Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.08.2019, Page 22

Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.08.2019, Page 22
22 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 11.8. 2019 LÍFSSTÍLL Enginn bókmenntaunnandi sem til Edinborgar kemur ætti að láta stórskemmtilega og fræðandi bók- menntagöngu Allans Foster um borgina fram hjá sér fara, en borg- in er, líkt og Reykjavík, ein af bók- menntaborgum UNESCO. Lagt er af stað frá The Writers’ Museum sem stendur við Lady Stair’s Close, alla sunnudaga kl. 11.30. Yfir sum- artímann bætast fleiri dagar við, en upplýsingar má finna á vefnum. Meðal þeirra sem Foster segir frá er skurðlæknirinn Joseph Bell sem kenndi við læknadeild Edin- borgarháskóla á 19. öld þar sem Arthur Conan Doyle kynntist hon- um og nýtti við persónusköpun rannsóknarlögreglumannsins Sherlock Holmes. Einnig fer Foster fram hjá kaffihúsunum Spoon og The Elephant House þar sem J.K. Rowling lagði grunninn að vinsæl- um bókaflokki sínum um galdra- strákinn Harry Potter. Á einni byggingu Edinborgar- háskóla við Charles Street má sjá nashyrningshöfuð úr bronsi, sem auðveldlega gæti farið fram hjá vegfarendum vegna þess hversu hátt uppi styttan er staðsett. Upp- stoppað nashyrningshöfuð var ein- kennismerki bókabúðar sem Jim Haynes rak á árum áður á þessum stað, en búðin komst í heimsfrétt- irnar haustið 1960 þegar Haynes seldi Agnesi Cooper, trúboða og hjálpræðishermanni, eintak af Lady Chatterley’s Lover eftir D. H. Lawrence. Bókin, sem fyrst kom út 1928, var bönnuð í Bretlandi fram til haustsins 1960 vegna ósiðlegs innihalds. Það sama ár létu stjórn- endur hjá Penguin Books reyna á tjáningarfrelsið og gáfu bókina út í óritskoðaðri útgáfu sem leiddi til málaferla í London sem lauk 2. nóvember þegar kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að lög hefðu ekki verið brotin og í framhaldinu varð bókin metsölubók í Bretlandi. Meðan á málaferlunum stóð kom fyrrnefnd Cooper inn í búðina og keypti eintak af bókinni. Þegar Haynes lagði eintak á afgreiðslu- borðið sagðist Cooper myndu sækja hana eftir augnablik og strunsaði því næst út úr búðinni án þess að snerta gripinn. Haynes grunaði að nú yrði sjónarspil og hringdi í vin sinn, ljósmyndarann Alan Daiches, sem mætti á staðinn og náði víðfrægri mynd af því þegar Cooper kveikti í klámritinu eftir að hafa vætt það með bensíni, en hún gætti þess vandlega að snerta ekki gripinn nema með stórri töng. Áhugasamir geta fundið ljósmynd- ina á vefnum. Fróðleg bókmenntaganga Allan Foster og nashyrnings- styttan úr bronsi. Eitt af því sem gerir Edinborg jafn- heillandi og raun ber vitni er hversu mörg græn svæði eru inn- an borgarmarkanna. Gaman er að fá sér göngutúr í almenningsgarð- inum sem rammaður er inn af Princes Street, Waverley- lestarstöðinni og Edinborgar- kastala. Skammt frá Holyrood- höllinni er dýrðlegt útivistarsvæði sem kennt er við höllina og umlyk- ur fjallið Arthur’s Seat sem er kulnað eldfjall sem gaus síðast fyr- ir 340 milljónum ára. Það tekur um klukkutíma að ganga á tind- inn, sem er 251 m yfir sjávarmáli. Frá Holyrood-höllinni er aðeins um 10 mínútna ganga að Calton Hill, sem er talsvert lægra en Arthur’s Seat eða 103 m yfir sjávarmáli. Calton Hill býður engu að síður upp á frábært útsýni yfir Edinborg og Forth-fjörðinn sem borgin stendur við. Þeim sem vilja komast hærra er bent á að klifra upp í 32 m hátt Nelson-minnis- merkið sem reist var 1807-15 til heiðurs flotaforingjanum í orrust- unni við Trafalgar 1805. Á Calton Hill má einnig skoða Þjóðarminnismerki Skotlands sem reist var til að minnast þeirra her- manna sem létust í Napóleons- stríðunum sem lauk 1815. Minn- ismerkið ber það með sér að fyrirmynd þess var Meyjarhofið á Akrópólishæð í Aþenu, sem talið er eitt fegursta dæmi um dóríska byggingarlist. Hafist var handa við bygginguna 1826 en hætt 1829 vegna fjárskorts og stendur hún því enn ókláruð. Calton Hill er einn elsti almenningsgarður Bret- lands, en bæjaryfirvöld keyptu svæðið 1724 og útbjuggu göngu- leiðir almenningi til heilsubóta fyrir hvatningu frá David Hume, sem er einn þekktasti hugsuður upplýsingarinnar. Í þakkarskyni er einn stígurinn á hæðinni nefndur í höfuðið á honum. Mörg græn svæði innan borgarmarka Meyjarhofið í Aþenu er fyrirmynd Þjóðarminnismerkis Skotlands á Calton Hill sem aldrei var klárað vegna fjárskorts. Þegar gengið er um Edinborg má rekast á nokkrar hunda- styttur. Sú frægasta þeirra er án vafa skye-terrier-hundurinn Greyfriars Bobby sem stendur á brú Georgs IV fyrir framan samnefnda krá og skammt frá kaffihúsinu The Elephant House. Sagan segir að maður að nafni John Gray, sem starf- aði hjá lögreglunni, hafi átt hundinn. Þegar Gray lést úr berklum 1858 var hann grafinn í Greyfriars-kirkjugarðinum skammt frá þeim stað þar sem styttan stendur í dag. Hund- urinn vann sér það til frægðar að sýna látnum eiganda sínum það trygglyndi að gæta leiðis hans næstu 14 árin eða þar til hundurinn drapst 1872. Bur- dett-Coutts barónessa hreifst af sögunni og lét reisa styttu af hundinum í raunstærð 1873. Flestir þeirra sem leið eiga framhjá styttunni snerta trýnið í von um að það færi gæfu. Sama hjátrú gildir líka um tær Davids Hume, en stytta af hon- um var reist á Royal Mile 1997. Tryggur allt til enda Styttan af Greyfriars Bobby er sögð færa gæfu. Aðeins þarf að ganga í um fimmtán mínútur norðvestur af Princes Street, sem er aðalverslunargata Edinborgar og erilsöm eftir því, til að komast í algjöra kyrrð í Dean Village. Í um 800 ár knúði áin Water of Leith allt að átta myllur á svæðinu sem möluðu korn. Óhætt er að mæla með gönguferð niður með ánni og alla leið til hafnar í Leith, þaðan sem auðveldlega má taka strætisvagn til baka að Princes Street. Gangan tek- ur tvo til þrjá tíma, allt eftir því hversu oft er stoppað á leiðinni til að skoða náttúruna og fjölskrúðugt mannlífið. Leiðin er að mestu vel merkt, en stundum þarf að fara yfir umferðargötur til að komast áfram. Á leið til sjávar Horft til austurs frá Dean Village og út með ánni til Leith. VANTAR ÞIG STARFSFÓLK? Suðurlandsbraut 6, Rvk | S. 419 9000 info@handafl.is | handafl.is Við útvegum hæfa starfskrafta í flestar greinar atvinnulífsins Traust og fagleg starfsmannaveita sem þjónað hefur íslenskum fyrirtækjum í áraraðir

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.