkjun, Rarik og
Orkubúi Vestfjarða með virkjun
vatnsafls, virkjun jarðvarma, virkjun
vindorku og virkjun sjávarfalla munu
líkurnar aukast á því að það verði
okkur hagfellt að selja raforkuna um
sæstreng til nálægra landa. Því er
það mikilvægast fyrir okkur að
tryggja hagsmuni okkar þegar sæ-
strengur hefur verið lagður. Það er
óforsvaranlegt að samþykkja þriðja
orkupakkann án þess að það liggi
fyrir hvað gerist á orkumarkaði á Ís-
landi þegar sæstrengur hefur verið
lagður og orkusalan hefst. Það hefur
eitt og sér engan tilgang að við ráð-
um því hvort sæstrengur verði lagð-
ur ef orkumarkaðsmálin verða um
leið tekin úr okkar höndum þegar
sala hefst um sæstreng. Þessari
spurningu verða ráðherrar að svara
áður en lengra verður haldið enda
virðist Landsvirkjun gera ráð fyrir
lagningu sæstrengs svo sem sjá má á
heimasíðu félagsins.
Óheppileg umfjöllun um orkumál á Alþingi
Eftir Sturlu
Böðvarsson » Það er óforsvaran-
legt að samþykkja
þriðja orkupakkann án
þess að það liggi fyrir
hvað gerist á orkumark-
aði á Íslandi þegar sæ-
strengur hefur verið
lagður og orkusalan
hefst.
Sturla Böðvarsson
Höfundur er fyrrverandi alþingis-
maður, ráðherra, forseti Alþingis og
bæjarstjóri sturla@sturla.is