Skessuhorn - 04.11.2015, Blaðsíða 14
MIÐVIKUDAGUR 4. NÓVEMBER 201514
„Síðasta vikan nú í október er ein sú
allra stærsta í sögunni í gámaflutn-
ingum um Grundartangahöfn. Alls
voru um þúsund gámar afgreidd-
ir til inn- og útflutnings í þess-
ari viku,“ segir Smári Guðjónsson
framkvæmdastjóri Klafa á Grund-
artanga. Klafi sér um afgreiðslu á
öllum gámum sem fara um höfnina.
Þeir fara um borð í skip Eimskipa
og Samskipa sem koma alls þrisv-
ar í viku til Grundartanga. „Tvö
skip frá Eimskipum koma á þriðju-
dögum og miðvikudögum og eitt
skip frá Samskipum kemur á mið-
vikudögum í kjölfar þess frá Eim-
skipum. Þetta eru allt skip sem eru í
siglingum til og frá Evrópu.“
Starfsemi í 15 ár
Klafi varð fimmtán ára á þessu ári og
er til helminga í eigu Norðuráls og
Elkem. Fyrirtækið sinnir afgreiðslu
á öllum gámaflutningaskipum sem
koma í iðnaðarhöfnina í Hvalfirði.
„Við sjáum eingöngu um gáma-
flutningana fyrir þessi tvö stóriðju-
fyrirtæki. Síðan er það þannig að
Samskip sjá um gámasiglingar fyr-
ir járnblendiverksmiðju Elkem en
Eimskip er með gámaflutningana
fyrir Norðurál. Allar afurðir frá ál-
verinu fara út í gámum. Hjá Elkem
fer um það bil helmingur afurða í
gáma en hitt í í skip í lausu. Það er
þá Uppskipun ehf sem sér um þær
útskipanir á lausa hlutanum. Önn-
ur fyrirtæki hér á Grundartanga-
svæðinu nota einnig gáma til flutn-
inga. Þar eru það fyrirtæki eins og
Kratus, Lífland og GMR. Kratus
vinnur afurðir úr álgjalli og GMR
rekur stálbræðslu. Við vinnum líka
fyrir þessa aðila. Langstærstur hluti
gámaflutningana eru þó frá stóriðj-
unum tveimur,“ segir Smári.
Klafi er með þau tæki á hafnar-
svæðinu sem þarf til að sjá um gám-
ana. „Hins vegar erum við ekkert í
því að afgreiða skip sem koma hing-
að með svokallaða lausa farma. Það
er súrál, kvarts, kol og þess hátt-
ar sem fer þá til álversins og járn-
blendiverksmiðjunnar. Á sínum
tíma var stofnað sérstak fyrirtæki
um að afgreiða slík skip. Það heitir
Uppskipun ehf. Þangað fóru á sín-
um tíma starfsmenn sem höfðu ver-
ið hjá Klafa.“
Besta árið í fyrra
Smári Guðjónsson segir að Klafi
sé í dag bæði sterkt og gott fyrir-
tæki með mjög samhentum og vel
þjálfuðum starfsmönnum. Þeir hafa
unnið lengi saman og búa yfir mik-
illi reynslu. Starfsmannaveltan sé
nánast engin. Það sé helst að menn
hætti þegar þeir komast á aldur. Í
dag starfa átta manns hjá Klafa.
„Besta árið í 15 ára sögu fyrirtæk-
isins var í fyrra. Það stefnir líka í að
þetta ár verði mjög gott. Fyrirtækið
hefur á þessum starfstíma gengið í
gegnum miklar skipulagsbreytingar
sem þurfti til að komast í gegnum
erfiða tíma. Þær hafa stundum ver-
ið sársaukafullar.“
Þeir hjá Klafa geta líka litið um
öxl með ánægjusvip vegna fleiri
þátta. „Við mjög stoltir af því að
hér hafa ekki orðið forföll vegna
slysa og óhappa í þrjú ár. Þar fer
saman reynsla starfsmanna og ör-
yggiskröfur sem við fylgjum. Við
hjá Klafa setjum okkur sömu kröfur
að þessu leyti og gilda inni í verk-
smiðjunum,“ segir Smári.
Nýjungar bæta
Grundartangahöfn
Í sumar varð það nýmæli að nýr
krani var settur upp á bryggjunni
á Grundartanga. Hlutverk hans er
einkum að skipa út gámum og hífa
þá á land. Smári segir að nýi kran-
inn hafi valdið þáttaskilum. „Hann
hefur aukið afköst við afgreiðslu á
skipunum. Það gengur miklu hrað-
ar að skipa út gámum og taka þá
aftur í land heldur en þegar notaðir
eru kranarnir sem skipin eru með.
Það er líka miklu þjálla að vera með
krana sem hægt er að keyra fram og
aftur eftir bryggjunni. Allt vinnuör-
yggi hefur líka batnað með tilkomu
nýja kranans. Kraninn er líka mik-
ilvægur í því tilliti að það er hægt
að nota hann til vara ef aðrir kran-
ar bila svo sem sá krani sem El-
kem hefur notað til uppskipunar
úr þeim skipum sem færa aðföng til
Járnblendiverksmiðjunnar. Það er
ekkert mál að setja á hann skóflu-
krabba og nota til að moka úr skip-
unum. Þessi krani er alls ekki sér-
hæfður bara til að hífa gáma.“
Auk þessa er nú unnið að því að
lengja viðlegukantinn á Grund-
artanga um 120 metra í vesturátt.
Smári segir að það verði til bóta.
„Þarna eiga til að mynda skipin sem
eru að koma með korn til Líflands
að geta lagst. Við höfum lent í því
að það hefur hreinlega ekki verið
pláss fyrir öll skipin sem hafa ver-
ið að koma og leggjast að bryggju
hér við Grundartanga. Þetta á ekki
síst við þegar súrálsskipin koma.
Þau geta verið gríðarstór þannig að
það vanti bryggjupláss ef fleiri skip
bætast síðan við á meðan þau liggja
hér og afferma. Aukið bryggjupláss
verður til mikilla bóta,“ segir Smári
Guðjónsson.
mþh
Þúsund gámar um Grundartangahöfn á einni viku
Gámum skipað út um borð í Dettifoss nú í októbermánuði með nýja krananum sem
kom í sumar.
Smári Guðjónsson framkvæmdastjóri
Klafa.
„Þetta er búið að vera mjög erf-
itt. En þetta hefur gengið illa nú
í haust, bæði hér og vestur á Mýr-
um. Kornið hefur víða brotnað
mikið niður. Svo hefur gæsin og
álftin sumsstaðar étið sitt en ég
hef nú blessunarlega lítið séð til
þeirra fugla hér hjá mér. Það seg-
ir sig líka sjálft þegar maður hef-
ur ekki getað byrjað að þreskja fyrr
en nú næstsíðustu helgina í októ-
ber. Þá var ágætt á laugardegin-
um en síðan snjóaði á sunnudeg-
inum. Svo náði ég að slá á mánu-
deginum svona yfir snjónum með
því að slá ekki of neðarlega. Taka
bara það sem stóð upp úr. Og svo
er það rigningin,“ segir Harald-
ur Magnússon bóndi í Belgsholti
í Hvalfjarðarsveit. Hann hefur um
árabil stundað verulega kornrækt
á jörð sinni. Haustið hefur verið
afar erfitt til kornskurðar á svæð-
inu og til marks um það kom ný-
verið fram að einungis einn dagur
var úrkomulaus í október á höfuð-
borgarsvæðinu.
Með eigin veðurstöð
Haraldur bendir á lítið tæki sem
hann hefur á veggnum við eld-
húsborðið við hliðina á útvarp-
inu. Þetta er mikið þarfaþing fyrir
nútíma bónda. „Ég er með veður-
stöð hérna á bænum,“ segir hann
og bendir á tæki sem er fest á háan
staur úti á hlaði. „Konan mín, Sig-
rún Sólmundardóttir, gaf mér hana
þegar ég varð fimmtugur. Þetta er
skjárinn hérna á veggnum. Þarna
er hægt að lesa af hvað það er mik-
ill vindur, raki, loftþrýstingur, úr-
koma og fleira. Öll þessi gögn eru
svo skráð sjálfkrafa inn í heimilis-
tölvuna. Þar get ég lesið af þessu í
línuritum aftur í tímann,“ útskýr-
ir hann. Á grundvelli þessa gagna
veit Haraldur bóndi upp á hár
hvernig tíðarfari hefur háttað hjá
þeim í Belgsholti. „Það er búið að
rigna 155 millimetra í Reykjavík
og 164 hérna í Belgsholti. Þetta er
úrkomumet í októbermánuði síð-
an ég fór að mæla hér með þessum
tækjum. Til samanburðar var úr-
koman í Belgsholti 121 millimetr-
ar í september. Það var hins vegar
lítil úrkoma í júlí og fram í miðj-
an ágúst. Sumarið var þurrt en kalt
framan af. Það voraði seint.“
Þresking í október
Haraldur staðfestir að sjálfsögðu
það sem flestum er í fersku minni
um að vorið í ár hafi verið kalt.
Af þeim sökum kom kornið seint
upp. „Það þroskaðist seint og
skreið óvenju seint. Það er kall-
að að skríða þegar axið kemur upp
úr stráinu. Það er ákveðið viðmið
á uppskerunni og segir nokkuð
um það hvenær kornið getur orð-
ið fullþroskað og tilbúið til upp-
skeru. Það eru svona 45 dagar frá
því það skríður. Nú skreið það ekki
fyrr en seinni partinn í júlí en hef-
ur oft gerst í byrjun þess mánaðar.
Hér var ekkert farið að þreskja í ár
fyrr en 7. og 8. október. Maður var
að bíða eftir meiri fyllingu í korn-
ið og svo var það þessi úrkoma sem
tafði. Ég hef oft byrjað að þreskja í
byrjaðan ágúst. Vika af september
er mjög algengur tími og allt í lagi.
Það þarf helst að byrja að þreskja í
byrjun þess mánaðar. Þá er maður
líka þokkalega óhultur fyrir haust-
veðrunum sem koma seinna.“
Kuldar og mikil úrkoma í haust
hefur hvorutveggja þvingað bónd-
ann í Belgsholti að bjarga mál-
um í horn. „Um miðjan septem-
ber ákvað ég að slá hluta af korni
sem ég er með sem er af Filippu-
afbrigði og rúlla í gróffóður. Þetta
afbrigði þroskast aðeins seinna en
getur gefið góða uppskeru. Ég var
líka orðinn hræddur um að komast
ekki yfir að slá alla akrana því það
var orðið svo áliðið hausts. Fyrir
bragðið verður minna korn en ég
sé ekkert eftir því. Það var hvort eð
er byrjað að brotna niður og mað-
ur hefði tapað því ef maður hefði
ekki slegið.“
Seinasti sláttur sögunnar
Árið 2015 fer því tvímælalaust í
sögubækurnar sem erfitt kornár á
Vesturlandi. „Þetta er þriðja árið
í röð þar sem þetta fer hálfilla hjá
mér. Síðustu tvö ár fóru illa útaf ill-
gresi. Ég losnaði hins vegar við það
núna því ég notaði hjálparefni í ár
sem hélt illgresinu niðri. En þá kom
þessi ótíð í staðinn.“
Það að stunda kornrækt á Íslandi
er vandaverk þar sem menn þurfa
að hafa glöggt auga fyrir umhverfis-
aðstæðum og sveiflum í náttúrunni.
„Þegar þessi árstími er kominn þá
þarf nokkurn vind eftir rigningarnar
til að þurrka. Sólin stendur svo lágt
á lofti að hún nær ekki að þurrka.
Maður þarf að eiga tilbúna vél til
að fara út í akurinn þegar gefur. Það
þýðir ekkert að byggja mikla korn-
rækt á því að vera með einhverjar
sameignarvélar sem eru svo kannski
einhvers staðar víðs fjarri og jafnvel
í notkun hjá öðrum þegar aðstæður
eru réttar til kornskurðar.“
Ótíðin í haust olli líka trufl-
un í heyskapnum. Haraldur reyn-
ir að slá þrisvar á sumri. „Það hefur
aldrei skeð áður ég hafi verið í hey-
skap í október vegna tafa sem rekja
má til ótíðar. Reyndar sló ég í októ-
ber fyrir tveimur árum en það var
óvænt því sprettan var svo góð þá
um haustið að ég vildi ekki láta þetta
fara í sinu. Nú í september ákvað ég
að geyma að slá á nokkrum stykkj-
um en óþurrkar valdið því að ég
gat ekki slegið þessa rest af hánni í
þriðja slætti fyrr en núna 28. októ-
ber. Ég hef ekki lent í þessu áður,“
segir Haraldur bóndi í Belgsholti.
mþh
Erfitt kornár hjá bændum á Vesturlandi
Haraldur Magnússon kúa- og korn-
bóndi í Belgsholti í gömlu Melasveit
staðfestir að haustið hafi verið bæði
blautt og kalt.
Kornakrar slegnir á Melum í Hvalfjarðarsveit haustið 2013. Þá voru menn að þreskja í byrjun september.