Morgunblaðið - 21.05.2019, Qupperneq 10
10 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 21. MAÍ 2019
VIÐTAL
Ragnhildur Þrastardóttir
ragnhildur@mbl.is
Anna Kristrún Einarsdóttir var ein
af þeim fyrstu hérlendis til að kom-
ast að því að hún bæri stökkbreytt
BRCA2 gen, sem eykur líkur á
krabbameini verulega, og jafnframt
sú yngsta sem leitaði eftir þeirri
vitneskju á sínum tíma.
„Ég missti mömmu mína úr
brjóstakrabbameini þegar ég var
sextán ára. Nokkrum dögum áður
en hún lést sagði hún mér að hún
hefði fengið óljósar fréttir um að
krabbamein gæti verið arfgengt.
Hún vissi svo sem ekki meira um
það og vissi ekki hvar væri hægt að
leita þessara upplýsinga en bað mig
um að fylgja þessu eftir og gá hvort
ég gæti látið athuga með mig.“
Anna lét ekki tilleiðast alveg
strax. „Þarna vissi hún greinilega í
hvað stefndi en á þessum tíma var
ég auðvitað enn þá í mikilli afneitun
svo ég hugsaði ekkert mikið út í
þetta. Eftir að hún lést og móður-
systir mín lést mánuði og einum
degi síðar þá ákvað ég að skoða
þetta en þetta varð mín leið til að
takast á við sorgina. Mamma bað
mig um að gera þetta svo ég ákvað
að reyna að komast að þessu.“
Tveggja ára ferli
Þegar Anna hóf leitina að svari
við spurningu móður sinnar var um-
ræðan um stökkbreytingu í BRCA2
geni mun minni en nú svo hún stóð
frammi fyrir flóknu verkefni.
„Ég fór að hringja út um allt og
reyna að spyrjast fyrir um þetta.
Ég ákvað að segja engum í fjöl-
skyldunni frá því að ég væri að leita
þessara upplýsinga því ég vildi ekki
hræða neinn né vera að þröngva
einhverjum upplýsingum upp á
neinn sem kannski vildi þær ekki.“
Ferlið var tímafrekt, en það tók
um það bil tvö ár. Fyrst sneri Anna
sér til heimilislæknisins síns sem
beindi henni svo áfram til Krabba-
meinsfélagsins. Krabbameinsfélagið
sendi hana svo áfram á Landspít-
alann og Landspítalinn benti henni
á erfðaráðgjöfina.
„Ég var boðuð í viðtal hjá erfða-
ráðgjöfinni og þurfti fyrst að fara í
gegnum ættartréð mitt og sjá hvar
krabbamein væri að finna.
Það voru það margir sem höfðu
fengið brjóstakrabbamein í ættinni
minni að erfðaráðgjafinn sagði að
það væri greinilegt mynstur.“
Næsta skref var svo að velja á
milli tveggja erfiðra valkosta.
„Annaðhvort að draga afa minn,
sem hafði líka fengið brjósta-
krabbamein, upp á Landspítalann
til að fara í blóðprufu eða fá pabba
til að skrifa undir eyðublað sem gaf
leyfi til þess að skoða lífsýni hjá
mömmu.
Af því að ég var ekki búin að
segja neinum frá þessu þá þorði ég
ekki að tala við afa en pabbi skrifaði
undir eyðublaðið um leið.“ Það tók
um það bil ár að fá niðurstöður um
það hvort mamma Önnu hefði verið
arfberi.
„Þá var ég boðuð aftur í viðtal
hjá erfðaráðgjöfinni og þau sögðu
mér að mamma hefði verið BRCA2
arfberi og sögðu að ef ég myndi
kjósa þá mætti ég fara í blóðprufu
til að kanna hvort ég væri það líka.
Ég þáði það auðvitað og nokkrum
vikum seinna boðuðu þau mig aftur
í viðtal og sögðu mér að ég væri
líka arfberi. Ég hefði í raun verið í
miklu meira sjokki ef þau hefðu
sagt mér að ég væri ekki BRCA2
arfberi.“
Vildi strax fara í aðgerðir
Arfberum standa helst tveir kost-
ir til boða, að fara í reglulegt eftirlit
eða fyrirbyggjandi aðgerðir. Anna
kaus seinni kostinn og fór í brjóst-
nám.
„Ég ákvað strax að fara í fyrir-
byggjandi aðgerðir og vera ekkert
að bíða vegna þess að aukna eftir-
litið virkaði ekki í tilfelli mömmu.
Hún var í auknu eftirliti en meinið
var of smátt og of falið,“ segir
Anna.
Eftir að hún komst að því að hún
væri arfberi fóru fleiri í kringum
hana að kanna hvort þau væru það
líka.
„Nú hafa eiginlega allir í fjöl-
skyldunni, í mínum ættlið og ætt-
liðnum fyrir ofan, farið og látið at-
huga þetta. Bara einn þeirra hefur
fengið neikvæða niðurstöðu og það
er bróðir minn.“
Aðspurð segir Anna að það hafi
verið mikill léttir þegar í ljós kom
að bróðir hennar væri ekki arfberi.
„Það gaf okkur líka smá von því
áður virtist þetta ekki hoppa yfir
neinn svo loksins fékk einhver nei-
kvætt út úr þessu. Þá er líka alveg
von fyrir okkar börn.“
Eignaðist börn snemma
Anna, sem er 28 ára í dag, á tvö
börn en hún eignaðist þau þegar
hún var 19 og 25 ára.
„Það eru ellefu ár síðan mamma
lést og ég er á svipuðum aldri og
bróðir minn var þegar hún lést. Ef
ég hefði fengið sama tíma með
henni og hann þá hefði hún náð að
kynnast tengdasyninum, hún hefði
séð barnabörnin sín, mig útskrifast
úr menntaskóla og háskóla. Þetta
er bara brot af því sem hefur gerst
á þessum ellefu árum, af því sem ég
missti af að upplifa með henni og
hún með mér.
Ég held að það sé þessi lífs-
reynsla sem hafi haft þau áhrif á
mig að ég vildi reyna að eignast
börnin mín ung. Ég vildi reyna að
tryggja það að ég ætti sem lengstan
tíma með þeim og þau með mér.
Með því að fara í fyrirbyggjandi
brjóstnám þá er ég búin að gera allt
sem ég get gert til þess að reyna að
tryggja það að ég verði til staðar
því ég vil ekki missa af neinu.“
Hægt að grípa inn í
Afi Önnu fékk brjóstakrabbamein
í bæði brjóstin og talaði mjög op-
inskátt um stökkbreytinguna í
BRCA2 eftir að hann komst að því
og fór í viðtal um málefnið árið
2013. Anna segir opinskáa umræðu
um BRCA2 þýðingarmikla.
„Það er mikilvægt að fólk sé
meðvitað um þessar genabreytingar
og það að það er hægt að athuga,
með tiltölulega lítilli fyrirhöfn,
hvort þú sért með þetta eða ekki og
að fólk sé meðvitað um að hægt sé
að grípa inn í. Það er hægt að
bregðast við. Þetta er ekki eitthvað
sem þú færð vitneskju um og þarft
síðan að sitja bara og bíða. Þú getur
gripið inn í, þú getur stjórnað eigin
örlögum.“
Flestir í fjölskyldunni arfberar
Ber stökkbreytt BRCA2 gen sem eykur til muna líkurnar á krabbameini Leitaði svara 16 ára
gömul að ósk látinnar móður sinnar Fór strax í fyrirbyggjandi aðgerðir Umræðan mikilvæg
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
BRCA Önnu er umhugað um að fólk sé meðvitað um genabreytingar sem þessar. „Þú getur stjórnað eigin örlögum.“
Bezt áflest er gæðakrydd sem hentar vel með
flestummat. Kryddið inniheldur meðal annars
hvítlaukspipar, sítrónupipar, papriku og salt.
Kryddblandan er án allra aukaefna.
BEZTÁFLEST
Hvítlaukskryddblanda
Heildarlosun hjá íslenskum flugrek-
endum er líklega tvisvar til þrisvar
sinnum hærri en þau rúm 820 þús-
und tonn koltvísýringsígilda sem
gerð hafa verið upp fyrir flug innan
EES ríkja á síðasta ári. Þetta segir
Margrét Helga Guðmundsdóttir,
sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun
á sviði loftslagsmála og græns sam-
félags.
Umhverfisstofnun hefur birt tölur
síðasta árs fyrir losun íslenskra flug-
rekenda og íslensks iðnaðar. Þær
tölur sýna að losunin hélt áfram að
aukast í fyrra og var heildarlosun í
flugi sem fellur undir kerfið 820.369
tonn koltvísýringsígilda og losun frá
iðnaði 1.854.715 tonn. Í báðum til-
fellum var um aukningu að ræða
milli ára.
Margrét Helga segir ekkert í
þessum tölum koma Umhverfis-
stofnun á óvart. „Iðnaðurinn er
nokkuð stöðugur og ástæðan fyrir
aukningunni í fyrra er sú að það var
að koma nýtt fyrirtæki á markað.
Margrét Helga vísar þar til PCC á
Bakka sem hóf rekstur á síðasta ári.
„Þannig að ég geri ráð fyrir að fyrir
árið 2019 verði aukningin meiri, því
þá verður PCC búið að vera í fullum
gangi í heilt ár.“ Margrét Helga
samsinnir því að losunin 2018 hefði
væntanlega verið enn meiri í fyrra ef
kísilver United Silicon hefði ekki
orðið gjaldþrota í byrjun þess árs.
Sú losun sem gerð er upp vegna
flugsins á eingöngu við um flug inn-
an EES-svæðisins og tekur því ekki
á heildarlosun flestra flugrekenda,
þar sem t.d. Ameríkuflug er ekki
innan gildissviðs kerfisins eins og er.
Margrét Helga segir af þessum sök-
um geta verið erfitt að meta flugið,
þar sem heildarlosunartala liggi ekki
fyrir. Spurð hversu miklu hærri hún
telji þó heildarlosunina vera segir
hún: „Ég geri ráð fyrir að það megi
vel tvö- til þrefalda hana til að fá
heildarlosunina.“ annaei@mbl.is
Morgunblaðið/Eggert
Flug Losun jókst á síðasta ári.
Heildarlosun frá
flugi allt að þreföld
Nýjar tölur sýna aukningu milli ára