Morgunblaðið - 13.07.2019, Page 26
26 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 13. JÚLÍ 2019
Glöggt er gests augað, segir hið fornkveðna. Þetta spakmæli áekki síður við um tungumálið en önnur svið mannlífsins. Það eráhugaverð staðreynd að ýmsum merkilegum atriðum í íslenskumáli var fyrst veitt eftirtekt af útlendum málfræðingum. Þar á
meðal eru fyrirbæri sem mikið hafa verið á dagskrá í alþjóðlegri umræðu
um málvísindi síðustu áratugi. Einhverjum kann að virðast kyndugt að
útlendingar geri slíkar „uppgötvanir“ en ekki Íslendingar, sem eiga þó al-
tént íslensku að móðurmáli. Svona er þetta samt og ástæðan er vafalaust
fyrst og fremst sú að Íslendingar eru svo vanir móðurmáli sínu að þeir
gefa því ekki gaum að hvaða leyti það er frábrugðið öðrum málum. Kunn-
átta í tungumáli dugir ekki ein og sér til skilnings á eðli þess; skólun í
fræðikenningum í málvísindum er ekki síður mikilvæg.
Bandaríski málvísindamaðurinn Avery Andrews dvaldi á Íslandi á átt-
unda áratug síðustu aldar og
rannsakaði íslensku í sam-
anburði við ýmis önnur mál.
Þá uppgötvaði hann auka-
fallsfrumlög. Vonlegt er að
einhver spyrji: „Hvað er
aukafallsfrumlag? Hvaða
fyrirbæri er það sem Íslendingar sjálfir, fræðimenn og venjulegir mál-
hafar, voru um langan aldur ófróðir um?“ Svarið er í stuttu máli: Auka-
fallsfrumlag er nafnliður í aukafalli – þolfalli, þágufalli eða eignarfalli –
sem hegðar sér í setningu eins og frumlag, t.d. með tilliti til orðaraðar og
annarra setningafræðilegra einkenna. Hefðbundin skilgreining á frum-
lagi, ættuð úr latneskri skólamálfræði, er að frumlag í setningu standi í
nefnifalli og nefnifall í setningu sé frumlag. Þetta eru vafasöm rök þar
sem skýring á hugtakinu er gefin fyrir fram í skilgreiningunni á því.
Dæmi um „hefðbundin“ nefnifallsfrumlög eru: Ég vil nammi, hún hatar
apa, hann er þarfur í verkefninu. Eftirfarandi setningar hafa hins vegar
að geyma aukafallsfrumlög: Mig langar í nammi, henni leiðast apar, hans
er þörf í verkefninu.
Nýlega hefur komið í ljós að aukafallsfrumlög eru mun útbreiddari í
tungumálum heims en áður var talið. Mikilvægi íslensku í þessum rann-
sóknum er ótvírætt og rétt er að halda því til haga að íslenskir málfræð-
ingar lögðu fram þýðingarmikinn skerf til skilning á aukafallsfrumlögum
eftir að þau voru uppgötvuð.
Það er af Avery Andrews að segja að hann hefur lengst af starfað í há-
skólanum í Canberra í Ástralíu, ásamt eiginkonu sinni Cynthiu Allen,
sem er víðkunnur sérfræðingur í fornensku. Nýlega stóðu þau hjón
ásamt öðrum að stórri ráðstefnu í sögulegum málvísindum sem málfræð-
ingar hvaðanæva að úr heiminum sóttu. Þar voru fyrirlestrar um íslensku
að vonum fyrirferðarmiklir – fluttir af íslenskum og erlendum málfræð-
ingum – enda af nógu að taka um áhugaverð atriði í íslenskri málfræði,
hvort heldur aukafallsfrumlög eða önnur merkileg fyrirbæri sem komið
hafa íslensku máli á kortið í hinum alþjóðlega málvísindaheimi.
Málvísindalegar
uppgötvanir
Tungutak
Þórhallur Eyþórsson
tolli@hi.is
Nafnliður í aukafalli Auka-
fallsfrumlög eru eins og bjúg-
verpill, þau koma alltaf til baka.Dóra Ólafsdóttir, elzti núlifandi Íslendingurinn,sem varð 107 ára á laugardaginn fyrir viku,sýndi málstað andstæðinga orkupakka 3 mik-inn heiður með því að segja í samtali við
Morgunblaðið á afmælisdaginn:
„Við eigum ekki að samþykkja þriðja orkupakkann.“
Og bætti svo við:
„Við eigum að halda áfram að vera Íslendingar og eiga
okkar ríki, ekki gefa það frá okkur.“
Dóra er líka með hugann við minningu Jóns Sigurðs-
sonar og segir:
„… það virðist gleymast að hann bjargaði landinu, að
við urðum sjálfstætt ríki.“
Það er uppörvandi fyrir andstæðinga orkupakka 3 að
fá slíka hvatningu frá konu sem hefur náð svo háum aldri
og um leið er það umhugsunarefni, hvers vegna meira er
um að eldra fólk láti í ljósi slíkar skoðanir en yngri kyn-
slóðir.
Vafalaust eru margar skýring-
ar á því. Við sem fæddumst í kon-
ungsríkinu Danmörku-Íslandi og
munum eftir okkur á Þingvöllum
17. júní 1944 drukkum í okkur
þjóðerniskenndina með móðurmjólkinni, ef svo má að
orði komast.
Og ekki er fráleitt að ætla að kennsla í Íslandssögu
strax í barnaskóla hafi ýtt undir þær tilfinningar. Kenn-
arar okkar hafa auðvitað verið mótaðir af sama andrúmi
og það hefur áreiðanlega birtzt í túlkun þeirra á sögu
lands og þjóðar í kennslustundum.
Stundum hef ég velt því fyrir mér, hvort minni kynslóð
hafi verið innrætt, bæði í skóla og heima fyrir, andúð á
Dönum. Þá andúð losnaði ég ekki við fyrr en eftir að hafa
unnið eitt sumar á dönskum búgarði, 17 ára gamall, og
kynnzt þar bændum og búaliði. Þegar yngri kynslóðir eru
spurðar um slíkar tilfinningar skilja þær ekki spurning-
una, þeim finnst hún svo fráleit.
Framan af mótaðist sterk þjóðerniskennd kynslóðar
Dóru Ólafsdóttur og afkomenda þeirrar kynslóðar áreið-
anlega mjög af sögu þjóðar okkar og sjálfstæðisbarátt-
unni, sem náði ákveðnum hápunkti á Þingvöllum 1944, en
átti þó með sínum hætti eftir að standa fram til 1. desem-
ber 1976, þegar síðustu brezku togararnir sigldu frá Ís-
lands ströndum.
En þegar ég las fyrst um hugmyndir Guðmundar Hálf-
dánarsonar, prófessors, um að landið sjálft og náttúra
þess væri í vaxandi mæli að móta þjóðarvitund okkar
fannst mér strax blasa við að hann hefði rétt fyrir sér.
Ferðalög um óbyggðir Íslands hafa svo sterk áhrif á
tilfinningu fólks fyrir landinu og sögu þjóðarinnar í þessu
landi, að þeim verður vart lýst með orðum. Fyrir nokkr-
um dögum bárust mér skilaboð, bæði ofan af Arnarvatns-
heiði og af Fjallabaksleið syðri, sem staðfestu enn einu
sinni, hvílík upplifun náttúra lands okkar er fyrir fólk.
Það eru þessar tilfinningar sem ráða miklu um afstöðu
þeirra sem á undanförnum mánuðum hafa lagst gegn
samþykkt Alþingis á orkupakka 3 og sem fyrir nokkrum
árum tóku upp baráttu gegn aðild Íslands að ESB.
Og af sömu ástæðum sagði ég á fundi nokkurra hverfa-
félaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í Valhöll hinn 30.
ágúst á síðasta ári:
„Við hina ungu forystusveit Sjálfstæðisflokksins í dag
langar mig til að segja:
Gætið að ykkur. Sá þráður í sálarlífi þessa flokks, sem
snýr að fullveldi og sjálfstæði, er mjög sterkur. Flokkur-
inn virðist hafa misst varanlega um þriðjung af sínu fylgi.
Hann má ekki við meiru. Sýnið þeirri sögu sem hér hefur
verið rakin virðingu.“
Þeir sem finna hjá sér hvöt til
að lýsa skoðunum sem hafa mót-
ast með þeim hætti sem hér hefur
verið lýst á þann veg að þar séu á
ferð þröngsýnir einangrunar-
sinnar eða tala niður til þeirra með tilvísun til aldurs
hinna sömu verða að eiga það við sjálfa sig.
Hér eru hvorki á ferð þröngsýnir einangrunarsinnar
né „eldri menn“ með skoðanir „sem ekki er mikil eftir-
spurn eftir“ eins og lýst var í sjónvarpsþætti í vetur, held-
ur einfaldlega fólk, ungt og gamalt, sem hefur mótast af
því landi sem við búum í og sögu þessarar þjóðar.
Og hér eru á ferð svo sterkar tilfinningar að það er ein-
faldlega hyggilegt fyrir þá sem stjórna ferðinni í þessu
landi í krafti þess að vera þjóðkjörnir fulltrúar á Alþingi,
að sýna þeim skoðunum og sjónarmiðum sem svona hafa
orðið til virðingu og skilning fremur en hroka, yfirlæti og
geðvonzku.
Og stundum er einfaldlega nauðsynlegt fyrir þá sem
starfa á vettvangi stjórnmála að horfast í augu við þann
pólitíska veruleika sem við þeim blasir.
Í því sambandi er ástæða til að vekja athygli á frétt
sem birtist á mbl.is, netútgáfu Morgunblaðsins, í fyrra-
dag. Þar var sagt frá skoðanakönnun sem fyrirtækið Orb
International gerði fyrir brezka blaðið Daily Telegraph.
Þar sagði:
„Þannig myndu 92% kjósenda Íhaldsflokksins styðja
flokkinn í næstu þingkosningum ef Bretland fer úr
Evrópusambandinu 31. október en 5% Brexit-flokkinn.
Verði Bretar ekki komnir úr sambandinu á þeim tíma-
punkti, munu aðeins 56% kjósenda Íhaldsflokksins styðja
flokkinn en 35% Brexit-flokkinn samkvæmt könnuninni.“
Þetta er óneitanlega eftirtektarverð niðurstaða.
Getur verið að þetta sé sá pólitíski veruleiki sem bæði
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur standi nú
frammi fyrir vegna orkupakka 3?
Um það ættu þingmenn beggja þessara flokka að
hugsa næstu vikur.
Og kannski líka, að það er ekki alltaf skynsamlegt fyrir
þá sem valdið hafa að sýna það vald.
Uppörvandi hvatning
frá elzta Íslendingnum
Skilaboð af Arnarvatnsheiði
og Fjallabaksleið syðri
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Eitt meginhlutverk vísindannaer að gera greinarmun á sýnd
og reynd, skynveruleika og raun-
veruleika. Það er að endurskoða og
leiðrétta þá mynd af veruleikanum,
sem við fáum fyrir tilstilli skynfær-
anna. Jörðin sýnist til dæmis flöt,
en er í raun hnöttótt. Annað dæmi
er munurinn á nafnvöxtum og
raunvöxtum: Ef maður tekur lán á
5% vöxtum í 3% verðbólgu, þá eru
raunvextir 2%, þótt nafnvextir séu
5%.
Mér varð hugsað til þessa grein-
armunar á sýnd og reynd, þegar
Sjálfstæðisflokkurinn varð níræður
á dögunum. Það er alveg rétt, sem
jafnan er sagt, að hann varð til,
þegar Íhaldsflokkurinn og Frjáls-
lyndi flokkurinn sameinuðust 25.
maí 1929. Síðan er iðulega sagt
með skírskotun til þess, að í
flokknum takist á frjálslynd öfl og
íhaldssöm.
Menn mega þó ekki láta nöfnin
blekkja sig. Íhaldsflokkurinn var í
raun frjálslyndur flokkur, en
Frjálslyndi flokkurinn íhaldssamur.
Þetta má sjá með því að kynna sér
stefnuskrár flokkanna, starfsemi og
verk. Jón Þorláksson stofnaði
Íhaldsflokkinn 24. febrúar 1924,
vegna þess að hann vildi halda í
fengið frelsi, eins og hann skýrði út
í snjallri grein í Eimreiðinni 1926.
Hann vildi verja þetta frelsi gegn
nýstofnuðum stéttarflokkum,
Framsóknarflokki bænda og Al-
þýðuflokki verkalýðsrekenda. Ólíkt
frjálslyndishugtakinu er íhaldshug-
takið afstætt frekar en sjálfstætt:
Öllu máli skiptir, í hvað er haldið.
Þegar Jón var fjármálaráðherra
1924-1927, jók hann atvinnufrelsi
með því að leggja niður ríkisfyr-
irtæki og lækka skuldir hins op-
inbera. Sigurður Eggerz, leiðtogi
Frjálslynda flokksins, hafði hins
vegar verið örlátur á almannafé, á
meðan hann var fjármálaráðherra
1917-1920, og safnað skuldum.
Frjálslyndi flokkurinn, sem var
að vísu losaralegur sína stuttu
starfstíð, lagði megináherslu á
ramma þjóðernisstefnu, en hún er
auðvitað af ætt íhaldsstefnu frekar
en frjálshyggju. Einn aðalmaður
Frjálslynda flokksins, Bjarni Jóns-
son frá Vogi, hafði einmitt sett það
skilyrði fyrir stuðningi við stjórn
Íhaldsflokksins, að ný ættarnöfn
yrðu bönnuð með lögum, því að
hann taldi þau óíslenskuleg. Annar
forystumaður Frjálslynda flokks-
ins, Benedikt Sveinsson, hafði verið
andvígur sambandslagasáttmálan-
um 1918, því að hann vildi ekki
veita Dönum þau réttindi á Íslandi,
sem kveðið var á um í sáttmálan-
um.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Ekki er allt sem sýnist