Morgunblaðið - 12.08.2019, Síða 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 12. ÁGÚST 2019
VIÐTAL
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Ljóð Valdimars Tómassonar hafa
notið mikilla vinsælda á undan-
förnum árum. Ljóðabækur hans
fjórar hafa rokselst og trónað á toppi
metsölulista. Nú hefur komið út
ljóðasafn, Ljóð 2007-2018, sem hefur
að geyma ljóðabækurnar fjórar.
Þessi nýja útgáfa er tileinkuð skáld-
inu Þorsteini frá Hamri heitnum.
„Það tengist vinskap okkar og nátt-
úrlega því að ég hef miklar mætur á
hans verkum. Hann var mér ráðholl-
ur og hjálpsamur,“ segir Valdimar.
Fyrsta ljóðabók Valdimars, Enn
sefur vatnið, kom út fyrir 12 árum,
árið 2007. „Það var einhver uppsafn-
aður vandi sem maður rótaði í, fékk
ágæta ritstýringu og leiðsögn hjá
Sigurði A. Magnússyni og Þorsteini
frá Hamri og fór svo með handrit út í
forlag.“ Sonnettusafnið, Sonnettu-
geigur, kom út næst og það kallar
hann einnig „uppsafnaðan vanda“.
Bókin Dvalið við dauðalindir kom svo
út árið 2017 og Vetrarland ári síðar.
Frí frá grámyglu hversdagsins
Í formála að ljóðasafninu segir
Guðmundur Andri Thorsson:
„Manni finnst jafnvel að hér séu
stundaðar ljóðalækningar.“ Valdi-
mar virðist sammála þessari ályktun
Guðmundar Andra því hann segir:
„Þetta er eitthvert heilunarform sem
ég hef notað mér til sáluhjálpar og
sefjunar. Mér finnst það líka kveikja
á hausnum á manni, opna glugga og
víddir og gefa frí frá grámyglu
hversdagsins.“
Hann bætir við: „Ég veit ekki
hvort það megi greina þetta sem ein-
hverja rótgróna þráhyggju eða sjálf-
birgingshátt. Maður áttar sig ekki á
því. Þessi stef safnast í hausinn á
manni og annaðhvort lenda þau á
lyklaborði eða blaði eða fara út í
vindinn.“
Gildi ljóða í nútímanum segir
Valdimar hvern verða að finna fyrir
sig. „Mér finnst ljóðið geta haldið
mér í einhverri jarðtengingu, að
maður nái niður í jörðina, í gegnum
steypuna og stálteinana.“
Í ljóðum Valdimars bregður
ósjaldan fyrir myrkri, kulda, harmi
og dauða. „Þetta eru kannski einhver
nýrómantísk áhrif; hið fagra og
sjúka, eins og hjá berklasjúkling-
unum í byrjun 20. aldar. Mér finnst
fólk oft flýja þessi átök og afneita
þessari glímu,“ segir Valdimar um
umfjöllunarefni ljóða sinna, tilvistina
og dauðann.
Það birtir sjaldan til í ljóðum
Valdimars. Þar ríkir oftast vetur.
„Ég átta mig ekkert alveg á því af
hverju það er, birtan heimsækir mig
líka en það verður oft svo vemmilegt
hjá manni einhvern veginn. Svona
„søde kager og dejlighed“ eins og
þar stendur. Manni hættir til að það
verði eitthvert kökuboð og latte.“
Þrátt fyrir að sumar, birta og ylur
séu ekki áberandi í ljóðunum skortir
ekki fegurðina því Valdimar dregur
upp fagrar myndir af vetrarríki.
„Það er aldeilis þannig að veturinn
beri fegurð. Það eru aldeilis mynd-
irnar þar. Menn koma hlaupandi frá
öðrum löndum yfir veturinn til þess
að hamast á hjarni og jöklum og
góna á norðurljós,“ segir hann.
Valdimar er alinn upp í Mýrdal og
hefur það að öllum líkindum haft
áhrif á hann sem skáld. „Ég er alinn
upp í umhverfi þar sem þetta er bara
við fæturna á manni. Maður gengur
á ísnum og horfir upp í stjörnuhim-
inn og norðurljós. Uppvöxturinn og
umhverfið hefur auðvitað áhrif á
mann,“ segir Valdimar og vitnar svo
í ljóðskáldið Jón úr Vör: „Þú færð
ekki sigrað þinn fæðingarhrepp.“
Samsvörun við reynsluheim
Valdimar segir að ástæða þess að
hann hafi flutt til borgarinnar hafi ef
til vill verið „einhver leit að nálgun
við sálufélaga mína í ljóðheimum og
listum.“ Slíkt hafi skort í umhverfi
uppvaxtaráranna. „Það var meiri
áhersla á sauðfjárafurðir og
mjólkurnyt og þess háttar í Mýrdal.
Þar voru önnur mæliker en í borg-
inni.“
Spurður hvort hann geti gert sér í
hugarlund hvers vegna ljóðabækur
hans hafa notið slíkra vinsælda segir
hann: „Maður veit það náttúrlega
ekkert. Kannski hefur fólk einhverja
samsvörun við þennan reynsluheim.
Það hafa allir mætt dauðanum í ein-
hverri mynd og tilvistarátökum. Um-
ræðan um það hefur búið við mikinn
tepruskap og einhvern veginn liggur
þetta ekki uppi á borði í latte-
boðunum. Svo fólk þarf að glíma við
tilvistina í einrúminu og þá er
kannski þægilegt að vita að fleiri hafi
upplifað hlutina, að geta nálgast
mennskuna og mannlegar tilfinn-
ingar, að vita að maður sé ekki einn
einhvers staðar úti í eyðimörkinni.“
Valdimar hefur verið ötull við
ljóðaþýðingar og útgáfu á ljóðum eft-
ir ýmis skáld, bæði íslensk og erlend,
og skýrir hann það með því að hann
sé mikill bókamaður. „Ég hef mikið
yndi af bókum svo ég reyndi fyrir
mér í bókaútgáfu og skemmti mér
við það. Það er bara einhver undar-
leg della í manni, áhugi og ástríða.
Maður eiginlega skilur það ekkert.
Það velur sér hver sitt. Ég hafði
gaman af þessu en ekki merkjavöru
eða laxveiði.“
Heilunarform til sáluhjálpar
Fjórar ljóðabækur Valdimars Tómassonar hafa verið gefnar út í safnritinu Ljóð 2007-2018
Vinsæll meðal Íslendinga „Mér finnst ljóðið geta haldið mér í einhverri jarðtengingu“
Morgunblaðið/Einar Falur
Ljóðlist „Fólk þarf að glíma við tilvistina í einrúminu og þá er kannski þægilegt að vita að fleiri hafi upplifað hlut-
ina, að geta nálgast mennskuna og mannlegar tilfinningar,“ segir skáldið Valdimar Tómasson um ljóð sín.
Undir glerhimnum lífsins
göngum við
til fundar við dauðann.
Og blákynjað myrkrið
breiðir út faðm sinn.
Breiðir út faðm
bölþrunginnar sælu.
Við óminnisnautn
hins eilífa dauða.
Þúsundir nátta
vaki ég
í vetrarmyrkri.
Og hugsanabrimið
bergmálar
um blástirnda nótt.
Blástirnda vetrarnótt.
Var nóttin litarvana
eða logarauð?
Stjarna vakir
á vetrarhimni.
Frostrósin blikar
brimhvít og tær.
Jafvel vornæturinnar
vitjar dauðinn.
Í fölleitu rofi
feigðar og lífs
ber nývakin jörðin
nábleik klæði.
Á dulrænum mörkum
dauðans og lífsins
dvelur sársaukinn.
Án loforða
lýkur þú upp dyrum.
Fullkomnar þitt fyrirheit.
Rúmar ekki hégóma
né roðakennda lygi.
Hjá vötnum dauðans
dvelur þögnin ein.
Nafnlaus ljóð úr bók Valdimars,
birt með leyfi skáldsins.
Nokkur ljóð úr ljóðabókum
Valdimars Tómassonar
FJÓRAR LJÓÐABÆKUR Í LJÓÐ 2007-2018
Vagnhöfði 7, 110 Reykjavík | Sími: 517 5000 | stalogstansar.is
Ekki bara jeppar
SANGSIN gæðavara frá Kóreu
BREMSU
VÖRUR
í flestar gerðir bíla