Morgunblaðið - 05.07.2019, Síða 23
MINNINGAR 23
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 5. JÚLÍ 2019
skrefum frá, við Garðastræti, bjó
Ólafur Thors með sinni Ingi-
björgu og nú var ég kominn með
minni Ingibjörgu, móður minni, á
þennan merkilega blett.
Ólaf Thors sá ég oft koma og
fara frá heimili sínu, en fyrir at-
beina Ásgeirs sýslumanns, eins
og hann var löngum kallaður, náði
ég að hitta hann og heilsa og
spjalla svo við hann stundarkorn.
Og hefur mér þótt sá litli „fund-
ur“ sífellt betri eftir því sem
lengra líður frá.
Síðar urðum við Ásgeir vinir og
hittumst iðulega og fór ég marg-
fróðari af þeim fundum öllum.
Hann var sögumaður góður og
þekkti til atburða sem ég var
sólginn í að heyra frá, ekki síst
um þá sem snertu Sjálfstæðis-
flokkinn og þróun hans og hvern-
ig átökum innan hans leið og
hvernig liðsskipanin var þar á
hverjum tíma og hvað réð mestu
um hana.
Flokkurinn var að taka út sinn
þroska og var með heillegri sýn á
því hvernig skyldi tryggja að
þjóðin kæmist örugglega frá fá-
tækt sinni og til bjargálna.
Aðrir flokkar leituðu fremur í
smiðjur alþjóðlegra „isma“ en
Sjálfstæðisflokkurinn sem var, að
áliti Ásgeirs Péturssonar, ís-
lenskastur flokka. Hann sagði að
Ólafur Thors hefði réttilega forð-
ast að flokkur hans hengdi sig um
of aftan í svokallaða systurflokka
í nálægum löndum, þótt sjálfsagt
væri að hafa við þá eðlileg og góð
skipti.
Ásgeiri þótti mjög mikið til
Ólafs koma og ekki dró úr að faðir
hans hafði til dauðadags verið
hans nánasti samstarfsmaður.
Bjarna Benediktsson virti hann
ekki síður og í fámennum hópi eða
í tveggja manna tali rifjaði hann
upp viðhorf Bjarna til þeirra
álitamála sem hæst fóru og eins
þeirra sem lutu eingöngu um-
ræðu innan Sjálfstæðisflokksins
sjálfs og þótti mikið til vitsmuna
Bjarna koma, áræðis hans og eft-
irfylgni og hafði reyndar starfað
náið með honum um skeið. Þá
hafði Ásgeir stofnað til traustrar
vináttu við þriðja formann Sjálf-
stæðisflokksins, Geir Hallgríms-
son, við stjórnmála- og félagsstarf
stúdenta á háskólaárunum og
entist sú vinátta og styrktist á
meðan báðir lifðu. Makar allra
þessara manna skiptu miklu um
samheldni þessa einstæða hóps.
Mér þykir vænt um að mega
telja mig til vina Ásgeirs Péturs-
sonar úr röðum formanna Sjálf-
stæðisflokksins.
Hólavöllur, hið fagra og reisu-
lega hús Péturs og Ingibjargar og
myndarlegrar fjölskyldunnar,
stendur á einstökum og söguleg-
um stað. „Þar hefur einn varafor-
maður Sjálfstæðisflokksins búið
og einn formaður sama flokks,“
sagði Ásgeir eitt sinn glaðbeittur
við mig og tók engin undanbrögð
til greina.
En hann og hans stórglæsilega
eiginkona, Sigrún Hannesdóttir,
gátu ekki síður verið stolt yfir sín-
um ranni í Sólheimum 9 í Reykja-
vík. Það var annálað menningar-
heimili og víst er að vinir bókanna
gleyma seint bókastofu þeirra
hjóna eftir að hafa litið hana
fyrsta sinni.
Þau Ásgeir og Ástríður mín
hurfu iðulega fljótt á Oddaslóðir
og Móeiðarhvols þegar þau hitt-
ust en þangað átti Ásgeir bæði
æskuminningar og ættir að rekja.
Við Ástríður hugsum með
hlýju og þakklæti til Ásgeirs Pét-
urssonar á kveðjustund.
Davíð Oddsson.
Þegar Ásgeir tók við sýslu-
mannsembættinu í Mýra- og
Borgarfjarðarsýslum 1961 fengu
héraðsbúar hugmyndaríkan og
framsýnan liðsmann á breiðu
sviði héraðsmenningar. Fram-
vinda og þróun menningar geng-
ur oft í hæðum og lægðum. Ásgeir
átti ekki langt að sækja menning-
arhugsjón sína. Borgfirðingar
höfðu ekki gleymt og bjuggu enn
að forystu sr. Magnúsar Andrés-
sonar afa hans á Gilsbakka í
menningar- og framfaramálum
héraðsins. Ásgeir hafði verið síð-
ustu árin á undan fulltrúi í
menntamálaráðuneytinu, honum
voru því allir hagnýtir hnútar
kunnugir á sviði menningar og
lista, þegar hann kom til okkar í
Borgarfjörðinn. Hann kallaði
saman áhugasama liðsmenn og
vinnumenn sér til aðstoðar.
Fyrsta verkefnið var að stofna
Æskulýðsráð Borgarfjarðar.
Verkefni þess væru menningar-
mál, félagslíf og samkomuhald
unga fólksins. Þetta verkefni náði
góðri fótfestu í héraðinu og vakti
mikla ánægju þeirra er þess nutu.
Sérstaka athygli vöktu unglinga-
dansleikirnir, sem haldnir voru í
mörg ár og fóru fram í félagshei-
milum víðsvegar í sýslunum.
Tónlistarmálin voru Ásgeiri
mjög hugleikin. Um þetta leyti
voru tónlistarfélög og tónlistar-
skólar að stíga sín fyrstu spor.
Reykjavík var í forystu í mörg ár,
en síðan komu Akureyri, Ísafjörð-
ur, Keflavík og Selfoss á síðari ár-
um. Árið 1966 boðaði Ásgeir til
fundar áhugasama skólamenn í
héraðinu og áhugamenn um tón-
listarmenningu. Þar var sleginn
réttur tónn hjá Ásgeiri. Tónlistar-
félag Borgarfjarðar var stofnað
og stjórn félagsins fékk það verk-
efni að koma af stað tónlistar-
kennslu í öllum grunnskólum
sýslnanna og stofna Tónlistar-
skóla Borgarfjarðar. Saga Tón-
listarfélagsins og Tónlistarskól-
ans verður ekki rakin hér. Þessar
tvær stofnanir hafa blómstrað og
veitt tónlistinni brautargengi inn
á fjölda heimila og veitt einstak-
lingum gleði á hamingjustundum
og sefað sorgina á rauna- og sakn-
aðarstundum.
Tónlistarunnendur Borgar-
fjarðar þakka forystumanni sín-
um framtakið og munu áfram leit-
ast við að vinna að blómstrandi
tónlist í Borgarfjarðarhéraði.
Blessuð sé minning Ásgeirs
Péturssonar.
Hjörtur Þórarinsson.
Enginn fær umflúið sitt skapa-
dægur og misjafn er sá tími sem
okkur mannfólkinu er skammtað-
ur. Nú hefur Ásgeir Pétursson
fyrrverandi sýslumaður í Mýra-
og Borgarfjarðarsýslu hlýtt kall-
inu á 98. aldursári. Þótt líkaminn
væri farinn að gefa sig hin síðari
ár var andinn óbilaður. Ásgeir var
um margt yfirburða maður og
verður ávallt minnisstæður þeim
sem honum kynntust. Hann var
maður fjölfróður, skarpgreindur
og flugmælskur. Gilti þá einu
hvort málin voru rædd á góðri
stund eða á fundum þar sem
margir komu saman. Ásgeir var
kominn af sterkum stofni. Afi
hans, séra Magnús Andrésson
prófastur og alþingismaður Gils-
bakka var forystumaður í héraði á
marga lund. Faðir Ásgeirs var
Pétur Magnússon bankastjóri og
fjármálaráðherra. Ásgeir var al-
inn upp á heimili þar sem stjórn-
málaumræða var ofarlega á
baugi. Það veganesti átti eftir að
fylgja honum fram á veginn og
mótaði lífsskoðanir hins unga
manns. Hann hóf snemma af-
skipti af stjórnmálum og sinnti
þar margvíslegum trúnaðarstörf-
um fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Árið 1961 var hann skipaður
sýslumaður í Mýra- og Borgar-
fjarðarsýslu. Í þá daga veitti
sýslumaður jafnframt fram-
kvæmdavaldi í héraði forystu sem
oddviti sýslunefnda. Á þeim vett-
vangi lét Ásgeir mjög til sín taka
og beitti sér fyrir margvíslegum
framfaramálum.
Má þar helst nefna forystu
hans í bygginganefnd og síðar í
stjórn dvalarheimilis fyrir aldraða
í Borgarnesi samtals um sextán
ára skeið.
Þá beitti hann sér mjög fyrir
byggingu brúar yfir ósa Hvítár í
Borgarfirði. Var það bæði á vett-
vangi sýslunefnda og síðar alþing-
is þegar hann sem varaþingmað-
ur fékk samþykki þingsins fyrir
því að ráðist yrði í undirbúnings-
rannsóknir vegna brúargerðar-
innar.
Ásgeir var sívökull gæslumað-
ur hagsmuna Borgarfjarðar og
ýtti úr vör fjölmörgum málum
sem til heilla horfðu. Hann taldi
mikilvægt að hlúa að menningar-
arfi Borgarfjarðar og halda hon-
um á lofti.
Hann beitti sér einnig í æsku-
lýðsmálum, meðal annars með
stofnun Tónlistarskóla Borgar-
fjarðar. Þannig setti hann mark
sitt á Borgarfjörð á þeim árum
sem umbreytingar í héraði voru
hvað mestar. Ásgeir var gæfu-
maður í einkalífi. Kona hans Sig-
rún Hannesdóttir stóð þétt við
hlið manns síns í leik og starfi.
Þau hjón voru stórglæsileg og
heimili þeirra ávallt rekið af rausn
og héraðinu til mikils sóma.
Hinum mörgu og djúpu spor-
um Ásgeirs Péturssonar í fram-
farasögu Borgarfjarðar verða
ekki gerð skil í stuttri minning-
argrein.
Fyrir nokkrum árum fékk ég
símtal frá Ásgeiri og bað hann
mig um að heimsækja sig. Ég sat
hjá honum drykklanga stund og
við ræddum liðna tíma. Þá fann ég
glöggt hversu sá tími sem hann
gegndi sýslumannsembætti í
Borgarfirði var honum hugleikinn
og mikils virði. Honum var þakk-
læti efst í huga eftir hartnær 20
ára samfylgd Borgfirðinga. Við
leiðarlok er þó ljóst að þakkar-
skuldin er stærst hjá þeim sem
nutu verka hans og vináttu. Ég
votta fjölskyldu Ásgeirs innilega
samúð við fráfall hans.
Óðinn Sigþórsson,
Einarsnesi.
Þegar skyggnst er yfir æviferil
Ásgeirs Péturssonar fer ekki hjá
því, að athyglin beinist að þátt-
töku hans í stjórnmálum. Hann
ólst upp í föðurgarði á Hólavelli
þar sem heimilisfaðirinn tók virk-
an þátt í landstjórninni með setu í
bæjarstjórn Reykjavíkur, setu á
Alþingi og í ríkisstjórn áratugum
saman. Þetta var á þeim tíma sem
að mörgu leyti voru mótunarár í
íslenskum stjórnmálum. Fullveldi
og lýðveldisstofnun, kreppuár,
stríðsár, hersetu og þátttöku Ís-
lands í vestrænni samvinnu í
NATO og EFTA bar sennilega
hæst.
Ásgeir átti kost á að fylgjast
með umræðum um lýðveldisstofn-
unina, rökum „hraðskilnaðar-
sinna“ og andrökum þeirra sem
ekki vildu aðskilnað við Dan-
mörku að svo stöddu, og nefndu
sig „lögskilnaðarmenn“ af mikilli
hógværð. Sem betur fer urðu rök
þeirra fyrrnefndu ofan á og lýð-
veldið var stofnað, eins og al-
kunna er, árið 1944.
Ásgeir tók þátt í og leiddi með
öðrum varnir Alþingis 1949, þeg-
ar lýðræðislegum ákvörðunum
þingsins var ógnað með skipu-
lagðri atlögu utanfrá, sem ætlað
var að koma í veg fyrir lögmæta
samþykkt Alþingis um inngöngu í
NATO. Það reynist kannski erfitt
að setja sig í spor þeirra sem
lögðu sig í hættu við að verja lög-
gjafarsamkunduna, en sannleik-
urinn er sá, að þetta er vafalaust
mesta eldraun sem hið unga lýð-
veldi gekk í gegnum, og ekkert
svipað gerðist næstu 60 árin eða
svo. Ásgeir tók þátt í stjórnmál-
um með beinum hætti með for-
mennsku í SUS og Heimdalli og
svo með framboði til Alþingis í
Mýrasýslu 1959 og síðar í Vest-
urlandskjördæmi.
Hann varð sýslumaður Mýra-
manna og Borgfirðinga um þetta
leyti og vann í krafti þess að
margvíslegum framfaramálum í
héraðinu, sem enn eiga sér stað.
Ferill hans sem embættismanns
staðfestist enn frekar þegar hann
varð bæjarfógeti í Kópavogi, allt
þar til hann lét af embætti fyrir
aldurs sakir. Ásgeir var vel liðið
yfirvald, sanngjarn og sáttfús og
miðlaði málum þegar þess var
kostur.
Mér er ofarlega í huga saga
sem gerðarþoli sagði mér af því
þegar Ágeir kom sem bæjarfógeti
til að bjóða upp heimili hans, en
krafan var smáfjárhæð sem sögu-
maður hafði neitað að borga því
hann taldi hana ekki réttmæta.
Fógeti skoraði á gerðarþola að
greiða en hann neitaði og sagði
fógeta að hann skyldi bara bjóða
upp.
Þá dró Ásgeir upp veskið og
sagðist skyldu greiða skuldina
sjálfur. Síðan sagði sögumaður
við mig: „Hvernig getur maður
annað en borið virðingu fyrir
svona mönnum.“
Ágeir Pétursson var maður
þrekvaxinn, meðalmaður á hæð,
vel á sig kominn, liðugur og
hraustmenni.
Hann var ágætis eftirherma,
drátthagur karíkatúr-teiknari og
á síðari árum ágætur listmálari.
Stjórnmálaskoðanir hans voru
mótaðar af samúð og skilningi á
kjörum þeirra sem minna máttu
sín og bjargfastri sannfæringu
um kosti frelsis til orðs og æðis.
Hann var glaðlyndur alvörumað-
ur, sem lifði lengur en flestir og
hafði séð og lifað meira en flestir
aðrir. Blessuð sé minning hans.
Pétur Kjartansson.
Við upphaf 43. landsfundar
Sjálfstæðisflokksins 16. mars
2018 sagði Ásgeir Pétursson mér
að hann hefði farið með föður sín-
um, Pétri Magnússyni, varafor-
manni flokksins, í fyrsta sinn á
landsfund árið 1943. Þegar Bjarni
Benediktsson var kjörinn formað-
ur árið 2009 hittust þeir Ásgeir og
Bjarni í Valhöll.
Þar með hefði hann heilsað öll-
um formönnum Sjálfstæðis-
flokksins með handabandi. Flokk-
urinn var stofnaður 1929 þegar
Ásgeir var sjö ára.
Það var notalegt og fróðlegt að
hitta Ásgeir þar sem hann sat á
friðarstóli í Sunnuhlíð í Kópavogi
og rifjaði upp kynni sín af mönn-
um og málefnum og atvik úr
stjórnmálasögunni. Minnið var
einstakt og atburðir urðu ljóslif-
andi í frásögn hans. Hann átti
dýrmætar minningar um náið
áralangt samstarf við föður minn
og góða vináttu þeirra Sigrúnar
við foreldra mína. Bar þar aldrei á
neinn skugga og birtan yfir minn-
ingu hans um þau var einlæg og
hlý. Fyrir allt það skal nú þakkað
á kveðjustund.
Þá er mér ljúft að minnast
framlags Ásgeirs til hugsjónabar-
áttunnar sem leiddi til aðildar Ís-
lands að Atlantshafsbandalaginu.
Á námsárum í Háskóla Íslands
varð hann forgöngumaður um
samstarf við vestræn ríki um
varnir landsins. Hann ritaði árið
1948 greinina „Á varðbergi“ um
valdarán kommúnista í Austur-
Evrópu.
Hugsjóninni lagði Ásgeir lið í
verki þegar hann stóð í fremstu
röð þeirra sem vörðu Alþingis-
húsið í mars 1949.
Árið 2013 skýrði Ásgeir í fyrsta
sinn frá því opinberlega að hann
hefði verið foringi varnarliðs Al-
þingishússins til aðstoðar lög-
reglu 30. mars 1949 þegar menn
óttuðust að kommúnistar og aðrir
andstæðingar NATO-aðildar ætl-
uðu að ráðast inn í þinghúsið og
rjúfa þingfund.
Ásgeir gaf varnarliðinu fyrir-
skipun um að ryðjast ásamt lög-
reglu út úr þinghúsinu eftir að
lögreglustjórinn í Reykjavík leit-
aði til hans.
Ásgeir átti ríkan þátt í að
stofna Samtök um vestræna sam-
vinnu fyrir rúmum 60 árum en
þau starfa nú undir nafninu Varð-
berg sem skírskotar beint til
greinar Ásgeirs frá 1948. Hann
fylgdist alla tíð af áhuga með al-
þjóðamálum og vék aldrei frá
skoðun sinni á heillaskrefinu sem
stigið var með aðildinni að NATO.
Sem sýslumaður í Borgarnesi
lét Ásgeir sig málefni Reykholts
miklu varða. Hann beitti sér fyrir
samkomu í Reykholti í tilefni af
átta alda afmæli Snorra Sturlu-
sonar.
Hann átti hlut að því að bygg-
ing Snorrastofu og kirkju í Reyk-
holti var ákveðin. Hann sat lengi í
Reykholtsnefnd og skólanefnd
Reykholtsskóla.
Sem formaður stjórnar
Snorrastofu færi ég Ásgeiri þakk-
ir fyrir framsýni hans og hollustu
við Reykholt. Þar birtist virðing
hans fyrir menningararfinum og
þjóðlegum metnaði.
Við Rut vottum börnum Ás-
geirs og fjölskyldum þeirra inni-
lega samúð.
Blessuð sé minning Ásgeirs
Péturssonar.
Björn Bjarnason.
Fremstur með hlutverk höfðingjans fer
Hólavellir staðurinn
Ættboginn nú sem höfuðlaus her
horfinn aðalmaðurinn
Með djúpri virðingu, þökk og
mikilli eftirsjá.
Jakob Frímann Magnússon.
Ástkær eiginkona mín, dóttir, móðir okkar,
tengdamóðir, systir og amma,
MARGRÉT BJÖRNSDÓTTIR
hjúkrunarfræðingur,
Seiðakvísl 18, Reykjavik,
lést mánudaginn 1. júlí á líknardeild
Landspítalans. Útför hennar fer fram frá Fossvogskirkju
miðvikudaginn 10. júlí klukkan 13.
Jón Hrafnkelsson
Björn Jónsson Guðbjörg Jónsdóttir
Hrafnkell Jónsson Þorbjörg R. Guðmundsdóttir
Þórey Björnsdóttir Guðmundur Á. Björnsson
Henný Hraunfjörð Ásgeir Þ. Másson
og barnabörn
Ástkær dóttir, móðir, tengdamóðir
og amma,
EVA ÓSK ÞORGRÍMSDÓTTIR
frá Ólafsvík,
lést þann 17. júní.
Útförin hefur farið fram.
Þorgrímur R. Kristinsson Gerður H. Sigurðardóttir
Birgitta Sif Pétursdóttir
Karl Óskar Pétursson Heiðrún Líf Erludóttir
Aþena Mist Ragnarsdóttir
Kristján Helgi Evuson
Alexandra Von Karlsdóttir
Þér ég þakka
vináttu og góðar stundir.
Hlýja hönd og hand-
leiðslu,
okkar stundir saman.
Bjartar minningar lifa
ævina á enda.
(Hulda Ólafsdóttir)
Hvíldu í friði, Kalli minn.
Vigdís (Dísa).
Elsku bróðir.
Kallið kom fljótt, ég hef ekki
áttað mig á því ennþá.
Það stækkar alltaf skarðið,
Gunna og Magnús Hrafn látin og
þú núna.
Mig langar að minnast okkar
tíma þegar við bjuggum á Bú-
staðavegi 61. Við lékum okkur oft
öll saman, ég fékk að koma með
ykkur á rúntinn í stóra bílnum
eins og hann leit út í mínum aug-
um. Fórum oft í litla og stóra skóg,
Karl Magnússon
✝ Karl Magn-ússon fæddist
19. október 1945.
Hann lést 10. júní
2019.
Útför Karls fór
fram í kyrrþey.
þar lékum við okkur
í feluleik og kabbó.
Þegar við vorum
heima lékum við
okkur í brennó,
dimmalimm, undir
og yfir og hinum
ýmsu leikjum.
Svo fórstu í
fyrsta skipti á sjó-
inn, skip sem hét
Selfoss, varst lengi í
einu á sjónum, en
þegar þú komst heim gafst þú mér
fallegan dúkkuvagn, peninga-
kassa, nammi, epli og margt fleira.
Þú varst svo mikill dýravinur,
þú áttir kött sem hét Jonni, hann
var svo blíður og góður. Þú leyfðir
mér oft að fara með Jonna í
göngutúr um hverfið í nýja dúkku-
vagninum, ég setti barnahúfu á
hann og fór í dúkkuleik með hann,
öllum fannst hann Jonni vera svo
falleg kisa.
Ég fékk líka að koma með þér í
sveitina, á Ásbjarnastaði. Fékk að
fara í gamla torfbæinn sem
Magga gamla átti heima í, mér
fannst allt vera svo skrítið þar,
koppar undir rúmum, eldhúsið
með moldarveggjum, kamar úti
þar sem ég þurfti að pissa í, mér
fannst þetta voða skrítið. Svo fór-
um við á Þorgrímsstaði þar sem
ég hitti Adda og systkinin hans.
Sendum Dísu og fjölskyldu
innilegustu samúðarkveðjur.
Takk fyrir allt, elsku bróðir, og
stundirnar okkar saman. Þín syst-
ir
Erla Kristín og fjölskylda.
HINSTA KVEÐJA
Elsku pabbi, takk fyrir
allt.
Umhyggju og ástúð þína
okkur veittir hverja stund.
Ætíð gastu öðrum gefið
yl frá þinni hlýju lund.
Gáfur prýddu fagurt hjarta,
gleðin bjó í hreinni sál.
Í orði og verki að vera sannur
var þitt dýpsta hjartans mál.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
þín dóttir,
Inga Rós.
Afi við elskum þig öll af
öllu hjarta og við söknum
þín ofboðslega mikið.
Þinn
Kristján.
Afi minn besti, ég elska
þig og sakna þín.
Þinn
Gunnar.