Skessuhorn - 30.08.2017, Qupperneq 14
MIÐVIKUDAGUR 30. ÁGúST 201714
Hjalti Þórhallsson frá Laugalandi í
Borgarfirði keypti sig fyrr á þessu ári
inn í rekstur garðyrkjustöðvarinnar
sem þar er starfrækt. Varð hann þar
með fjórði ættliður garðyrkjubænda
á Laugalandi. „Garðyrkjustöðin var
stofnuð árið 1942 af langafa mín-
um, Helga Bjarnasyni og bróður
hans Ólafi Þorgeiri Bjarnasyni. Þeir
höfðu fest kaup á jörðinni Stafholts-
veggjum og skipt henni upp. Langafi
rak stöðina meðfram vörubílaútgerð
og hafði alltaf sérfræðinga í vinnu
hjá sér sem sinntu daglegum rekstri
við garðyrkjuna. Síðan tók afi minn,
Bjarni Helgason, við rekstrinum ´66
eða ´68 eftir að hafa lært garðyrkju í
Danmörku,“ segir Hjalti. Bjarni rak
gróðarstöðina á Laugalandi ásamt
konu sinni Leu Kristínu Þórhalls-
dóttur til ársins 1986 þegar sonur
þeirra, Þórhallur Bjarnason og Erla
Gunnlaugsdóttir, foreldrar Hjalta,
keyptu sig inn í reksturinn. „Þau
keyptu hlutinn sem langafi átti en
keyptu síðan ömmu og afa út í kring-
um aldamótin. Það var síðan núna á
þessu ári að ég keypti mig inn í rekst-
urinn,“ segir Hjalti og varð hann þar
með fjórði ættliður garðyrkjubænda
á Laugalandi í Borgarfirði.
Hann er búsettur á Laugalandi
ásamt kærustu sinni, Lilju Ósk Al-
exandersdóttur. Merkilegt nokk þá
var Ólafur Þorgeir, annar stofnenda
garðyrkjustöðvarinnar, langafi Lilju.
Hún nemur viðskiptalögfræði við
Háskólann á Bifröst og starfar sem
skólaliði í grunnskóladeild GBF á
Varmalandi í hlutastarfi. Börn Hjalta
og Lilju eru tvö; Alexander Þór,
fjögurra ára og Jóhanna Lea, tveggja
ára.
Líkar vel í garðyrkjunni
Aðspurður kveðst Hjalti ekki hafa
stefnt sérstaklega á að leggja garð-
yrkjuna fyrir sig. „Ég get ekki sagt
að þetta hafi verið stefnan. Ég byrj-
aði að læra bifvélavirkjun á sínum
tíma og vann sem slíkur. En ég leit-
aði alltaf hingað heim, vann hér öll
sumur á meðan ég var í skólanum og
stökk hingað í vinnu í öllum fríum.
Seinna kom að því að ég var orð-
inn hér allt árið um kring og ákvað
að lokum að kaupa mig inn í rekst-
urinn,“ segir hann og kveðst ekki
sjá eftir því. „Ég er mjög ánægður
með það og líkar vel að starfa við
garðyrkju. Þetta er mikil vinna, alla
daga vikunnar allan ársins hring.
En ég vissi alveg hvað ég var að fara
út í og lít ekki á vinnuna sem neina
kvöð. Þetta er gaman,“ segir Hjalti.
„Stefnan er síðan að kaupa meira og
meira í fyrirtækinu með tíð og tíma
og taka alfarið við rekstrinum,“
segir Hjalti. „Það verður nú ekki
strax,“ segir Þórhallur faðir Hjalta
sem mættur er inn á kaffistofu að
sækja sér bolla. „Ég ætla að sitja hér
sem fastast og passa upp á að engu
megi breyta. Þú losnar ekki við mig
fyrr en ég drepst,“ segir hann léttur
í bragði. En að öllu gríni slepptu þá
kveðst hann ánægður með að son-
urinn sé kominn að rekstrinum og
stefni á að taka við.
330 tonn á ári
Á Laugalandi er ein stærsta gróðr-
arstöð landsins og þar eru ein-
göngu ræktaðar gúrkur. „Hér áður
voru líka ræktaðir tómatar, paprikur
og fleira en fyrir nokkru síðan var
ákveðið að sérhæfa sig í gúrkunum.
Það hefur gefist vel,“ segir Hjalti.
Hann segir að framleiðslan sé um
900 kíló af gúrkum á dag að jafnaði.
Það gerir ársframleiðslu upp á rétt
innan við 330 tonn. „Það er dálítið
magn af gúrkum,“ segir hann.
Gróðurhúsin eru sex talsins. Þrjú
heilsárshús sem lýst eru upp og hituð
allan ársins hring og síðan þrjú eldri
hús þar sem stunduð er sumarrækt-
un. Þau eru í notkun frá apríl og til
loka septembermánaðar, um það bil.
Allt í allt munu þetta vera um 2.600
fermetrar undir gleri.
Milli fimm og sex hafa starfað við
gróðrarstöðina allt árið undanfar-
in ár og þá eru ótaldir sumarstarfs-
menn. „Starfsmennirnir eru ég,
pabbi og mamma, sem sér um bók-
haldið. Síðan eru í vinnu hjá okkur
franskar mæðgur og pólskur maður
sem hefur verið undanfarin sex ár. Á
sumrin höfum við yfirleitt ráðið tvo
starfsmenn til viðbótar. Þá er mesta
uppskeran og mest að gera í gróður-
húsunum,“ segir Hjalti.
Smágúrkur seljast vel
Síðasta haust hófst ræktun á smá-
gúrkum á Laugalandi og segir Hjalti
þá ræktun hafa gengið vel. „Smá-
gúrkurnar hafa verið að seljast þann-
ig að ég á von á að þær séu komnar
til að vera,“ segir hann. „Hins veg-
ar er meiri vinna sem fylgir þeim en
þessum venjulegu agúrkum. Smá-
gúrkurnar þarf að tína tvisvar á dag,
að morgni og síðdegis. Síðan er þeim
handpakkað í litlar pakkningar. Það
fer í raun heilt starf bara í smágúrk-
unum,“ segir Hjalti. „Við höfum að-
eins verið að skoða hvort við ættum
hreinlega að hætta að pakka þeim í
þessar litlu pakkningar og selja þær
í lausu í staðinn. Þá myndi sparast
tími og líka minnka magn plastum-
búða. Ég er mjög hlynntur því að
reyna að minnka plastið og við höf-
um verið að kynna okkur umhverf-
isvænni umbúðir úr maís og fleiru.
Við losnum örugglega aldrei alveg
við plastið en það má minnka notk-
unina verulega,“ segir Hjalti.
20 ára endurnýjun
Á síðasta ári var ráðist í endurnýj-
un tæknibúnaðar á Laugalandi og til
dæmis öllum tölvum skipt út. „Það
var alveg 20 ára endurnýjun og dá-
lítið stórt stökk. Þó gamli búnaður-
inn hafi alveg virkað þá er sá nýi mun
fullkomnari og á að skila betri af-
köstum,“ segir hann. „Allri ræktun-
inni er í raun stýrt með tveimur tölv-
um. Ein sér um að áburðarblöndun
og alla áburðargjöf. Hin fylgist með
lofstslagi og stýrir því gluggum, raka
og hitastigi og dælir kolsýru inn í
húsin eftir þörfum,“ útskýrir hann.
„Hægt er að fylgjast með kerfinu í
símanum og ef eitthvað kemur upp
á þá fæ ég meldingu og get tekið yfir
stjórnina hvar sem ég er staddur, svo
lengi sem ég er nettengdur. Það er
mikill kostur því þá er maður ekki
eins bundinn, það er hægt að bregða
sér frá ef þarf.“
Frekari tæknivæðing
Þá segist hann einnig hafa hug á að
tæknivæða garðyrkjustöðina enn
frekar. „Það er töluverð tækniþró-
un í garðyrkjunni um þessar mund-
ir. Ég reyni að fylgjast vel með þeirri
þróun og stefni á að tæknivæða stöð-
ina hér í framtíðinni, hvort sem það
verður eftir 10 ár eða 20. úti í heimi
eru menn víða farnir að nota róbóta
til að létta sér framleiðsluna og auka
afköstin. Vélmenni hafa þann kost
umfram mannfólkið að geta unnið
allan sólarhringinn. Til dæmis eru
komnir róbótar sem geta hreins-
að blöðin af plöntunum, sem er erf-
itt og tímafrekt verk,“ segir Hjalti.
„Síðan verður vonandi hægt í fram-
tíðinni að setja upp einhvers konar
kerfi sem aðstoðar við tínsluna. Ég
held að mannshöndin verði alltaf að
vera við að tína gúrkurnar en tækni
mættu gjarnan koma þeim á sinn
stað. Það væri gott að losna við allan
þennan burð, það myndi létta vinn-
una mikið,“ bætir hann við.
Beint frá bónda
Þegar tæknibúnaðurinn var endur-
nýjaður var áburðardreifarinn færð-
ur. Gengið er í gegnum það rými á
leið inn í gróðurhúsin. „Ætlunin var
að útbúa þar aðeins stærri kaffistofu
því starfsfólkinu er alltaf að fjölga,“
segir Hjalti og lítur um litlu kaffi-
stofuna þar sem hann situr og ræð-
ir við blaðamann. „En síðan fórum
við að spá hvort ef til vill væri hægt
að nýta túrismann. útbúa litla versl-
un í rýminu og selja beint frá bónda,
fyrst það er nú verið að byggja hót-
el hérna við hliðina á okkur. Ég hef
rætt við nokkra garðyrkjubændur á
Suðurlandi sem láta mjög vel af því
að svona fyrirkomulagi. En þetta er
nú bara hugmynd ennþá, en samt
eitthvað sem væri vert að prófa.“
kgk
Hjalti Þórhallsson er fjórði ættliður garðyrkjubænda á Laugalandi
Stefnir á að taka alfarið við rekstrinum með tíð og tíma
Hjalti Þórhallsson, garðyrkjubóndi á Laugalandi í Borgarfirði.
Hjalti virðir fyrir sér gúrkurnar í einu af gróðurhúsunum.
Myndarlegar gúrkur bíða þess að vera tíndar. Á hverjum degi er neðsta gúrkan
skorin af plöntunni og pakkað í neytendapakkningar.
Hluti gróðurhúsanna á Laugalandi. Gróðurhúsin eru samtals sex; þrjú heilsárshús
og þrjú eldri sem aðeins eru notuð á sumrin. Hjalti áætlar að allt í allt séu um
2.600 fermetrar undir gleri.