Skessuhorn


Skessuhorn - 25.01.2017, Blaðsíða 20

Skessuhorn - 25.01.2017, Blaðsíða 20
MIÐVIKUDAGUR 25. JANÚAR 201720 Helena Ólafsdóttir var ráðin þjálf- ari kvennaliðs ÍA síðasta haust og hóf formlega störf þegar æfingar liðsins hófust í nóvembermánuði. Hún á að baki farsælan feril, varð margfald- ur Íslandsmeistari með KR og bik- armeistari með bæði KR og ÍA. Þá hefur hún sömuleiðis hampað þrem- ur bikarmeistaratitlum sem þjálf- ari; tveimur með KR og einum með Val. Síðast þjálfaði hún lið Fortuna Ålesund í 1. deild kvenna í Noregi. Skessuhorn hitti Helenu að máli síð- astliðinn föstudag og ræddi við hana um knattspyrnuferilinn og nýja starf- ið. Hvernig kom það til að hún réði sig sem þjálfara hjá ÍA? „Eins og flestir vita þá varð breyt- ing í sumar þegar Þórður [Þórðar- son] hætti og Kiddi og Dódó [Krist- inn Guðbrandsson og Steindóra Steinsdóttir] tóku við liðinu á miðju sumri. Þau voru hins vegar aðeins ráðin til að stýra liðinu út tímabilið og upp úr þessum þjálfaraskiptum var farið að ræða þann möguleika að ég tæki við liðinu eftir sumarið,“ segir Helena. „Margt þurfti að ganga upp, sem betur fer gekk upp, til að ég gæti tekið við þessu starfi. En ég varð strax spennt fyrir þessu tæki- færi, fannst liðið spennandi og þó ég þekkti hópinn ekki mjög vel þá sá ég að þarna væri ungt og flott lið,“ segir hún. Þá segir hún ekki hafa skemmt fyrir að hún þekkti aðeins til á Akra- nesi. „Ég spilaði hérna eitt sumar, árið 1992 og varð bikarmeistari með ÍA. Þá var Skaginn með frábært lið og við hefðum átt að verða Íslands- meistarar en náðum að krækja í bik- arinn,“ segir hún. „Frá því ég byrj- aði í boltanum hef ég vanist því að ÍA sé með flott og sterkt lið. Þannig á það að vera og þangað stefnir fé- lagið. Liðið er ungt og efnilegt og stelpurnar eru mjög viljugar og til- búnar að leggja sig fram, bæði innan og utan vallar. Þegar ég var að spila sjálf þá fannst mér leikmenn almennt tilbúnari til að leggja hvað sem er á sig, ef það þurfti að standa fyrir ein- hverri söfnun þá var allt liðið tilbúið í það. Þetta finnst mér aðeins hafa tap- ast hjá flestum liðum en ekki hér og það kann ég að meta. Hér er ekkert kjaftæði, bara gengið í málið og allir tilbúnir að leggjast á eitt ef það þarf að gera eitthvað. Þetta viðhorf hjálp- ar mikið til við að byggja upp liðs- heild,“ bætir hún við. Erfitt í Noregi Sem fyrr segir var hún síðast þjálf- ari hjá Fortuna Ålesund í Noregi. Hún hætti í apríl á síðasta ári eft- ir fyrsta leik tímabilsins. Hún segir stemninguna í klúbbnum og í kring- um hann ekki hafa verið góða. „Þetta er félag sem er ekki með neina yngri flokka, þess í stað þarf að sækja leik- menn í önnur lið í Álasundi eða ná- grenni. Þá er klúbbnum stjórnað af nokkurs konar foreldrafélagi, til dæmis er stjórn klúbbsins eingöngu skipuð foreldrum leikmanna og það tel ég ekki vænlegt til árangurs. Enda voru þrjár stjórnir bara á þeim tíma sem ég var þarna,“ segir Helena, en hún þjálfaði liðið í rétt rúmlega ár. „Þegar ég fór út og skoðaði þá leist mér rosalega vel á allt. Fór út að elta gamlan draum og fékk starfið en síð- an þegar ég er mætt á staðinn og búin að taka við liðinu þá var komin önn- ur stjórn en sú sem réði mig og þetta blasti allt öðruvísi við. Samskiptin urðu fljótt erfið, foreldrarnir í stjórn- inni voru óánægðir með að stelpurn- ar þeirra kæmust ekki í byrjunarlið- ið og voru ekki tilbúnir að samþykkja að þær væru einfaldlega ekki nógu góðar. Þannig að samskiptaörðug- leikar voru viðvarandi og síðasta vor, þegar enn ein stjórnin var tekin við, þá ákváðum við bara að ég myndi hætta,“ segir hún. Nær fjölskyldu og vinum Eftir það var Helena með annan fót- inn á Íslandi, var stjórnandi marka- þáttar um Pepsi deild kvenna á Stöð 2 Sport en bjó áfram í Noregi ásamt sambýliskonu sinni, Anítu Lísu Svansdóttur. Nú eru þær hins vegar búnar að koma sér fyrir á Akranesi og líkar vel að sögn Helenu. „Mér líkar rosa vel að vera komin á Skag- ann. Mér finnst bærinn að mörgu leyti ekkert ósvipaður Álasundi. Þó að hann sé miklu minni þá var líka svona smábæjarfílingur þar. Þann- ig að breytingin fyrir okkur var lít- il, en hér er þó mun styttra í allt, sem er mikill kostur,“ segir Hel- ena. Þá kveðst hún einnig kunna vel að meta að vera nær fjölskyldu og vinum. „Aníta er frá Akranesi og það er gott að vera komnar hingað því hér býr hennar fjölskylda. For- eldrar mínir búa í Grafarvoginum, þannig að það er stutt fyrir mig að heimsækja þau og vinina í bænum. Síðan á ég tvítugan son sem býr og starfar í Búðardal og þangað er bara tiltölulega stutt að fara. Það verður gaman að geta hitt hann oftar því við hittumst auðvitað sjaldan þegar ég var úti. Ég er einmitt að fara að heimsækja hann um helgina,“ segir Helena ánægð. Byrjaði að þjálfa á öfugum enda En aftur að knattspyrnunni. Blaða- manni leikur forvitni á að vita hvers vegna hún gerðist þjálfari eftir að leikmannaferlinum lauk. „Ég held að ég hafi alltaf stefnt að þessu. Ég er íþróttakennari að mennt, var alltaf í fótbolta og hafði alltaf áhuga á þjálfun. Úr varð að ég byrjaði að þjálfa yngri flokka þegar ég var 18 ára gömul og þjálfaði síðan meist- araflokk í fyrsta sinn þegar ég var þrítug, eftir að ég hætti að spila,“ segir hún. „Ég byrjaði einmitt hjá Val, erkifjendum KR. Ég var þar í eitt ár og það var ágætt. En síð- an tek ég við landsliðinu og eftir á að hyggja þá byrjaði ég eiginlega á öfugum enda í þjálfuninni,“ segir hún og brosir. „Það var endurnýjun í gangi í landsliðinu þegar ég tók við en gekk ágætlega,“ segir Hel- ena, en hún kom landsliðinu í um- spil um laust sæti á Evrópumótinu árið 2005 þar sem liðið féll úr leik í tveimur leikjum gegn Noregi. „Eftir það fer ég að þjálfa KR og vinn nokkra titla þar en svo fer ég í 1. deildina og þjálfa Selfoss og síðar FH,“ segir Helena. Aðspurð viður- kennir hún að það hafi verið dálítið öðruvísi að fara niður í fyrstu deild eftir að hafa eingöngu þjálfað lið í úrvalsdeildinni og landsliðið. „Það gaf mér svolítið aðra sýn á þjálfara- starfið og var mjög skemmtilegt. Andinn var svipaður og ég finn fyr- ir hér núna, sérstaklega á Selfossi. Þetta var öðruvísi en í úrvalsdeild en ég bý vel að þessari reynslu í dag og hef góða tilfinningu fyrir 1. deildinni næsta sumar, ég held hún verði spennandi. Það er loksins komin alvöru 1. deild aftur í stað- inn fyrir þessa riðlakeppni sem ver- ið hefur undanfarin ár,“ segir hún. Stefnan að fara upp Aðspurð um gang mála hjá ÍA það sem af er undirbúningstímabilinu kveðst Helena óðum vera að kynn- ast liðinu. „Fókusinn hefur und- anfarið verið á að kynnast hópn- um og koma honum í form, meta hvar styrkleikar liðsins liggja og hvað þarf að bæta. Við erum að þróa okkar leik og munum halda því áfram, en þó með það að leið- arljósi að leikmönnum líði vel með það sem þeir eru að gera inni á vell- inum,“ segir hún. „Síðan erum við smám saman að leggja upp sumar- ið, kynnast andstæðingunum að- eins gegnum æfingaleiki og finna út hvað virkar í leikjum. Það á örugg- lega ýmislegt eftir að breytast í leik liðsins þangað til í sumar, rétt eins og hjá öðrum liðum. Ég ætla samt ekki að vera með endalausar breyt- ingar, það er ekki hægt þegar maður er með svona ungan hóp. En stelp- urnar eiga engu að síður hrós skilið fyrir hve hratt þær tileinka sér hluti, það er alls ekki sjálfgefið að svona ungt lið geri það,“ segir Helena. En hver eru markmið sumarsins? „Auðvitað er alltaf stefnan að fara upp í Pepsi deildina en það er eng- in krafa að gera það strax. Metn- aðurinn liggur í því að byggja upp til nokkurra ára og því stefnum við jafnframt að því að stækka 2. flokk því það verður alltaf að vera endur- nýjun, það verða einhverjar að taka við,“ segir Helena. „En auðvitað vilja allir spila í efstu deild og við getum vel farið upp ef allt geng- ur upp hjá okkur. Við erum með mjög ungan og efnilegan hóp en það vantar aðeins upp á breiddina og þá getur alltaf brugðið til beggja vona,“ bætir hún við. Af þeim sök- um er þessa dagana unnið að því að fá leikmenn til liðsins. „Höfuð- áherslan þessa dagana er að heyra í þeim Skagastelpum sem af ein- hverjum ástæðum voru ekki með síðast. Það er eina vitið að kanna hvort þær geti og vilji spila fyrst þær eru hé. Nú til dæmis eru tvær komnar til baka sem gátu ekki verið með í fyrra vegna barneigna og svo erum við að athuga með fleiri. Við erum til dæmis með þrjá mjög efni- lega unga markverði og ég myndi vilja fá til liðsins markmann eldri og reyndari markmann til að vera þeim til halds og trausts. En ef það tekst ekki þá hef ég fulla trú á að þær standi sig á milli stanganna,“ segir Helena og bætir því við að slagurinn á leikmannamarkaðnum sé harður. „Þetta er að sumu leyti erfiðasti tími ársins, þegar öll lið eru að reyna að ná leikmönnum til sín. Þetta er hörku slagur, sérstak- lega um bestu íslensku bitana sem í boði eru en við munum stóla á okk- ar stelpur að mynda kjarnann í lið- inu.“ kgk/ Ljósm. úr einkasafni Helenu Ólafsdóttur. „Munum stóla á okkar stelpur að mynda kjarnann í liðinu“ - segir Helena Ólafsdóttir, þjálfari kvennaliðs ÍA Helena Ólafsdóttir, þjálfari kvennaliðs ÍA, á æfingu með norska liðinu Fortuna Ålesund sem hún stýrði síðast. Helena ásamt sambýliskonu sinni Anítu Lísu Svansdóttur. Í miklum ham á hliðarlínunni.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.